Fjórir flokkar hafa komið sér saman um myndun ríkisstjórnar á Íslandi. Flokkarnir eru Vinstri græn, Samfylking, Framsóknarflokkur og Píratar. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, verður næsti forsætisráðherra ef flokkarnir fjórir ná að klára viðræður sínar með jákvæðri niðurstöðu. Hún fékk í dag stjórnarmyndunarumboð hjá forseta Íslands og því geta formlegar viðræður hafist.
Katrín sagði við það tilefni að formlegar viðræður muni hefjast á morgun og lögð verði áhersla á að vinna hratt. Línur ættu að skýrast á næstu dögum. „Það liggur fyrir skuldbinding af allra hálfu um að reyna að skrúfa saman ríkisstjórn þessara flokka.“
Óformlegar viðræður hafa staðið yfir nánast frá því að úrslit kosninganna lágu fyrir um síðustu helgi. Kraftur kom í þær í gær þegar fundað var fram eftir kvöldi. Formenn og annað forystufólk úr flokkunum hittist síðan í Alþingishúsinu í morgun og funduðu fram yfir hádegið. Þaðan var skilaboðum komið til Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, að allir fjórir flokkarnir væru tilbúnir í að láta reyna á myndun ríkisstjórnar.
Veikleikinn talinn styrkleiki
Takist að mynda þá ríkisstjórn verður hún með minnsta mögulega meirihluta á þingi, 32 þingmenn gegn 31. Hún verður líka með minnihluta atkvæða á bak við sig. Vinstri græn, Samfylking, Framsókn og Píratar hafa samtals 95.874 atkvæði á bak við sig. Hinir fjórir flokkarnir sem yrðu í stjórnarandstöðu fengu 97.502.
Í þeim viðræðum sem staðið hefur verið lögð áhersla á, sérstaklega af hálfu Vinstri grænna, að það sé fremur styrkleiki en veikleiki að meirihlutinn sé svona lítill. Það geri það að verkum að flokkarnir fjórir þurfi að vanda sig mjög vel. Ekkert svigrúm verði fyrir fyrirgreiðslu eða fúsk og sterkt traust þurfi að myndast milli þeirra sem að stjórnina komi strax frá byrjun.
Þess vegna hafi tekist að sannfæra hina flokkanna um að það væri fólgin áhætta í því að taka inn fimmta flokkinn. Þá yrði samsetningin flóknari og meiri værukærð gæti fylgt stærri meirihluta.
Þá er það markmið í sjálfu sér hjá stórum hluta þeirra sem að viðræðunum koma að halda Sjálfstæðisflokknum, þeim flokki sem stýrt hefur Íslandi í þrjú af hverjum fjórum árum frá stofnun hans, frá völdum.
Fínni blæbrigðin lögð til hliðar
Málefnalega hefur gengið vel að ná saman um þá hluti sem flokkarnir eru sammála um. Þ.e. útgjaldaaukningu í heilbrigðismál, stórsókn í menntamálum og mikla innspýtingu í fjárfestingu í innviðum á borð við vegakerfið. Katrín ítrekaði þetta á Bessastöðum í dag. Þar sagði hún að áherslur sínar yrðu á að ráðast í uppbyggingu í þessum þremur málaflokkum. Auk þess vill hún að jafnréttismál og loftlagsmál verði sett í öndvegi. Katrín lagði enn fremur áherslu á að ríkisstjórnin, verði hún að veruleika, legði sig fram við að skapa aukna samstöðu um mál og beitti sér fyrir breyttum vinnubrögðum á Alþingi.
Katrín sagði að nú væri ekki tíminn í íslensku samfélagi til að leysa úr öllum heimsins ágreiningsmálum. Allir flokkarnir gerðu sér grein fyrir því að þeir þyrftu að leggja einhver sinna stefnumála til hliðar til að hægt yrði að ná saman.
Fyrir liggur að flokkarnir eru ósammála þegar kemur að mörgum fínni blæbrigðum stjórnmálanna. Þannig er Samfylkingin til að mynda með þá yfirlýstu stefnu að ganga í Evrópusambandið á meðan að bæði Vinstri græn og Framsókn eru alfarið á móti því. Framsóknarflokkurinn er með það á stefnuskrá sinni að banna verðtryggingu húsnæðislána og að húsnæðisliðurinn verði fjarlægður úr vísitölu neysluverðs. Enginn hinna flokkanna er með það á stefnuskrá sinni.
Vinstri græn voru með það á stefnuskrá sinni í aðdraganda kosninga að leggja á eignaskatta og hátekjuskatt á þá sem hafa 25 milljónir króna og yfir í árstekjur auk þess sem flokkurinn hefur talað fyrir því að lagður verði á auðlegðarskattur á þá sem mest eiga. Viðmælendur Kjarnans segja að Vinstri græn séu tilbúin að draga verulega úr þessum kröfum ef aðrar leiðir skili þeim markmiðum að auka tekjur ríkissjóðs til fjárfestinga í þeim málum sem væntanleg ríkisstjórn hefur þegar náð saman um.
Þá virðist nokkuð breið samstaða milli flokka að falla frá fyrirhugaðri hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu og horfa þess í stað á að leggja á komugjöld.
Mikilvægt verður fyrir Framsóknarflokkinn að ná því í gegn að reynt verði að grípa inn í það ferli sem þegar er hafið hvað varðar Arion banka með þeim hætti að ríkið geti nýtt sér forkaupsrétt til að eignast meirihluta í bankanum. Í kjölfarið vill flokkurinn endurskipuleggja fjármálakerfið. Engin sérstök andstaða er hjá hinum þremur flokkunum við þessi áform þótt blæbrigðamunur sé á áherslum hvað þetta málefni varðar.
Yrði konustjórn á móti karlægri andstöðu
Náist að klára myndun ríkisstjórnarinnar þá mun meirihlutinn verða skipaður 16 konum og 16 körlum. Katrín Jakobsdóttir verður nær örugglega forsætisráðherra og aðrir formenn eða ígildi formanns, Sigurður Ingi Jóhannsson, Logi Einarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, myndu sitja í stjórninni. Þá má telja nær öruggt að Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, muni taka sæti í ríkisstjórninni en óljósara er hverjir úr hinum flokkunum myndu gera það. Ráðuneytisskipting hefur þegar verið reifuð á óformlegum fundum flokkanna en ekkert liggur endanlega fyrir í þeim málum. Engum dylst þó að Lilja Alfreðsdóttir hefur mikinn áhuga á að verða fjármálaráðherra. Þá hafa Píratar þá stefnu að ráðherrar eigi ekki að sitja á þingi. Því má búast við að ef saman næst muni þeir þingmenn Pírata sem setjast í ríkisstjórn segja af sér þingmennsku og varamenn þeirra taka við stöðum þeirra.
Í stjórnarandstöðu yrðu fjórir flokkar: Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn, Flokkur fólksins og Viðreisn. Af þeim 31 þingmanni sem yrði í andstöðu yrðu átta konur og 23 karlar. Viðreisn væri eini flokkurinn í stjórnarandstöðu sem væri með jafnt kynjahlutfall.