1.Launafólk í landinu
Stefnt er að því að að tekjuskattur sem leggst á einstaklinga muni verða 14,1 milljörðum króna hærri í ár en hann var í fyrra. Alls áætlar íslenska ríkið að ná inn 181,2 milljörðum króna í tekjuskatt sem leggst á einstaklinga í landinu á árinu 2018.
2. Fyrirtækin í landinu
Tekjuskattur sem leggst á lögaðila, fyrirtæki og félög landsins, dregst hins vegar saman á milli ára. Samkvæmt fjárlögum mun hann skila tveimur milljörðum krónum minna ríkiskassann í ár en hann gerði í fyrra. Alls munu lögaðilar greiða 73,5 milljarða króna í tekjuskatt á þessu ári. Þá munu tekjur af innheimtu tryggingargjalds hækka umtalsvert. Þær voru 89 milljarðar króna í fyrra en fjárlög ársins 2018 gera ráð fyrir að þær verði 96,4 milljarðar króna.
3. Bankar landsins
Þrátt fyrir að búið sé að semja við kröfuhafa föllnu bankanna, lyfta höftum að mestu og bankakerfið að stærstu leyti í eigu ríkisins þá er enn innheimtur 0,376 prósent bankaskattur af heildarskuldum fjármálafyrirtækja sem hafa heimild til að taka við innlánum. Þessi sérstaki skattur var fyrst lagður á árið 2010. Bankaskatturinn skilaði 8,8 milljörðum króna í ríkissjóð árið 2017 en á að skila 9,2 milljörðum króna í ár. Samtök fjármálafyrirtækja hafa sagt að þessi skattur geri það að verkum að bankar séu ekki samkeppnishæfir við aðra veitendur útlána. Því borga í raun viðskiptavinir bankanna bankaskattinn, að minnsta kosti að hluta, í gegnum lakari kjör en þeir gætu ella boðið.
4. Fjármagnseigendur
Tæpur helmingur allra fjármagnstekna sem verða til á Íslandi í fyrra renna til tæplega tvö þúsund framteljenda. Sá litli hópur er ríkasta eitt prósent landsmanna. Skatturinn skilaði mun meira í kassann árið 2017 en áætlanir gerðu ráð fyrir, eða samtals 36 milljörðum króna. Í ár er reiknað með því að fjármagnseigendur greiði 37,1 milljarð króna í skatt af peningunum sem þeir láta vinna fyrir sig, eða 1,1 milljarði króna meira en í fyrra.
5. Bifreiðareigendur
Það er dýrt að eiga bifreið. Það þarf að greiða olíugjald (hækkar úr 10,8 milljörðum króna í 11,4 milljarða króna), vörugjöld af bensíni (hækkar úr 12,8 milljörðum króna í 13,3 milljarða króna), kílómetragjald af stórum ökutækjum (hækkar úr 1.030 í 1.100 milljarða króna) og bifreiðagjald (hækkar úr 7,3 milljörðum króna í 7,5 milljarða króna) svo fátt eitt sé nefnt. Mest hækkar þó svokallað kolefnisgjald, sem er lagt á jarðefnaeldsneyti og jarðgas. Tekjur ríkissjóð vegna þess fara úr tæpum 3,7 milljörðum króna í 5,6 milljarða króna.
6. Húsnæðiskaupendur
Allir einstaklingar sem kaupa sér íbúðarhúsnæði þurfa að greiða 0,8 prósent af heildarfasteignarmati í svokallað stimpilgjald. Sú undantekning er til staðar að veittur er helmingsafsláttur þegar um fyrstu kaup er að ræða. Tekjur ríkissjóðs af innheimtu stimpilgjalda voru 4,8 milljarðar króna á árinu 2017. Fjárlög yfirstandandi árs gera ráð fyrir að þær tekjur verði 5,1 milljarður króna í ár.
7. Sjávarútvegsfyrirtæki
Ein mest ræddi tekjustofn íslenska ríkisins eru veiðgjöld, sem sjávarútvegsfyrirtæki greiða fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni. Sumum finnst gjöldin allt of há en ansi mörgum finnst þau hafa verið of lág. Þau hækka umtalsvert á milli ára. Í fyrra innheimti ríkissjóður sex milljarða króna í veiðigjöld en samkvæmt fjárlögum er gert ráð fyrir því að þau skili rúmum tíu milljörðum króna í ár.
8. Þeir sem reykja eða taka í vörina
Tóbaksgjald leggst á allar tóbaksvörur, hvort sem um er að ræða vindlinga og sígarettur eða hið grófkornaða neftóbak sem ÁTVR framleiðir og selur, og er sjaldnast kallað annað en „Ruddi“. Innheimta tóbaksgjalds skilaði um sex milljörðum króna í ríkissjóð í fyrra og áætlanir fyrir árið 2018 gera ráð fyrir að í ár muni tekjurnar aukast um 50 milljónir króna.
9. Þeir sem drekka áfengi
Allir sem flytja inn eða framleiða áfengi hér á landi til sölu eða vinnslu ber að greiða áfengisgjald. Einnig þeir sem flytja áfengi með sér eða fá það sent erlendis frá, til eigin nota. Áfengisgjald er greitt af neysluhæfu áfengi sem í er meira en 2.25 prósent af vínanda að rúmmáli. Þessu gjaldi er velt út í verðlag og því hækkar það útsöluverð til neytenda. Tekjur ríkissjóðs vegna áfengisgjalds voru 17,8 milljarðar króna árið 2017 en verða, samkvæmt fjárlögum, 18,6 milljarðar króna í ár.
10. Allir sem greiða útvarpsgjald til RÚV
Útvarpsgjaldið er lagt á einstaklinga 16-70 ára, sem eru með tekjuskattsstofn yfir tekjumörkum en undanþegnir frá gjaldinu eru elli- og örorkulífeyrisþegar sem dvelja á dvalar- og hjúkrunarheimilum og þeir sem eru 70 ára og eldri í lok tekjuársins Gjaldskyldan hvíli einnig á innlendum lögaðilum. Útvarpsgjaldið hækkar úr 16.800 krónum í 17.200 krónur á milli ára. Það þýðir að tekjur ríkissjóðs vegna innheimtu þess, sem eiga að renna óskiptar til RÚV, fara úr tæplega 4,1 milljarði króna í rúmlega 4,2 milljarða króna. Alls nemur hækkunin 140 milljónum króna.