Fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem fer með eignarhluti íslenska ríkisins í fyrirtækjum sem það á hlut í sendi tilmæli til stjórna stærstu fyrirtækja sem eru í opinberri eigu í febrúar 2017. Samkvæmt þeim tilmælum voru stjórnirnar beðnar um að stilla launahækkunum forstjóra fyrirtækjanna í hóf þegar ákvörðunarvald um starfskjör flyttist frá kjararáði til stjórnanna.
Samkvæmt heimildum Kjarnans voru tilmælin ítrekuð sumarið 2017, áður en að breyting á lögum um kjararáð tók gildi 1. júlí það ár. Um miðjan ágúst 2017 voru síðan stjórnarformenn stærstu fyrirtækjanna sem eru í opinberri eigu kallaðir á fundi í fjármála- og efnahagsráðuneytinu til að ítreka áhersluna enn einu sinni. Á þann fund mættu meðal annars stjórnarformenn úr Isavia, Landsneti, Rarik og Íslandspósts.
Stjórnarformenn þeirra tveggja banka sem íslenska ríkið á að öllu leyti, Landsbankans og Íslandsbanka, voru ekki kallaðir til fundar í ráðuneytinu þar sem sérstök stofnun, Bankasýsla ríkisins, fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Fjármála- og efnahagsráðherra hverju sinni á því ekki að skipta sér með beinum hætti að rekstri þeirra.
Þegar tilmælin voru send var Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsmálaráðherra.
Landsvirkjun líka kölluð fyrir
Stjórnarformaður Landsvirkjunar, Jónas Þór Guðmundsson, komst ekki á fundinn sem haldin var með fulltrúa stjórnar þess fyrirtækis en í hans stað kom Haraldur Flosi Tryggvason, þá varaformaður stjórnar, á fund ráðuneytisins.
Samkvæmt heimildum Kjarnans taldi stjórn Landsvirkjunar að nauðsynlegt væri að hækka laun Harðar Arnarsonar, forstjóra fyrirtækisins, umtalsvert þegar vald yfir launakjörum hans flyttist frá kjararáði.
Mikið launaskrið ríkisforstjóra
Kjarninn birti fyrr í dag fréttaskýringu um áhrif þess að lögum um kjararáð var breytt með lögum sem samþykkt voru í lok árs 2016. Tilgangur breytinganna var að fækka verulega þeim sem kjararáð ákveður laun og önnur starfskjör og færa ákvarðanir um slíkt annað. Á meðal þeirra sem fluttust þá undan kjararáði voru fjölmargir forstjórar fyrirtækja í opinberri eigu.
Í kjölfar þess hafa laun margra ríkisforstjóra rokið upp. Það hafa laun stjórnarmanna í fyrirtækjum í eigu hins opinbera, sem skipaðir eru af stjórnvöldum, einnig gert.
Í fréttaskýringu Kjarnans sagði m.a. frá ofangreindum launahækkunum forstjóra Landsvirkjunar, að laun forstjóra Íslandspósts hefðu hækkað um 17,6 prósent milli ára, að bankastjóri Landsbankans hafi hækkað í launum um 21,7 prósent, að laun forstjóra Landsnets hafi hækkað um rúm tíu prósent og að komið hafi verið í veg fyrir að laun bankastjóra Íslandsbanka lækkuðu umtalsvert.