Upphaf sirkusanna er rakið til þess að árið 1768 auglýsti breski reiðskólakennarinn Philip Astley sýningu sem hann kallaði „Kúnstir á hestbaki“. Philip Astley var fyrrverandi hermaður og þekkti vel til hesta. Sýningarnar fóru fram í suðurhluta Lundúna. Astley hafði reiknað út að heppilegast væri að hafa svæðið hringlaga, um það bil þrettán metra í þvermál.
Þegar hestarnir væru látnir hlaupa í hring nýttist miðflóttaaflið knapanum best til að sýna „kúnstirnar“. Astley kallaði sýningarsvæðið Amphitheatre en Charles Hughes, keppinautur hans í sýningarhaldinu, nefndi sitt svæði, sem hann opnaði 1782, Royal Circus, með tilvísun í hinn forna leikvang í Róm, Circus Maximus (Circo Massimo).
Orðið circus (á dönsku cirkus, sirkus eða fjölleikahús á íslensku) festist fljótt í sessi. Sýningar Astley og síðar Hughes og annarra urðu mjög vinsælar og einskorðuðust ekki við „kúnstir á hestbaki“. Hundar, fuglar, fílar, sæljón, ljón og tígrisdýr, áðurnefndir hestar og fleiri dýrategundir (ekki þó kettir sem láta lítt að stjórn) hafa lengstum þótt ómissandi hluti sýninganna ásamt fimleikafólki, töframönnum og trúðum.
Fyrstu sirkussýningar í Danmörku
Ekki eru til nákvæmar upplýsingar um fyrstu sirkussýningar í Danmörku en vitað er að árið 1799 kom þangað breskur sirkusflokkur og sýndi listir sínar. Tívolíið í Kaupmannahöfn var opnað árið 1843 og tólf árum síðar var reist þar „sirkustjald“. Nokkru fyrr hófust sirkussýningar á Dyrehavsbakken (Bakken) sem er elsti skemmtigarður í heimi, opnaður 1583. Danir hafa lengstum verið miklir áhugamenn um sirkus og Sirkusbyggingin í Kaupmannahöfn er sögð sú elsta í heimi, byggð 1886 en síðar endurbyggð eftir bruna. Byggingin er friðuð, var lengst af eingöngu notuð til sirkussýninga en er í dag notuð til margs konar sýninga- og skemmtanahalds.
Sirkusum fækkar
Á nítjándu öld og langt fram eftir þeirri tuttugustu nutu sirkusar mikilla vinsælda víða um heim. Sirkusflokka, sem ferðuðust um, var beðið með spenningi enda úrval afþreyingarefnis minna en síðar varð. Á allra síðustu áratugum hefur sirkusflokkum í flestum löndum fækkað, nokkrir af elstu og þekktustu sirkusum í Danmörku hafa lagt upp laupana, Cirkus Benneweis þeirra þekktastur.
Ástæður þess að sirkusum hefur fækkað eru fyrst og fremst þær að allur tilkostnaður hefur aukist mjög en aðsóknin á sama tíma dalað. Aðdráttaraflið er ekki það sama og áður var. Í dag eru sex sirkusar í Danmörku, þeir eiga það sameiginlegt að starfa einungis á sumrin og ferðast þá um landið þvert og endilangt. Cirkus Arena er langstærstur, hefur sæti fyrir 1750 áhorfendur í tjaldinu.
Breytt viðhorf gagnvart dýrunum
Áratugum saman voru dýrin eitt helsta aðdráttarafl sirkusanna. Að sjá tígrisdýr stökkva gegnum logandi hring, sæljónin dansa með stóran bolta á trýninu, fílana leika þunglamalegar listir sínar og hundana með sínar hundakúnstir. Allt þetta og margt fleira var það sem mörgum, einkum yngri kynslóðinni þótti mest spennandi við sirkusheimsóknina. Lengi vel veltu fáir fyrir sér hlutskipti dýranna sem máttu búa við ófrelsi og oft á tíðum lakar aðstæður, allt þeirra líf langt frá því sem eðlilegt gæti talist.
Um og upp úr miðri síðustu öld óx dýraverndarsamtökum víða um heim fiskur um hrygg og þau beindu sjónum sínum meðal annars að sirkusum. Árið 1962 tóku gildi breytingar á dönskum dýraverndarlögum, með þeim var lagt bann við að rándýr og flest villt dýr skyldu bönnuð í sirkusum. Fílar voru undanskildir og sömuleiðis sæljón og sebrahestar. Þetta hafði í för með sér miklar breytingar á starfsemi sirkusanna sem nú lögðu æ meiri áherslu á skemmtiatriði þar sem dýr komu ekki við sögu.
Húsdýr áfram leyfð og fjórir fílar á undanþágu
Samkvæmt samkomulagi danskra þingmanna, og minnst var á í upphafi þessa pistils verða dýr, önnur en húsdýr nú bönnuð í sirkusum í Danmörku. Þetta kom sirkushöldurum ekki beinlínis á óvart, hafði legið í loftinu. Tveir danskir sirkusar eru með fíla sem taka þátt í sýningunum, þeir fá ótímabundna undanþágu til ,,starfa“. Cirkus Arena er með þrjá fíla, allt kýr. Þær heita Djungla, Jenny og Lara og eru í kringum þrítugt en fílar geta náð að minnsta kosti 70 ára aldri. Fjórði sirkusfíllinn í Danmörku er í eigu Cirkuz Trapez. Það er líka kýr, hún er 35 ára gömul og heitir Ramboline, skírð eftir kvikmyndapersónunni Rambo sem, eins og margir vita, var leikinn af Sylvester Stallone. Þótt þessar fjórar fílafrúr eigi, ef allt verður með felldu, enn langt líf fyrir höndum er ekki þar með sagt að þær verði áfram um áratugaskeið í „sirkusbransanum“.
Talsmaður Cirkus Arena sagði í blaðaviðtali að þær Djungla, Jenny og Lara ættu ekki mörg ár eftir í sirkusnum „kannski fimm til sex“. Þær hafa yfir vetrarmánuðina verið leigðar til sirkuss á Ítalíu og eru því „í vinnu“ allt árið. Þegar Cirkus Arena fékk undanþáguna til að hafa fílana áfram fylgdu því skilyrði um betri umhirðu og aðbúnað og talsmaður sirkussins sagði blaðamönnum að þeir Arena menn væru fúlir yfir þessari aðfinnslu, fílarnir hefðu það gott „fyrir hönd fílanna erum við í fýlu“.
Ramboline hjá Cirkus Trapez er hinsvegar í fríi allan veturinn, þá dvelur hún á bændabýli við Sommersted á Jótlandi þar sem hún unir sér vel og eigendur sirkussins sjá um að hún stundi nauðsynlega líkamsrækt, haldi sér í formi. Ramboline sjálf hefur takmarkaðan áhuga á ræktinni en veit að alltaf leggst líkn með þraut, eftir ræktina fær hún nefnilega stórt bananaknippi. Hún hefur verið í sirkus í þrjá áratugi. Eigandinn, Bernhard Kaselowsky segir að þegar daginn fari að lengja á vorin og fuglasöngurinn eykst viti Ramboline að nú fari „vertíðin“ að byrja.
Að þessu sinni verður fyrsta sýning Cirkus Trapez 12. apríl.