Þegar íslenska ríkið samdi við kröfuhafa föllnu bankanna um þær eignir sem þeir þurftu að skilja eftir til að mega fara með aðrar eignir sínar út úr íslensku hagkerfi, var áætlað virði þeirra eigna sem ríkið fékk í sinn hlut, svokallaðar stöðugleikaeignir, áætlað 384,3 milljarðar króna.
Virði þessara eigna hefur hækkað umtalsvert síðan að þær voru afhentar, í byrjun árs 2016 og áætlað er að í lok þessa árs verði það 457,8 milljarðar króna, samkvæmt frétt fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Það þýðir að eignirnar hafa hækkað um 73,6 milljarða króna í virði frá því að ríkið fékk þær í hendur.
Þar munar langmest um hækkun á eignum sem tengjast þeim eignarhlutum í viðskiptabönkunum Íslandsbanka, sem ríkið eignaðist að fullu, og Arion banka, en ríkið fékk afhent sérstakt skuldabréf upp á 84 milljarða króna vegna hans auk þess sem gerður var afkomuskiptasamningur sem metinn var á 19,5 milljarða króna. Samanlagt virði framlaga vegna viðskiptabankanna var metið á 288,2 milljarða króna í byrjun árs 2016 en er nú metð á 340,4 milljarða króna. Það er hækkun upp á 52,2 milljarða króna.
Aðrar framseldar eignir, fjársópseignir og laust fé sem var afhent hafa einnig hækkað um samtals 20,5 milljarða króna í virði.
Seldu Lyfju og ætla að slíta Lindarhvoli
Í gær var greint frá því að félagið Lindarhvoll, sem stofnað var til að annast umsýslu og sölu stöðugleika eigna sem ríkið fékk afhent í kjölfar samkomulags við kröfuhafa föllnu bankanna, hafi lokið hlutverki sínu og verði slitið.
Alls nemur andvirði þeirra stöðugleikaeigna sem búið er að innleysa um 207,5 milljörðum króna en frátalin eru framlög vegna viðskiptabankanna Arion banka og Íslandsbanka og aðrar óinnleystar eignir.
Lindarhvoll samþykkti að selja Lyfju hf. til félagsins SID ehf., í eigu SIA III slhf., Þarabakka ehf. og Kasks ehf., á mánudag. SID hafði átt hæsta tilboðið í opnu söluferli fyrirtækisins. Kaupsamningurinn er gerður með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Kaupveðrið hefur ekki verið gefið upp.
Búið að ráðstafa 204 milljörðum
Alls hefur ríkissjóður ráðstafað um 204 milljörðum króna af tekjum vegna stöðugleikaeigna. Um 130 milljörðum króna hefur verið ráðstafað beint til niðurgreiðslna á skuldum ríkissjóðs, 34 milljörðum króna hafa farið í að mæta tapi vegna lækkunar á stofns til sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki og um 40 milljarðar króna hafa farið í að lækka lífeyrisskuldbindingar gagnvart Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR). Sú ráðstöfun lækkar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs við B-deild LSR um áðurgreinda upphæð.