Starfi forsætisráðherra fylgir að jafnaði mikil umfjöllun fjölmiðla, slíkt telst ekki til tíðinda. En að umfjöllunin snúist oft á tíðum um allt annað en stjórnmál er óvenjulegra. Ekki þó þegar Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Dana á í hlut. Hann hefur vikum saman verið umfjöllunarefni danskra fjölmiðla og það ekki í fyrsta sinn.
Lars Løkke, sem er lögfræðingur að mennt, gekk ungur til liðs við Venstre flokkinn. Hann settist á þing 1994 og var kjörinn varaformaður Venstre fjórum árum síðar. Hann var jafnframt framámaður í sveitarstjórnamálum á þessum tíma en varð innanríkis- og heilbrigðisráðherra árið 2001, gegndi um tveggja ára skeið starfi fjármálaráðherra. Árið 2009 tók hann við forsætisráðherrastarfinu af Anders Fogh Rasmussen, því gegndi hann fram að kosningum árið 2011 og síðan aftur frá kosningum 2015.
Skandalakóngur
Danir eiga sem kunnugt er engan kóng, sem ber einungis konungstitilinn. Þeir eiga sína skattakónga, kvótakónga, markakónga, aflakónga o.s.frv. Sumir þessara konungstitla eru taldir eftirsóknarverðir en ekki þó allir. Lars Løkke Rasmussen hefur margoft hlotið þann vafasama heiður að vera útnefndur skandalakóngur Danmerkur, titill sem fæstir kæra sig um að bera. Árið 2008 greindu danskir fjölmiðlar frá því (fyrst í Ekstrablaðinu) að svo virtist sem Lars Løkke Rasmussen, sem þá var fjármálaráðherra, væri ekki það sem kallast mætti nákvæmur bókhaldari. Að minnsta kosti ekki hvað hann sjálfan varðaði, þar væri notað svokallað rassvasabókhald, öllu væri grautað saman og ráðherrann gerði ekki greinarmun á því hvenær hann ætti sjálfur að borga og hvenær ráðuneytið ætti að punga út. Ekstrablaðið birti reikninga þar sem fram kom að ríki og sveitarfélag hefðu borgað reikninga á veitingahúsum og hótelum, sem ekki höfðu neitt með störf Lars Løkke að gera. Sígarettur voru ennfremur tilgreindar í umfjöllun Ekstrablaðsins. Þetta var bara byrjunin á því sem fært hefur forsætisráðherra Dana skandalakóngstitilinn.
Reykingaklefinn
Árið 2009, eftir að Lars Løkke varð forsætisráðherra, lét hann innrétta svokallaðan reykingaklefa í forsætisráðuneytinu. Ráðuneytið borgaði klefann, hann kostaði sem samsvaraði þremur og hálfri milljón íslenskra króna. Þegar þetta mál komst i hámæli ákvað Lars Lökke að borga klefann en á endanum var það Venstre flokkurinn sem borgaði. Í sjónvarpsviðtali býsnaðist einn af forystumönnum flokksins yfir verðinu á klefanum og fór mörgum orðum um græðgina í fyrirtækinu sem seldi og setti upp klefann.
Nærbuxnamálið
Árið 2014 var Venstre undir stjórn Lars Lökke í stjórnarandstöðu. Í maí það ár hafði Ekstrablaðið komist yfir reikninga sem sýndu að Venstre, flokkur Lars Løkke hafði borgað fjölmarga reikninga vegna fatakaupa formannsins. Upphæðin var ekki sérlega há, um 20 þúsund krónur (ca. 340 þúsund íslenskar). Um var að ræða níu jakkafatasett, 28 skyrtur, átta vandaðar nærbuxur (feitletrað í frásögn Ekstrablaðsins) og fleira. Spaugilegt þótti mörgum að heyra útskýringar forystumanna Venstre á því að nærbuxur teldust vinnufatnaður, sem ekki er skattskyldur samkvæmt dönskum skattalögum. Í þessari umfjöllun Ekstrablaðsins kom líka fram að Venstre hafði margoft borgað fyrir hreingerningar á hótelherbergjum þar sem formaðurinn virti ekki reglur um reykingabann heldur púaði eins og honum sýndist.
Flugmiðinn og langi fundurinn
Árið 2013 var Lars Løkke (Venstre var þá í stjórnarandstöðu) í formennsku fyrir samtök um loftslagsmál, GGGI, en samtökin eru meðal annars fjármögnuð með styrkjum frá danska ríkinu. Lars Løkke hafði ætlað að fara til New York ásamt dóttur sinni þegar hann þurfti skyndilega að fara til Rio de Janero á vegum GGGI. Samtökin borguðu flugmiða fyrir dótturina frá New York til Rio de Janero. Mikið fjölmiðlafár varð í kringum þennan flugmiða og á lengsta fréttamannafundi sem haldinn hefur verið í Danmörku reyndi Lars Lökke að útskýra af hverju samtökin hefðu borgað miðann. Þótt fundurinn stæði í tæpa fjóra klukkutíma voru fréttamenn, og danska þjóðin sem fylgdist með fundinum í beinni sjónvarpsútsendingu, engu nær.
