1. Ákveða laun og starfskjör æðstu embættismanna
Kjararáð er sjálfstætt ráð sem er falið það verkefni að ákveða laun og starfskjör æðstu embættismanna ríkisins. Kjararáð er skipað fimm ráðsmönnum og fimm til vara. Þrír eru kosnir af Alþingi, Hæstiréttur skipar einn og fjármála- og efnahagsráðherra einn.Kjararáðsmenn eru skipaðir til fjögurra ára í senn.
2. Skipaðir af þeim sem þeir úrskurða um
Í kjararáði sitja Jónas Þór Guðmundsson, formaður kosinn af Alþingi, Óskar Bergsson, varaformaður kosinn af Alþingi, Svanhildur Kaaber, kosin af Alþingi, Jakob R. Möller, skipaður af Hæstarétti, og Hulda Árnadóttir, skipuð af fjármála- og efnahagsráðherra.
3. Aðstoðarmenn ráðherra og skrifstofustjórar hækkaðir
Sumarið 2016 voru laun skrifstofustjóra í ráðuneytum hækkuð um allt að 35 prósent. Eftir þá hækkun eru laun aðstoðarmanna, sem miða við þau laun, um 1,2 milljónir króna á mánuði. Sú ákvörðun vakti mikla úlfúð í samfélaginu.
4. Laun þingmanna hækkuð um 44,3 prósent
Í október 2016, sama dag og kosið var til Alþingis, tók kjararáð ákvörðun um að hækka laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna og laun ráðherra. Samkvæmt úrskurði kjararáðs urðu laun forseta Íslands 2.985.000 krónur á mánuði, þingfararkaup alþingismanna 1.101.194 krónur á mánuði, laun forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi varð 2.021.825 krónur á mánuði og laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi urðu 1.826.273 krónur á mánuði. Laun þingmanna hækkuðu hlutfallslega mest við ákvörðun Kjararáðs, eða um 44,3 prósent.
5. Biskup hækkaður
Í desember 2017 hækkaði kjararáð svo laun biskups, Agnesar Sigurðardóttur, um tugi prósenta. Í úrskurði vegna þessa kom fram að biskup skuli hafa tæplega 1,2 milljónir í mánaðarlaun auk 40 fastra yfirvinnueininga. Ein eining er 9.572 krónur og laun biskups því eftir hækkun alls 1.553.359 krónur á mánuði. Hækkunin var afturvirk til 1. janúar 2017.
6. Lagt til að kjararáð verði lagt niður
Starfshópur sem skipaður var af forsætisráðherra til að fjalla um málefni kjararáðs í lok janúar á þessu ári var sammála um að kjararáð hafi í ákvörðunum sínum um kjör æðstu stjórnenda ríkisins farið langt umfram viðmið rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda frá árinu 2015, ákvarðanir þess verið óskýrar, ógagnsæjar og ekki samræmst fyrirmælum í lögum um störf ráðsins. Lagði starfshópurinn til að kjararáð yrði lagt niður og útafkeyrsla þess yrði leiðrétt.
7. Ekki sátt um leiðréttingu á útafkeyrslu
Ekki náðist hins vegar sátt í hópnum um með hvaða hætti útafkeyrslan yrði leiðrétt. Alþýðusamband Íslands (ASÍ) vildi að það yrði gert strax, með lækkun launa. Meirihluti starfshópsins vildi hins vegar ekki framkalla lækkunina strax heldur „frysta“ laun þeirra þar til þau nái viðmiðum rammasamkomulags.
ASÍ taldi að með því að frysta haldi þessi hópur ekki einasta „ofgreiddum launum“ heldur fái áframhaldandi ofgreiðslur þar til frystingunni lýkur. Þegar upp væri staðið myndi útafkeyrsla kjararáðs kosta ríkissjóð um 1,3 milljarða. Verkalýðs- og stéttarfélög hafa mörg hver vísað í ákvarðanir kjararáðs um laun æðstu embættismanna sem meginástæðu þess að þau telji forsendur kjarasamninga brostnar.
8. Pólitísk ákvörðun um lagabreytingu
Lögum um kjararáð var breytt undir lok árs 2016 og tóku þær breytingar gildi um mitt síðasta ár. Um var að ræða frumvarp sem formenn sex flokka á Alþingi stóðu að. Eini flokkurinn sem þá átti sæti á þingi og var ekki með á frumvarpinu voru Píratar. Þingmenn flokksins greiddu hins vegar atkvæði með lögunum þegar þau voru samþykkt í atkvæðagreiðslu 22. desember 2016.
9. Launaákvörðunarvald fært til opinberra stjórna
Tilgangur frumvarpsins var að fækka verulega þeim sem kjararáð ákveður laun og önnur starfskjör og færa ákvarðanir um slíkt annað. Á meðal þeirra sem fluttust þá undan kjararáði voru fjölmargir forstjórar fyrirtækja í opinberri eigu. Þau áttu því að vinda ofan af breytingum á lögum um kjararáð sem tóku gildi sumarið 2009 og gerðu það að verkum að ríkisforstjórar máttu ekki vera með hærri grunnlaun en forsætisráðherra.
Með þessari breytingu færðist launaákvörðunarvald frá kjararáði til stjórna opinberu fyrirtækjanna, tóku gildi í byrjun júlí 2017. Stjórnir flesta stærstu fyrirtækjanna í ríkiseigu hunsuðu tilmæli frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um að stilla launahækkunum í hóf og hækkuðu laun forstjóra sinna langt umfram almenna launaþróun.
10. Bað sjálf um hækkun og fékk
Kjarninn greindi frá því í byrjun mars að kjararáð hafi ekki einungis hækkað laun þeirra sem það úrskurðar um, heldur hafi ráðið einnig sóst eftir, með bréfi sem var sent í september 2017, að hækka eigin laun með vísun í hækkun á launavísitölu Hagstofu Íslands, sem hafði hafði m.a. hækkað vegna ákvarðana kjararáðs. Sex dögum eftir að sitjandi ríkisstjórn tók við völdum var fallist á tillöguna um launahækkun kjararáðs og að hún myndi gilda frá 1. ágúst 2017.