Birgir Þór Harðarson

Stefnulaust rekald

Samvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu er stefnt að því að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita. Eitthvað er það endasleppt því fólk virðist upp til hópa álíta að það þurfi að bæta og styrkja heilbrigðiskerfið svo um muni.

Kári Stefánsson Auður Jónsdóttir rithöfundur og Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, hittu Kára Stefánsson til að finna út hvað hann myndi gera ef hann væri heilbrigðisráðherra.

VARÚÐ – FÓLKI VIЭKVÆMU FYRIR ENSKU- OG LAT­ÍNU­SLETTUM ER RÁÐIÐ FRÁ AÐ INN­BYRÐA ÞETTA VIЭTAL

Fyrir ári síðan sagði Jakob Falur – vinur minn og fram­kvæmda­stjóri Frum­taka, sam­taka lyfja­fram­leið­enda – mér frá ráð­stefnu sem hann hafði staðið fyrir með yfir­skrift­inni: Hver er réttur minn til heil­brigð­is­þjón­ustu?

Ég hafði hvorki leitt hug­ann að slíkum rétti né hvað fælist í fra­s­anum um betra heil­brigð­is­kerfi. Hversu mik­inn rétt finnst Kára Stef­áns­syni að við eigum þegar hann talar um betra heil­brigð­is­kerfi? hrökk upp úr mér og Jakob svar­aði: Eigum við ekki bara að spyrja hann?

Hug­myndin var rauð­vín­s­legin og kvikn­aði í mat­ar­boði en þó svo lífseig að meira en ári síðar spurðum við Kára hvort við mættum koma í heim­sókn. En áður en við fórum sagði Jak­ob: Ertu viss um að þú viljir hafa lyfja­lobbí­ista eins og mig með þér?

Ég vildi það því hann veit ýmis­legt um þessi mál sem ég veit ekki en grein­ina ber þó að lesa með þeim gler­augum að þar eru harð­snú­inn lyfja­lobbí­isti og róm­an­tísk skálda­sál að gera ein­læga til­raun til að yfir­heyra Kára.

Kári talar Megasar-­ís­lensku, óvenju blæ­brigða­ríka og kjarn­yrta íslensku, en kryddar hana með lærðum lat­ínu­slettum í bland við amer­íska frasa í ætt við þá sem gætu ein­kennt sumar sögu­hetjur Ein­ars Kára­son­ar. Mig lang­aði að fanga þetta sér­staka orð­færi og því er greinin óvenju löng. Svona tungu­tak tímir maður ekki að kötta.

Að þessu sögðu færi ég mig, Auði, yfir í þriðju per­sónu og inn í sam­tal okkar þriggja.

Milljón doll­ara með­ferðir

En snúum okkur að alvöru máls­ins. Rík­is­stjórn Katrínar Jak­obs­dóttur er nú tekin við eftir til­tölu­lega stutta en snarpa kosn­inga­bar­áttu. Miklum fjár­munum er bætt við heil­brigð­is­kerfið í nýsam­þykktum fjár­lög­um. Til að mynda er ríf­lega fjórum millj­örðum bætt í lyfjalið fjár­lag­anna. Í aðdrag­anda kosn­inga var í raun sam­hljómur með öllum fram­bjóð­endum um að auka fram­lög til heil­brigð­is­þjón­ust­unn­ar. Engum vafa er und­ir­orpið að rödd Kára Stef­áns­sonar hefur þar haft áhrif. Gefum honum orð­ið!

Kári: Hver er lyfja­lobbí­ist­inn?

Jakob Fal­ur: Það er ég.

Kári: Auð­vitað ert það þú!

Jak­ob: Málið er að við hitt­umst einu sinni yfir rauð­víns­glasi, við Auð­ur. Var það ekki bara heima hjá mér?

Auð­ur: Jú, í mat­ar­boði hjá ykkur hjón­um. 

Jak­ob: Þá vorum við í vinn­unni nýbúin að halda þessa ráð­stefnu undir yfir­skrift­inni Hver er réttur minn til heil­brigð­is­þjón­ustu? Og við förum að ræða það...

Kári: Við skulum aðeins fara í gegnum þetta, áður en við byrjum að tala um heil­brigð­is­kerfið almennt. Þá ætla ég að benda á alveg him­in­hróp­andi vanda­mál sem á rætur sínar í þeim iðn­aði sem þú ert í for­svari fyr­ir­...

Jak­ob, nokkuð dræm­ur: Já...

Kári: ...og það er sú stað­reynd að það er verið að búa til alveg fullt af mjög flottum svoköll­uðum líf­tækni­lyfjum þessa dag­ana, lyf sem byggja á svo­lítið öðrum prinsippum heldur en tíðk­uð­ust hér áður, sem eru lyf sem eru raun­veru­lega mótefni – sem eru búin til þess að fikta í alls­konar við­tækjum í skrokknum á okk­ur. Þessi nýju lyf eru mörg hver alveg ótrú­lega effek­tív, en verið að selja þau á slíku verði að flest sam­fé­lög í þessum heimi koma aldrei til með að hafa efni á þeim. Tökum sem dæmi lyf við mergæxlum sem að John­son & John­son setti á markað í fyrra, ein með­ferð fyrir einn sjúk­ling kostar milljón doll­ara.

