Íslenskir lífeyrissjóðir eiga um þriðjung af heildarfjármunum á Íslandi og spár gera ráð fyrir að eignarhlutur þeirra muni aukast á næstu árum. Er gert er ráð fyrir því að sjóðirnir skili 3,5 prósent raunávöxtun á ári mun hlutur þeirra í heildarfjármunaeign á Íslandi fara í 35 prósent árið 2030 og í tæp 40 prósent árið 2060.
Þeir hafa stækkað mjög hratt á fáum árum og og áttu árið 2016 70 prósent allra markaðsskuldabréfa og víxla á Íslandi ásamt því að eiga 41 prósent allra skráðra hlutabréfa í íslensku kauphöllinni. Starfshópur fjármála- og efnahagsráðuneytisins um erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða, sem skipaður var 21. mars 2017 og skilaði áliti 18. apríl sama ár, telur að svigrúm sjóðanna til að bæta við sig innlendum markaðsverðbréfum sé mjög takmarkað nema markaðurinn stækki. Þetta kemur fram í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um umsvif lífeyrissjóða í íslensku efnahagslífi sem skilað var til forsætisráðuneytisins 24. október síðastliðinn og hefur nú verið birt opinberlega.
Samtímis hefur skýrsla starfshóps sem skoðaði hlutverk lífeyrissjóða í uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi líka birt. Í henni er lagt til að sjóðirnir auki vægi erlendra eigna til lengri tíma, verði skyldugir til að móta sér stefnu um stjórnarhætti sem eigenda í atvinnufyrirtækjum og verði skylt að birta að minnsta kosti árlega skýrslu með upplýsingum um samskipti við félög sem þeir fjárfesta í og hvernig þeir greiði atkvæði á hluthafafundum. Þá er því beint til stjórnvalda að skoða, í samráði við hagsmunaaðila, að breyta lögum þannig að einstaklingar fái auknar heimildir til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði sínum til húsnæðissparnaðar og að sjóðsfélagar geti ráðstafað 3,5 prósent af 15,5 prósent lágmarksiðgjaldi í séreign eða húsnæðissparnað að eigin vali.
Sjóðirnir eiga að veita meiri upplýsingar
Íslenskir lífeyrissjóðir áttu 3.837 milljarða króna í lok nóvember síðastliðins. Í niðurstöðum starfshópsins segir að alþjóðlegur samanburður sýni að íslenskir lífeyrissjóðir séu hlutfallslega stórir miðað við hagkerfi landsins. Þeir eigi um þriðjung af heildarfjármunum á Íslandi og spár gera ráð fyrir því að eignarhlutur sjóðanna geti aukist á næstu árum.
Þar kemur einnig fram að eignir lífeyrissjóðanna séu einsleitar sem stafi af því að erlendar eignir séu of lítið hlutfall þeirra. Um þessar mundir eru til að mynda aðeins rúmlega 20 prósent eignanna erlendis.
Starfshópurinn hefur áhyggjur af því að víðtækt eignarhald lífeyrissjóða innanlands geti „haft áhrif á samkeppni og þar af leiðandi á verð og þjónustu við neytendur. Þess vegna er áríðandi að lífeyrissjóðir marki stefnu um það hvernig þeir beita sér sem hluthafar í fyrirtækjum sem þeir eiga hlut í. Þar sem sjóðirnir byggja á skylduaðild er eðlilegt að gera ríkar kröfur til þeirra um upplýsingaskyldu gagnvart sjóðfélögunum, eigendum sjóðanna.“
Sjóðirnir gæti mikilla hagsmuna og séu því virkir hluthafar í fyrirtækjum sem þeir fjárfesta í. „Sjóðirnir eiga að leggja metnað í að innleiða leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja og stuðla að því að stjórnarmenn fyrirtækja séu sjálfstæðir í störfum sínum og hafi engin tengsl við tiltekna hluthafa umfram aðra.“
Miklar fjárfestingar innanlands geta þrýst upp eignaverði
Fjármagnshöft voru við lýði á Íslandi frá lokum árs 2008 og fram á vormánuði 2017. Þau gerðu það að verkum að íslenskir lífeyrissjóðir gátu ekki nýfjárfest erlendis heldur einungis endurfjárfest þær eignir sem voru erlendis þegar höft voru sett.
Í skýrslu Hagfræðistofnunar um umsvif lífeyrissjóða í íslensku efnahagslífi segir að hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóða af heildareignum þeirra hafi verið um 30 prósent þegar höftin voru sett. Nú sé það aðeins rúmlega 20 prósent. Ávöxtun hafi þó verið ágæt á Íslandi eftir hrun en sjónarmið um áhættudreifingu mæli á móti því að íslenskir lífeyrissjóðir eigi hætti tæplega 80 prósent af fé sínu á jafn litlum markaði og Ísland sé.
Þá er það niðurstaða Hagfræðistofnunar að miklar fjárfestingar lífeyrissjóða á innlendum markaði geti þrýst eignaverði upp á við. „Af þeirri ástæðu gæti verið ráðlegt að halda fjárfestingum hér á landi í hófi. Rök mæla ekki einungis gegn því að sjóðirnir setji stóran hluta af eignum sínum undir í einu landi - og því litlu - heldur getur líka verið óvarlegt að hætta stórum hluta eigna á sama stað og tekna er aflað. Þá eru í skýrslunni færð rök fyrir því að sérlega áhættusamt sé fyrir lífeyrissjóðina að leggja mikið undir á íslenskum hlutabréfamarkaði. Undanfarinn aldarfjórðung hefur gengi íslenskra hlutabréfa sveiflast meira en heimsvísitala hlutabréfa í krónum talið.“
Það er því mat stofnunarinnar að hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóða eigi á næstu 25 árum að hækka úr 22 prósent, líkt og þær eru nú, í 42 prósent.
Verða áfram fyrirferðamiklir á Íslandi
Hagfræðistofnun segir að sennilega megi skýra stóran eignarhlut lífeyrissjóða í íslenskum fyrirtækjum að nokkru með fjármagnshöftunum. Ef það sé rétt muni hlutur sjóðanna líkast til fara minnkandi á komandi árum og um leið minnki sú ógn sem samkeppni stafar af umsvifum þeirra.
Þetta þýði þó ekki að sömu eigendur verði ekki áfram að einhverju leyti að fyrirtækjum sem keppa á sama markaði. „Þó að margt mæli með því að sjóðirnir snúi fjárfestingum sínum af auknum þunga til útlanda verða þeir að öllum líkindum áfram fyrirferðarmiklir á íslenskum fjármagnsmarkaði. Það er í höndum stjórnenda sjóðanna að ákveða hvar þeir fjárfesta. Þeir kaupa ekki íslensk verðbréf nema þeir trúi því að íslenskt efnahagslíf og íslenskur fjármagnsmarkaður ráði við fjárfestingarnar. Enginn er óskeikull, en í ljósi þessa verður að telja ólíklegt annað en að markaðir hér á landi ráði við fjárfestingar sjóðanna á komandi árum. Með öðrum orðum muni fjárfestingar þeirra rúmast vel í hagkerfinu.Að vísu verður að setja þann fyrirvara við þessa ályktun, að samkvæmt lögum má aðeins helmingur eigna sjóðanna bera gengisáhættu. Af þeim sökum er ekki útilokað að þeir festi meira fé á Íslandi en stjórnendur þeirra telja ráðlegt. Erfitt er að sjá haldgóð rök fyrir slíkum hömlum á fjárfestingum lífeyrissjóða.“
Þá fjallar Hagfræðistofnun um þær raddir sem hafi heyrst um að stórfelld eignakaup lífeyrissjóða erlendis geti veikt gengi krónunnar. Niðurstaða stofnunarinnar er sú að það geti hugsanlega gerst, en að þau áhrif yrðu sennilega ekki mikil.