Mynd: Birgir Þór

Þegar 26 þúsund manns mótmæltu spillingu, slæmu siðferði og Sigmundi Davíð

Á þessum degi fyrir tveimur árum síðan fóru fram fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar. Tilefni þeirra var birting Panamaskjalanna. Könnun sem gerð var í kjölfar þeirra sýndi að mótmælendur voru aðallega að mótmæla spillingu stjórnmálanna, slæmu siðferði, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og að kalla eftir kosningum.

Fyrir nákvæm­lega tveimur árum síð­an, 4. apríl 2016, tóku ekki færri en 26 þús­und manns þátt í mót­mælum á Aust­ur­velli. Til­efni þeirra var Kast­ljós-þáttur sem sýndur var dag­inn áður um aflands­fé­laga­eign kjör­inna full­trúa á Íslandi. Mót­mæl­end­urnir voru aðal­lega að mót­mæla spill­ingu stjórn­mál­anna, slæmu sið­ferði, til að knýja fram kosn­ingar og til að Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, þáver­andi for­sæt­is­ráð­herra, segði af sér emb­ætti.

Fjöld­inn og til­efnið er ekki ágiskun, heldur nið­ur­staða net­könn­unar sem Jón Gunnar Bern­burg, pró­fessor við Háskóla Íslands, fékk Félags­vís­inda­stofnun Háskól­ans til að fram­kvæma strax eftir mót­mælin á meðal íbúa höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins 18 ára eldri á þátt­töku í mót­mæl­un­um. Könn­unin fór fram á tíma­bil­inu 13. apríl til 4. maí og reynd­ist svörun 63 pró­sent, sem þykir ásætt­an­legt. Alls svör­uðu um 1000 manns könn­un­inni. Jón Gunnar greindi frá nið­ur­stöðum hennar í grein sem birt­ist á Kjarn­anum í águst 2016. Það var í fyrsta sinn sem gögnin voru gerð opin­ber.

Panama­skjölin sem opin­ber­uðu ráða­menn

Mót­mælin sem fram fóru mánu­dag­inn 4. apríl urðu í kjöl­far þess að aflands­fé­laga­eign kjör­inna full­trúa á Íslandi var opin­beruð í sér­stökum Kast­ljós-þætti sem sýndur var dag­inn áður og var byggður á upp­lýs­ingum úr Panama­skjöl­un­um, sem lekið hafði verið frá panömsku lög­fræði­stof­unni Mossack Fon­seca. Þar var meðal ann­ars greint frá því að Sig­mundur Davíð hefði ásamt eig­in­konu sinni átt félagið Wintris, skráð til heim­ilis á Bresku Jóm­frúa­eyj­um, og að arfur hennar hafi verið vistaður inni í því félagi, en hann er talin vera upp á annan millj­arð króna.

Í þætt­inum var einnig sagt frá því að Wintris hefði átt kröfur upp á rúman hálfan millj­arð króna í slitabú föllnu bank­anna, sem gerð voru upp með nauða­samn­ingum um síð­ustu ára­mót. Sig­mundur Davíð seldi sinn hlut í félag­inu til eig­in­konu sinn­ar, Önnu Sig­ur­laugar Páls­dótt­ur, á gaml­árs­dag 2009 á einn dal. Dag­inn eftir tóku gildi ný lög hér­lend­is, svokölluð CFC-lög­gjöf, sem kvað meðal ann­ars á um að greiða skuli tekju­skatt hér á landi af hagn­aði félags sem íslenskur skatt­að­ili á en er í lág­skatta­­­rík­­­i. Íslend­ingar sem eiga félög á lág­skatta­­­­svæðum eiga einnig að skila sér­­­­­­­stöku fram­tali með skatt­fram­tal­in­u sínu vegna þessa. Wintris hefur aldrei skilað CFC-fram­tali.

Þann 2. októ­ber 2017 greindi Kjarn­inn frá því að Wintris hefði ekki greitt skatta í sam­ræmi við lög og reglur um ára­bil. Mán­uði eftir að til­vist félags­ins var opin­beruð fyrir heims­byggð­inni sendu Sig­mundur Davíð og Anna Sig­ur­laug bréf til rík­is­skatt­stjóra þar sem óskað var eftir að skatt­fram­töl þeirra frá 2011 til 2015 yrðu leið­rétt og þau opin­beru gjöld sem þau áttu að greiða á tíma­bil­inu yrðu end­ur­á­kvörð­uð. Í bréf­inu geng­ust þau meðal ann­ars við því að skatt­stofn eigna Wintris, sem álögur voru reikn­aðar út frá, hafi verið van­tal­inn.

