Úr einkasafni

„Ísland er fallegt land en það er hægt að gera það enn fallegra“

Ung kona flutti til Íslands fyrir 14 árum síðan frá heimalandi sínu, Úganda. Hún hefur fundið fyrir fordómum frá Íslendingum þessi ár sem lýsa sér í fyrirframgefnum hugmyndum um hana og athugasemdum sem hún fær iðulega vegna útlits eða uppruna. Telur hún að þrátt fyrir að gott sé að búa hér á landi þá séu möguleikar til að gera enn betur.

Brenda Asiimire Einstæð tveggja barna móðir sem hefur verið búsett á Íslandi í yfir áratug. Hún er með B.A.-gráðu í blaðamennsku frá Úganda og ensku frá Háskóla Íslands.

Eftir að Brenda Asiim­ire flutti til Íslands hefur hún stundum upp­lifað sig sem þriðja flokks þegn í sam­fé­lag­inu. Hún segir að margt megi betur fara þegar kemur að inn­flytj­enda­málum hér á landi, allt frá við­horfi og sam­hygð heima­manna, rétt­indum erlends launa­fólks og við­ur­kenn­ingu á menntun þeirra. Brenda sett­ist niður með blaða­manni Kjarn­ans og lýsti sinni eigin reynslu af þessum fjórtán árum.

Ísland öruggur staður til að vera með börn

Brenda er með gráðu í blaða­mennsku frá háskóla í Úganda og B.A.-gráðu í ensku frá Háskóla Íslands. Hún seg­ist hafa litið á það sem mikið tæki­færi að koma til Íslands á sínum tíma. Fjöl­skylda hennar var ekki rík og taldi hún að eftir námið gæti hún unnið fyrir sér í fram­andi landi og sent pen­inga heim til systk­ina sinna, en for­eldrar hennar voru báðir látn­ir.

Rétt áður en hún útskrif­að­ist úr blaða­manna­nám­inu þá fékk hún vinnu í sjón­varpi og seg­ist hún hafa notið starfs­ins mik­ið. Aftur á móti hafi hún ekki fengið nægi­lega góð laun en hún þurfti að sjá fyrir systk­inum sín­um. „Svo þegar ég fékk tæki­færi til að koma hingað þá reikn­aði ég það út að ef ég færi til Íslands að vinna í ár og þá myndi fjöl­skylda mín verða vel sett. En eins og lífið er stundum þá ílengd­ist ég,“ segir Brenda.

Fyrsta árið eftir að hún kom til Íslands var hún dug­leg að vinna og sendi pen­inga heim til Úganda. Hún seg­ist ekki hafa náð að safna eins og hún ætl­aði sér á árinu og dvaldi hún því lengur en hugur stóð til. Hún kynnt­ist íslenskum manni og eign­að­ist með honum barn og síðar ann­að. Nú eru fjórtán ár liðin og lítur hún svo á að Ísland sé öruggur staður til að ala upp börn. Svo hún heldur kyrru fyr­ir, barn­anna vegna.

Aðgengi að menntun og lág glæpa­tíðni kostur

Brenda segir að löndin tvö séu gríð­ar­lega ólík. „Við ólumst upp á mjög opnu heim­ili, þar sem gestir fengu alltaf hlýjar mót­tök­ur. Við bjuggum í litlu húsi með tveimur svefn­her­bergjum og stofu. Við erum fjögur systk­inin en móðir mín var þannig gerð að hún opn­aði dyr sínar fyrir öllum sem þurftu á að halda. Svo á heim­ili með tveimur svefn­her­bergjum voru stundum fimmtán manns. Þetta var dag­legt líf okk­ar,“ segir hún og hlær.

Alltaf þegar hún kom heim úr skól­anum var húsið fullt af fólki sem dvaldi í mis­langan tíma. Hún segir að þetta líf hljómi hugs­an­lega ekki sem skemmti­legt en þarna hafi hún lært hversu gef­andi það er að hjálpa öðru fólki. Hún var 15 ára þegar móðir hennar lést og faðir hennar hugs­aði um börnin þangað til hann féll frá. Brenda segir að hann hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að koma þeim systkin­unum í gegnum nám, það hafi skipt hann máli.

Hún telur að menntun á Íslandi sé mun betri en í Úganda vegna þess að allir hafa sama aðgengi að mennt­un. Í Úganda séu gæði grunn­mennt­unar mjög mis­jöfn milli skóla. Aðeins á háskóla­stigi sé sam­ræmi í mennt­un.

Brenda telur að helsti kostur þess að búa á Íslandi, fyrir utan aðgengi að mennt­un, sé lág glæpa­tíðni. „Ég ólst upp við þann veru­leika dag­lega. Hér hugsum við ekki svo mikið um glæpi,“ segir hún.

Myndi gjarnan vilja vinna við blaða­mennsku

Áhug­inn fyrir blaða­mennsku byrj­aði þegar Brenda var í efri bekkjum grunn­skóla, að hennar sögn. „Ég hitti vin sem þekkti blaða­mann sem skrif­aði iðu­lega í eitt elsta dag­blaðið á svæð­inu. Ég kunni við skrif hans og las mikið eftir hann. Það kom síðan á dag­inn að hann bjó ekki svo langt frá skól­anum sem ég gekk í og ég fékk tæki­færi til að hitta hann,“ segir hún. Þetta veitti henni mik­inn inn­blástur og varð hún harð­á­kveð­inn í að verða blaða­mað­ur. „Hann gaf mér kraft­inn til þess.“

Mín reynsla er sú að þegar fólk lítur á mig þá detti því ekki í hug að ég sé menntuð.

Brenda segir að hún myndi gjarnan vilja vinna við það sem hún lærði en mögu­leik­arnir séu ekki marg­ir. Hún seg­ist ekki tala full­komna íslensku og hafi það verið henni hindr­un. „Ég hef enn ekki fundið leið til að nýta menntun mína sem skyld­i,“ segir hún og bætir við að ef tæki­færi gæf­ist til að skrifa á ensku þá myndi hún stökkva á það. „Mig dreymir um það.“

Þrepa­skipt­ing meðal útlend­inga á Íslandi

Að mati Brendu er þrepa­skipt­ing meðal útlend­inga á Íslandi. Ef þú kemur frá Banda­ríkj­unum eða Bret­landi þá ertu í fyrsta þrep­inu. Ef þú kemur frá Evr­ópu­sam­band­inu þá ertu í öðru þrepi. Þegar þú kemur frá Asíu eða Afr­íku þá ertu í því þriðja. „Mín reynsla er sú að þegar fólk lítur á mig þá detti því ekki í hug að ég sé mennt­uð,“ segir hún. Hún telur að fólk ætli sér ekki að vera dóna­legt en það ætti að hugsa sig betur um.

„Þegar ég leita að vinnu þá segir fólk iðu­lega við mig að kanna hvort ræst­inga­störf séu laus hjá hinu og þessu fyr­ir­tæki. Aldrei er spurt hvað ég vilji gera eða starfa við. Eða spurt hvaða menntun ég sé með,“ segir hún. Þetta eigi ekki við um íslenska fólkið sem vantar vinnu og þannig sé við­horf til þeirra mjög ólíkt. Aldrei muni fólk draga þá ályktun að Íslend­ing­ur­inn vilji vinna við ræst­ingar sem fyrsta val.

Brenda ásamt sonum sínum.
Úr einkasafni

Ónær­gætnin oft­ast ómeð­vituð

„Takið eitt and­ar­tak til að við­ur­kenna að ég sé mann­eskja og ein­blínið ekki á að ég sé frá Afr­íku. Spyrjið mig hvað ég hafi áhuga á að gera, hvaða reynslu ég hafi og hvaða menntun ég hafi, áður en þið ákveðið eitt­hvað um mig,“ biður hún. Brenda segir að þetta hafi iðu­lega hent hana og að stundum finn­ist henni það jafn­vel fynd­ið. Vegna þess að fólk er svo ónær­gætið að það fattar það ekki einu sinni.