Regeneron setti lyf á markað snemma á þessu ári við atópískum derma­tít­is, bara exemi, það kostar þrjá­tíu og fimm þús­und doll­ara á ári fyrir ein­stak­ling­inn. Í þessu felst að vissu leyti brot á alþjóð­legum sós­í­al-­kontrakt. Sem er sá: Við skulum búa til lyf, við seljum þau á ákveðnu verði sem er dálítið hátt til þess að við höfum efni á að búa til fleiri lyf. En þessi verð­lagn­ing sem er byggð á svokölluð value based pricing er alltof há til þess að það sé substa­ina­ble, sam­fé­lagið kemur til með að snú­ast gegn þessum iðn­aði af mjög miklum krafti ef svo heldur fram mikið leng­ur. Þetta er vanda­mál í þessum iðn­aði.

Takið eftir því að það er til sjúk­dómur sem heitir Cystic Fibrosis, hann er algeng­asti víkj­andi erfða­sjúk­dómur í heim­in­um. Þetta er sjúk­dómur í börnum sem gerir það að verkum að lungun í þeim hætta að starfa. Það er fyr­ir­tæki sem heitir Ver­tex sem hefur búið til nokkur lyf sem vinna gegn stökk­breyt­ing­unum sem valda þessum sjúk­dómi, fyr­ir­tækið selur þessi lyf á þrjú hund­ruð þús­und doll­ara á ári per barn. Þetta er alveg gjör­sam­lega ósið­legt, óásætt­an­legt og þetta á ekki að geta gerst.

Meðan ekkert kemur fyrir þig eða þína, þá er ímynd þín eða sýn þín á þessi risastóru alþjóðlegu lyfjafyrirtæki að þau séu í raun og veru, með verðlagningu sinni, að arðræna samfélagið.
Kári Stefánsson, Auður Jónsdóttir og Jakob Falur.
Jakob Falur

Hlut­fall lyfja­út­gjalda lágt

Kári þagnar án þess að bregða svip og Auður spyr hver sé raun­kostn­að­ur­inn við að fram­leiða lyf á borð við þetta.

Kári: Það er mjög erfitt að fígúra það út, enda mjög mis­mun­andi. En þarna er ekki verið að tala um verð­lagn­ingu á kostn­að­inum við að búa þetta til, það er verið að byggja verð­lagn­ing­una á því hversu miklu betur þessi lyf virka en þau sem til staðar eru. Þetta er svokölluð value based pricing, metið út frá því hvað lyfin leggja af mörkum til sam­fé­lags­ins.

Jak­ob: Ef ég má grípa fram í fyrir þér, Kári. Nú hefur þú verið að tala um að auka verði fram­lög til íslenska heil­brigð­is­kerf­is­ins. Kannski er ekki rétt að ein­blína svona mikið á lyf­in. Mér finnst mikl­vægt að við á Íslandi höf­um, sem sam­fé­lag, haft efni á að fjár­festa í nýjum lyfja­með­ferð­um, þó svo að hlut­fall lyfja­út­gjalda á Íslandi sé mjög lágt miðað við löndin í kringum okk­ur.

Kári: Að vísu eru öll löndin í kringum okkur farin að hætta að kaupa þessi dýr­ustu lyf. Ég reikna ekki með því að þessi verð­lagn­ing haldi áfram. Ég held að iðn­að­ur­inn komi til með að láta undan þeim þrýst­ingi sem er að byggj­ast upp. Það er alveg ótrú­legt að sá iðn­aður sem býr til 99,99 pró­sent af öllum þeim lyfjum sem eru notuð til að minnka sárs­auka og svo fram­veg­is, að það skuli verið litið á þann iðnað sem the bad guy. Hann ætti að vera bor­inn á höndum okk­ar.

Jak­ob: Það er málið í hnot­skurn og mér finnst það alveg óskilj­an­legt.

Kári: Það er bara út af þessum klaufa­skap!

Auð­ur: Er verið að tala um tvö app­aröt hérna?

Jak­ob: Nei, það sem hann er að segja er: Meðan ekk­ert kemur fyrir þig eða þína, þá er ímynd þín eða sýn þín á þessi risa­stóru alþjóð­legu lyfja­fyr­ir­tæki að þau séu í raun og veru, með verð­lagn­ingu sinni, að arð­ræna sam­fé­lag­ið. Arð­ræna heil­brigð­is­kerfið og gamla fólkið í þjóð­fé­lag­inu. En um leið og eitt­hvað kemur fyrir þig eða þína, þá vilt þú fá það frá þessum fyr­ir­tækjum –sem þú trúir og treystir – að sé það besta og state of the art...

Auð­ur: Að hvað sé best?

Jak­ob: Nú, lyfin sem þau fram­leiða!

Kári: Þú vilt að nýjasta tækni sé notuð til þess að búa til nýjar aðferðir til að takast á við sjúk­dóma. Tæknin í heim­inum í dag er nú á þeim stað að hægt er að búa til alveg ævin­týra­lega effek­tív lyf við alls­konar hlutum en það vill svo til að þessi nýju lyf eru að auka við það mis­rétti sem er í heim­inum þegar kemur að aðgengi að heil­brigð­is­þjón­ustu.

Ný rík­is­stjórn og hvað ger­ist þá?

Kári: En nú skulum við að gamni stoppa og horfa á það sem er að ger­ast núna.

Það er tekin tákn­ræn kúnstpása áður en sam­talið heldur áfram.

Kári: Við erum með nýja rík­is­stjórn og hún er með alls­konar athuga­semdir í sínum stjórn­ar­sátt­mála um heil­brigð­is­kerf­ið. Og það sem segir í stjórn­ar­sátt­mál­an­um, finnst mér, benda til góðs vilja. En ekki endi­lega mik­ils skiln­ings á þeim vanda­málum sem blasa við.

Jak­ob: Ekki ígrund­aður vilji?

Kári: Nei. Eitt af því sem þau segja er að þau vilji auka við styrk heilsu­gæsl­unnar og láta heilsu­gæsl­una vera fyrsta snerti­flöt ein­stak­lings­ins eða sjúk­lings­ins við heil­brigð­is­kerf­ið. Sem­sagt, þau vilja að það sé Ironclad-til­vís­ana­kerfi og vanda­málið við til­vís­ana­kerfi er ósköp ein­fald­lega að í lækn­is­fræði, eins og á flestum öðrum tækni- og fræðisvið­um, er vanda­málið yfir­leitt ekki þegar þú veist að þú veist ekki. Vanda­málið er að þú veist ekki að þú veist ekki. Og þegar sjúk­lingur kemur til heim­il­is­læknis sem er gener­a­listi – sem veit svo­lítið um allt en ekki mikið um nokkurn skap­aðan hlut – þá lendir sjúk­ling­ur­inn í því að hann fær ekki rétta grein­ingu.

Aðferðin til þess að gera þetta er að hafa aðgang að sér­fræð­ingum eins opinn og hægt er. En eftir að búið er að greina sjúk­ling­inn á að vísa honum til heim­il­is­læknis og hann sér um með­ferð­ina – vegna þess að það er oft sam­kvæmt kokka­bók­um. Það þarf að sjá til þess að sjúk­ling­ur­inn hafi greiðan aðgang að þeim sem getur greint sjúk­dóminn, því ef sjúk­dóm­ur­inn er ekki greindur hratt, þá verður prís­inn á sjúk­dómnum miklu hærri.

Sjúklingurinn á ekki að fara nema einu sinni eða tvisvar í röð til hjartalæknisins en ekki tuttugu og fimm sinnum eins og menn gera í dag.

Til dæmis ef sjúk­lingur kemur til sér­fræð­ings og er greindur með háþrýst­ing, þá á hann ekki að fara á þriggja mán­aða fresti í tíu ár til sér­fræð­ings­ins heldur bara til síns heim­il­is­lækn­is. Sér­fræð­ing­ur­inn greinir og býr til með­ferð­ar­á­ætl­un, heim­il­is­lækn­ir­inn sér um með­ferð­ina.

Sjúk­ling­ur­inn á ekki að fara nema einu sinni eða tvisvar í röð til hjarta­lækn­is­ins en ekki tutt­ugu og fimm sinnum eins og menn gera í dag. Við það er ég hand­viss um að kostn­að­ur­inn af sér­fræð­ing­unum minnkar mjög mik­ið.

Engin heil­brigð­is­stefna

Jakob glósar eitt­hvað hjá sér áður en hann orðar næstu vanga­veltu: Þegar þú varst með und­ir­skrifta­söfn­un­ina tal­aðir þú um að útgjöld til heil­brigð­is­mála væru of lág og nefndir töl­una 11 pró­sent sem við­mið sem ætti að stefna að af vergri land­fram­leiðslu.

Kári: Já, en nú tala Sam­tök atvinnu­lífs­ins um að í dag sé þetta ennþá minna en talað hefur verið um eða 7,2 pró­sent.

Jak­ob: Í það minnsta vitum við að það er vel fyrir neðan átta. Og þú hefur talað um að það þurfi að auka fram­lög­in, þau þurfi að vera 11 pró­sent.

Kári: Ég tal­aði um að við yrðum að auka þau mynd­ar­lega. Og ég setti þetta niður sem ein­hvers konar stake in the ground – mælistiku.

Jak­ob: En nú vitum við öll að það er ekk­ert sem heitir heil­brigð­is­stefna í þessu landi.

Kári: Það sem þarf að gera er að setja saman heild­ar­stefnu áður en farið er í að auka fjár­fram­lög. Til dæmis þarf að greina: Hvaða hluti af heil­brigð­is­þjón­ust­unni á að vera á höndum Land­spít­al­ans – sem er þjóð­ar­spít­al­inn? Hvað á að vera á höndum legu­deilda spít­al­ans? Hvað á göngu­deildum spít­al­ans? Hvað á að vera á höndum sér­fræð­inga á stofum úti í bæ? Hvað í heilsu­gæsl­unum og hvað í öðrum stofn­unum heil­brigð­is­kerf­is­ins?