Í des­em­ber 2016 sam­þykkti rík­is­skatt­stjóri beiðni for­sæt­is­ráð­herra­hjón­anna fyrr­ver­andi um að greiða skatt sem þau höfðu kom­ist upp með að greiða ekki áður en að til­vist Wintris var opin­beruð. Í kjöl­farið var meðal ann­ars end­ur­á­kvarð­aður sá auð­legð­ar­skattur sem lagður var á Önnu Sig­ur­laugu gjald­árin 2011 til 2014 og stofn hennar til tekju­skatts og útsvars frá 2011 til 2015 var auk þess hækk­að­ur.

Augu heimsbyggðarinnar beindust að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra, eftir að viðtal við hann var sýnt 3. apríl 2016. Þar var hann spurður út í aflandsfélagaeign sína, sagði ósatt og rauk á endanum út. Tveimur dögum eftir að viðtalið var sýnt hafði Sigmundur Davíð neyðst til að segja af sér.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Sig­mundur Davíð og Anna Sig­ur­laug kærðu einn anga þess úrskurðar til yfir­skatta­nefndar sem féllst á þeirra sjón­ar­mið og úrskurð­aði þeim í hag 22. sept­em­ber síð­ast­lið­inn. Í kjöl­farið fengu þau end­ur­greiddan hluta þess sem þau höfðu greitt skatta­yf­ir­völdum í kjöl­far end­ur­á­lagn­ingar rík­is­skatt­stjóra.

Seychelles-eyj­ar og Jóm­frú­ar­eyjar

Í Kast­ljós-þætt­inum var líka greint frá tengslum Bjarna Bene­dikts­son­ar, þá fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra og for­manns Sjálf­stæð­is­flokks­ins, og Ólafar Nor­dal heit­inn­ar, þáver­andi inn­an­rík­is­ráð­herra og vara­for­manns Sjálf­stæð­is­flokks­ins, við aflands­fé­lög. Bjarni átti 40 millj­­­óna hlut í félagi sem skráð var á Seychelles-eyj­um, Falson og Co. Hann hafði áður neitað því í sjón­varps­við­tali að eiga, eða hafa átt, pen­inga í skatta­­­skjól­­­um.

Bjarni sagði félagið hafa verið stofnað í kringum félag sitt og félaga sinna til að kaupa fast­­­eign í Dubai, sem varð þó aldrei af. Hann svar­aði fyrir þetta svo að hann hafi haldið að félagið hafi verið skráð í Lúx­em­borg, en ekki á skatta­­­skjóls­eyj­un­­­um. Félagið var sett í afskrán­ing­­­ar­­­ferli 2009. Síðar var einnig greint frá því að for­eldrar Bjarna ættu líka félag sem væri að finna í Panama­skjöl­un­um.

Ólöf, og eig­in­maður hennar Tómas Sig­urðs­son, þáver­andi for­stjóri Alcoa á Íslandi, áttu einnig félagið Dooly Securities, skráð á Bresku Jóm­frú­areyj­un­um. Félagið var sett á lagg­­irnar fyrir þau hjón og þau voru bæði með pró­kúru í því. Hluta­bréfin voru hand­veð­­sett með sam­komu­lagi í ágúst 2007. Ólöf skráði aðild sína að félag­inu aldrei í hags­muna­­skrá. Hún greindi frá því að félagið hefði verið sett upp vegna fjár­mála- og kaup­rétt­ar­samn­inga sem hefðu verið hluti af starfs­kjörum eig­in­manns henn­ar. Það hafi hins vegar aldrei verið nýtt í þeim til­gangi né öðr­um. Félagið var afskráð árið 2012.

Átta af hverjum tíu treystu ekki Sig­mundi Davíð og vildu afsögn

Þátt­ur­inn, sem fékk ótrú­legt áhorf, hafði gríð­ar­leg áhrif. Þau feng­ust stað­fest í könn­unum sem gerðar voru næstu tvo daga. Könnun MMR sýndi að stuðn­ingur við rík­is­stjórn­ina væri kom­inn niður í 26 pró­sent og sam­an­lagt fylgi rík­is­stjórn­ar­flokk­anna væri rétt rúm­lega 30 pró­sent. Þar kom einnig fram að 81 pró­sent lands­manna treysti Sig­mundi Davíð ekki og 60,6 pró­sent treysti ekki Bjarna Bene­dikts­syni.

Í könnun Félags­vís­inda­stofn­unar kom fram að 78 pró­sent lands­manna vildi að Sig­mundur Davíð segði af sér emb­ætti en 60 pró­sent töldu að Bjarni ætti að gera það. Þar var einnig spurt hvort umfjöllun Kast­ljóss hefði dregið úr trausti gagn­vart rík­is­stjórn­inni, Alþingi og stjórn­málum almennt. Svarið var yfir­gnæf­andi já. 70 pró­sent misstu traust gagn­vart rík­is­stjórn­inni, 63 pró­sent gagn­vart Alþingi og 67 pró­sent gagn­vart stjórn­mála almennt.

Þann 5. apríl 2016 sagði Sig­mundur Davíð af sér emb­ætti for­sæt­is­ráð­herra, mynduð var ný rík­is­stjórn undir for­sæti vara­for­manns hans, Sig­urðar Inga Jóhanns­son­ar, og boðað að kosn­ingum yrði flýtt vegna aðstæðna. Þær fóru fram 29. októ­ber 2016 og í þeim bætti Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn við sig fylgi. Bjarni Bene­dikts­son, einn þeirra ráða­manna sem opin­beraðir voru í Panama­skjöl­un­um, varð for­sæt­is­ráð­herra í jan­úar 2017 eftir margra mán­aða stjórn­ar­kreppu. Og Sig­mundur Davíð var kjör­inn aftur á þing.

Aftur kosið ári síðar

Rík­is­stjórn Bjarna sat ekki í nema átta mán­uði. Þá sprakk hún í kjöl­far þess að opin­berað var að faðir Bjarna hafði skrifað með­mæli fyrir upp­reist æru dæmd barn­a­níð­ings og að Bjarni hefði verið upp­lýstur um það af Sig­ríði Á. And­er­sen dóms­mála­ráð­herra á sama tíma og aðrir sem leit­uðu eftir slíkum upp­lýs­ingum fengu þær ekki.

Kosn­ingar voru boð­aðar 28. októ­ber, tæpu ári eftir að þær síð­ustu fóru fram. Í aðdrag­anda þeirra hófu fjöl­miðl­arnir Stundin og Reykja­vik Media umfjöllun um fjár­mál Bjarna Bene­dikts­son­ar, sem byggði á gögnum innan úr fallna bank­anum Glitni. Á meðal þess sem fram kom í umfjöll­un­inni var að Bjarni hefði verið virkur þátt­tak­andi í við­skiptum aflands­fé­lags­ins Falson, sem opin­berað var í Panama­skjöl­unum að hann ætti hlut í og væri skráð til heim­ilis á aflandseyju.

Glitnir HoldCo ehf., eign­­­ar­halds­­­­­fé­lag utan um eft­ir­stand­andi eignir hins fallna banka Glitn­is, fór fram á það við sýslu­­­manns­emb­ættið á höf­uð­­­borg­­­ar­­­svæð­inu að lög­­­­­bann verði lagt við birt­ingu Stund­­­ar­innar og Reykja­vík Media ehf. á fréttum eða annarri umfjöllun sem byggja á eða eru unnar úr gögnum er varða einka­­­mál­efni veru­­­legs fjölda fyrr­ver­andi við­­­skipta­vina Glitn­­­is. Sýslu­mað­ur­inn á höf­uð­borg­ar­svæð­inu féllst á það og í kjöl­farið var höfðað stað­fest­ing­ar­mál sem enn er fyrir dóm­stól­um.

Frá 16. októ­ber 2017, þegar lög­banns­beiðnin var sam­þykkt, hafa Stundin og Reykja­vik Media ekki mátt birta fréttir sem byggja á upp­lýs­ingum úr gögn­un­um.

Eftir síð­ustu kosn­ingar var mynduð þriggja flokka rík­is­stjórn undir for­sæti Katrínar Jak­obs­dótt­ur. Bjarni Bene­dikts­son er fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra í þeirri rík­is­stjórn. Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son sagði skilið við Fram­sókn­ar­flokk­inn í aðdrag­anda kosn­ing­anna eftir harð­vít­ugar inn­an­flokks­deilur í kjöl­far þess að honum var steypt sem for­manni haustið 2016. Hann stofn­aði sinn eigin flokk, Mið­flokk­inn, og bauð fram í öllum kjör­dæm­um. Mið­flokk­ur­inn fékk 10,9 pró­sent atkvæða, sem er mesta fylgi sem nýtt fram­boð hefur nokkru sinni fengið í fyrstu þing­kosn­ingum sínum í Íslands­sög­unni.

Hversu margir mót­mæltu?

En förum aðeins aftur til baka til vors­ins 2016, þegar for­sæt­is­ráð­herra þjóð­ar­innar neydd­ist til að segja af sér. Ráð­andi þáttur í þeirri atburða­rás voru gríð­ar­lega fjöl­menn mót­mæli sem fóru fram á Aust­ur­velli 4. apríl 2016 fyrir framan fjöl­miðla alls staðar að úr heim­in­um, sem flykkt­ust til Íslands til að fylgj­ast með atburð­unum hér. Raunar héldu mót­mæli áfram næstu daga þótt að þau hafi náð hápunkti þennan mánu­dag.

Mörgum spurn­ingum varð­andi mót­mælin var þó ósvarað fyrstu miss­erin eftir að þau fóru fram. Hversu margir tóku raun­veru­lega þátt í þeim? Hverju voru þeir að mót­mæla og voru þeir sam­mála um hver ástæðan væri?

Skipuleggjendur mótmælendanna 4. apríl hafa sagt að talningar þeirra hafi sýnt að mótmælendur hafi verið á milli 20 og 30 þúsund talsins. Leiðrétt mat byggt á netkönnun Félagsvísindastofnunar segir að sá fjöldi hafi verið 26 þúsund.
Mynd: Birgir Þór

Þessi vildi Jón Gunnar Bern­burg, pró­fessor í félags­fræði við Háskóla Íslands, fá svör við. Í grein sinni, sem birt­ist á Kjarn­anum í lok ágúst 2016 , sagði hann að þótt „þessi saga sé kunn hefur túlkun atburð­anna liðið fyrir skort á stað­reynd­um. Tölur um fjölda mót­mæl­enda hafa verið á reiki og hlut­læg gögn um mark­mið „venju­legra“ mót­mæl­enda hafa ekki legið fyr­ir. Fyrir utan nokkur frétta­við­töl er ekki vitað fyrir víst af hverju allt þetta fólk mætti til að mót­mæla. Var um að ræða tíma­bundna reiði vegna fram­göngu þáver­andi for­sæt­is­ráð­herra og sam­ráð­herra hans? Eða voru hugð­ar­efni þátt­tak­enda djúp­stæð­ari og „stærri“ en fram­ganga nokk­urra ráð­herra? Með öðrum orð­um: var óánægjan sem dreif þús­undir almennra borg­ara niður á Aust­ur­völl í apr­íl­mán­uði síð­ast­liðnum tíma­bundin – eða er um að ræða við­var­andi óánægju í sam­fé­lag­inu sem leitt gæti til meiri mót­mæla í fram­tíð­inn­i?“

Jón Gunnar fékk Félags­vís­inda­stofnun til að fram­kvæma net­könnun strax dag­anna eftir mót­mælin til að reyna að fá þau.

Í könn­un­inni voru íbúar á höf­uð­borg­ar­svæð­inu 18 ára og eldri spurðir um þátt­töku sína í mót­mæl­unum 4. apríl og laug­ar­dag­inn 9. apríl og hvaða ástæður hefðu verið fyrir mót­mælum þeirra. Alls bár­ust 1001 svör og svar­hlut­fallið var 63 pró­sent, sem þykir ásætt­an­legt..

Sam­kvæmt nið­ur­stöðum könn­un­ar­innar tóku 23 pró­sent þátt í mánu­dags­mót­mæl­unum 4. apr­íl. Miðað við þá nið­ur­stöðu væri áætl­aður fjöldi mót­mæl­enda um 35 þús­und. Jón Gunnar taldi að sú tala sé lík­lega ofmat. í grein sinni sagði hann að rann­sóknir hafi bent til þess þeir sem áhuga hafi á stjórn­málum taki frekar þátt í net­könn­unum en þeir sem minni áhuga hafa. Þess vegna væri lík­lega minna um mót­mæl­endur í hópi þeirra sem ekki svör­uðu könn­un­inni.

Sam­kvæmt leið­réttu mati hafi þátt­takan verið um 17 pró­sent af íbúum höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins 18 ára og eldri. Því hafi ekki færri en 26 þús­und manns tekið þátt í mánu­dags­mót­mæl­unum 4. apr­íl. Leið­rétt mat fyrir þátt­töku í laug­ar­dags­mót­mæl­unum 9. apríl var í takti við það sem skipu­leggj­endur þeirra höfðu haldið fram, að tíu pró­sent full­orð­inna íbúa höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins, eða um 15 þús­und manns, hafi mætt á þau. Þá hafi alls 22 pró­sent íbúa höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins, um 33 þús­und manns, tekið þátt í ein­hverjum mót­mælum á Aust­ur­velli frá byrjun apríl og fram í maí, en mót­mæli voru nær dag­legur við­burður á því tíma­bili þótt að sífellt hafi fækkað í hópi mót­mæl­enda.

Jón Gunnar sagði þó að mik­il­vægt væri að árétta að aðferðin við að leið­rétta svar­bjögun eyddi ekki óvissu um nákvæman fjölda þátt­tak­enda. „Bjög­unin er óþekkt og kanna þarf þátt­tök­una með fleiri aðferðum (t.d. með síma­könn­un) til þess að stað­festa þessar nið­ur­stöð­ur. Ólík­legt er þó að miklu muni og því ljóst að þátt­takan í þessum tveimur við­burðum var afar mikil á íslenskan mæli­kvarða.“

Svar­endur sem sögð­ust hafa tekið þátt í mót­mælum í apr­íl­mán­uði 2016 voru beðnir um að nefna þrjár ástæður fyrir þátt­töku sinni. Flestir sögð­ust hafa mót­mælt vegna þess að þeir telja stjórn­málin spillt og sið­ferði stjórn­mála­manna ábóta­vant. Margir vildu flýta kosn­ingum enda var það yfir­skrift mót­mæl­anna.

Í grein Jóns Gunn­ars sagði einnig að ýmis önnur þemu hafi komið fram sem tengj­ast óánægju með stöðu lýð­ræð­is­ins. „Sumir upp­lifðu sið­ferð­is­lega vand­læt­ingu og að það hefði verið borg­ara­leg skylda þeirra að mót­mæla. Fáeinir nefndu það sér­stak­lega að þeir hefðu mót­mælt til að knýja á um nýja stjórn­ar­skrá.

Þessar nið­ur­stöður ríma vel við aðra nið­ur­stöðu sem fram kemur í þess­ari könnun og sem líka kom fram í könn­unum á bús­á­halda­mót­mæl­in­um, sem er að trú á spill­ingu í stjórn­málum og óánægja með lýð­ræðið eru afar sterkir for­spár­þættir mót­mæla­þátt­töku.

Athygli vekur að óánægja með spill­ingu og sið­ferð­is­bresti eru oftar nefnd sem ástæða fyrir mót­mæla­þátt­töku heldur en tíma­bundnu hneyksl­is­málin sem opin­ber­uð­ust í Panama­lek­an­um. En auð­vitað voru þau mál­efni mót­mæl­endum ofar­lega í huga. Fram­ganga þáver­andi for­sæt­is­ráð­herra og sam­ráð­herra hans var oft nefnd sem ástæða mót­mæla­þátt­töku. Kröfur um afsagnir þess­ara ein­stak­linga koma fyrir í mörgum svörum, sér­stak­lega krafan um afsögn Sig­mundar Dav­íðs en einnig Bjarna Bene­dikts­sonar og Ólafar Nor­dal.“.

Þá gaf hluti mót­mæl­enda til kynna að hann hefði mót­mælt vegna stjórn­mála­skoð­ana sinna. Þar var um að ræða ein­stak­linga sem vildu öðru fremur koma rík­is­stjórn­inni frá vegna stefnu hennar og mál­efna. Í grein Jóns Gunn­ars sagði að þetta rími ágæt­lega við íslenskar rann­sóknir sem sýnt hafi að stjórn­mála­skoð­an­ir, sér­stak­lega fylgni við vinstri­flokka, teng­ist mót­mæla­þátt­töku hér­lend­is.

Frétta­skýr­ingin er upp­færð útgáfa af slíkri sem birt­ist fyrst 28. ágúst 2016.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar