Glitnir Holdco vill ekki upplýsa um hvað valdi því að ekki hefur verið farið fram á lögbann á umfjöllun annarra fjölmiðla en Stundarinnar og Reykjavík Media sem unnið hafa fréttir úr gögnum sem fjalla um viðskipta- og einkamálefni Glitnis.
Ólafur Eiríksson, lögmaður Glitnis HoldCo, segir í svari við fyrirspurn Kjarnans um málið að umbjóðandi sinn muni ekki tjá sig í fjölmiðlum um „dómsmál gegn Stundinni Reykjavík Media eða tengd atriði á meðan málið er rekið fyrir dómstólum.“
Þrír aðrir fjölmiðlar hafa birt fréttir um viðskipti viðskiptavina Glitnis sem byggja á gögnum innan úr Glitni um málefni viðskiptavina bankans á meðan hann var starfandi eða um rannsóknir og greiningar sem gerðar voru á viðskiptaháttum bankans eftir að hann féll.
Í desember 2016 birtu miðlar 365 miðla og Kastljós RÚV fréttir um fjármál hæstaréttardómara sem voru í viðskiptum við Glitni. Þá var gagnaleki kærður til Fjármálaeftirlitsins sem vísaði því máli síðan til héraðsaksóknara. Það mál var fellt niður í janúar 2018, m.a. eftir að á þriðja tug manns, meðal annars blaða- og fréttamenn, voru kallaðir til skýrslutöku. Þær skýrslutökur skiluðu engum upplýsingum um hver hefði dreift upplýsingunum úr Glitni sem fréttirnar byggðust á.
Fleiri miðlar hafa sagt fréttir úr gögnum frá Glitni
Í byrjun október 2017 hóf Stundin, í samstarfi við Reykjavík Media, umfjöllun um viðskipti Bjarna Benediktssonar, þá forsætisráðherra en nú fjármála- og efnahagsmálaráðherra, fyrirtæki sem hans tengdist, fjölskyldu hans og viðskiptafélaga sem byggði á gögnum innan úr Glitni.
Glitnir HoldCo tilkynnti um gagnaleka vegna þeirrar umfjöllunar til Fjármálaeftirlitsins 13. október 2017. Í kjölfarið var farið fram á lögbann á fréttaflutning miðlanna sem var samþykkt af sýslumanni höfuðborgarsvæðisins. Síðan það gerðist hafa miðlarnir tveir ekki mátt flytja fréttir upp úr gögnunum.
Glitnir HoldCo höfðaði staðfestingarmál fyrir héraðsdómi gegn Stundinni og Reykjavik Media þar sem farið var fram á að lögbannið á fréttaflutninginn yrði staðfest og að miðlarnir yrðu að afhenda öll þau gögn sem þeir hefðu í fórum sínum sem kæmu innan úr Glitni. Héraðsdómur hafnaði þeirri kröfu með afgerandi hætti í byrjun febrúar en niðurstöðu hans var áfrýjað til Landsréttar.
Fengu upplýsingar um umfang gagna
Í dómi héraðsdóms í staðfestingarmálinu koma fram upplýsingar sem eiga að rökstyðja það að Glitnir HoldCo hafi farið fram með þessum hætti gagnvart Stundinni og Reykjavik Media, en ekki farið fram á lögbann á RÚV og miðla 365 þegar þeir fluttu fréttir úr gögnum Glitnis í desember 2016.
Þar segir að Glitnir HoldCo hafi fengið „það staðfest að upplýsingarnar einskorðuðust ekki við þá einstaklinga sem þegar hefði verið fjallað um heldur væru þetta upplýsingar um þúsundir fyrrverandi og núverandi viðskiptamanna stefnanda, þar með talið upplýsingar um viðskipti aðila í einkabankaþjónustu, viðskipti aðila með hlutabréf í Glitni á árunum 2003 til 2008 og upplýsingar um viðskipti einstaklinga og lögaðila í sjóðum sem stefnandi hafi rekið. Stefnandi kveður upplýsingarnar ná yfir nokkurra ára tímabil og að þær séu verulega ítarlegar. Þetta séu meðal annars hreyfingalistar, útprentanir, vinnuskjöl, viðskiptayfirlit og tölvuskeyti fjölda starfsmanna. Vegna þessa hafi stefnandi talið nauðsynlegt að grípa strax til aðgerða.“
Óskuðu eftir ritstjórnarvaldi
Þrátt fyrir að Glitnir HoldCo taki fram að nýjar upplýsingar um umfang gagna hafi ráðið því að farið var fram á lögbann á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavik Media þá var ekki farið fram á lögbann á fréttaflutning RÚV og Kjarnans, sem fluttu fréttir byggðar á gögnum úr Glitni HoldCo, eftir að lögbannið var samþykkt. Báðir miðlarnir gátu, og geta, því flutt áframhaldandi fréttir upp úr þeim gögnum sem þeir hafa undir höndum kjósi þeir svo. Það hefur hvorugur þeirra gert.
Kjarnanum barst þess í stað bréf frá lögmanni Glitnis þar sem farið var fram á að Kjarninn myndi veita „Í fyrsta lagi upplýsingar um hvort frekari birting úr umræddum gögnum sé fyrirhuguð. Hér átt við allar fréttir sem byggja á upplýsingum og/eða gögnum frá Glitni eða úr kerfum þess.[...]Í öðru lagi er þess farið á leit við Kjarnann að ef frekari birting úr framangreindum gögnum er fyrirhuguð að umbjóðanda okkar, Glitni, verði tilkynnt fyrir fram með tveggja sólarhringa fyrirvara að slík birting standi til.“
Í niðurlagi bréfsins sagði að Glitnir HoldCo áskildi sér rétt til að grípa til allra lögmæta aðgerða vegna birtingar Kjarnans á umræddum trúnaðarupplýsingum. Það hefur félagið ekki gert.