Már Guðmundsson seðlabankastjóri mun ekki verða skipaður aftur í embættið þegar öðru skipunartímabili hans lýkur í ágúst 2019. „Ég hlakka mjög til að hætta.“ Þetta kom fram í sjónvarpsþætti Kjarnans á Hringbraut sem frumsýndur var i gærkvöldi.
Már segir að hann hafi á sínum tíma sagt að hann ætlaði sér að losa höftin áður en að hann hætti. Enn sé „smá aflandskrónustabbi eftir“ og allur haftalagabálkurinn virkur. Hann sér fyrir sér að það muni taka lungað af þessu ári að klára þessi mál, þótt endanlega ákvörðun um það liggi hjá Alþingi. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan:
Hann telur að fólk geti ekki setið mjög lengi í stóli seðlabankastjóra. „Mitt mat er það að í gamla daga var hægt að vera 30 ár í starfi sem þessu. En það er ekki hægt lengur. Það er tími fyrir allt.“Már segir að þótt nægt framboð sé af fólki sem telur sig geta orðið næsti seðlabankastjóri þá sé ekki víst að raunverulegt framboð af kandídötum í starfið sé mikið.
Ætlaði mögulega að hætta fyrir lok skipunartímans
Már var upphaflega skipaður í stöðu seðlabankastjóra árið 2009. Hann var svo endurskipaður í starfið 2014, á miklum umrótstíma þegar enn átti eftir að klára lykilmál tengd losun hafta. Miklar vangaveltur voru um það í aðdraganda skipunar hans hvort að hann nyti stuðnings þáverandi stjórnarflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem þá mynduðu ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Í fréttatilkynningu sem send var út 15. ágúst 2014, þegar Már var endurráðinn kom fram í skipunarbréfi Bjarna Benediktssonar, þáverandi og núverandi fjármála- og efnahagsráðherra, að vinna væri hafin við heildarendurskoðun laga um Seðlabanka Íslands. Búist var við því að endurskoðunin myndi leiða af sér breytingar varðandi stjórnskipun bankans, t.d. fjölgun seðlabankastjóra að nýju, og að staða Más yrði því auglýst til umsóknar á ný áður en fimm ára skipunartími hans myndi renna út.
Nefnd um heildarendurskoðun á lögum um Seðlabanka Íslands skilaði af sér í september 2015. Endurskoðun á starfsemi bankans hefur ekki átt sér stað.
Katrín skipar næsta seðlabankastjóra
Þegar ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar var mynduð í byrjun árs 2017 voru málefni Seðlabanka Íslands færð úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu yfir í forsætisráðuneytið. Þau fylgdu þar með Bjarna sem færði sig á milli sömu ráðuneyta. Ef sú ríkisstjórn hefði setið heilt kjörtímabil hefði það orðið hlutverk Bjarna að skipa næsta seðlabankastjóra. Ríkisstjórnin lifði hins vegar ekki árið og sprakk um miðjan september 2017.
Í stjórnarmyndunarviðræðum eftir síðustu kosningar lagði Katrín Jakobsdóttir, samkvæmt heimildum Kjarnans, áherslu á að málefni Seðlabanka Íslands yrðu áfram í forsætisráðuneytinu eftir að hún myndi taka við því. Það varð ofan á. Hún mun því skipa eftirmann Más þegar að því kemur. Þ.e. ef ríkisstjórnin situr enn á þeim tíma.