Líklegt er talið að gerð stjórnarsáttmála og skipting ráðuneyta í verðandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur klárist í lok viku og að útkoman verði lögð fyrir flokksstofnanir Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um helgina. Verði hún samþykkt mun stjórnarsáttmálinn og ráðherraskipan verða kynnt almenningi í byrjun næstu viku.
Heimildir Kjarnans herma þó að enn eigi eftir að lenda nokkrum stórum málum í viðræðunum. Þannig sé enn tekist á um hvernig eigi að afla tekna en þar ber mjög á milli Vinstri grænna, sem vilja nota skattkerfið til þess, og Sjálfstæðisflokks, sem vill það ekki í sama magni. Þá er einnig ágreiningur um hver stefna væntanlegrar stjórnar í útlendingamálum eigi að vera og þótt að búið sé að skrifa kafla um loftlagsmál í stjórnarsáttmálann eru önnur umhverfismál enn óafgreidd, þar á meðal álagning grænna skatta og rammaáætlun. Auk þess er ekki talið að þær hugmyndir sem séu uppi um hvernig eigi að halda á vinnu við endurskoðun stjórnarskrár muni þykja ásættanlegar hjá verðandi stjórnarandstöðuflokkum, sem leggja mikla áherslu á það ferli. Því máli þarf að lenda ef alvara er á bakvið öll gífuryrðin um bætt vinnubrögð á þingi og meiri samvinnu.
Viðmælendur Kjarnans segja að til hafi staðið að vinnan myndi klárast síðasta föstudag. Hluta þingmanna flokkanna hefði verið tilkynnt um það og að til stæði að láta Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, vita að ríkisstjórn væri líkast til mynduð. Af því varð þó ekki.
Vinstri græn vilja skipa seðlabankastjóra
Ef myndun ríkisstjórnarinnar tekst verður Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, að öllum líkindum fjármálaráðherra. Tekist hefur verið á um hvar málefni Seðlabanka Íslands eigi að vera. Þegar síðasta ríkisstjórn var mynduð voru þau flutt úr fjármálaráðuneytinu yfir í forsætisráðuneytið, og fylgdu þannig Bjarna. Sjálfstæðismenn hafa viljað að þau myndu fylgja honum aftur til baka en Vinstri græn hafa ekki tekið það í mál. Ástæðan er einföld: nýr seðlabankastjóri verður skipaður á kjörtímabilinu og Katrín vill skipa hann, eða hana.
Ráðherraembættum verður ekki fjölgað frá því sem nú er og því verða þeir ellefu. Þrír ráðherrastólar fara til Vinstri grænna, þrír til Framsóknarflokks og fimm til Sjálfstæðisflokks. Hugmyndir eru uppi um að bjóða stjórnarandstöðuflokkunum formennsku í einhverjum af fastanefndum þingsins til að reyna að stuðla að bættum vinnubrögðum. Ljóst er þó að áhrifamiklir oddvitar flokkanna sem munu ekki fá sæti í ríkisstjórn munu sækja það fast að fá nefndarformennsku í staðinn. Nægir þar að nefna Harald Benediktsson og Pál Magnússon hjá Sjálfstæðisflokki og Ásmund Einar Daðason hjá Framsóknarflokki, verði hann ekki ráðherra. Auk þess er líklegt að aðrir oddvitar sem fái ekki ráðherraembætti muni gera sambærilega kröfu. Þá á eftir að koma finna áhrifastöðu fyrir starfandi varaformann Sjálfstæðisflokksins og þá sem mögulega detta út úr ráðherraliði hans. Því er ekki víst að margar nefndir verði eftir til skiptana fyrir stjórnarandstöðuna.
Mikil óánægja á meðal kjósenda Vinstri grænna
Litlar líkur eru taldar á því að væntanlegum stjórnarsáttmála verði mótmælt mikið þegar hann verður lagður fyrir viðeigandi flokksstofnanir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til samþykktar. Innan beggja flokka er nokkuð almenn ánægja með fyrirliggjandi stjórnarsamstarf og sérstaklega að í því felist ekki neinar tilraunir til stórtækra kerfisbreytinga t.d. á sjávarútvegs- og landbúnaðarkerfum landsins. Kjósendur beggja flokka virðast líka ánægðir með tilhögunina. Í könnun MMR, sem birt var á föstudag, kom fram kjósendur flokkanna setja sig ekki upp gegn því að Vinstri græn verði í ríkisstjórn. Tvö prósent Framsóknarmanna nefndu flokkinn sem þann sem þeir myndu síst vilja í ríkisstjórn og sex prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks.
Það er hins vegar ljóst að andstaðan er meiri á meðal kjósenda Vinstri grænna. Í áðurnefndri könnun kom fram að 57 prósent þeirra sem kusu Vinstri græn í síðustu kosningum vildi síst vilja hafa Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn. Það þýðir að tæplega sex af hverjum tíu kjósendum flokksins myndu frekar vilja hafa einhvern alla hinna flokkanna, líka Miðflokkinn eða Flokk fólksins, í ríkisstjórn en Sjálfstæðisflokkinn.
Óánægjan með væntanlegt ríkisstjórnarsamstarf er ekki einungis til staðar á meðal kjósenda Vinstri grænna, heldur líka á meðal þeirra sem taka virkan þátt í flokksstarfinu. Yfir 110 manns hafa sagt sig úr flokknum frá því að stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk hófust, og heimildir Kjarnans herma að fleira lykilfólk ætli sér að yfirgefa flokkinn um helgina verði stjórnarsáttmáli væntanlegrar ríkisstjórnar samþykktur í flokksráði hans.
Brottför Drífu blóðtaka
Mesta athygli vakti ákvörðun Drífu Snædal, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins og fyrrverandi framkvæmdastjóra Vinstri grænna, sem tilkynnti í síðustu viku að hún hefði sagt sig úr flokknum. Drífa hafði verið í hreyfingunni frá upphafi og mjög áhrifamikill. Á tíma sínum sem framkvæmdastjóri átti hún stóran þátt í að móta allt innra starf Vinstri grænna. Auk þess er hún náin mörgum lykilmönnum í flokknum, meðal annars formanni hans.
Í pistli sem Drífa birti til hundruð stuðningsmanna Vinstri grænna vegna úrsagnar sinnar sagði hún að Sjálfstæðisflokkurinn myndi fagna væntanlegum stjórnarsáttmála, fara inn í sín ráðuneyti og haga sér nákvæmlega eins og valdastofnunin hann hafi alltaf hagað sér. „Við og við vellur gröfturinn upp í formi frændhygli, innherjaviðskipta, skattaskjóla, auðvaldsdekurs, útlendingarandúðar eða skjaldborgar um ofbeldismenn. Þá verður VG í þeirri stöðu að verja samstarfsflokkinn og mörkin munu sífellt færast til í samstarfinu líkt og í ofbeldissambandi. Þetta verður eins og að éta skít í heilt kjörtímabil, ef stjórnin endist svo lengi. Með ákvörðuninni um stjórnarviðræður setti flokkinn niður, trúverðugleikinn laskaðist verulega og vinstrið á Íslandi mun eiga erfitt uppdráttar næstu árin og áratugina.“
Það var einnig athyglisvert að Drífa virtist gagnrýna þá ráðgjöf sem forysta flokksins er að fá. Í niðurlagi pistils síns hvatti hún flokksfélaga í Vinstri grænum til að einangra ekki ákvarðanir í litlum hópum og velja ráðgjafa víða að. „Forðist „bönker“ stemningu í hreyfingunni, ekki leggja allt á herðar Katrínar, það er ekki sanngjarnt gagnvart henni né öðrum. Og alls ekki stilla þessu upp sem „með eða á móti Katrínu“ eða persónugera á annan hátt, það er ódýrt trikk og verður ekki til að græða sárin.“
Fylgið strax byrjað að dala
Verðandi ríkisstjórn mun byrja því hefja störf með vindinn í fangið, verði af myndun hennar. Könnun MMR sýndi að allir flokkarnir þrír sem nú vinna að því að mynda ríkisstjórn mælast með lægra fylgi en þeir fengu í kosningunum. Samanlagt myndu þeir nú fá 46,9 prósent atkvæða sem myndi að öllum líkindum ekki duga þeim fyrir meirihluta.
Sá flokkur sem tapar mestu frá kosningunum,samkvæmt könnuninni, eru Vinstri græn. Fylgi þeirra fer úr 16,9 prósent í 13 prósent. Í könnuninni kemur fram að einungis 60 prósent þeirra sem kusu Vinstri græn í október myndu kjósa flokkinn ef kosið yrði í dag. Það er mun meira brottfall en á meðal annarra flokka.