Íslensk stjórnvöld hafa hvorki látið fara fram sérstakt mat á ávinningi neytenda né á ávinningi bænda af tilurð búvörusamninga. Hins vegar hafi stjórnvöld látið vinna úttektir á árangri búvörusamninga á síðastliðnum tveimur áratugum. Í aðdraganda þeirra samninga sem undirritaðir voru síðasta hafi til að að mynda verið byggt á þremur skýrslum og hafi skýrslunnar legið til grundvallar þeim samningum. Þetta kemur fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við fyrirspurn Þorsteins Víglundssonar, þingmanns Viðreisnar, um búvörusamninga.
Tvær skýrslnanna sem vísað er til voru unnar af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Þær fjalla um aðlögunarsamning ríkis og garðyrkjubænda (kom út í nóvember 2013) og mjólkurframleiðslu á Íslandi (kom út í júní 2015). Sú þriðja er unnin af Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri og fjallar um markmið og forsendur sauðfjárræktarsamnings (kom út í október 2015).
Tíu ára samningar
Nýjustu búvörusamningarnir voru undirritaðir 19. febrúar 2016 af fulltrúum bænda annars vegar og fulltrúum ríkisins. Fyrir hönd ríkisins skrifuðu Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi landbúnaðarráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, undir samninganna.
Þeir voru afar umdeildir og vöktu upp miklar deilur í samfélaginu. Þrennt skipti þar mestu. Í fyrsta lagi lengd þeirra, en samningarnir bundu hendur ríkisstjórna í að minnsta kosti þrjú kjörtímabil. Í öðru lagi feikilega hár kostnaður sem greiddur er úr ríkissjóði til að viðhalda kerfi sem að mati margra hagsmunaaðila er fjandsamlegt neytendum og bændum sjálfum og gagnast fyrst og síðast stórum milliliðsfyrirtækjum eins og Mjólkursamsölunni, Kaupfélagi Skagfirðinga og Sláturfélagi Suðurlands. Í þriðja lagi var gagnrýnt að engir aðrir en bændur og forsvarsmenn ríkisins hafi verið kallaðir að borðinu þegar samningarnir voru undirbúnir.
Greiðslur úr ríkissjóði vegna samningsins nema 132 milljörðum króna á samningstímanum, eða að meðaltali 13,2 milljarðar króna á ári. Auk þess eru samningarnir tvöfalt verðtryggðir. Þ.e. þeir taka árlegum breytingum í samræmi við verðlagsuppfærslu fjárlaga og eru „leiðréttir“ ef þróun meðaltalsvísitölu neysluverðs verður önnur en verðlagsforsendur fjárlaga á árinu.
Í samningunum er stefnt að því að kvótakerfi í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt verði lagt niður. Hins vegar hefur verið ákveðið að halda núverandi stöðu óbreyttri um einhvern tíma og setja ákvörðun um afnám kvótakerfisins í atkvæðagreiðslu meðal bænda árið 2019.
Búvörusamningarnir eru fjórir samningar: Rammasamningur um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins og samningar um starfsskilyrði nautgriparæktar, sauðfjárræktar og garðyrkju.
Svört skýrsla um mjólkurframleiðslu
Undirritun samninganna vakti strax gríðarlega hörð viðbrögð. Sú gagnrýni snéri fyrst og síðast að þeim upphæðum sem þar eru undir og tímalengd samningsins. Þá var harðlega gagnrýnt að hagsmunir neytenda hefðu verið hundsaðir við gerð þeirra. Var þar meðal annars vísað í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann um mjólkurvöruframleiðslu á Íslandi og kom út í júni 2015. Skýrslan er ein þeirra sem ráðherra segir í svari sínu við ofangreindri fyrirspurn að hafi verið lögð til grundvallar við gerð búvörusamninga. Niðurstaða hennar var hins vegar nokkuð skýr: Íslenska kerfið er meingallað og afar kostnaðarsamt fyrir ríkið og neytendur.
Í skýrslunni segir að það kerfi sem er við lýði geri það að verkum að íslenska ríkið og eigendur þess, íslenskir neytendur, þurfi að borga um átta milljörðum krónum meira fyrir framleiðslu á henni en ef mjólkin hefði einfaldlega verið flutt inn frá öðru framleiðslulandi á árunum 2011 til 2013. Ríkið og neytendur borguðu 15,5 milljarða króna fyrir mjólkina á tímabilinu en innflutt mjólk, með flutningskostnaði, hefði kostað 7,5 milljarða króna. Reyndar var það svo að á tímabilinu sem um ræðir var framleitt meira af mjólk hérlendis en neytt var af henni. Neysla Íslendinga hefði einungis kostað tæplega 6,5 milljarða króna á ári. Offramleiðsla á niðurgreiddri mjólkinni kostaði neytendur og ríkið því milljarð til viðbótar.
Bændur geta hafnað endurskoðun
Í búvörusamningum er gert ráð fyrir því að hægt sé að endurskoða samninganna á samningstímanum. Fyrstu endurskoðun á að ljúka fyrir árslok 2019. Samráðshópur um endurskoðun búvörusamninga á að vinna þá vinnu.
Það er hins vegar undir bændum komið hvort að samningarnir verði endurskoðaðir eða ekki. Þeir eiga þess kost að kjósa um nýjan búvörusamning eða viðbætur við fyrri samninga. Hafni þeir mögulegum breytingum sem sem gerðar verða við endurskoðunina 2019 verður aftur sest niður og leitað frekari samninga.
Því er ljóst að Bændasamtökin geta einhliða hafnað öllum þeim breytingum sem lagðar verða til við endurskoðun búvörusamninga árið 2019 ef aðilar þeirra eru þeim mótfallnir. Hafni þeir öllum endurskoðunartillögum munu samningarnir gilda til þeirra tíu ára sem þeir eru gerðir.
Þrír hópar á rúmu ári
Frá haustinu 2016 hafa þrír samráðshópar um endurskoðun búvörusamninga verið skipaðir af þremur mismunandi ríkisstjórnum. Það er til merkis um hversu pólitískt málið er.
Gunnar Bragi Sveinsson, fráfarandi ráðherra málaflokksins, lauk upphaflega við að skipa í samráðshópinn 18. nóvember 2016, þremur vikum eftir kosningar og mánuði eftir að skipan hans átti upphaflega að liggja fyrir. Af þeim tólf fulltrúum sem skipaðir voru í hópinn voru átta fulltrúar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis eða Bændasamtaka Íslands, þeir sömu og gerðu búvörusamninganna í febrúar 2016 sem til stendur að endurskoða. Launþegar, atvinnulífið og neytendur áttu samtals fjóra fulltrúa.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem tók við sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í janúar 2017, endurskipaði í samráðshópinn. Fulltrúum var fjölgað úr tólf í þrettán. Umhverfisráðherra tilnefndir einn fulltrúa og Félag atvinnurekenda einn, til viðbótar þeim sem þegar voru skipaðir samkvæmt tilnefningu. Þá var skipan þriggja fulltrúa af fimm sem fyrri ráðherra skipaði án tilnefningar afturkölluð og nýir fulltrúar skipaðir í staðinn.
Kristján Þór, núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, endurskipaði síðan hópinn enn á ný í síðustu viku. Nú eru átta manns í honum og tveir formenn, þau Brynhildur Pétursdóttir framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna og Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formaður Bændasamtakanna.
Auk þess eru í hópnum Þórlindur Kjartansson, skipaður af landbúnaðarráðherra, Hafdís Hanna Ægisdóttir, skipuð af umhverfis- og auðlindaráðherra, Jóhanna Hreinsdóttir skipuð af Samtökum afurða í mjólkuriðnaði, Halldór Árnason skipaður af Samtökum atvinnulífsins, Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtakanna og Elín Heiða Valsdóttir einnig skipuð af Bændasamtökunum.