Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn fimm fyrrverandi starfsmenn Glitnis, sem eru ákærðir fyrir stórfellda markaðsmisnotkun og umboðssvik, stendur nú yfir í héraðsdómi Reykjavíkur. Málið snýst um atburði sem áttu sér stað fyrir um áratug síðan. Ákæran gegn þeim var gefin út í mars í fyrra. Með útgáfu hennar var það staðfest að rökstuddur grunur væri um að allir stóru bankarnir þrír hafi stundað umfangsmikla markaðsmisnotkun fyrir hrun. Raunar er það meira en rökstuddur grunur. Þegar hafa fallið þungir dómar vegna markaðsmisnotkunar í Glitni, Landsbanka Íslands og Kaupþingi.
Þeir fimm sem eru ákærðir í málinu sem nú er fyrir dómstólum eru Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, Jóhannes Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Glitnis, og þrír fyrrverandi miðlarar, þeir Jónas Guðmundsson, Valgarð Már Valgarðsson og Pétur Jónasson.
Hægt er að lesa ákæruna hér í heild sinni.
Í ákærunni segir að meint brot hinna ákærðu hafi verið mjög umfangsmikil, þaulskipulögð, hafi staðið yfir í langan tíma og hafi varðað gríðarlega háar fjárhæðir. Í ákærunni er tilgreint að hinir ákærðu hafi með skipulögðum hætti keypt gríðarlegt magn af bréfum í Glitni til að halda markaðsverði þeirra uppi. Lárusi er síðan gefið að hafa losað um hlutina, og með því misnotað aðstöðu sína sem forstjóri, með því að selja þau til félaga í eigu margra af stærstu viðskiptavinum bankans á þessum tíma og alls 14 félaga í eigu stjórnenda Glitnis. Í nánast öllum tilvikum lánaði Glitnir að fullu fyrir kaupunum og tók einungis veð í bréfunum sem var verið að selja. Markaðsáhætta þeirra var því áfram að fullu hjá Glitni.
Héraðssaksóknari segir í ákærunni að mennirnir fimm hafi allir haft „verulega persónulega hagsmuni“ af því að verð á hlutabréfum í Glitni héldist hátt, auk þess sem Lárus Welding hefði haft mikla hagsmuni að halda vellaunuðu starfi sínu í bankanum. Lárus hafi ekki átt hlut í Glitni en hann hafi hins vegar gert kaupréttarsamning þegar hann skrifaði undir ráðningarsamning árið 2007, þá rétt rúmlega þrítugur að aldri. Þá hafi hann fengið 300 milljón króna eingreiðslu þegar hann réð sig til starfa hjá Glitni og átti að fá aðra slíka 1. febrúar 2009.
Hinir starfsmennirnir fjórir áttu allir hlut í Glitni eða kauprétti. Einn miðlaranna, Valgarð Már, fékk 20 milljóna króna ráðningarbónus þegar hann réð sig þangað frá Kaupþingi í ágúst 2007. Hann átti þá einn mánuð í að verða 27 ára gamall.
Keyptu mikið magn bréfa í rúmt ár
Fyrsta hluti ákærunnar snýr að markaðsmisnotkun sem allir fimm hinna ákærðu eru sagðir hafa staðið fyrir. Um er að ræða kaup á bréfum í Glitni frá byrjun 1. júní 2007 og fram til 26. september 2008. Samkvæmt ákærðu voru viðskiptin til þess gerð að tryggja óeðlilegt verð á hlutum í Glitni, búa til verð á hlutabréfum, gáfu til kynna að eftirspurn og og verð hlutabréfa í bankanum hafi verið hærra en það raunverulega var. Í ákærunni segir að viðskiptin hafi verið framkvæmd að undirlagi Lárusar og Jóhannesar en að hinir þrír ákærðu, Jónas, Valgarð Már og Pétur, hafi framkvæmt þau. Þeir unnu allir í eigin viðskiptum Glitnis á tímabilinu.
Tæmdu veltubókina
Þegar eigin viðskipti banka kaupa mikið af hlutabréfum í honum sjálfum þá kemur að því að þau geta ekki keypt meira. Bankar máttu nefnilega ekki eiga meira en fimm prósent hlut í sjálfum sér. Þegar því markivar náð þurfti að „tæma“ veltubókina. En kaupendur stóðu ekki í röðum á árunum 2007 og 2008 að kaupa slíka hluti í íslenskum bönkum.
Stím-málið, sem þegar hefur verið sakfellt í fyrir héraðsdómi, snérist að hluta til um slíka tæmingu. Félagið Stím var búið til af Glitni til að kaupa hluti í bankanum sjálfum og stærsta eigenda hans, FL Group, sem Glitnir vildi losa. Í því máli lögðu þó þeir sem tóku þátt í Stím fram eigið fé. Þ.e. Glitnir lánaði ekki fyrir öllum viðskiptunum og því héldu verjendur í Stím-málinu því fram að staða bankans hefði í raun verið betri eftir viðskiptin en hún var fyrir. Hluti áhættunar vegna hlutabréfanna hefði verið færð yfir á þá fjárfesta sem tóku þátt í Stím. Slík málsvörn verður áfram ráðandi í vörn þeirra fyrir Hæstarétti.
