Alls fór 82 prósent af öllum auð sem varð til í heiminum á árinu 2017 til ríkasta eitt prósent íbúa hans. Sá helmingur mannkyns sem á minnst fékk ekkert af viðbótarauð sem varð til á síðasta ári í sinn hlut. Nýjar tölur frá Credit Suisse sýna að 42 ríkustu einstaklingar heims eiga nú jafn mikið og þeir 3,7 milljarðar manna sem eiga minnst. Ríkasta prósent heimsins á meira en hin 99 prósent hans til samans. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Oxfam um misskiptingu auðs, sem gerð var opinber í gær.
Í skýrslunni kemur fram að milljarðamæringum hafi aldrei fjölgað jafn mikið og í fyrra, þegar einn nýr slíkur varð til á tveggja daga fresti. Samtals voru þeir sem áttu einn milljarð dali eða meira 2.043 um síðustu áramót.
Alls jókst auður milljarðamæringa um 762 milljarða dala á árinu 2017, eða um 78.486 milljarða íslenskra króna. Þessi viðbótarauður einn saman myndi duga til að binda sjö sinnum endi á fátækt í heiminum, samkvæmt mati Oxfam.
Í skýrslunni segir enn fremur að hættuleg og illa borguð störf fjöldans greiði fyrir yfirgengilegan auð hinna fáu. Konur séu í verstu störfunum og að nánast allir hinna ofurríku séu karlmenn, eða níu af hverjum tíu.
Auður hinna efnameiri vex mun hraðar en hinna
Í skýrslunni segir að á tímabilinu 2006 til 2015 hafi auður venjulegs launafólks aukist um tvö prósent á ári á meðan að auður milljarðamæringa í heiminum aukist um 13 prósent á ári, eða sex sinnum hraðar en auður launafólksins.
Þar er tekið dæmi af ríkasta manni Nígeríu, sem þénar nægilega háar vaxtagreiðslur af eignum sínum á ári til að leysa um tvær milljónir samlanda sinna úr fátækt. Í Indónesíu eiga fjórir ríkustu menn landsins meira en þær 100 milljónir íbúa þess sem eiga minnst. Þrír ríkustu menn Bandaríkjanna eiga meiri auð en sá helmingur þjóðarinnar sem á minnst, um 160 milljónir manns. Í Brasilíu myndi einstaklingur sem þénar lágmarkslaun þurfa að vinna í 19 ár til að þéna það sem einstaklingur sem tilheyrir 0,1 prósent ríkasta hluta landsins þénar á einum mánuði.
Ríku verða ríkari á Íslandi
Kjarninn greindi frá því í nóvember að misskipting auðs hafi haldið áfram að aukast á Íslandi á árinu 2016. Í lok þess árs áttu þær rúmlega 20 þúsund fjölskyldur sem tilheyra þeim tíu prósentum þjóðarinnar sem eiga mest eigið fé – eignir þegar skuldir hafa verið dregnar frá – 2.062 milljarða króna í hreinni eign. Alls átti þessi hópur 62 prósent af öllu eigin fé í landinu. Eigið fé hans jókst um 185 milljarða króna á árinu 2016. Eigið fé hinna 90 prósent landsmanna jókst á sama tíma um 209 milljarða króna. Það þýðir að tæplega helmingur þeirrar hreinu eignar sem varð til á á árinu 2016 fór til tíu prósent efnamestu framteljendanna.
Frá árinu 2010 og til loka árs 2016 tvöfaldaðist eigið fé Íslendinga. Í lok árs 2010 var það 1.565 milljarðar króna en var 3.343 milljarðar króna í lok árs 2016. Ef horft er einungis í krónutölur þá má sjá að eignir efstu tíundar þjóðarinnar hafi aukist úr 1.350 milljörðum króna í 2.062 milljarða króna á tímabilinu, eða um 712 milljarða króna. Því fór 40 prósent af öllum krónum sem urðu til í nýju eigin fé frá lokum árs 2010 og fram til loka árs 2016 til þeirra tíu prósent fjölskyldna sem eiga mest á hverjum tíma fyrir sig.
Vanmetinn auður
Virði eigna þessa hóps er reyndar vanmetinn. Þessi hópur á nefnilega nær öll verðbréf landsins í eigu einstaklinga, eða 86 prósent slíkra. Í tölum Hagstofunnar er þær fjármálalegu eignir sem teljast til hlutabréf í innlendum og erlendum hlutafélögum á nafnvirði, eignarskattsfrjáls verðbréf, stofnsjóðseign og önnur verðbréf og kröfur. Og í tölunum eru þau metin á nafnverði, ekki markaðsvirði, sem er mun hærra. Alls á tíu prósent ríkasti hluti landsmanna verðbréf, m.a. hlutabréf í innlendum og erlendum hlutafélögum eða skuldabréf, sem metin eru á 383,4 milljarða króna á nafnvirði. Hin 90 prósent þjóðarinnar eiga verðbréf sem metin eru á 62,2 milljarða króna að nafnvirði. Þessi skipting hefur haldist að mestu eins á undanförnum árum. Í lok árs 2010 átti efsta tíund landsmanna líka 86 prósent allra verðbréfa.
Virði verðbréfa í eigu Íslendinga hækkað um 23 milljarða króna að nafnvirði á árinu 2016. Þar af hækkuðu bréf ríkustu tíu prósent þjóðarinnar um 21,8 milljarða króna. Því fór um 95 prósent af allri virðisaukningu verðbréfa til ríkustu tíundar Íslendinga á árinu 2016.