Ásýnd kvenna í samfélaginu er talin gríðarlega mikilvæg og gott þykir þegar konur eru sýnilegar, til dæmis í stjórnunar- og valdastöðum. Smám saman verður til nýtt samfélag þar sem flóra mannlífsins endurspeglast í því sem sést í fjölmiðlum, bókum og síðast en ekki síst í námsefni. Kennslubækur þykja kannski ekki skemmtilegasta lesefni í heimi en þær setja tóninn um það sem gjaldgengt er og þykir við hæfi.
Þrátt fyrir breytingar undanfarna áratugi vantar þó mikið upp á að hlutdeild kvenna í námsefni sé viðunandi. Kjarninn náði tali af tveimur sérfræðingum, þeim Aldísi Yngvadóttur, fyrrverandi ritstjóra hjá Námsgagnastofnun og Þorsteini Helgasyni, dósent í sagnfræði og sögukennslu, og spjallaði við þau um stöðuna í dag.
Kom illa út í rannsókn 2011
Hlutdeild kvenna í námsefni á Íslandi hefur lítið verið rannsökuð en þó eitthvað. Til að mynda kom út rannsókn árið 2011 eftir Kristínu Lindu Jónsdóttur á vegum Jafnréttisstofu. Hún fjallaði um hlutdeild kvenna í námsefni í sögu á miðstigi grunnskóla.
Þrátt fyrir að rannsóknin hafi ekki verið svo ítarleg þá gaf hún vísbendingar um að hlutdeild kvenna sé skammarlega lítil í sögubókum. Í rannsókn Kristínar Lindu á nýjum kennslubókum í sögu á miðstigi grunnskóla, Sögueyjunni 1 og 2, kom í ljós að fimm konur voru nefndar með nafni á móti 106 körlum þótt þeirra væri ekki getið í atriðisorðaskrá. Ekki er sagt frá þessum fimm konum vegna áhrifa þeirra eða merkra starfa heldur vegna þess að orð þeirra urðu fleyg eða þær ortu kvæði sem eru reyndar mun yngri en sá tími sem bækurnar fjalla um. Staðan reyndist heldur skárri í öðrum bókum sem notaðar eru við sögukennslu, þó alls ekki viðunandi.
Meðal annarra niðurstaðna var að 67 einstaklingar voru skráðir aðilar að námsefnisgerðinni, 27 karlar og 40 konur en námsbækurnar sömdu 8 höfundar; 6 karlar og 2 konur. Karlar voru 80 til 95,5 prósent nafngreindra einstaklinga í bókunum og konur því 4,5 til 20 prósent. Ekki hefur farið fram önnur rannsókn með þessu sniði síðan þá.
Konur frekar höfundar námsefnis
Síðan eru liðin sex ár og vert er að kanna hvort breyting hafi orðið á þessum tíma. Samkvæmt talningu Menntamálastofnunar fyrir árið 2016 eru karlkyns höfundar 22 en konur 32. Karlkyns höfundar myndefnis eru 6 en konur 11. „Í þessu tilfelli tel ég hvern höfund aðeins einu sinni en sumir höfundar eru skráðir fyrir nokkrum titlum. Ef talningin yrði framkvæmd á þann hátt myndi hlutfallið skekkjast enn frekar konum í hag,“ segir í svari Erlings Ragnars Erlingssonar, sviðsstjóra miðlunarsviðs hjá Menntamálastofnun við fyrirspurn Kjarnans.
Gátlisti á vegum Menntamálastofnunar er einskonar leiðbeiningar fyrir höfunda námsefnis en hann er búinn að vera til til fjölda ára. Að mati Aldísar Yngvadóttur, fyrrverandi ritstjóra hjá Námsgagnastofnun hefur hann staðist tímans tönn. En þrátt fyrir það þá sé ástandið langt frá því að vera fullkomið. Þetta eigi ekki einungis við um sögubækur, heldur birtingarmynd kynjanna í öllu efni og hvernig það endurspeglar samfélagið og veruleikann.
