Sá þingmaður sem fékk hæstu árlegu endurgreiðsluna vegna aksturskostnaðar í fyrra fékk samtals rúmlega 4,6 milljónir króna endurgreiddar. Það þýðir að þingmaðurinn fékk um 385 þúsund krónur á mánuði í endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna keyrslu sinnar. Þetta kemur fram í svari forseta Alþingis við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata, um aksturkostnað þingmanna.
Í svörum forseta er greint frá greiðslum til þeirra tíu þingmanna sem fengu hæstu endurgreiðslurnar vegna aksturs á undanförnum árum. Nöfn þeirra eru ekki birt né er greint frá því hvaða kjördæmi þingmennirnir tilheyra, þar sem það er talið fara nærri persónugreinanlegum upplýsingum.
Samkvæmt svörum forseta er einn þingmaður sem skar sig verulega úr hvað varðar akstur á eigin bifreið, og endurgreiðslur vegna þeirra, á síðasta ári. Sá fékk rúmlega 4,6 milljónir króna í endurgreiðslu vegna þess að hann keyrði alls 47.644 kílómetra á árinu 2017.
Til samanburðar má nefna að Hringvegurinn, Þjóðvegur 1, er 1.322 kílómetrar. Umræddur þingmaður keyrði því tæplega 36 sinnum hringinn í kringum landið á síðasta ári.
Keyrði þriðjungi meira en næsti maður
Sá þingmaður sem keyrði næst mest keyrði 35.065 kílómetra og fékk tæplega 3,5 milljónir króna í endurgreiðslur frá ríkinu vegna þess. Keyrsla þingmannsins í öðru sæti var 33 prósent minni en keyrsla þess sem trónir á toppnum. Alls fengu þeir þingmenn sem kröfðust hæstu endurgreiðslunnar vegna aksturs 29,2 milljónir króna í endurgreiðslur í fyrra.
Endurgreiðslurnar hafa dregist mikið saman á undanförnum árum eftir að þingmenn voru sérstaklega hvattir til þess að notast frekar við bílaleigubíla en að nota eigin bíla við akstur um kjördæmið og krefjast síðan endurgreiðslu. Árið 2013 nam endurgreiðsla til þingmanna vegna aksturskostnaðar 59,8 milljónum króna og keyrðir kílómetrar sem krafist var endurgreiðslu fyrir voru alls 529,6 þúsund, eða tæplega helmingi fleiri en þeir voru í fyrra.
Á árinu 2016 fóru tvær af hverjum þremur krónum sem voru endurgreiddar vegna aksturskostnaðar til þingmanna Suðurkjördæmis. Þrátt fyrir margar fyrirspurnir, frá þingmönnum og fjölmiðlum, þá hefur Alþingi ætíð neitað að greina frá því hvað hver þingmaður hefur fengið í akstursgreiðslur.
Allskyns viðbótargreiðslur
Þingfararkaup alþingismanna er 1.101.194 krónur á mánuði. Til viðbótar fá varaforsetar Alþingis 15 prósent álag á þingfararkaup, formenn fastanefnda fá sama álag ofan á sín laun, varaformenn nefndanna fá tíu prósent og aðrir varaformenn fimm prósent. Þeir þingmenn sem eru formenn stjórnarflokka,en eru ekki ráðherrar, fá greitt 50 prósent álag á þingfararkaup.
Auk þess fá þingmenn landsbyggðarkjördæma greitt 134.041 krónur í húsnæðis- og dvalarkostnað ef þeir halda ekki annað heimili í höfuðborginni. Þá fá þeir einungis 53.616 krónur í viðbót. Allir þingmenn fá greiddar 30 þúsund krónur á mánuði í fastan ferðakostnað og 40 þúsund krónur í svokallaðan starfskostnað. Því eru laun þingmanna hærri, og í mörgum tilfellum mun hærri, en þingfarakaup segir til um.
Skrá sjálfir aksturinn
Akstur einstakra þingmanna innan lands fer svo eftir mjög skýrum reglum. Litið er svo á að aksturinn tengist starfi alþingismanna fyrir umbjóðendur, varði samband þeirra við kjósendur og sé því þeirra mál eins og ýmislegur annar kostnaður við starf þingmanna.
Þingmennirnir sjálfir skrá hversu mikið þeir keyra vegna starfa sinna og fá svo kostnaðinn vegna akstursins endurgreiddan. Sá sem keyrði mest í fyrra fékk, líkt og áður sagði, um 385 þúsund krónur endurgreiddar á mánuði vegna aksturs í starfi.
Sá sem keyrði næst mest fékk um 288 þúsund krónur í endurgreiðslur á mánuði að meðaltali og sá sem situr í þriðja sæti um 257 þúsund krónur á mánuði.