Stað­reyndin er sú að lækn­is­fræði er alltaf að verða tækni­vædd­ari. Og það er alltaf að verða stærri og stærri hund­raðs­hluti heil­brigð­is­þjón­ust­unnar sem verður að vera á höndum mik­illa sér­fræð­inga. Þannig að Land­spít­al­inn verður að vissu leyti að vera mið­tauga­kerfi heil­brigð­is­kerf­is­ins. Land­spít­al­inn á til dæmis að sjá um gæða­eft­ir­lit í heilsu­gæsl­unni. Hann á að sjá um gæða­eft­ir­lit hjá sér­fræð­ingum á stofum úti í bæ. Í dag er ekk­ert gæða­eft­ir­lit neins stað­ar. Takið eftir því að við erum að rífa hlut­falls­lega mörgum sinnum fleiri háls­kirtla úr börnum heldur en ger­ist í lönd­unum í kringum okk­ar. Og hvað þýðir það? Það þýðir að menn eru að afla sér fjár með lík­ams­árásum á börn.

Jak­ob: Það eru fleiri svona dæmi…

Kári: Hlust­aðu nú á mig! Það er bara þannig að svo margt í lækn­is­fræði er svona judgement-call. Og ef það er eng­inn sem hjálpar þér við að halda þig réttu megin við lín­una, þá ferðu yfir hana. Og það er ekk­ert gæða­eft­ir­lit, það er ekk­ert eft­ir­lit. Og ég er ekki í nokkrum vafa að allir þessir háls-­nef- og eyrna­læknar hafa verið hund­rað pró­sent vissir um að það væri rétt í hvert ein­asta skipti sem þeir tóku háls­kirtla.

Jak­ob: Tann­lækn­ir­inn minn kall­aði mig aftur til sín í síð­ustu viku, nokkuð sem hann er ekki vanur að gera, og hann sagði: Jakob minn, ég varð nú að fá þig hingað fyrir jólin til að auka aðeins tekj­urn­ar. Hann sagði þetta að sjálf­sögðu í gríni en auð­vitað segir þetta manni að það sé ákveð­inn mögu­leiki til stað­ar.

Kári: Já, já. Já, já.

Jak­ob: Ég veit ekk­ert hvort hann fann í alvör­unni skemmd eða ekki!

Kári: Já, já, jú, jú. Þetta er flók­ið.

Why do you want to kill us all?

Þessi flókna ver­öld er hug­leidd í hljóði, síðan segir Jak­ob: Ef við meg­um, mig langar svo að fá þitt take á þetta heil­brigð­is­kerfi.

Kári: En aðeins um hvað lífið getur verið flók­ið! Fyrir nokkrum vikum síðan komst erlendur blaða­maður að því að það fæð­ast ekki lengur börn á Íslandi sem eru með Down-­syndrom.

Jak­ob: Já, jú.

Kári: Það komu til mín ótelj­andi erlendar sjón­varps­stöðvar út af þessu. Og allir byrja þeir á sama útgangs­punkt­in­um, þessir blaða­menn, að ég hafi jafn­vel staðið á bak við þetta. Meðal ann­ars kom kona frá BBC sem sjálf á barn með Down-­syndrom og sat með mér heilan eft­ir­mið­dag að ræða við mig. En það er til­tölu­lega ein­falt að taka á þessu vegna þess að það sem hefur gerst hér er að við höfum ein­fald­lega ákveðið að konur megi ákveða hvort þær fari í fóst­ur­eyð­ingu eða ekki. Þær mega ákveða hvort þær bera sitt barn og eiga sitt barn eða fara í fóst­ur­eyð­ingu. Við sem sam­fé­lag höfum veitt konum heim­ild til að fara í fóst­ur­eyð­ingu upp að ákveðnum tíma­punkti.

Það komu til mín óteljandi erlendar sjónvarpsstöðvar út af þessu. Og allir byrja þeir á sama útgangspunktinum, þessir blaðamenn, að ég hafi jafnvel staðið á bak við þetta.

Jak­ob: Þeirra er ákvörð­unin – áttu við?

Kári: Já, og þegar kona ákveður þetta höfum við sem sam­fé­lag ekki heim­ild til að skipta okkur af ástæðum hennar til að fara í fóst­ur­eyð­ingu. Og það getur á engan máta talist ljót­ara að eyða fóstri með Down-­syndrom heldur en heil­brigðu fóstri. Hvort tveggja er óæski­legt, það er ekki góð getn­að­ar­vörn að nota fóst­ur­eyð­ingar en það þýðir ósköp ein­fald­lega að réttur fóst­urs með Down-­syndrom í íslensku sam­fé­lagi er hinn sami og fóst­urs sem er heil­brigt. Olræt?! Vanda­málið með þessa hug­mynd um að við séum að útrýma öllum börnum með Down-­syndrom er bara bullshit!

Við veitum konum heim­ild til að fara í fóst­ur­eyð­ingu og það má deila um þá ákvörðun sam­fé­lags­ins – en sam­fé­lagið hefur ákveðið þetta.

Þetta gekk allt mjög vel og þessir blaða­menn tóku við þessu öllu sam­an. En á föstu­dag­inn í síð­ustu viku, þá var þetta allt saman toppað af ítal­skri sjón­varps­stöð sem hafði beðið um við­tal og ég fall­ist á að tala við þá. Það var sett upp hérna inni á þess­ari skrif­stofu og þegar ég kem hingað inn situr á móti mér ung kona með Down-­syndrom og hennar fyrsta spurn­ing er: Why do you want to kill us all?

Auð­ur: Ha! Þetta er nú með því... Var sjón­varps­vél með?!

Kári: Já, já. Þetta var dálítið heví. En þetta end­aði með að hún kyssti mig á báðar kinnar og varð vinur minn, skil­urðu! Hún hafði gefið út þessa bók hérna, hún gaf mér ein­tak af henni. Kári réttir fram bók á ítölsku með mynd af kon­unni.

Auð­ur: En áhuga­vert.

Auður Jónsdóttir og Jakob Falur Garðarsson.
Jakob Falur

Læknar bara venju­legt fólk

Bókin er hand­fjötluð og höf­und­ur­inn skoð­að­ur. Síðan spyr Jak­ob: En er ekki ástæðan fyrir þessu hjá okkur sú, að það er boðið upp á hnakka­þykkt­ar­mæl­ingu í heil­brigð­is­kerfi okk­ar?

Kári: Ástæðan fyrir þessu er sú að við erum með ofboðs­lega gott prenatal care. Besti hluti heil­brigð­is­kerf­is­ins hjá okkur er prenatal care (mæðra­eft­ir­lit). Konur koma oftar í skoðun fyrir fæð­ingu heldur en ann­ars stað­ar. Ung­barna­dauði á Íslandi er rétt um tveir af þús­und. Þannig að við erum með alveg feikna gott kerfi. Þannig að konur fá þessa ástæðu upp í hend­urnar oftar en ann­ars stað­ar.

Læknar eru því miður alltof óöguð stétt. Þeir gera skrýtna hluti. Og læknar ættu að vera agaðri en aðrar stéttir þegar þeir ráðleggja fólki hluti sem lúta að lífi og dauða. En þeir eru bara venjulegt fólk.

Auð­ur: Ég lenti nú í því þegar ég var ung og á lyfjum við floga­veiki að verða ólétt fyrir slysni og fara til kven­sjúk­dóma­lækn­is. Þá var haldið að áhrifin af lyfj­unum væru meiri en þau eru í raun og veru og mér var ráð­lagt undir rós að fara í fóst­ur­eyð­ingu – sem ég gerði – en nú í dag myndi eng­inn ráð­leggja mér það. Lyfin hafa áhrif, en samt ekki eins mikil áhrif og þá var hald­ið.

Kári: Sko, ástæðan fyrir því að þetta ger­ist er að fóst­ur­eyð­ingar voru gefnar frjálsar svo stuttu áður en þú lendir í þessu. Ekki nema svona ára­tugur eða einn og hálf­ur. Og menn voru að læra að nota þessa leið.

Læknar eru því miður alltof óöguð stétt. Þeir gera skrýtna hluti. Og læknar ættu að vera agaðri en aðrar stéttir þegar þeir ráð­leggja fólki hluti sem lúta að lífi og dauða. En þeir eru bara venju­legt fólk.

Flug­völl­ur­inn er ekk­ert issjú

Jak­ob: Nú erum við með nýja rík­is­stjórn og verið að setja aukna fjár­muni í heil­brigð­is­kerf­ið. En eins og þú segir – sem ég er alveg sam­mála – að það er ekk­ert vit í því að dæla pen­ingum í heil­brigð­is­kerfið án þess að vera með ein­hverja stefnu.

Kári: Ég er alveg gjör­sam­lega sam­mála því.

Jak­ob: Þetta er níundi heil­brigð­is­ráð­herr­ann á ell­efu árum – sem við erum að fá núna. Það gefur auga leið að heil­brigð­is­ráð­herrann, hver svo sem hann nú er og úr hvaða flokki, hefur ekki haft nein tæki­færi til að impli­mentera neina stefnu.

Kári: Það sem truflar mig nú meira en það er að maður sér þess engin merki að það hafi raun­veru­lega verið sett saman heild­ar­stefna í heil­brigð­is­málum síðan Magnús Kjart­ans­son var heil­brigð­is­mála­ráð­herra.

Jak­ob: Og eng­inn að tala um það.

Kári: Eng­inn að tala um það. Við verðum að passa okkur svo­lítið á því hvernig við tökum á þessum heil­brigð­is­mál­um. Ein af hætt­unum sem ég sé er sú að menn fari út í svipað og nýorð­inn mennta­mála­ráð­herra gerir með mennta­mál­in. Við vitum að mennta­mál á Íslandi eru í tölu­verðu rusli. Hvað er það fyrsta sem nýi mennta­mála­ráð­herr­ann ger­ir? Hún gefur út yfir­lýs­ingu um að hún ætli að nota mennta­málin í nokkuð sem hefur ekk­ert með þau að gera: Sem tæki til að auka jafn­vægi í byggð lands­ins. Auð­ur: Hvernig yfir­fær­irðu þetta yfir á heil­brigð­is­kerf­ið?

Kári: Vanda­málið þar er að menn fara til dæmis að hlúa að, af miklum krafti, sjúkra­húsi á Ísa­firði, Akur­eyri og Norð­firði vegna þess að það er mik­il­vægt upp á starf­semi í lókal byggð. Þegar stað­reyndin er sú að það er í raun ekki for­senda að reka nútíma­spít­ala nema á einum stað á Íslandi.

Jak­ob: Eru menn ekki að verða sam­mála um það?

Kári: Menn eru að hluta til sam­mála um það en það er dálítil til­hneig­ing til að ætla Fjórð­ungs­sjúkra­hús­inu á Akur­eyri of mik­ið. En stað­reyndin er sú að fólkið á Akur­eyri og fólkið úti á landi á rétt á því að fá jafn góða heil­brigð­is­þjón­ustu og við hin og hana veitum við með því að sjá til þess að sjúkra­flutn­ingar séu mjög góð­ir.

Auð­ur: Hvað finnst þér þá um flug­völl­inn?

Kári: Flug­völl­ur­inn á ekki að skipta neinu fokk­ings máli.

Jak­ob: En hvað með aðgengi allra að heil­brigð­is­þjón­ustu?

Kári: Ég vil ekki blanda saman deilum um þetta tvennt.

Auð­ur: En það er svo oft talað um það í sam­hengi.

Jak­ob: Það er ekk­ert issjú með þennan flug­völl.

Stóra málið er að ganga úr skugga um að það séu mjög góðir sjúkraflutningar. Ef það er ekki hægt að stunda almennilega sjúkraflutninga með þyrlum, þá verðum við að hafa þennan flugvöll.

Kári: Við skulum orða það þannig að það er ekki stóra mál­ið. Stóra málið er að ganga úr skugga um að það séu mjög góðir sjúkra­flutn­ing­ar. Ef það er ekki hægt að stunda almenni­lega sjúkra­flutn­inga með þyrlum, þá verðum við að hafa þennan flug­völl.

Jak­ob: Ég held að meira en níu­tíu pró­sent sjúkra­flutn­inga í lofti séu ekki akút.

Kári: Ef að það þarf flug­völl, þá á hann að vera þarna. Vegna þess að mín­útur geta ákvarðað hvort menn lifa eða deyja. Og ein algeng­asta ástæða dauða í íslensku sam­fé­lagi eru kransæða­sjúk­dóm­ar. Þar sem að það getur skipt öllu máli að koma mann­eskju í þræð­ingu mín­útu fyrr heldur en seinna.

Auð­ur: Er hægt að not­ast alfarið við þyrlur?

Kári: Nú veit ég ekki hvort það er hægt að nota þyrlur til að flytja mann­eskjur að af öllu land­inu. Ef það er hægt, þá á að nota þyrl­ur. Það á að fjár­festa mikið í því að sjá til að sjúkra­flutn­ingar séu effek­tí­v­ir.

Ein­stak­ling­ur­inn getur staðið fyrir massí­vri einka­væð­ingu

Jakob kinkar kolli hinn áhuga­samasti og beinir því næst tal­inu að fjar­lækn­ing­um. Er hægt að not­ast við þær?

Kári: Þær not­arðu í algjörri neyð.

Jak­ob: En ég meina…

Kári: Hvað ætlarðu að gera í fjar­lækn­ing­um?

Jak­ob: Ég á við ein­fald­ari lækna­þjón­ustu eins og í heilsu­gæsl­unni.

Kári: Það á að vera hægt að ráð­leggja lókallækni í gegnum svona fjar­funda­bún­að. Það er alveg sjálf­sagt og það er mjög ein­falt. Og kostar mjög lít­ið.

Jak­ob: En það er engin stefna í því?

Kári: Það er engin stefna í heil­brigð­is­málum almennt. Við erum með þessi til­tölu­lega nýju lög um sjúkra­trygg­ingar – að setja þau lög án þess að hafa heild­ar­stefnu í heil­brigð­is­málum hefur til dæmis gert það að verkum að for­stjóri sjúkra­trygg­ing­anna hefur einn og út af fyrir sig staðið fyrir alveg massí­vri einka­væð­ingu í íslenskri heil­brigð­is­þjón­ustu. Og Stein­grímur Ari Ara­son er frjáls­hyggju­mað­ur. Hann lítur svo á að einka­væð­ingin sé góð fyrir okkar sam­fé­lag og hefur því verið að þjóna sam­fé­lag­inu eins vel og hann heldur að hann geti.

Jak­ob: Ertu þá að vísa til samn­ings sjálf­stætt starf­andi lækna? Kári: Já, hann hefur verið aðhalds­samur við spít­al­ann en mjög frjáls­lyndur í samn­ingum sínum við sjálf­stætt starf­andi lækna. Með því móti hefur vaxið upp þessi risa­vaxni sveppur af einka­stofum úti í bæ sem eru að taka stærri og stærri hund­raðs­hluta af heild­ar­kostn­aði við heil­brigð­is­þjón­ustu.

Auð­ur: Svo meðan það er engin stefna, þá getur einn ein­stak­lingur haft svona mikil áhrif?

Kári: Já, einn ein­stak­lingur gert alls­konar hluti. Og ekki mis­skilja mig. Ég er ekk­ert að dæma þessar stofur úti í bæ og segja þær vera vond­ar. Ég er bara að segja að það sé engin stefna.

Það ætti að sjá til þess að það væru sérfræðingar til staðar til þess að ráðleggja læknum á öllum stigum heilbrigðiskerfisins.

Gate-keepers íslenska heil­brigð­is­kerf­is­ins

Nú er komið að Auði að spyrja: Gætir þú teiknað upp í grófum dráttum heil­brigð­is­stefnu eins og ef þú værir að krota hug­myndir á blað? Svona litla mynd af stefnu.

Kári: Þá myndi ég skil­greina Land­spít­al­ann sem mið­tauga­kerfi heil­brigð­is­þjón­ust­unnar sem ætti ekki bara að sjá um hina tækni­væddu heil­brigð­is­þjón­ustu þeirra sem þurfa á slíku að halda heldur eigi að veita öllu heil­brigð­is­kerf­inu gæða­stjórn. Það ætti að sjá til þess að það væru sér­fræð­ingar til staðar til þess að ráð­leggja læknum á öllum stigum heil­brigð­is­kerf­is­ins. Heilsu­gæslu­læknar ættu að eiga aðgang að sér­fræð­ingum spít­al­ans, skil­greindan aðgang til þess að leita aðstoðar við lausn á flóknum vanda­mál­um. Ég myndi líta svo á að það væri mjög mik­il­vægt að það væri greiður aðgangur að sér­fræð­ing­um, bæði inni á göngu­deildum spít­al­ans og sjálf­stætt starf­andi sér­fræð­ingum – fyrir fólkið í land­inu. Fólkið gæti leitað til þeirra til að fá grein­ingu á sínum sjúk­dómum en það væri stefnt að því að láta með­ferð­ina og eft­ir­fylgn­ina vera í höndum heilsu­gæsl­unnar í stað þess að vera með til­vís­un­ar­kerfi. Þetta kerfi gæti komið í veg fyrir að þeir væru ein­hvers konar aðgeng­is­hindrun að þeim sem raun­veru­lega geta komið með grein­ingu.

Jak­ob: Svona Gate-keepers?

Kári: Já, Gate-keepers – þeir eiga ekki að vera það. Þeir eiga að taka við sjúk­lingum frá sér­fræð­ing­un­um. Fólk á ekki að geta verið í eft­ir­með­ferð hjá sér­fræð­ingi svo árum skipt­ir.

Verk­færataska íslenskra lækna

Nú getur lyfja­lobbí­ist­inn ekki hamið sig lengur og spyr: Svona í ljósi þess að ég kem úr lyfja­átt­inni, finnst þér skipta máli að íslenskir læknar hafi sömu verk­færi í sinni verk­færa­tösku og kollegar þeirra í lönd­unum í kringum okk­ur?

Kári: Algjör­lega. Og ég held því fram að það sé alveg ofboðs­lega mikið rétt­læt­is­mál að sjá til þess að við höfum öll nýj­ustu lyf til þess að spila úr. Mjög mikið af þessum nýj­ustu lyfjum eru lyf sem geta lengt líf mjög mikið hjá þeim sem eru með alvar­lega sjúk­dóma. Og ég held því fram að við eigum að teygja okkur mjög langt. Númer eitt í því er að finna pen­inga til þess að kaupa þessi lyf fyrir fólk sem er með þessa sjúk­dóma sem margir hverjir eru krabba­mein. En við eigum líka að taka þátt í alþjóð­legri til­raun til þess að koma ein­hverju skikki á þessa verð­lagn­ingu.

Það má ekki gleyma því að þessi lyf, sem er verið að búa til, verða til vegna þátt­töku sjúk­linga með sjúk­dómana. Það er ekki hægt að búa þau til án þess að menn taki þátt í klínískum rann­sóknum eða lyfja­til­raun­um. Það er raun­veru­lega, í huga mín­um, svik við þetta fólk, sem tekur þátt, að verð­leggja lyfin á þann hátt að þeir sem raun­veru­lega þurfa á þeim að halda geta aldrei fengið þau. Þetta er flókið vegna þess að lyf verða að vera dýr til þess að hægt sé að þróa ný lyf af því að það er svo dýrt að þróa þau. Það tekur að með­al­tali tíu til fimmtán ár að gera það og einmitt þess vegna er ég svona æstur yfir þessu, lyfja­iðn­að­ur­inn gerir sér ekki grein fyrir hversu við­kvæmur þessi samn­ingur við sam­fé­lagið er.

Tuttugasta febrúar síðastliðinn birtist á vef velferðarráðuneytisins frétt þess efnis að ríkisstjórnin hefði á fundi sínum nokkrum dögum fyrr samþykkt tillögu um að fela ráðherrum fjármála- og efnahagsmála og svo heilbrigðismála að tryggja aukið fjármagn til innleiðingar nýrra lyfja. Segja má að þarna endurtaki sagan sig því sama staða hefur verið uppi síðustu ár.

Raunar endurtekur hún sig svo rækilega að nærri samhljóða frétt birtist á sama vettvangi næstum því nákvæmlega ári fyrr, eða 19. febrúar 2016. En með nýsamþykktum fjárlögum og fjáraukalögum er loforðið frá því í febrúar fjármagnað og að auki bætt í, til samræmis við áherslur ríkisstjórnarinnar á aukið fjármagn til heilbrigðismála.

Ákvarð­anir sem stytta líf fólks

Auð­ur: Nú er ég hinn almenni fávísi skatt­greið­andi og spyr: Er kannski verið að svíkja okkur Íslend­inga um lyf sem er verið að nota á Norð­ur­lönd­unum og í Þýska­landi? Erum við nógu með­vituð um hvaða lyf við fáum og hver ekki?

Kári: Ég get ekki tjáð mig fylli­lega um það en það er alveg ljóst að tölu­vert af þessum nýju lyfjum hefur komið hingað seinna en í lönd­unum í kringum okk­ur.

Auð­ur: Hversu mikið seinna?

Kári: Jakob er í betri aðstöðu til að tjá sig um það.

Jak­ob: Á mynd­inni sem ég sýndi þér í gær, þegar við bárum Ísland saman við Norð­ur­lönd­in, mátti sjá að á síð­ustu fjórum árum voru komin í notkun tutt­ugu og fimm ný krabba­meinslyf. Tutt­ugu og fjögur þeirra voru komin í notkun í Nor­egi, tutt­ugu og tvö í Dan­mörku og Sví­þjóð, sautján í Finn­landi, en ein­ungis átta komin í notkun hér á landi. Þetta er bara fakta.

Kári: Og þetta er grafal­var­legt. Þetta eru ákvarð­anir sem enda á því að stytta líf fólks.

Þurfum að taka afstöðu sem sam­fé­lag

Auð­ur: Hversu mik­inn rétt eigum við, sem sam­fé­lag, til þess að biðja um þessi lyf?

Kári: Þetta er það sem ég var að reyna að pré­dika þegar við vorum í þess­ari und­ir­skrifta­söfn­un. Það er bara spurn­ing um hvað sam­fé­lagið vill. Ég held því fram að sam­fé­lagið vilji að við fjár­festum í svona lyfjum sem hluta af fjár­fest­ingu í heil­brigð­is­kerf­inu. Grund­vallar for­senda þess að við getum risið undir skil­grein­ing­unni á sam­fé­lagi er að við hlúum að þeim sem eru lasnir og meidd­ir. Og þessi lyf eru besta leiðin til að hlúa að fólki sem er með alls­konar krabba­mein. Ég held því fram að við eigum að fórna ýmsu öðru til þess að geta hlúð að þessu fólki.

Ég held því fram að samfélagið vilji að við fjárfestum í svona lyfjum sem hluta af fjárfestingu í heilbrigðiskerfinu. Grundvallar forsenda þess að við getum risið undir skilgreiningunni á samfélagi er að við hlúum að þeim sem eru lasnir og meiddir.

Auð­ur: Hversu með­vit­aður er almenn­ingur um þetta?

Kári: Það er mjög erfitt fyrir almenn­ing að setja sig inn í þetta. Ég held að almenn­ingur verði að taka afstöðu til hins almenna prinsipps sem er þetta: Viljum við eða viljum við ekki fjár­festa í að byggja upp heil­brigð­is­kerfi sem stenst sam­jöfnuð við heil­brigð­is­kerfi ann­arra landa. Á móti kemur að það birt­ist af og til töl­fræði sem segir að heil­brigð­is­kerfið á Íslandi sé svo ofsa­lega gott.

Auð­ur: Hver eru þá við­mið­in?

Kári: Við­miðin eru mis­mun­andi. Ein af ástæð­unum fyrir því að við komum vel út úr sam­an­burði af þess­ari gerð er að fjar­lægðir eru litlar á Íslandi. Fjar­lægðin milli okkar og fólks­ins sem vinnur í heil­brigð­is­kerf­inu er til­tölu­lega lít­il. Olræt? Við erum lítið sam­fé­lag, ekki stórt sam­fé­lag. Stóru sam­fé­lögin koma alltaf miklu verr út úr þessu. And­orra kom til dæmis út sem land með besta heil­brigð­is­kerfi í heimi – skil­urðu.

En stóra málið er að það þarf að setja saman heild­ar­stefnu. Menn þurfa að gera sér grein fyrir því að heil­brigð­is­þjón­ustan er dýr­ari litla sam­fé­lag­inu en stóra sam­fé­lag­inu af því að við erum svo fá að kostn­aður á hvern ein­stak­ling er tölu­vert hærri, þú færð ákveð­inn magn­af­slátt í stærra sam­fé­lagi.

Við þurfum að taka afstöðu sem sam­fé­lag, að við ætlum að eyða ákveðnum hund­raðs­hluta af því sem við öflum til þess að hlúa að meiddum og lösn­um. Mér finnst eðli­legt að það breyt­ist miðað við afkomu sam­fé­lags­ins. Og við komumst ekk­ert upp með að eyða 7,2 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu í heil­brigð­is­kerfið og halda því fram að við höfum heil­brigð­is­þjón­ustu sem jafn­ast á við það sem finnst ann­ars stað­ar.

Ef Kári væri heil­brigð­is­ráð­herra?

Auð­ur: Hvað myndir þú gera ef þú værir heil­brigð­is­ráð­herra núna?

Kári: Ég myndi setja saman heild­ar­stefnu – allt annað er auka­at­riði – og taka til þess tvo mán­uði. Það er engin ástæða til þess að bíða fram í byrjun febr­úar til þess að hafa til­búna heild­ar­stefnu. Það er hægt að fá fullt af góðu fólki til þess að setj­ast yfir þetta og síðan má end­ur­skoða þá heild­ar­stefnu linnu­laust. Það má láta end­ur­skoðun þess­arar heild­ar­stefnu vera aðal­verk­efni heil­brigð­is­ráðu­neyt­is­ins á hverjum tíma fyrir sig.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnAuður Jónsdóttir
Meira úr sama flokkiFólk