Alls sögðu 2.477 sig úr þjóðkirkjunni á síðustu þremur mánuðum ársins 2017. Á sama tímabili gengu 231 í hana. Því gengu 2.246 fleiri landsmenn úr þjóðkirkjunni en í hana á tímabilinu. Þegar allt árið 2017 er skoðað kemur í ljós að 3.738 sögðu sig úr þjóðkirkjunni, þar af 60 prósent á síðustu mánuðum ársins. Á sama tímabili gengu 719 manns í kirkjuna. Þegnum hennar fækkaði því um 3.019 á síðasta ári.
Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Þjóðskrá Íslands um breytingar á trú- og lífskoðunarfélagsaðild á síðasta ársfjórðungi 2017.
Ekki siðferðislega rétt að stela gögnum og tugprósenta launahækkun
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands og leiðtogi þjóðkirkjunnar, rataði tvívegis í fréttir á síðustu mánuðum ársins 2017 vegna mála sem þóttu umdeild. Fyrst sagði hún í samtali við Morgunblaðið að henni þætti ekki siðferðislega rétt að stela gögnum og fara á bak við fólk til að afhjúpa mál og leiða sannleikann í ljós. Þessi ummæli féllu í samhengi við lögbann sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafði samþykkt gagnvart fjölmiðlafyrirtækjunum Stundinni og Reykjavík Media, vegna birtingar þeirra á fréttum sem unnar voru úr gögnum úr gamla Glitni.
Yfir eitt hundrað þúsund utan þjóðkirkju
Frá árinu 2009 hefur fjöldi þeirra sem skráðir eru í þjóðkirkjunni dregist saman á hverju einasta ári. Í byrjun árs 2017 voru þeir 236.481 talsins, sem þýddi að undir 70 prósent þjóðarinnar væri í kirkjunni.
Nú eru þeir 233.462 og fækkaði, líkt og áður sagði, um 3.019 á síðasta ári. Alls sögðu 3.738 manns sig úr kirkjunni á árinu 2017.
Það er næstmesti fjöldi sem hefur sagt sig úr kirkjunni á einu ári. Metið var sett á árinu 2010, þegar ásakanir um þöggun þjóðkirkjunnar yfir meintum kynferðisglæpum Ólafs Skúlasonar, fyrrverandi biskups, voru settar fram. Þá fækkaði um 4.242 í þjóðkirkjunni á einu ári.
Þegnum kirkjunnar hefur fækkað mjög hlutfallslega á undanförnum árum. Árið 1992 voru 92,2 prósent landsmanna skráðir í hana. Á árunum fyrir hrun fjölgaði alltaf lítillega í hópi þeirra sem skráðir voru í þjóðkirkjuna á milli ára þótt þeim Íslendingum sem fylgdu ríkistrúnni fækkaði alltaf hlutfallslega. Ein ástæða þess er að skipulagið hérlendis var lengi vel þannig að nýfædd börn voru ætið skráð í trúfélag móður. Það þurfti því sérstaklega að skrá sig úr trúfélagi í stað þess að skrá sig inn í það. Þessu var breytt árið 2013 og nú þurfa báðir foreldrar að tilheyra sama trú- og lífsskoðunarfélagi til að barnið sé skráð í félag, annars skráist barnið utan trúfélaga.
Frá árinu 2009 hefur meðlimum þjóðkirkjunnar fækkað á hverju ári. Þeir voru 236.260 í byrjun árs 2017, eða 69,9 prósent mannfjöldans. Það var í fyrsta sinn síðan að mælingar hófust sem að fjöldi meðlima hennar fer undir 70 prósent mannfjöldans.
Miðað við mannfjöldatölur í lok þriðja ársfjórðungs síðasta árs eru nú 69 prósent þjóðarinnar í þjóðkirkjunni.
Þeim íslensku ríkisborgurum sem kusu að standa utan þjóðkirkjunnar voru 30.700 um síðustu aldarmót. Þeir eru nú yfir eitt hundrað þúsund. Fjöldi þeirra hefur því rúmlega þrefaldast.