Stuðningur við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, sem í sitja Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hefur fallið um 13,7 prósentustig frá áramótum. Það er meira fall í stuðningi á fyrstu fjórum mánuðum ríkisstjórnar en hjá nokkurri annarri ríkisstjórn sem setið hefur frá aldarmótum. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup sem birtur var í gær.
Sú sem kemst næst ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur í töpuðum stuðningi á fyrstu mánuðum starfsævi sinnar er ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem tók við völdum vorið 2013. Hún tapaði 13,4 prósentustigum af stuðningi sínum á fyrstu fjórum mánuðum. Á meðal fyrstu verkefna sem sú ríkisstjórn réðst í var að lækka veiðigjöld á útgerðir.
Stuðningur við ríkisstjórnina mældist 74,1 prósent í lok síðasta árs, þegar ríkisstjórnin hafði starfað í um mánuð. Síðan þá hefur hann dalað með hverri könnuninni sem gerð hefur verið og mældist 60,4 prósent í þeirri sem var birt í gær.
Ríkisstjórn Katrínar hefur þurft að takast á við erfið mál eins og eftirköst Landsréttarmálsins og vantrauststillögu á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra. Þá kom upp ágreiningur þvert á hefðbundnar víglínur stjórnar og stjórnarandstöðu í síðustu viku þegar minnihluti þingmanna, að mestu úr Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Flokki fólksins, kom í veg fyrir að meirihlutavilji næði fram að ganga í máli sem snerist um að lækka kosningaaldur í komandi sveitastjórnarkosningum niður í 16 ár. Það var gert með málþófi sem leiddi til þess að líkast til verður ekki hægt að afgreiða málið fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
Að öðru leyti er fá af helstu áherslumálum ríkisstjórnarinnar komin fram. Það er þó von á fjármálaáætlun hennar til næstu fimm ára strax eftir páska og samhliða ættu áætlanir hennar fyrir næstu ár að liggja skýrar fyrir.
Ríkisstjórnarflokkarnir ekki lengur með meirihluta
Sameiginlegt fylgi ríkisstjórnarflokkanna hefur einnig dregist saman frá kosningunum 27. október 2017. Þá fengu Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur samtals 52,9 prósent atkvæða sem tryggði þeim 35 þingmenn.
Sameiginlegt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja mælist nú 47,6 prósent sem myndi líkast til ekki nægja þeim til að ná meirihluta á þinginu þótt það sé ekki útilokað í ljósi þess að vægi atkvæða er mismunandi eftir kjördæmum. Aðra könnunina í röð mælist sameiginlegt fylgi stjórnarflokkanna því undir 50 prósent.
Minnkandi vinsældir ríkisstjórnarinnar virðast aðallega bitna á Vinstri grænum. Fylgi þeirra mælist nú þremur prósentustigum minna en flokkurinn fékk upp úr kjörkössunum í október. Þá var fylgið 16,9 prósent en mælist nú 13,9 prósent.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 24,5 prósent fylgi en fékk 25,3 prósent í síðustu kosningum. Það var næst versta niðurstaða hans í sögunni, en sú verst var í kosningunum vorið 2009 þegar 23,7 prósent þeirra sem kusu settu x við D.
Framsóknarflokkurinn er líka að glíma við sögulega lægð. Nú mælist fylgi við hann 9,2 prósent, sem er 1,5 prósentustigi minna en versta útkoma hans í 101 árs sögu flokksins sem átti sér stað í fyrrahaust. Þá kusu 10,7 prósent landsmanna Framsóknarflokkinn.
Frjálslynda miðjan styrkist
Sá stjórnarandstöðuflokkur sem er að styrkja sig mest samkvæmt könnunum er Samfylkingin. Flokkurinn, sem var við það að falla af þingi í kosningunum 2016, fékk 12,1 prósent atkvæða í fyrrahaust. Fylgi hans mælist nú 16,5 prósent og Samfylkingin mælist þar með næst stærsti flokkur landsins. Flokkurinn er þó enn töluvert frá því 30 prósenta fylgi sem hann naut nokkuð stöðugt um árabil fyrr á öldinni.
Annar stjórnarandstöðuflokkur sem mælist nú umtalsvert hærri en í síðustu kosningum eru Píratar. Fylgi flokksins mælist nú 12,5 prósent en Píratar fengu 9,2 prósent atkvæða í október.
Þá hefur fylgi Viðreisnar leitað upp á við frá kosningunum, þegar flokkurinn fékk 6,7 prósent atkvæða. Nú mælist fylgi hans 8,4 prósent. Saman eru þessir þrír stjórnarandstöðuflokkar, sem allir eru staðsettir á frjálslyndri miðju stjórnmálanna, því með 37,4 prósent sameiginlegt fylgi samkvæmt nýjast þjóðarpúlsi Gallup. Þeir fengu 28 prósent atkvæða í kosningunum í fyrrahaust og hafa því bætt við sig 9,4 prósentustigum frá þeim tíma.
Njóta ekki minnkandi vinsælda stjórnarinnar
Hinir tveir stjórnarandstöðuflokkarnir, Miðflokkur og Flokkur fólksins, njóta ekki aukins stuðnings þrátt fyrir að fylgi ríkisstjórnarflokkanna dali. Miðflokkurinn, sem stofnaður var utan um Sigmund Davíð Gunnlaugsson eftir að hann yfirgaf Framsóknarflokkinn skömmu fyrir síðustu kosningar, vann mikinn kosningasigur í fyrrahaust. Alls fékk flokkurinn 10,9 prósent atkvæða sem er mesta fylgi sem nýr stjórnmálaflokkur hefur nokkru sinni fengið í fyrstu þingkosningunum sem hann hefur tekið þátt í. Vinsældirnar virðast þó fara dvínandi og fylgi flokksins mælist nú 8,7 prósent.
Flokkur fólksins kom líka á óvart í síðustu kosningum, enda mældist hann ekki með nægjanlegt fylgi til að koma manni inn á þing daganna fyrir þær. Flokkurinn endaði þó með 6,9 prósent atkvæða og náði inn fjórum þingmönnum. Nú mælist fylgið 4,9 prósent og hefur lækkað um tvö prósentustig frá því í október 2017.
Þessi blokk, sem er mun líkari í áherslum en hinir stjórnarandstöðuflokkarnir, mælist því samanlagt með 13,6 prósent fylgi. Það er 4,2 prósentustigum minna en flokkarnir tveir fengu í síðustu kosningum.