Fleiri þekkt félög keyptu hluti í Glitni út af veltubók bankans. Má þar til að mynda nefnda BK-44 ehf., sem var í eigu Birkis Kristinssonar, fyrrverandi starfsmanns bankans. Birkir var ásamt þremur öðrum fyrrverandi starfsmönnum Glitnis dæmdur til þungrar refsingar í Hæstarétti vegna þess máls í desember 2015.
Annað félag sem fékk lán að fullu frá Glitni til að kaupa bréf í bankanum af bankanum var félagið Langflug ehf. Það var í eigu Finns Ingólfssonar, fyrrum ráðherra og seðlabankastjóra, og hins umdeilda félags Giftar.
Seldu til 14 félaga stjórnenda
Í öðrum kafla stóra markaðsmisnotkunarmáls Glitnis er Lárus einn ákærður fyrir markaðsmisnotkun. Þar er lýst svokallaðri „tæmingu“. Í þetta sinn er þó um að ræða sölu á bréfum til alls 14 félaga sem öll voru í eigu stjórnenda og starfsmanna Glitnis. Öll félögin voru stofnuð sérstaklega til að taka þátt í viðskiptunum og öll viðskiptin fóru fram á tveimur dögum, 15. og 16. maí 2008. Og Glitnir lánaði hverja einustu krónu sem notuð var til að fjármagna viðskiptin, alls um 6,8 milljarða króna. Í ákærunni segir að Glitnir hafi þannig borið áfram fulla markaðsáhættu af bréfunum „þar sem engar aðrar tryggingar voru fyrir hendi en hinir seldu hlutir, og voru viðskiptin, sem byggðust á blekkingum og sýndarmennsku, þannig líkleg til að gefa eftirspurn eftir hlutunum í bankanum ranglega og misvísandi til kynna“.
Þriðji kafli ákærunnar snýst síðan um meint umboðssvik Lárusar vegna lánveitinga til félaganna 14. Þar segir að hann hafi misnotað aðstöðu sína hjá Glitni, sem forstjóri bankans, og stefnt fé hans í verulega hættu þegar hann hafi farið út fyrir heimildir sínar til lánveitinga og veitt félögunum tæplega 6,8 milljarða króna lán til að fjármagna hlutabréfakaupa í Glitni, af Glitni, „án þess að fyrir lægi samþykki þar til bærrar lánanefndar, án þess að endurgreiðsla lánanna væri tryggð í samræmi við ákvæði lánareglna bankans um töku trygginga fyrir útlánum og án þess að meta á nokkurn hátt greiðslugetu og eignastöðu lánþeganna“.
Allsherjarmarkaðsmisnotkun rannsökuð í öllum bönkunum
Embætti sérstaks saksóknara, sem nú hefur runnið inn í embætti héraðssaksóknara, hefur rannsakað markaðsmisnotkun gömlu bankanna þriggja: Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, um margra ára skeið. Þegar hefur verið ákært, og dæmt í allsherjarmarkaðsmisnotkunarmálum Kaupþings og Landsbankans.
Mennirnir fjórir voru ákærðir fyrir markaðsmisnotkun á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008. Samkvæmt ákæru áttu þeir að hafa handstýrt verðmyndun hlutabréfa í Landsbankanum og með því blekkt „fjárfesta, kröfuhafa, stjórnvöld og samfélagið í heild.“
Þungir dómar í Kaupþingsmálinu
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður Kaupþings, Ingólfur Helgason, fyrrum forstjóri Kaupþings á Íslandi, Einar Pálmi Sigmundsson, Birnir Sær Björnsson, Pétur Kristinn Guðmundsson og Bjarki H. Diego voru allir dæmdir sekir í héraðsdómi Reykjavíkur sumarið 2015 í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Tveimur liðum ákæru á hendur Magnúsi Guðmundssyni var vísað frá en að öðru leyti var hann sýknaður af þeim sökum sem á hann voru bornar. Björk Þórarinsdóttir var einnig sýknuð í málinu. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar.
Hann dæmdi alla níu sakborninganna í málinu seka. Refsing sex sakborninga var ákveðin sú sama og í héraði, refsing eins var þyngd en tveimur var ekki gerð sérstök refsing.
Ingólfur Helgason hlaut þyngstan dóm í málinu, fjögurra og hálfs árs fangelsi. Bjarki H. Diego hlaut tveggja og hálfs árs dóm, Einar Pálmi Sigmundsson tveggja ára skilorðsbundinn dóm og Birnir Sær Björnsson og Pétur Kristinn Guðmarsson fengu báðir 18 mánaða skilorðsbundinn dóm. Sigurður Einarsson fékk eins árs hegningarauka við þann fjögurra ára dóm sem hann hlaut í Al Thani-málinu. Magnúsi Guðmundssyni og Björk Þórarinsdóttur var ekki gerð sérstök refsing fyrir þau brot sem þau voru dæmd fyrir.
Refsing Hreiðars Más Sigurðssonar var þyngd og honum gerður sex mánaða hegningarauki.