Það er hægt að teikna upp margar myndir með hagtölum sem virðast allar sannfærandi og sýna trausta stöðu efnahagsins. Þegar litið er undir yfirborð talnanna blasir oft önnur staða við.
Þegar litið er til Bandaríkjanna sérstaklega þarf að hafa þetta í huga, því innan ríkjanna eru mörg hundruð - eða jafnvel þúsund - hagkerfi sem öll hafa sýna styrkleika og veikleika.
Mikill vöxtur í áratug
Árleg landsframleiðsla í Bandaríkjunum hefur vaxið að meðaltali um 1,5 til 3 prósent á ári, frá því fjármálaáfallinu á árunum 2007 til 2009.
Janet Yellen, fráfarandi seðlabankastjóri, sagði á dögunum að staða efnahagsmála í Bandaríkjunum væri sterk um þessar mundir, og næsta krefjandi verkefni yrði að draga úr stuðningi Seðlabanka Bandaríkjanna og láta hagkerfið standa á eigin fótum, ef þannig má að orði komast. Atvinnuleysi mælist lágt, milli 4 og 5 prósent, en til samanburðar er það tæplega 10 prósent meðal Evrópusambandslandanna.
Tæknibyltingin
Eitt svæði innan Bandaríkjanna hefur á undanförnum árum gengið í gegnum mikið og nær fordæmalaust hagvaxtarskeið, sé litið til hagsögu einstakra ríkja Bandaríkjanna. Það eru ríkin á Vesturströnd landsins.
Á því svæði búa um 50 milljónir manna og hefur tæknibyltingin á heimsvísu ekki síst verið leidd áfram af fyrirtækjum á svæðinu. Í Kaliforníu búa 39 milljónir manna, í Oregon ríflega 4 milljónir og rúmlega 7 milljónir í Washington ríki.
Á þessum svæðum hefur orðið mikill vöxtur, einkum og sér í lagi í kringum helstu borgarsvæði ríkjanna, San Francisco og Los Angeles í Kaliforníu, Portland í Oregon og Seattle í Washington ríki.
Fimm verðmætustu félög heimsins hafa öll höfuðstöðvar á svæðinu. Apple, Amazon, Alphabet (Google), Microsoft og Facebook. Þá eru margir aðrir tækni- og iðnrisar með höfuðstöðvar á svæðinu sem hafa gengið í gegnum mikið vaxtartímabil á síðustu árum, og má nefna Oracle, T-Mobile og fleiri fyrirtæki því til staðfestar.
Sem dæmi um mikil umsvif fyrirtækjanna í nærumhverfinu á undanförnum árum þá hefur Amazon verið að ráða hátt í 5 þúsund starfsmenn á hverjum mánuði í Bandaríkjunum, og margir þeirra hafa tekið til starfa í Seattle, þaðan sem gífurlega hraður vöxtur fyrirtækisins hefur verið keyrður.
Á meðan, í raunhagkerfinu…
En það er ekki aðeins tækni og hugbúnaður sem hefur blómstrað á svæðinu, því mikil umsvif í flutningum og matvælaframleiðslu hafa skapast tugþúsundir nýrra starfa, ekki síst á síðustu fimm árum. Þannig hafa skipaflutningar frá Seattle aukist mikið, einkum til Asíu. Þetta hefur leitt til mikillar sóknar í hafnsækinni starfsemi og einnig í matvælaframleiðslu, ekki síst vínræktun og bjórframleiðslu.
Ferðaþjónusta hefur einnig vaxið mikið og flugsamgöngur eflst. Búist er við því að sú þróun haldi áfram á næstu árum.
Teygir sig til Kanada
Þessi mikli uppgangur í vesturstrandarríkjunum hefur teygt sig upp til bresku Kólumbíu í Kanada, þar sem helsta vaxtarsvæðið er Vancouver.
Það er borg sem er svipuð að stærð og Seattle, með um 700 þúsund íbúa. Tæknifyrirtæki hafa vaxið hratt í borginni og má sem dæmi nefna að tölvuleikjaframleiðandinn EA, sem framleiðir meðal annars FIFA tölvuleikinn, er með framleiðsludeild í borginni.
Búist er við því að áframhald verði á miklum vexti á þessu svæði á næstu árum og jafnvelt áratugum.
Þannig hafa borgaryfirvöld í Seattle teiknað upp framtíðarsýn til ársins 2030 þar sem ráð er fyrir því gert að íbúum fjölgi um 4 til 5 prósent á ári, og hagkerfið stækki um allt að tíu prósent árlega.
Svipaðar greiningar hafa komið frá yfirvöldum í Oregon og Kaliforníu, þó þar sé staða ólík eftir svæðum innan ríkisins, sem er það fjölmennasta í Bandaríkjunum.
Skuggahliðar
Þrátt fyrir mikinn efnahagslegan uppgang þá hafa skuggahliðar sést víða. Þannig hefur fjöldi heimilislausra farið hratt vaxandi vegna húsnæðisskorts og hækkandi leigu- og fasteignaverðst. Sérstaklega er ástandið slæmt í Los Angeles og San Francisco. Þar hafa yfirvöld unnið að því að fjölga ódýrum íbúðum á markaði og koma upp skýlum til að heimilislausir geti komist í öruggt skjól.
The US homeless population increased for the first time in seven years due to a surge in the number of people living on the streets in LA and other West Coast cities where a booming economy has sent rent prices skyrocketing https://t.co/Q7JxvXHEvF @restartlives #CharityTuesday
— Eva Caletkova (@EvaCaletkova) December 12, 2017
Mikilvægar tengingar
Það er til mikils unnið fyrir lönd heimsins að efla tengsl við þetta svæði, og hafa bæði fyrirtæki og stjórnvöld einstakra ríkja verið að vinna að því markvisst.
Má nefna Norðmenn, Svía og Dani því til staðfestingar, en Danir urðu fyrsta landið í heiminum til skipa sérstakan sendiherra gagnvart tæknifyrirtækjunum í Bandaríkjunum, með aðsetur í San Francisco.
Þá hafa Norðmenn einnig lagt mikla fjármuni og vinnu í að efla tengsl við smásölugeirann í Bandaríkjunum, einkum Amazon og Whole Foods, og hefur það stuðlað að miklum viðskiptum frá laxeldisfyrirtækjum.
Greinin birtist einnig í jólaútgáfu Vísbendingar. Hægt er að gerast áskrifandi hér.