Fyrirsjáanlegt er að hátt fermetraverð íbúða sem nú eru að koma út á markað, víða á þéttingarreitum í Reykjavík, muni þrýsta uppi húsnæðisverði, í það minnsta til skamms tíma. Þannig er algengt verð á nýjum litlum og meðalstórum íbúðum sem hafa komið inn á markað að undanförnu yfir 700 þúsund krónur á fermetrann en algengt er að það sé á milli 400 til 500 þúsund.
Þetta er ekki óeðlilegt, þar sem að miðborgarsvæðið er dýrara en en önnur svæði, en í ljósi þess hve margar íbúðir hafa verið að koma inn á markaðinn á þéttingarreitum að undanförnu þá mun þetta háa verð hafa mikil áhrif á heildarmyndina og stuðla að enn frekari hækkun fasteignaverðs, í það minnsa til skamms tíma.
Nýjar eignir á eftirsóttum stöðum
Þannig kosta nýjar íbúðir í Jaðarleiti, á hinum svonefnda Útvarpshúsreit, um 649 þúsund krónur á fermetrann, og nýjar íbúðir á Hverfisgötu 58A kosta tæplega 630 þúsund á fermetrann.
Nýjar eignir við Tryggvagötu eru síðan enn dýrari, en þær kosta á milli 700 og 800 þúsund krónur á fermetrann.
Um nýjar eignir er að ræða, og því ekki óvenjulegt að verðið taki mið af því, en áhrifin á fasteignaverðsþróun heildarinnar, sé mið tekið af aðferðafræði Þjóðskrár, leiðir til töluverðrar hækkunar fyrir heildina.
Ný mánaðarskýrsla Íbúðalánasjóðs um stöðu mála á fasteignamarkaði var birt 5. desember síðastliðinn og kemur þar fram að raunverð íbúðarhúsnæðis á landinu öllu hafi hækkað töluvert í nóvember eftir lækkun í október.
Aukið jafnvægi?
Vísbendingar eru sagðar um að markaðurinn stefni í átt að auknu jafnvægi með auknu framboði af nýju húsnæði og hækkunum fasteignaverðs í takt við kaupmáttaraukningu. „Síðustu misseri hefur aukning kaupmáttar þó verið minni en hækkun fasteignaverðs. Frá upphafi árs 2016 hefur raunverð fasteigna hækkað um 26 prósent en kaupmáttur launa um 11 prósent,“ segir í umfjöllun Íbúðalánasjóðs.
Athygli vekur að fasteignamarkaður utan höfuðborgarsvæðisins tekur við sér. Meiri velta hefur verið að undanförnu en um 26 prósent fleiri kaupsamningum hefur verið þinglýst það sem af er ári á Norðurlandi samanborið við sama tíma fyrir ári síðan.
Akureyri þýtur upp
Í október hafði íbúðaverð á Akureyri hækkað um 21 prósent milli ára sem er mesta hækkunin á ársgrundvelli sem orðið hefur þar í bæ frá því um mitt árið 2006. Til samanburðar hafði verð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 17 prósent í október.
Flest bendir til þess að fasteignaverð muni halda áfram að hækka á næstunni, og hafa spár greinenda sýnst þá mynd að undanförnu. Greining Íslandsbanka spáir 12 prósent hækkun fasteignaverðs á næsta ári og 5 prósent hækkun árið þar á eftir.