Løkke sjóðurinn og tengslin við kvótakóngana
Þau mál sem nefnd voru hér að framan hafa skaðað ímynd Lars Løkke, að mati danskra stjórnmálaskýrenda. Fjölmargar kannanir sýna að persónan Lars Løkke nýtur takmarkaðs álits, og áðurnefnd mál gjarna nefnd sem rökstuðningur. Nýjasta málið af þessu tagi er þó langtum stærra og, að flestra mati, alvarlegra. Það snýr að tengslum Lars Løkke við danska stórútgerðarmenn, svonefnda kvótakónga.
Árið 2012 stofnaði Lars Løkke sjóð, Løkke fonden. Sjóðnum er ætlað að styrkja og styðja við pilta sem lent hafa út af sporinu (eins og Lars Løkke kallar það). Lars Løkke var formaður sjóðsins frá stofnun og þangað til hann varð forsætisráðherra öðru sinni, árið 2015. Síðan þá hefur eiginkonan, hin færeyska Sólrún, gegnt formennskunni. Fjár til sjóðsins er aflað með frjálsum framlögum, á síðasta ári námu þessi framlög jafngildi hálfrar sjöundu milljónar íslenskra króna. Ekstrablaðið greindi frá því fyrir nokkru að meira en helmingur þessarar upphæðar hefði komið frá stórútgerðarmönnum á Norðvestur-Jótlandi. Stærsta einstaka framlagið frá John-Anker Hametner Larsen, sá er meðal stórlaxanna í danskri útgerð, kvótakónganna svonefndu.
John-Anker hefur í janúarmánuði undanfarin ár skipulagt fjáröflunarkvöldverð fyrir Løkke sjóðinn, svonefnt torskegilde. Þarna hefur Lars Løkke ætíð mætt, ekki sem forsætisráðherra að eigin sögn heldur sem formaður sjóðsins og síðar sem eiginmaður formannsins. Ekstrablaðið greindi frá því, fyrir skömmu, að áður en fjáröflunarkvöldverðurinn í fyrra hófst hafði Lars Løkke átt klukkustundar fund með nokkrum stórútgerðarmönnum, þar á meðal John-Anker Hametner Larsen. Í fyrra mætti Thomas Danielsen talsmaður Venstre í sjávarútvegsmálum einnig í kvöldverðinn. Áðurnefndur John-Anker hafði þá nokkru fyrr keypt hlutafé fyrir jafngildi 67 milljóna íslenskra króna í fyrirtæki sem Thomas Danielsen á stóran hlut í, ásamt eiginkonu sinni.
Sumarbústaðardvöl í afmælisgjöf
Ekstrablaðið greindi frá því fyrir nokkru að árið 2014, þegar Lars Løkke varð fimmtugur (og í stjórnarandstöðu) hefði John-Anker gefið honum dvöl í sumarhúsi sínu á Skagen, nyrst á Jótlandi. Lars Løkke notfærði sér gjöfina árið 2016 (þá forsætisráðherra), Ekstrablaðið segir vikuleigu í svona húsi jafngilda 185 þúsundum íslenskra króna. Þeir Lars Løkke og John-Anker þekkjast semsagt vel en sá Lars Løkke er ekki forsætisráðherrann heldur prívatpersónan, segir Løkke.
Er eitthvað athugavert við að maður þekki mann? Þessari einföldu spurningu hefur Lars Løkke margoft svarað og ætíð neitandi. En það eru ekki allir sammála forsætisráðherranum, til dæmis margir þingmenn, sem telja þessi tengsl hans við kvótakóngana í meira lagi óeðlileg. Ekki síst í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur tregðast við að gera breytingar á kvótakerfinu en slíkar breytingar myndu gera það að verkum að stórútgerðarmenn gætu ekki haldið áfram að kaupa upp kvóta eins og þeim hefur reynst mögulegt allmörg undanfarin ár. Tregða ríkisstjórnarinnar þykir mörgum grunsamleg, sumir þingmenn segja kvótakóngana hafa Lars Løkke og ríkisstjórnina „í vasanum“. Því neitar Lars Løkke og segir að persónulegur kunningsskapur sinn við suma stórútgerðarmenn hafi engin áhrif á störf sín sem forsætisráðherra.
Tvisvar yfirheyrður af þingnefnd
Lars Løkke hefur tvisvar verið kvaddur fyrir þingnefnd til að svara fyrir hugsanleg tengsl sín við stórútgerðarmenn. Slíkir fundir kallast samrád, samráð, sem er í raun rangnefni, yfirheyrsla væri réttara heiti á fundum þessum. Fyrri fundurinn var í nóvember á síðasta ári og sá síðari fyrir nokkrum dögum. Þrátt fyrir að þingmenn hafi sótt hart að Lars Løkke hefur hann þvertekið fyrir að kunningsskapur ráði, eða hafi ráðið, nokkru um störf sín á ráðherrastóli. Spurningum um afmælisgjöfina (dvölina í sumarbústaðnum) neitaði Lars Løkke að svara og vísaði til reglna þingsins um einkamál þingmanna.
Hvað svo?
Danskir stjórnmálaskýrendur telja að þessu máli varðandi tengsl forsætisráðherrans og kvótakónganna sé lokið. Lars Løkke sitji áfram í forsætisráðuneytinu og staða hans í Venstre flokknum sé sterk. Hins vegar verði þetta mál ekki til að auka vinsældir hans meðal almennings en það láti Lars Løkke sér líklega í léttu rúmi liggja.