Mynd: Auður Jónsdóttir

Þriðji dagur Katrínar í stjórnarráðinu

Katrín Jakobsdóttir fékk lyklana að stjórnarráðinu á föstudegi, á þriðjudeginum fékk Auður Jónsdóttir rithöfundur að elta hana í nýju starfi og spyrja spurninga; annan dag fyrstu vikunnar í stjórnarráðinu.

Fyrsti fundur dagsins á sér stað á skrifstofu forsætisráðherra um klukkan níu. Þar hittir forsætisráðherra aðstoðarmenn sína, Lísu Kristjánsdóttur og Bergþóru Benediktsdóttur. Þær þurfa að átta sig á nýjum starfsvettvangi, skipuleggja fundi og aukin samskipti við fjölmiðla. 
Þær hefja fundinn á að fara yfir viðtalsbeiðnir, hvort Katrín hafi tíma til að skrifa nokkur orð fyrir Viðskiptablaðið og tala við erlenda blaðamenn sem hafa falast eftir símaviðtali. Katrín beinir svo talinu að samfélagsmiðlunum og veltir upp spurningunni hvernig sé best að eiga í samskiptum við fólk í gegnum þá. Því næst tala þær um að takmarka ferðakostnað og fækka þátttakendum í ferðum. Þá eru nefndir fjórir siðfræðingar sem ætlunin er að kalla til fundar um siðareglur, jafnframt þarf að ræða þjóðaröryggismál og loks halda fund með fulltrúum frá verkalýðshreyfingunni. 
Að síðustu er farið lauslega yfir fundi, spjallað um samstarfsverkefni flokkanna um #Metoo og farið yfir hvað eigi að gefa af sagnfræðitímaritum og ljóðabókum á gömlu skrifstofunni niðri á þingi. 

Ég fæ að lauma spurningum að Katrínu yfir daginn og þar sem hún situr þarna á sínum fyrsta morgunfundi með aðstoðarmönnum á þessari fornfrægu skrifstofu er ekki úr vegi að spyrja um valdið.

Hvernig upplifir forsætisráðherra valdið, nú þegar talað er um að þú hafir játað þig sigraða fyrir Sjálfstæðisflokknum og þar með auðvaldinu? 

Einhverjir hafa túlkað það þannig. Ég fer inn í þetta ríkisstjórnarsamstarf full af sjálfstrausti með sýn mína og minnar hreyfingar. Þetta er ekki sameining ólíkra flokka heldur samstarf ólíkra flokka þar sem enginn játar sig sigraðan eða hrósar sigri. Heldur snýst þetta um, í huga mínum, að við tökum höndum saman um tiltekin verkefni og vinnum að því að dýpka skilning á milli mjög ólíkra stjórnmálaflokka um þau mál sem er mjög mikill ágreiningur um,“ segir hún.

En hvar liggur valdið í samfélaginu?

Valdið í samfélaginu liggur alls ekki bara hjá stjórnmálamönnum. Það liggur í meira mæli hjá almenningi en áður, held ég. Með tilkomu samfélagsmiðla og ýmsu öðru hefur almenningur meira dagskrárvald en áður. Valdið liggur líka í miklum mæli hjá peningaöflunum í samfélaginu. Og ýmsum öðrum öflum sem eru kannski ekki eins mikið á yfirborðinu og það vald sem liggur hjá stjórnmálamönnum. Mér finnst mikilvægt að við ræðum það hvar valdið liggur og það með opinskárri hætti en við gerum. Af því að fólk er vant að benda á stjórnmálin sem einu uppsprettu valdsins. En það er ekki þannig. Það á að vera þannig að valdið komi frá almenningi og fari þaðan, í umboði hans, til stjórnmálamanna. En uppsprettur valdsins eru margar, eins og til dæmis peningaöflin og ýmsir straumar sem geta komið að utan.“, botnar hún en útskýrir að forsætisráðherra hafi vald til að setja mál á dagskrá og nálgast þau með öðrum hætti en gert hafi verið.  

Mér finnst það mesta áskorunin. Hvernig við umgöngumst vald. Að valdið sé eitthvað sem við eigum ekki rétt á, heldur séum með í umboði og fyrir hönd almennings. Þetta er tímabundin ráðstöfun almennings á valdinu.

Aðstoðarmennirnir Bergþóra og Lísa við störf.
Mynd: Auður Jónsdóttir

Þörf fyrir hræðilega brandara

Í lok fundar segist Katrín vera aum í maganum. Gunnar, eiginmaður hennar, hafi eldað sérvalið kjöt í gærkvöldi eftir nokkrar vikur af ristuðu brauði sökum anna. En kjötið lyktaði illa og þar sem Katrín er ekki eins klígjugjörn og makinn lét hún sig hafa að smakka kjötið sem reyndist vera þránað. Í þétt skipaðri dagskrá dagsins gefst þó ekki tími fyrir magaverki. En hún gleðst þegar talið beinist að steinasafninu hennar, nær samstundis í veskið og leggur steina, sem kona nokkur gaf henni nýlega, á fundarborðið. Aðstoðarmennirnir dást að steinunum og þegar Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri stígur inn með gögn dregst hún líka að kæti þeirra yfir steinunum.

Hvað kætir þig mest í nýju starfi? spyr ég Katrínu. 

Það sem gleður mig er stuðningur frá ótrúlegasta fólki. Að fólk sjái ástæðu til að leggja lykkju á leið sína til að segja eitthvað fallegt. En það sem kætir mig er að mér finnst fyndið á köflum að vera forsætisráðherra því ég er ekki mjög formleg. Og stundum finnst mér þetta svolítið eins og leikrit. Allir eru auðvitað bara fólk! En stundum er eins og fólk hverfi inn í hlutverk svo það koma andartök þegar ég hugsa í þessu nýja starfi hvort ég hafi skilið mig eftir hérna frammi, hvort ég sé orðin heilmynd í nýju hlutverki. Ég hef aldrei verið góður leikari, aldrei getað leikið neitt nema sjálfa mig. Ég var alltaf bara ég í prinsessubúningi eða bóndakonubúningi í skólaleikritunum. Það reynist mér erfitt að skilja sjálfa mig eftir. Þessi þörf – fyrir að segja hræðilegan brandara á vitlausum tíma – verður alltaf til staðar.

En hvað er kvíðvænlegast í nýju starfi? 

Katrín segist engu kvíða en af því að hún hafi áður setið í ríkisstjórn og verið á Alþingi í tíu ár sé hún meðvituð um að allskonar hlutir geti komið upp sem sé erfitt og flókið að leysa. 

 „Maður ræður því ekki hvað gerist. Stjórnmálaferill minn hefur ekki verið þannig að ég hafi tekið ákvörðun um nokkurn skapaðan hlut. Ég byrjaði vorið 2007 á þingi og hefði aldrei trúað því þá að haustið 2008 myndi ég sitja á neyðarfundi í Seðlabankanum, nýkomin úr fæðingarorlofi, í fjarveru Steingríms. Að ég yrði komin í ríkisstjórn nokkrum mánuðum síðar var ekki fyrirsjáanlegt. Svo hélt ég að sú ríkisstjórn myndi liðast í sundur en hún kláraði kjörtímabilið. Eina sem ég veit er að ég veit ekkert hvað mun gerast og þess vegna er gott að ég er með náttúrulega núvitund, ég kvíði sjaldan neinu. Ég vil bara leggja mig fram um að gera mitt besta. Þá breytir engu hvort ég kvíði hlutunum eða ekki, segir Katrín lúmskt meyr. 

Steinarnir hennar Katrínar.
Mynd: Auður Jónsdóttir

Orð hennar fá mig til að hugsa aftur til ársins 2011. Þá var Katrín menntamálaráðherra á tímum mikilla hræringa, svo greindist mamma hennar með krabbamein og lést þremur mánuðum síðar; við andlát hennar var yngsti sonur Katrínar aðeins sex mánaða – en hún á þrjá unga drengi. Ég man eftir að hafa undrast styrkinn sem hún sýndi þá, þessi fíngerði nagli sem sumum finnst hlæja of oft. En pabba sinn hafði hún misst fimmtán árum áður. Þetta er þó hvorki stund né staður til að mæra hana, áleitnar spurningar eins og þessi bíða svara:  

Treystir þú því að Bjarni Ben taki stjórnmálin fram yfir viðskiptahagsmuni og að hann sé nægilega meðvitaður um óheppilega hagsmunaárekstra?

Við höfum rætt þessi mál og ræddum þau í okkar samtali í kringum stjórnarmyndunarviðræður“, svarar hún ákveðin. Ég ætla að treysta því að allir aðilar séu meðvitaðir um að það skipti mjög miklu máli að það séu ekki opnar dyr milli viðskiptahagsmuna og stjórnmála.

Bókmenntir í stjórnarráðinu

Meðan konurnar klára fundinn tylli ég mér frammi hjá Vali Jóhanni Ólafssyni vaktstjóra sem spyr hvort ég hafi séð Morðið í stjórnarráðinu. Reyndar ekki en ég hugsa mér gott til glóðarinnar og við veltum fyrir okkur hvort Davíð Oddsson sé hugsanlega Stella Blómkvist, hann hafi víst setið frameftir við skriftir hér. Valur hallast að því að Davíð sé Stella, en Katrín heldur ekki þegar hún stígur fram og segist hafa grennslast fyrir um það á bókmenntaráðstefnu í Frakklandi, fasið gefur til kynna að hún viti meira en við. Ef einhver er í aðstöðu til að komast að því hver Stella er hlýtur það að vera forsætisráðherra sérhæfður í sakamálasögum.

Og ég spyr: Ef þú værir ein á eyðieyju í mánuð, hvort myndirðu þá taka með þér heildarsafn Arnaldar Indriðasonar eða öll leikverk Harolds Pinter?

Ég myndi taka Harold Pinter því ég á eftir að lesa heildarverkið, ég hef lesið nokkur verk en ekki allt.

Af hverju ertu svona hrifin af Pinter?

Ég elska Pinter. Mér finnst hann segja mér eitthvað um sjálfa mig – eða þau verk sem ég hef lesið eða séð. Hversu dapurt er það? En ég segi þetta af ást og virðingu fyrir Arnaldi sem hefur verið aðalefniviðurinn í fræðum mínum. En það er svo mikilvægt að vera alltaf að lesa eitthvað nýtt, eins og það sem ég á eftir að lesa eftir Pinter.

Hvernig tryggirðu gagnsæi og upplýsingamiðlun í ríkisstjórn þinni?

Gagnsæi út frá Pinter! hváir Katrín.

Já, því hann er temmilega óræður,“ segi ég og við flissum áður en hún svarar að það sé nauðsynlegt að vera meðvituð um breyttar kröfur samfélagsins um gagnsæi og upplýsingar.  „Hluti af því felst í framkvæmdinni; vinnulagi okkar og því að við verðum að vera dugleg að tala við fjölmiðla En svo eru líka ákveðnir þættir sem við munum vinna á kjörtímabilinu sem er ætlað að tryggja betur þessi mál í heild sinni. Ég nefni til dæmis frumvarp um vernd uppljóstrara – sem eru umbætur. Þar er líka talað um að bæta skattalegt umhverfi fjölmiðla, og þar er ætlunin að skoða t.d. virðisaukaskattinn.

Vaktstjórinn og fróðleiksbrunnurinn Valur ásamt skrafhreifum bílstjórum og höfundi greinarinnar.
Mynd: Auður Jónsdóttir

Kókakóla-karlarnir

Klukkan hálf tíu er ríkisstjórnarfundur í herbergi þar sem áður voru geymdir sérstakir stórglæpamenn þegar stjórnarráðið var hegningarhús. Nú á að ganga frá helstu fjárlagatillögum og ráðherrarnir tínast inn en ég bíð með aðstoðarmönnunum sem ræða um ýmis konar endurskipulagningu og nauðsyn þess að búa til tímaskipulag. Í stjórnarráðinu er ósköp heimilislegt, verið að bardúsa í eldhúsi uppi og úti í horni rabba bílstjórarnir um daginn og veginn. 
Ég skoða myndir af gömlum ríkisstjórnum, eins kókakóla-ríkisstjórninni (1942-1944) sem er kölluð svo af því að Björn Ólafsson, þáverandi fjármálaráðherra, gat farið til Ameríku þar sem hann fékk umboðið fyrir kók – útskýrir Valur. Hann segir mér líka að nú þurfi að færa myndir aðeins til svo það megi koma fyrir fleiri ríkisstjórnum. Með þessu ættu að komast fyrir átta í viðbót,  segir hann.  „Það ætti vonandi að duga í tuttugu ár!
Vali telst til að ríkisstjórnirnar séu orðnar fjörutíu og fimm. Þarna eru myndir af tuttugu og sex forsætisráðherrum, aðeins einn þeirra er kona: Jóhanna Sigurðardóttir. Myndin af henni minnir mig á femínista-spurningarnar í kvenveskinu svo strax að ríkisstjórnarfundinum loknum spyr ég Katrínu: 

Hvað hefurðu að segja um lífseiga tilgátu um að Steingrímur J. stjórni VG í gegnum þig?

Hún er röng, segir Katrín. 

Nú voru uppi hugmyndir um stofnun kvennaframboðs stuttu fyrir kosningar – fannst þér það feminísk aðgerð?

Femínisminn er margskonar, og ég held að það sé óvarlegt að halda að allir femínistar hagi sér eins, ekki frekar en sósíalistar. Kvennaframboð er auðvitað femínísk aðgerð. En ýmsar aðrar aðgerðir eru líka femínískar.

Stundum má heyra fólk velta sér upp úr klæðaburði, fasi eða háttum þínum, hvað finnst þér um slíkt?

Ég veit ekki hvað mér á að finnast um þetta, ég hef oft verið spurð að því hvað mér finnist um að konur séu meira umtalaðar fyrir klæðaburð og háttalag. Auðvitað eiga þær ekki að vera það frekar en karlar. En ég – bara eins og allar konur sem hafa talað opinskátt um þetta nýlega – hef fengið minn skerf af því. Það hafa allir skoðun á manni. Það er bara þannig.

Upplifir þú stundum að gagnrýni á þig slysist til að verða kynjuð?

Já, umræða um mig er mjög oft kynjuð. Samanber að ég veit ekki hversu oft ég heyrði í þessum stjórnarmyndunarviðræðum að ég ætti ekki að láta karla plata mig, nánast eins og ég sé greindarskert af því að ég er kona. Þetta er auðvitað mjög kynjuð umræða og hún hefur komið úr ótrúlegum áttum.

Notalegur forseti

Næst liggur leiðin niður í Alþingishús þegar Katrín er búin að ræða við fréttamenn í anddyrinu. Þær Bergþóra aðstoðarmaður skipuleggja viðtöl meðan við þrömmum niður í Alþingishús þar sem mér er plantað niður í mötuneytið meðan þær fara á þingflokksfund þangað sem Katrín fær síðbúinn hádegismatinn inn á bakka. 
Fréttahaukurinn Heimir Már borðar mér til samlætis og rifjar upp tuttugu ára gamalt slúður úr þinginu, svo safaríkt að ég tek ekki eftir því að ég hef gleymst í mötuneytinu fyrr en bílstjóri nokkur birtist og vísar mér inn í gljáandi svartan bíl og við keyrum af stað í óvissuferð sem endar við forsetaskrifstofuna. Þar bíðum við meðan Katrín fundar með forsetanum og röbbum um samfélagsmiðlana, reiði í samfélaginu síðan í hruninu og hættulega ör stjórnaskipti. Þegar Katrín kemur loks inn í bílinn spyr ég hvernig hafi verið í kaffinu hjá forsetanum.  „Alltaf gott að hitta Guðna, segir hún einlæg. „Hann er svo notalegur.

Út um rúðuna á ráðherrabílnum.
Mynd. Auður Jónsdóttir

Ég get mér til að þau hafi verið að ræða fjárlagatillögur nýju ríkisstjórnarinnar og spyr: Hver er útópía ríkisstjórnar þinnar? 

Katrín segir útópíuna vera þá að ná einhverjum árangri með aukna samvinnu í stjórnmálum án þess að afsláttur sé gefinn af málefnalegri umræðu á Alþingi. Það má ekki rugla því saman, málefnalegri gagnrýni og átökum átakanna vegna. Og ég held að við getum gert miklu betur í því að ná samstöðu um mál. En mig dreymir líka um að við náum markverðum árangri í málaflokkum sem skipta gríðarlegu máli. Eins og loftslagsmálum og jafnréttismálum, líka þeim sem lúta að kynbundnu ofbeldi og kynferðisofbeldi. Ég vona líka að við náum að nýta þessa efnahagslegu hagsæld, sem við höfum notið, til að byggja upp grunnstoðir samfélagsins.

Ein á vaktinni

Katrín svarar fjölmiðlum meðan við keyrum, símtölin halda áfram á skrifstofunni. Hún svarar öllum beint og flettir upp í möppum með heyrnartólin á sér. Ég velti því fyrir mér hvort það sé sniðugt fyrir hana að hafa engan millilið, hún fær ekki minnsta ráðrúm til að hugsa svörin og áreitið er stöðugt. Fyrrum aðstoðarmaður hennar sagði mér að fólk hefði haft óvenju mikinn aðgang að henni sem menntamálaráðherra. 

Mun fólk hafa jafn greiðan aðgang að henni sem forsætisráðherra?

Það verður að koma í ljós en ég mun áfram leggja mig fram um að reyna að svara en ég finn það strax á fyrstu dögunum að ég hef ekki undan við að svara. En bið fólk að virða það að það eru 24 tímar í sólarhringnum hjá mér eins og öðrum.

Ég þarf að víkja þegar Sigríður Andersen stígur skyndilega inn. Frammi bíða sjónvarpsfréttamenn eftir viðtali, blaðaljósmyndari frá Fréttablaðinu er jafnframt mættur og fleiri erindi hrannast upp meðan aðstoðarmennirnir kvarta yfir að hafa aðeins náð nokkrum mínútum með forsætisráðherra síðan á fimmtudaginn, hún sé svo margbókuð.
Þegar Sigríður Andersen fer er komið að fjölmiðlafólkinu. Að því loknu tylli ég mér í volgt sæti Sigríðar, horfi á Katrínu hringsnúast í nokkrum símaviðtölum í viðbót og spyr síðan:  

Hvernig svararðu stuðningsfólki VG sem hefur viljað sjá breytingar í dómsmálaráðuneytinu og bætta stöðu flóttafólks?

Í fyrsta lagi er það þannig að flokkarnir gera sínar tillögur um ráðherra,“ segir hún hraðmælt og fær sér sæti. En við munum vinna að því að bæta stöðu flóttafólks, það kemur fram í stjórnarsáttmálanum. Mig langar að spyrja frekar út í þessi mál, sem hefði mátt útskýra betur í stjórnarsáttmálanum, en ofur jákvæð skoðanakönnun var að berast í hús og hún á nóg með alla þá sem þurfa að ná tali af henni á fyrstu dögunum í embætti. Síminn hringir viðstöðulaust svo ég kveð í bili – og skil hana eftir eina á vaktinni.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnAuður Jónsdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar