Úr safni

Er kynjahalli í námsefni áhyggjuefni?

Hlutdeild kvenna í námsefni í grunnskólum hefur ekki verið rannsökuð sem skyldi þrátt fyrir vitundarvakningu hjá námsgagnahöfundum og ritstjórum síðastliðna áratugi. Sérfræðingar kalla eftir frekari þjálfun ritstjóra og höfunda, auk eftirfylgni.

Ásýnd kvenna í sam­fé­lag­inu er talin gríð­ar­lega mik­il­væg og gott þykir þegar konur eru sýni­leg­ar, til dæmis í stjórn­un­ar- og valda­stöð­um. Smám saman verður til nýtt sam­fé­lag þar sem flóra mann­lífs­ins end­ur­spegl­ast í því sem sést í fjöl­miðl­um, bókum og síð­ast en ekki síst í náms­efni. Kennslu­bækur þykja kannski ekki skemmti­leg­asta les­efni í heimi en þær setja tón­inn um það sem gjald­gengt er og þykir við hæfi. 

Þrátt fyrir breyt­ingar und­an­farna ára­tugi vantar þó mikið upp á að hlut­deild kvenna í náms­efni sé við­un­andi. Kjarn­inn náði tali af tveimur sér­fræð­ing­um, þeim Aldísi Yngva­dótt­ur, fyrr­ver­andi rit­stjóra hjá Náms­gagna­stofnun og Þor­steini Helga­syni, dós­ent í sagn­fræði og sögu­kennslu, og spjall­aði við þau um stöð­una í dag.

Kom illa út í rann­sókn 2011

Hlut­deild kvenna í náms­efni á Íslandi hefur lítið verið rann­sökuð en þó eitt­hvað. Til að mynda kom út rann­sókn árið 2011 eftir Krist­ínu Lindu Jóns­dóttur á vegum Jafn­rétt­is­stofu. Hún fjall­aði um hlut­deild kvenna í náms­efni í sögu á mið­stigi grunn­skóla.

Þrátt fyrir að rann­sóknin hafi ekki verið svo ítar­leg þá gaf hún vís­bend­ingar um að hlut­deild kvenna sé skammar­lega lítil í sögu­bók­um. Í rann­sókn Krist­ínar Lindu á nýjum kennslu­bókum í sögu á mið­stigi grunn­skóla, Sögu­eyj­unni 1 og 2, kom í ljós að fimm konur voru nefndar með nafni á móti 106 körlum þótt þeirra væri ekki getið í atrið­is­orða­skrá. Ekki er sagt frá þessum fimm konum vegna áhrifa þeirra eða merkra starfa heldur vegna þess að orð þeirra urðu fleyg eða þær ortu kvæði sem eru reyndar mun yngri en sá tími sem bæk­urnar fjalla um. Staðan reynd­ist heldur skárri í öðrum bókum sem not­aðar eru við sögu­kennslu, þó alls ekki við­un­andi.

Meðal ann­arra nið­ur­staðna var að 67 ein­stak­lingar voru skráðir aðilar að náms­efn­is­gerð­inni, 27 karlar og 40 konur en náms­bæk­urnar sömdu 8 höf­und­ar; 6 karlar og 2 kon­ur. Karlar voru 80 til 95,5 pró­sent nafn­greindra ein­stak­linga í bók­unum og konur því 4,5 til 20 pró­sent. Ekki hefur farið fram önnur rann­sókn með þessu sniði síðan þá.

Aldís Yngvadóttir
Úr einkasafni
Þorsteinn Helgason
Bára Huld Beck

Konur frekar höf­undar náms­efnis

Síðan eru liðin sex ár og vert er að kanna hvort breyt­ing hafi orðið á þessum tíma. Sam­kvæmt taln­ingu Mennta­mála­stofn­unar fyrir árið 2016 eru karl­kyns höf­undar 22 en konur 32. Karl­kyns höf­undar myndefnis eru 6 en konur 11. „Í þessu til­felli tel ég hvern höf­und aðeins einu sinni en sumir höf­undar eru skráðir fyrir nokkrum titl­um. Ef taln­ingin yrði fram­kvæmd á þann hátt myndi hlut­fallið skekkj­ast enn frekar konum í hag,“ segir í svari Erlings Ragn­ars Erlings­son­ar, sviðs­stjóra miðl­un­ar­sviðs hjá Mennta­mála­stofnun við fyr­ir­spurn Kjarn­ans.

Gát­listi á vegum Mennta­mála­stofn­unar er eins­konar leið­bein­ingar fyrir höf­unda náms­efnis en hann er búinn að vera til til fjölda ára. Að mati Aldísar Yngva­dótt­ur, fyrr­ver­andi rit­stjóra hjá Náms­gagna­stofnun hefur hann stað­ist tím­ans tönn. En þrátt fyrir það þá sé ástandið langt frá því að vera full­kom­ið. Þetta eigi ekki ein­ungis við um sögu­bæk­ur, heldur birt­ing­ar­mynd kynj­anna í öllu efni og hvernig það end­ur­speglar sam­fé­lagið og veru­leik­ann.

Ekki skal mis­muna kynjum

Í fyrr­nefndum gát­lista, sem unn­inn var af Náms­gagna­stofn­un, segir að náms­efni skuli tala fyrir mann­rétt­indum og jafn­rétti manna. Það eigi að vera laust við for­dóma, til dæmis um búsetu, fötl­un, kyn, kyn­hneigð, stétt eða trú­ar­brögð. Leit­ast skuli við að vinna gegn hvers konar við­horfum sem hvetja til eða við­halda mis­rétti og kyn­þátta­hyggju. Einnig skuli, þar sem við á, tekin afdrátt­ar­laus afstaða gegn hvers kyns ofbeldi og kúg­un. Jafn­framt segir að þess beri að gæta að rætt sé um mál­efni minni­hluta­hópa þannig að þeir geti sam­samað sig náms­efn­inu. Fjalla skuli eðli­lega og blátt áfram um aðstæður allra manna.

Ekki skuli mis­muna kynjum eða fjalla ein­hliða um hlut­verk kynj­anna. Mik­il­vægt sé að ámóta fjöldi ein­stak­linga af báðum kynjum birt­ist í náms­efn­inu, bæði í texta og mynd­um, og að drengir og stúlkur séu ekki ein­göngu sýnd í svoköll­uðum hefð­bundnum hlut­verk­um. Enn fremur kemur fram í gát­list­anum að myndefni og önnur mynd­ræn fram­setn­ing eigi að gefa skýrar upp­lýs­ingar ekki síður en texti og mik­il­vægt sé að myndum fylgi að jafn­aði skýr­ing­ar­texti.

Mín upplifun sem ritstjóri er sú að það eru flestir að reyna að huga að þessum þáttum. Ég lærði með tímanum að vera með kynjagleraugun á nefinu og passaði markvisst upp á þetta.
Námsbækur
Bára Huld Beck

Umfjöllun um ósýni­leika kvenna nauð­syn­leg

Aldís segir að ekki sé ein­ungis við höf­unda náms­efnis að sakast. „Við vitum að fleiri karlar hafa skrifað sögu­bækur og þeir skrifa gjarnan um karla. Það er gegn­um­gang­and­i,“ segir hún. „Mín upp­lifun sem rit­stjóri er sú að það eru flestir að reyna að huga að þessum þátt­um. Ég lærði með tím­anum að vera með kynja­gler­augun á nef­inu og pass­aði mark­visst upp á þetta,“ segir hún og bendir á að allir séu ekki endi­lega sam­mála held­ur.

Konur skrif­uðu minna hér áður fyrr, til dæmis í bók­menntum og því sem þær skrif­uðu var ekki mikið haldið á lofti. „Þó að konur hafi skrifað þá héldu þær því til hlés en einnig voru skrif þeirra töluð niður af körlun­um,“ segir Aldís. Hún bendir á dæmi úr náms­efni í íslensku þar sem farin var sú leið að fjalla um af hverju konur séu eins ósýni­legar og raun ber vitni í náms­efni um íslenskar bók­mennt­ir.

Efn­isvalið skiptir máli

Þor­steinn Helga­son, dós­ent í sagn­fræði og sögu­kennslu, segir að efn­is­val skipti miklu máli. Þegar verið sé að skrifa línu­lega sögu þá vill hún verða hefð­bundin stjórn­mála­saga. „Þá er svo oft tekið mið að því sem hefur verið sagt áður. Hún verður þannig lík því sem var næst á und­an,“ segir hann.



Ef náms­efnið er tekið fyrir þemat­ískt þá eru höf­undar náms­efnis mun frjáls­ari, að mati Þor­steins. Hefðin hvíli ekki eins á þeim. Í sögu­bók Þor­steins um Tyrkjaránið sem kom út árið 2013 eru tvær konur til að mynda í aðal­hlut­verki og það er full­leyfi­legt, að hans mati. „Með þessum hætti er gefin inn­sýn inn í þjóð­fé­lag­ið, félags­mótun og menn­ingu, kynja­hlut­verk o.s.frv.,“ segir hann.

Ef maður lítur á samfélagið, á þessi formlegu embætti sem menn sátu í, þá eru það nánast eingöngu karlar. Svo geta konurnar verið í dæmigerðum karlmannshlutverkum.
Úr safni

Huga þarf vel að mynda­val­inu

Hefð­irnar eru sterkar, að mati Þor­steins. „Ef maður lítur á sam­fé­lag­ið, á þessi form­legu emb­ætti sem menn sátu í, þá eru það nán­ast ein­göngu karl­ar. Svo geta kon­urnar verið í dæmi­gerðum karl­manns­hlut­verk­um,“ segir hann. Með því á hann við að þessar fáu konur sem koma fram í hefð­bund­inni sögu­bók eru í karla­starfi. Sumar þeirra hegði sér þó öðru­vísi og þess vegna hafi sumar ratað á spjöld sög­unn­ar. Miklu skipti hvers konar sögu sé verið að segja - sögu form­legra stjórn­mála eða félags­sög­una, sögu hvers­dags­ins, til­vist­ar­innar og menn­ing­ar­inn­ar.

Aldís segir að einnig sé mik­il­vægt að passa upp á að myndefni end­ur­spegli ekki ein­ungis þessi hefð­bundnu kynja­hlut­verk. Að hennar mati er ekki nægi­lega langt gengið ef text­inn er karllægur ef það á að redda hlut­unum með því að hafa myndir af konum í hefð­bundnum hlut­verk­um. Þá séu þær oft mæð­ur, dæt­ur, eig­in­konur og þær standi ekki jafn­fætis körlunum í áhrif­um, völdum og stöðu.

Hvar liggur ábyrgð­in?

Náms­gagna­stofnun var rík­is­rekin útgáfa og þess vegna veltir Aldís fyrir sér ábyrgð útgef­enda. Hún telur hana vera mjög mikla, alveg sama hvort fjallað sé um mann­kyns- eða sam­tíma­sögu. Allt síist þetta inn og hún bendir á að fólk verði samdauna sam­fé­lag­inu sem það lifir í og þess vegna geti þetta verið ómeð­vitað hjá höf­undum og rit­stjórn­um. „Við áttum okkur ekki alltaf á ójafn­væg­inu í textum og myndum í bók­um,“ segir hún. En ein­hvers staðar verði þau að byrja og náms­gagna­út­gef­endur beri mikla ábyrgð á að þetta sé í lag­i. 

Þor­steinn bendir á að kenn­arar og for­eldrar séu ekki síður íhalds­sam­ir. Hann segir að þegar hann hafi skrifað þemat­ískar bækur hafi kenn­arar spurt hvenær Íslands­sagan kæmi. Þannig búist kenn­arar og for­eldrar við því að kennt sé sama efni og gert hefur verið und­an­farna ára­tug­i. 

„Kenn­ar­arnir eru vanir hefð­bund­inni sögu­kennslu og kunna og hafa þekk­ingu á henni. Svo kemur eitt­hvað annað í öðrum dúr og þá vilja þeir það síð­ur,“ telur Þor­steinn. Hann seg­ist byggja þessa sýn á til­finn­ingu og athuga­semdum í gegnum árin en bætir því við að við­horf kenn­ara hafi ekki verið nægi­lega vel könnuð í gegnum tíð­ina.

Við þurfum að komast að því hvað raunverulega virkar í þessum efnum.
Oft heppnast vel til. Dæmi um myndskreytingu í stærðfræðibókinni Siglingar.
Bára Huld Beck

Eft­ir­fylgni vantar

Hvað þarf að gera til að laga ástand­ið? „Mín til­finn­ing er þannig að skýrslan frá Jafn­rétt­is­stofu hafi verið þörf og góð áminn­ing fyrir alla sem vinna að þessum mál­um. Fyrir höf­unda, útgef­endur og rit­stjóra. Gát­list­anum var þó ekki breytt að neinu leyti eftir þessa úttekt,“ segir Aldís.

Hún segir enn fremur að hér á landi séu þessi mál vel inn­römmuð en að eft­ir­fylgni vanti og hrein­lega meiri þjálfun hjá fólki sem vinnur við skrif, útgáfu og rit­stjórn. Hugs­an­lega þurfi að kveða sterkar að. „Allir höf­undar og teikn­arar sem unnu fyrir stofn­un­ina fengu gát­list­ann og voru beðnir um að kynna sér hann,“ segir hún. Kynja­víddin eigi því að vera rauður þráður og lína en svo er spurn­ing hvort þurfi að leggja enn rík­ari áherslu á að gera konur sýni­legri í náms­efni og virki­lega breyta hlut­un­um.

Þarf meiri rann­sóknir og skýr­ari stefnu

Það skortir gríð­ar­lega rann­sóknir á þessu sviði og á náms­efni og náms­efn­is­gerð almennt, að sögn Aldís­ar, og bætir því við að mik­il­vægt sé að byggja stefnu­mörkun á rann­sóknum svo að þetta tvennt helst í hend­ur. „Við þurfum að kom­ast að því hvað raun­veru­lega virkar í þessum efn­um,“ segir hún. 

Að telja hausa í bókum eða á myndum er tak­markað tól, bendir Þor­steinn á. Það hjálpi vissu­lega til og segir hann að gát­list­arnir séu gagn­legir en það þurfi að gera meira. Hugs­an­lega sé hægt að halda nám­skeið eða ráð­stefnu með höf­undum þar sem farið yrði yfir þessi mál og skerpt á þeim. Og að mótuð yrði skýr stefna í sam­ein­ingu. Hann bendir á að sú vinna að búa til náms­efni sé oft og tíðum ein­mana­leg og því sé gott að fá ákveðna sam­stöðu um kynja­vídd­ina. Einnig sé mik­il­vægt að höf­undar úr öllum greinum séu með á nót­un­um. 

Frétta­skýr­ingin birt­ist í styttri útgáfu í tíma­riti Mann­lífs 23. nóv­em­ber. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar