Í fjáraukalögum 2017, sem afgreidd voru á síðast starfsdegi Alþingis fyrir áramót, var veitt heimild fyrir íslenska ríkið til að ganga til samninga við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) um afhendingu á stöðugleikaeignum, sem Lindarhvoll ehf. hefur haft til umsýslu og ekki teljast heppilegar til sölu á almennum markaði, gegn lækkun á lífeyrisskuldbindingum ríkissjóðs við B-deild sjóðsins.“
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans felst í þessu að ýmsir lánssamningar og óskráð hlutabréf sem eru í umsýslu Lindarhvols, að frátöldum hlutabréfum í Lyfju sem er í opnu sölferli, muni færast til LSR í þeim tilgangi að hámarka virði þeirra, verði heimildin nýtt. Enn er stefnt að því að starfsemi Lindarhvols, sem annars fullnustu og sölu á stöðugleikaeignum ríkissjóðs, verði slitið á fyrri hluta ársins 2018.
Við þessa ráðstöfun mun framlag til til sjóðsins hækka í 24 milljarða króna á yfirstandandi ári. Þessi greiðsla er þó fjarri því nægjanleg til að B-deildin geti staðið við skuldbindingar sínar, en ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs eru 611 milljarðar króna.
Til að sameinaður sjóður geti staðið við þær þyrftu árleg framlög ríkissjóðs til sjóðsins að vera sjö milljarðar króna á ári að jafnaði næstu 30 árin í stað þeirra fimm milljarða króna sem nú er ráðstafað til þeirra á ári.
Ekki söluhæfar eignir
Lindarhvoll hefur losað um flestar söluhæfar eignir sem félagið fékk til umsýslu eftir að tók við stöðugleikaeignunum frá þrotabúum föllnu bankanna í byrjun árs 2016. Eftir stendur Lyfja, sem Samkeppniseftirlitið heimilaði Högum ekki að kaupa á síðasta ári. Lyfja var sett í nýtt opið söluferli 9. nóvember 2017 og frestur til að skila inn óskuldbindandi tilboðum rann út 15. desember. Þeim sem áttu hagstæðustu tilboðin var boðin áframhaldi þátttaka í söluferlinu og gafst kostur á því að framkvæmda áreiðanleikakönnun á Lyfju.
Utan Lyfju standa eignir sem teljast ekki söluhæfar. Þar er um að ræða m.a. lánssamninga og óskráð hlutabréf. Sala þessarar eigna er ekki talin líkleg til að hámarka verðmæti eignanna. Þess vegna er verið að kanna þann möguleika að ráðstafa eignunum upp í skuld ríkisins við LSR.
Risastórt vandamál
Ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar hins opinbera hafa verið risastórt vandamál í lengri tíma. Árið 1997 var A-deild LSR stofnuð. Hún byggir á stigakerfi þar sem sjóðsfélagi ávinnur sér réttindi miðað við greidd iðgjöld. Kerfið byggir á sjóðssöfnun. Þ.e. LSR safnar iðgjöldum, ávaxtar þau og greiðir út í samræmi við áunnin réttindi. Ef sjóðurinn á ekki fyrir þeim hleypur ríkið undir bagga.
Á sama tíma var eldra kerfi sjóðsins, hin svokallaða B-deild, lokuð fyrir sjóðsfélögum. Í henni ávinna sjóðsfélagar sér tvö prósent réttindi á ári miðað við fullt starf. Þetta kerfi byggir að mestu á gegnumstreymi fjármagns, og einungis að hluta til á sjóðssöfnun. Ástæða þess að kerfið var lagt niður var sú að það blasti við að það gæti ekki staðið undir sér. Því var settur plástur á sárið og lokað á nýliðun í B-deildina. Það breytir því ekki að henni blæðir enn mikið. Það var alltaf morgunljóst að ríkið myndi þurfa að greiða háar fjárhæðir með þessu gamla kerfi.
Þess vegna ákvað Geir H. Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, árið 1999 að ríkissjóður skyldi hefja greiðslur til B-deildar LSR og LH umfram lagaskyldu. Markmiðið var að milda höggið sem framtíðarkynslóðir skattgreiðenda myndu þurfa að þola vegna þess og koma í veg fyrir að sjóðirnir tæmdust.
Árið 2008, eftir hrunið, var þessum viðbótargreiðslum hins vegar hætt. Þá hafði ríkissjóður, frá árinu 1999, alls greitt 90,5 milljarða króna inn á útistandandi skuld sína við B-deild LSR og LH. Ef ekki hefði komið til þessara greiðslna væru sjóðirnir tómir og allar greiðslur féllu nú þegar á ríkissjóð.
Greiðslurnar duga ekki til
Umrædd skuld er ein helsta beina skuldbinding ríkissjóðs. Ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs hækkuðu úr 508 milljörðum króna í 611 milljarða króna á milli áranna 2015 og 2016.
Helstu skýringar á þessari miklu hækkun skuldbindinga á milli ára eru launahækkanir, breyttar tryggingafræðilegar forsendur og yfirtökur á skuldbindingum nokkurra hjúkrunarheimila og sjálfseignarstofnana. Í fjárlögum segir enn fremur að gengið hafi verið „á eignir til að greiða lífeyri og ávöxtun lífeyrissjóðanna reyndist slök vegna þróunar á mörkuðum og gengis.“
Stærsti hluti skuldarinnar er vegna B-deildar LSR, en ríkið skuldar þeirri deild 515 milljarða króna. Auk þess er til staðar 62 milljarða króna skuld vegna B-deildar Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga (LH) og 34 milljarðar króna vegna annarra sjóða. B-deildir LSR og LH voru sameinaðar 1. janúar síðastliðinn.
Áætlanir hins opinbera gerðu ráð fyrir því að greiðslur úr ríkissjóði til B-deildarinnar hæfust á ný á síðasta ári og að þá myndi framlagið vera fimm milljarðar króna.
Í fjárlögum ársins 2018 segir þó að fleira þurfi að koma til ef bæta eigi stöðuna verulega. „Gert er ráð fyrir að ljúka framsali á óseldum eignum stöðugleikaframlaga til LSR fyrir árslok. Við þá ráðstöfun hækkar framlag til sjóðsins í 24 ma.kr. á yfirstandandi ári. LH og B-deild LSR verða sameinaðar frá og með 1.janúar 2018. Til þess að sameinaður sjóður geti staðið við skuldbindingar sínar m.v. forsendur við síðustu tryggingafræðilega úttekt þyrftu árleg framlög ríkissjóðs að vera 7 ma.kr. að jafnaði næstu 30 árin í stað 5 ma.kr. eins og nú er gert ráð fyrir á komandi árum og er þá tekið tillit til áætlaðs framsals stöðugleikaeigna á árinu.“