Ekki skal mismuna kynjum
Í fyrrnefndum gátlista, sem unninn var af Námsgagnastofnun, segir að námsefni skuli tala fyrir mannréttindum og jafnrétti manna. Það eigi að vera laust við fordóma, til dæmis um búsetu, fötlun, kyn, kynhneigð, stétt eða trúarbrögð. Leitast skuli við að vinna gegn hvers konar viðhorfum sem hvetja til eða viðhalda misrétti og kynþáttahyggju. Einnig skuli, þar sem við á, tekin afdráttarlaus afstaða gegn hvers kyns ofbeldi og kúgun. Jafnframt segir að þess beri að gæta að rætt sé um málefni minnihlutahópa þannig að þeir geti samsamað sig námsefninu. Fjalla skuli eðlilega og blátt áfram um aðstæður allra manna.
Ekki skuli mismuna kynjum eða fjalla einhliða um hlutverk kynjanna. Mikilvægt sé að ámóta fjöldi einstaklinga af báðum kynjum birtist í námsefninu, bæði í texta og myndum, og að drengir og stúlkur séu ekki eingöngu sýnd í svokölluðum hefðbundnum hlutverkum. Enn fremur kemur fram í gátlistanum að myndefni og önnur myndræn framsetning eigi að gefa skýrar upplýsingar ekki síður en texti og mikilvægt sé að myndum fylgi að jafnaði skýringartexti.
Mín upplifun sem ritstjóri er sú að það eru flestir að reyna að huga að þessum þáttum. Ég lærði með tímanum að vera með kynjagleraugun á nefinu og passaði markvisst upp á þetta.
Umfjöllun um ósýnileika kvenna nauðsynleg
Aldís segir að ekki sé einungis við höfunda námsefnis að sakast. „Við vitum að fleiri karlar hafa skrifað sögubækur og þeir skrifa gjarnan um karla. Það er gegnumgangandi,“ segir hún. „Mín upplifun sem ritstjóri er sú að það eru flestir að reyna að huga að þessum þáttum. Ég lærði með tímanum að vera með kynjagleraugun á nefinu og passaði markvisst upp á þetta,“ segir hún og bendir á að allir séu ekki endilega sammála heldur.
Konur skrifuðu minna hér áður fyrr, til dæmis í bókmenntum og því sem þær skrifuðu var ekki mikið haldið á lofti. „Þó að konur hafi skrifað þá héldu þær því til hlés en einnig voru skrif þeirra töluð niður af körlunum,“ segir Aldís. Hún bendir á dæmi úr námsefni í íslensku þar sem farin var sú leið að fjalla um af hverju konur séu eins ósýnilegar og raun ber vitni í námsefni um íslenskar bókmenntir.
Efnisvalið skiptir máli
Þorsteinn Helgason, dósent í sagnfræði og sögukennslu, segir að efnisval skipti miklu máli. Þegar verið sé að skrifa línulega sögu þá vill hún verða hefðbundin stjórnmálasaga. „Þá er svo oft tekið mið að því sem hefur verið sagt áður. Hún verður þannig lík því sem var næst á undan,“ segir hann.
Ef námsefnið er tekið fyrir þematískt þá eru höfundar námsefnis mun frjálsari, að mati Þorsteins. Hefðin hvíli ekki eins á þeim. Í sögubók Þorsteins um Tyrkjaránið sem kom út árið 2013 eru tvær konur til að mynda í aðalhlutverki og það er fullleyfilegt, að hans mati. „Með þessum hætti er gefin innsýn inn í þjóðfélagið, félagsmótun og menningu, kynjahlutverk o.s.frv.,“ segir hann.
Ef maður lítur á samfélagið, á þessi formlegu embætti sem menn sátu í, þá eru það nánast eingöngu karlar. Svo geta konurnar verið í dæmigerðum karlmannshlutverkum.
Huga þarf vel að myndavalinu
Hefðirnar eru sterkar, að mati Þorsteins. „Ef maður lítur á samfélagið, á þessi formlegu embætti sem menn sátu í, þá eru það nánast eingöngu karlar. Svo geta konurnar verið í dæmigerðum karlmannshlutverkum,“ segir hann. Með því á hann við að þessar fáu konur sem koma fram í hefðbundinni sögubók eru í karlastarfi. Sumar þeirra hegði sér þó öðruvísi og þess vegna hafi sumar ratað á spjöld sögunnar. Miklu skipti hvers konar sögu sé verið að segja - sögu formlegra stjórnmála eða félagssöguna, sögu hversdagsins, tilvistarinnar og menningarinnar.
Aldís segir að einnig sé mikilvægt að passa upp á að myndefni endurspegli ekki einungis þessi hefðbundnu kynjahlutverk. Að hennar mati er ekki nægilega langt gengið ef textinn er karllægur ef það á að redda hlutunum með því að hafa myndir af konum í hefðbundnum hlutverkum. Þá séu þær oft mæður, dætur, eiginkonur og þær standi ekki jafnfætis körlunum í áhrifum, völdum og stöðu.
Hvar liggur ábyrgðin?
Námsgagnastofnun var ríkisrekin útgáfa og þess vegna veltir Aldís fyrir sér ábyrgð útgefenda. Hún telur hana vera mjög mikla, alveg sama hvort fjallað sé um mannkyns- eða samtímasögu. Allt síist þetta inn og hún bendir á að fólk verði samdauna samfélaginu sem það lifir í og þess vegna geti þetta verið ómeðvitað hjá höfundum og ritstjórnum. „Við áttum okkur ekki alltaf á ójafnvæginu í textum og myndum í bókum,“ segir hún. En einhvers staðar verði þau að byrja og námsgagnaútgefendur beri mikla ábyrgð á að þetta sé í lagi.
Þorsteinn bendir á að kennarar og foreldrar séu ekki síður íhaldssamir. Hann segir að þegar hann hafi skrifað þematískar bækur hafi kennarar spurt hvenær Íslandssagan kæmi. Þannig búist kennarar og foreldrar við því að kennt sé sama efni og gert hefur verið undanfarna áratugi.
„Kennararnir eru vanir hefðbundinni sögukennslu og kunna og hafa þekkingu á henni. Svo kemur eitthvað annað í öðrum dúr og þá vilja þeir það síður,“ telur Þorsteinn. Hann segist byggja þessa sýn á tilfinningu og athugasemdum í gegnum árin en bætir því við að viðhorf kennara hafi ekki verið nægilega vel könnuð í gegnum tíðina.
Við þurfum að komast að því hvað raunverulega virkar í þessum efnum.
Eftirfylgni vantar
Hvað þarf að gera til að laga ástandið? „Mín tilfinning er þannig að skýrslan frá Jafnréttisstofu hafi verið þörf og góð áminning fyrir alla sem vinna að þessum málum. Fyrir höfunda, útgefendur og ritstjóra. Gátlistanum var þó ekki breytt að neinu leyti eftir þessa úttekt,“ segir Aldís.
Hún segir enn fremur að hér á landi séu þessi mál vel innrömmuð en að eftirfylgni vanti og hreinlega meiri þjálfun hjá fólki sem vinnur við skrif, útgáfu og ritstjórn. Hugsanlega þurfi að kveða sterkar að. „Allir höfundar og teiknarar sem unnu fyrir stofnunina fengu gátlistann og voru beðnir um að kynna sér hann,“ segir hún. Kynjavíddin eigi því að vera rauður þráður og lína en svo er spurning hvort þurfi að leggja enn ríkari áherslu á að gera konur sýnilegri í námsefni og virkilega breyta hlutunum.
Þarf meiri rannsóknir og skýrari stefnu
Það skortir gríðarlega rannsóknir á þessu sviði og á námsefni og námsefnisgerð almennt, að sögn Aldísar, og bætir því við að mikilvægt sé að byggja stefnumörkun á rannsóknum svo að þetta tvennt helst í hendur. „Við þurfum að komast að því hvað raunverulega virkar í þessum efnum,“ segir hún.
Að telja hausa í bókum eða á myndum er takmarkað tól, bendir Þorsteinn á. Það hjálpi vissulega til og segir hann að gátlistarnir séu gagnlegir en það þurfi að gera meira. Hugsanlega sé hægt að halda námskeið eða ráðstefnu með höfundum þar sem farið yrði yfir þessi mál og skerpt á þeim. Og að mótuð yrði skýr stefna í sameiningu. Hann bendir á að sú vinna að búa til námsefni sé oft og tíðum einmanaleg og því sé gott að fá ákveðna samstöðu um kynjavíddina. Einnig sé mikilvægt að höfundar úr öllum greinum séu með á nótunum.
Fréttaskýringin birtist í styttri útgáfu í tímariti Mannlífs 23. nóvember.