Brenda telur að fólk finni afsak­anir fyrir þess­ari hegðun og fyrir litlar rasískar athuga­semd­ir; að fólk viti ekki bet­ur. Þessi umræða í kringum frá­sagnir kvenna af erlendum upp­runa í sam­bandi við #metoo er aftur á móti farin að segja til sín, að hennar mati. Fólk geri sér ekki grein fyrir þessu þegar það geri athuga­semdir varð­andi bak­grunn hennar og minni hana á að hún sé frá Afr­íku. Sumt þurfi ekki að láta út úr sér, t.d. niðr­andi athuga­semdir sem virð­ast sak­laus­ar.

Spyrjið mig hvað ég hafi áhuga á að gera, hvaða reynslu ég hafi og hvaða menntun ég hafi, áður en þið ákveðið eitthvað um mig.

Hún segir að fólk á Íslandi líti niður á útlend­inga. „Ekki endi­lega vilj­andi en það er alltaf þessi aðgrein­ing. Þú kemur frá Afr­ík­u,“ segir hún.

Hún seg­ist finna fyrir miklum sam­hljóm við sög­urnar sem erlendu kon­urnar hafa deilt á lok­aðri Face­book-­síðu. Hún bendir á að í stóra sam­heng­inu sé ljóst að kerfið sé að bregð­ast þessum kon­um.

Menntun nýt­ist ekki

Brenda reyndi að kom­ast í Háskóla Ísland í ein þrjú ár. Menntun hennar frá Úganda var ekki tekin gild fyrr en eftir mikla mæðu. Hún vildi bæta við sig menntun til að geta starfað við það sem hún hefur áhuga á. Svarið lá í því að ná sér í B.A.-gráðu frá HÍ. Við­brögðin við þeirri hug­mynd voru þó dræm, að hennar sögn. Hún segir að margir hafi haft efa­semdir um að gráða myndi hjálpa henni að fá vinnu en hún hélt sínu striki. Hún taldi að víst annað fólk gæti farið í háskól­ann og fengið vinnu eftir nám­ið, þá gæti hún gert slíkt hið sama.

Henni þótti miður að hún hefði ekki verið hvött til að afla sér meiri mennt­unar eins og aðr­ir. Þegar yngri sonur hennar var 6 mán­aða gam­all komst hún loks inn í skól­ann og bjó hún á stúd­enta­görðum á meðan hún var í námi.

„Ég tel að sam­fé­lagið sé sátt við gjörðir sín­ar. Það getur stað­fest menntun frá Evr­ópu en ekki Asíu og Afr­íku. Það mun kosta aðeins meira pen­inga og tíma að stað­festa menntun þaðan en við erum hér nú þeg­ar. Nýtið okk­ur!,“ segir hún.

Stétt­ar­fé­lögin verða að standa sig betur

Brenda gagn­rýnir stétt­ar­fé­lögin harð­lega fyrir að huga ekki betur að verka­fólk­inu sem vinnur lág­launa­störf á Íslandi. Lang­flestir séu útlend­ingar sem þekkja ekki rétt­indi sín eða hvert þeir eiga að leita ef eitt­hvað kemur upp á. Hún segir að vinnu­tím­inn sé langur og aðstaðan víða slæm. Sumir verði hrein­lega háðir vinnu­veit­enda og það sé alls ekki gott.

„Þau eru hrædd vegna þess að ef þau segja frá þá er mögu­leiki á að þau missi vinn­una,“ segir hún. Brenda telur að stétt­ar­fé­lögin geti vel lagt örlítið meira á sig þegar kemur að því að upp­lýsa launa­fólk og að ná til þessa við­kvæma hóps. Ef náð er til þeirra sé mögu­leiki á að koma í veg fyrir ýmiss konar vanda­mál. Birgja brunn­inn áður en barnið fellur í hann.

Þau eru hrædd vegna þess að ef þau segja frá þá er möguleiki á að þau missi vinnuna.
Brenda á góður rigningardegi með sonum sínu.
Úr einkasafni

Hún bendir einnig á að gott væri að auka fjöl­breytni innan stétt­ar­fé­lag­anna, þ.e. að fá fleiri útlend­inga til starfa þar. Með því skap­ist traust milli sam­fé­lags­hópa. „Við vitum að Íslend­ingar vilja hjálpa en við eigum erfitt með að treysta þeim,“ sagir hún og bætir við að þeir viti raun­veru­lega ekki af þján­ingum þeirra. Þeir geti hlustað á það sem Brenda segir og jafn­vel skilið hana en þeir geti ekki almenni­lega náð þessu. Þess vegna væri upp­lagt að ráða útlend­inga til að ná til ann­arra útlend­inga, til að mynda hjá stétt­ar­fé­lög­unum og fleiri stöð­um. „Gerið okkur að þátt­tak­endum í því sem er að ger­ast.“

„Fjöl­breytnin er fal­leg. Ísland er fal­legt land en það er hægt að gera það enn fal­legra,“ bætir hún við.

Fólk hrætt við að við­ur­kenna vanda­málið

Brenda segir að erfitt geti reynst fyrir fólk að við­ur­kenna vanda­málið og rang­læt­ið. „Ís­land er hið full­komna land, að sögn sumra. Og fólk er hrætt við að við­ur­kenna að svo sé ekki. En að við­ur­kenna mis­tök gerir landið ekki slæmt. Það veki fólk hins vegar til vit­und­ar,“ segir hún. Að við­ur­kenna mis­tökin og halda síðan áfram. Það sé svo ein­falt.

Útlend­inga­stofnun er ágæt stofn­un, að hennar mati, en bregst þó erlendu fólki að ein­hverju leyti. „Þegar ég ákvað að skilja við eig­in­mann minn þá hafði ég mínar ástæð­ur. Ég átti þá einn son sem var fjög­urra ára. Ég hafði unnið síðan ég kom til Íslands og hafði græna kortið á þessum tíma og sótt um rík­is­borg­ara­rétt. En þegar ég sótti um skilnað þá fékk ég viku síðar bréf frá Útlend­inga­stofnun þar sem þau báðu mig að skila græna kort­in­u,“ segir hún. Þetta hafi verið áfall fyrir hana og segir hún að margar aðrar leiðir hefðu verið til í stöð­unni. En þegar kerfið sé svona hugs­un­ar­laust þá ger­ist svona hlut­ir. Nauð­syn­legt sé í aðstæðum sem þessum að líta á heild­ar­mynd­ina.

Við erum ekki að biðja um mikið. En þetta er okkar veruleiki. Konur búa enn við hryllilegar aðstæður og þær þurfa að vita að þær geti komist út úr þeim.

Hún bendir á að konur í slæmum hjóna­böndum muni ekki greina frá reynslu sinni. Ein ástæðan fyrir því sé að þær eru hræddar við að verða reknar úr landi. Þetta sé ennþá erf­ið­ara þegar börn eru komin í spil­ið. Margir menn hóti að taka börnin frá þessum konum og að þeim verði vísað úr landi. „Þess vegna tala þær ekki,“ segir hún. Þetta hafi ber­sýni­lega komið í ljós við lestur #metoo-frá­sagn­anna enda hafi þær sem komust út úr slæmum hjóna­böndum getað látið í sér heyra. Brenda seg­ist vita um margar konur sem geti það aftur á móti ekki af hræðslu við afleið­ing­arn­ar. Þær búi við slæmar aðstæður og hafi engan stað til að leita skjóls.

„Þær þurfa hjálp. Við erum ekki að biðja um mik­ið. En þetta er okkar veru­leiki. Konur búa enn við hrylli­legar aðstæður og þær þurfa að vita að þær geti kom­ist út úr þeim,“ segir hún. Þær þurfi að vita að hlustað sé á þær og að mál þeirra verði skoðuð með heild­ar­mynd­ina í huga.

Af hverju að kjósa?

Margir útlend­ingar eru lítið upp­lýstir um kosn­inga­rétt sinn á Íslandi. Brenda segir að mik­il­vægt sé að talað sé til allra, þar á meðal útlend­inga, með hags­muni þeirra að leið­ar­ljósi. „Hvað ætlar rík­is­stjórnin eða sveit­ar­fé­lagið að gera fyrir mig?“ spyr Brenda. Hún bendir á að auð­vitað séu ákveðin mál sem komi öllum við, til að mynda skóla- og heil­brigð­is­mál, en að lítið sé gert til að höfða til minni­hluta­hópa. Hún segir að margir útlend­ingar hugsi sem svo að það sé óþarfi að kjósa vegna þess að ekk­ert sé hvort sem er gert fyrir þá. Ekki þurfi mikið til, til að fá fólk að kjör­köss­un­um. Aðeins smá athygli og sam­tal.

Við þurfum fjölbreyttar raddir og skoðanir.

Hún bendir á að útlend­ingar séu margir á Íslandi með kosn­inga­rétt og því ætti það að vera hagur stjórn­mála­manna að reyna að ná til þessa hóps. Hún vill sjá útlend­inga í flokk­unum tala þeirra máli. „Við þurfum fjöl­breyttar raddir og skoð­an­ir,“ segir hún. Einnig vill hún sjá fleiri venju­lega Íslend­inga í póli­tík, ekki ein­ungis þá sem vel eru sett­ir. Með fjöl­breytt­ari hóp sé hægt að hlusta betur á fólk­ið. „Nálgastu það þar sem það er. Ekki þar sem þú heldur að það sé,“ segir hún.

Umburð­ar­lyndi þarf að sjást í verki

Brenda telur að munur sé á sjálfs­mynd Íslend­inga og hvernig þeir eru í raun­veru­leik­an­um. „Til þess að vera umburð­ar­lyndur þarftu að sýna það í verki,“ segir hún. Brenda þekkir til margra erlendra verka­manna sem vinna á allt of lágum launum á meðan eig­end­urnir maka krók­inn. Þetta kall­ist að nýta sér aðstæður fólks og sé lít­il­mann­legt. „Ég hef séð yfir­menn líta niður á und­ir­menn sína í stað­inn fyrir að hjálpa þeim,“ segir hún. Hennar reynsla er sú að yfir­menn komi mun betur fram við und­ir­menn sína sem eru íslenskir en þá sem eru erlend­ir.

„Það er ein­ungis hug­mynd í hugum fólks að það sé umburð­ar­lynt,“ segir hún. Þegar fólk hagi sér ekki eftir hug­mynd­unum eða sýni það í verki þá sé það for­dóma­fullt í raun. Hún telur að mik­il­vægt sé að við­ur­kenna þetta og að fólk sem búsett er hér sé ekki jafnt. Hér ríki ekki raun­veru­legt jafn­rétti.

Aðgerðir stjórn­valda nauð­syn­legar

Brenda er sæmi­lega bjart­sýn fyrir hönd útlend­inga á Íslandi. Hún seg­ist vona að hlut­irnir breyt­ist á næst­unni en að það sé erfitt að sjá það fyr­ir. „En ef við mót­mælum og komum með lausnir til að hjálpa til þá er von um að á end­anum muni hlut­irnir breytast,“ segir hún.

Við­brögðin við frá­sögn kvenn­anna eru áhuga­verð, að mati Brendu. Hún segir að ákveðin þögn hafi ríkt og að fólk hafi hrein­lega verið að átta sig á þessu öllu saman og hver væru réttu við­brögðin við frá­sögn­un­um. Auð­vitað sé gott að fólk sé með­vit­aðra um hvað sé að ger­ast í heimi erlendra kvenna en nauð­syn sé á aðgerðum stjórn­valda. Stjórn­mála­menn séu þeir sem geti breytt lögum og þar af leið­andi aðstæðum þessa fólks. En Brenda spyr sig hversu langt þeir séu til­búnir að ganga í þágu mál­staðar erlendra kvenna og karla. Og að við­ur­kenna að stofn­anir séu að bregð­ast þessu fólki.

En ef við mótmælum og komum með lausnir til að hjálpa til þá er von um að á endanum muni hlutirnir breytast.

Hún á þessa tvo drengi, fjög­urra og níu ára, sem eiga íslenska feður og þekkja ekk­ert annað en að búa á Íslandi. „Það sem ég vil ekki er að börnin mín þurfi að velja á milli þess að vera Íslend­ingar eða frá Úganda. Ég vil að þau geti valið að segj­ast vera frá báðum lönd­um,“ segir hún. Hvor­ugt rík­is­fangið skil­greini hver þau eru.

Brenda segir að þetta land gæti verið það besta til að búa á. Að það sé það að vissu leyti. En það gæti verið enn betra.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal