Launakostnaður Landsbankans vegna launa bankastjóra hans jókst um 61,1 prósent á milli áranna 2015 og 2017. Þetta kemur fram í uppfærðri skýrslu sem Talnakönnun vann fyrir Samtök sparifjáreigenda um kaupauka og laun í íslensku viðskiptalífi. Landsbankinn er nánast að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins.
Skýrslan var kynnt síðastliðinn þriðjudag og var þá ekki sagt til um hvernig mánaðarlaun bankastjóra Landsbankans hefðu breyst á áðurnefndu tímabili. Ástæða þess er sú að þrír einstaklingar gegndu starfinu á því og inni í birtum launatölum var meðal annars að finna uppgjör við Steinþór Pálsson, sem var sagt upp störfum síðla árs 2016.
Eina breytingin sem gerð hefur verið í uppfærðu skýrslunni er í umfjöllun um launakjör bankastjóra Landsbankans, Sú breyting var gerð eftir að upplýsingar bárust frá upplýsingafulltrúa Landsbankans um launakjör bankastjóra á árinu 2017.
Samkvæmt þeim upplýsingum fékk Hreiðar Bjarnason, sem gegndi starfi bankastjóra eftir að Steinþóri var sagt upp og þar til nýr bankastjóri, Lilja Björk Einarsdóttir, tók við starfinu 15. mars 2017, með 3,1 milljón króna í laun á mánuði. Meðalmánaðarlaun Lilju á síðasta ári voru svo tæpleg 3,4 milljónir króna. Steinþór Pálsson hafði haft tæplega 2,1 milljón króna á mánuði á árinu 2015. Meðaltalslaun bankastjóra Landsbankans í fyrra voru því 61,1 prósent hærri í fyrra en þau voru árið 2015.
Ef einungis er miðað við laun Lilju þá eru þau 64 prósent hærri en laun Steinþórs voru árið 2015.
Lilja á þó langt í land með að ná bankastjóra hins ríkisbankans í launum. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, er nefnilega með 5,8 milljónir króna í mánaðarlaun og er langlaunahæsti æðsti stjórnandi ríkisfyrirtækis, en Íslandsbanki er í 100 prósent eigu íslenska ríkisins.
Beðnir um að hækka launin ekki úr hófi
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um launahækkanir forstjóra ríkisfyrirtækja á undanförnum vikum. Laun flestra þeirra hækkuðu mikið í fyrra í kjölfar þess að ákvörðun um launakjör forstjóra ríkisfyrirtækja voru færð frá kjararáði og til stjórna fyrirtækjanna sjálfra. Um það var tekin pólitísk ákvörðun.
Benedikt Jóhannesson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, beindi skriflegum tilmælum til stjórna fyrirtækjanna um að stilla launahækkunum æðstu stjórnenda þeirra í hóf, í ljósi þess að áhrif stórtækra launahækkana einstaklinga sem þegar voru á mjög háum launum á viðkvæmar kjaraviðræður annarra hópa gætu orðið gífurleg. Benedikt fundaði einnig með fulltrúum stjórnanna í ágúst 2017 til að leggja enn frekari áherslu á málið.
Flestir rokið upp um tugi prósenta
Skemmst er frá því að segja að nær enginn þeirra fyrirtækja sem fengu tilmælin fóru eftir þeim. Heildarlaun Björns Óla Haukssonar, forstjóra Isavia, voru hækkuð um rúmlega 20 prósent. Við það fóru meðallaun hans úr 1,7 milljónum króna á mánuði í 2,1 milljón króna á mánuði.
Laun Magnúsar Geirs Þórðarsonar útvarpsstjóra voru hækkuð um 16 prósent milli áranna 2016 og 2017. Eftir hækkunina voru mánaðarlaun hans 1,8 milljónir króna.
Laun forstjóra Landsvirkjunar, Harðar Arnarssonar, hækkuðu um 47,4 prósent frá árinu 2015. Þá hafði hann rúmlega 1,8 milljónir króna á mánuði að meðaltali en í fyrra var sú mánaðargreiðsla komin í 2,7 milljónir króna.
Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, hefur hækkað um 42,9 prósent frá árinu 2015. Þá var hann með tæplega 1,2 milljónir króna á mánuði en var í fyrra með tæplega 1,7 milljón króna að meðaltali.
Forstjóri Rarik, Tryggvi Þór Haraldsson, hefur verið umtalsvert hóflegri í launahækkunum sínum. Hann fór úr 1,4 milljónum króna árið 2015 í tæplega 1,7 milljón króna árið 2017, sem er hækkun um 11,8 prósent á tveimur árum.
Annar forstjóri sem færðist undan kjararáði í fyrra er Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. Laun hans hækkuðu úr rúmlega 1,3 milljónum króna á mánuði árið 2015 í um 1,8 milljónum króna á mánuði, eða um 35 prósent.