MYND:EPA

Hinir alltumlykjandi lífeyrissjóðir

Íslenskir lífeyrissjóðir eiga um þriðjung af heildarfjármunum á Íslandi og það hlutfall mun halda áfram að vaxa á næstu árum. Þeir eiga tæplega helming allra hlutabréfa og sjö af hverjum tíu skuldabréfum. Erfitt er að sjá hvað þeir eiga að kaupa næst hér innanlands og áhrif umfangs þeirra á samkeppni, eignamyndun og fleira er feikileg.

Eignir íslenska líf­eyr­is­sjóða­kerf­inu eru um ein og hálf lands­fram­leiðsla og eiga sjóð­irnir um þriðj­ung af heild­ar­fjár­munum á Íslandi.

Í lok árs 2016 áttu íslenskir lífeyrissjóðir um þriðjung af heild­ar­fjár­munum á Íslandi. Eignir kerfisins eru nú um ein og hálf landsframleiðsla. Hrein eign þeirra nam 3.953 millj­örðum króna í lok febr­úar síð­ast­lið­ins. Hún hefur auk­ist um 420 millj­arða króna frá lokum árs 2016. Og spár gera ráð fyrir því að eignarhlutur sjóðanna í heildareignum Íslands muni bara halda áfram að aukast á næstu árum og áratugum.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um umsvif líf­eyr­is­sjóða í íslensku efna­hags­lífi sem skilað var til for­sæt­is­ráðu­neyt­is­ins 24. októ­ber 2017 og var birt opinberlega í janúar síðastliðnum, kom fram að ef lífeyrissjóðirnir skili 3,5 pró­sent raun­á­vöxtun á ári mun hlutur þeirra í heild­ar­fjár­muna­eign á Íslandi fara í 35 pró­sent árið 2030. 30 árum síðar, árið 2060, er reiknað með að sjóðirnir muni eiga 40 pró­sent af heildarfjármunum á Íslandi. Eigendur sjóðanna eru Íslendingar. Þannig á þjóðin óbeint þessar eignir þótt hún hafi ekki beinan ráðstöfunarrétt yfir því fjármagni sem er inni í lífeyrissjóðakerfinu þar til að það er greitt út sem lífeyrir.

Mikill vöxtur á fáum árum

Í skýrslunni kom einnig fram að íslensku lífeyrissjóðirnir hefðu stækkað mjög hratt á fáum árum. Árið 2006 áttu þeir til að mynda um sex prósent allra skráðra hlutabréfa í íslensku kauphöllinni. Tíu árum síðar áttu þeir 41 prósent þeirra. Árið 2006 áttu lífeyrissjóðirnir 41 prósent allra markaðsskuldabréfa og víxla á Íslandi. Áratug síðar hafði hlutfallið hækkað í tæp 70 prósent.  Svigrúm þeirra til að bæta við sig innlendum markaðsverðbréfum, hvort sem um sé að ræða skuldabréf eða hlutabréf, er mjög takmarkað nema markaðurinn stækki.

Það er því eðlilegt að spyrja þeirrar spurningar hvort að íslensku líf­eyr­is­sjóð­irnir verði of stórir fyrir Íslands í nán­ustu fram­tíð?

Það verður umfjöll­un­ar­efni morg­un­verð­ar­fundar sem Lands­sam­tök líf­eyr­is­sjóða og Kjarn­inn standa sam­eig­in­lega að næst­kom­andi mið­viku­dag, 9. maí. Fund­ur­inn fer fram á Grand hótel og stendur yfir milli 8:30 og 10. Fund­inum verður auk þess streymt beint á vef Kjarn­ans.

Fram­sögu­menn á fund­inum verða Már Guð­munds­son seðla­banka­stjóri, Gylfi Magn­ús­son, dós­ent í við­skipta­fræði við Háskóla Íslands, Jón Þór Sturlu­son, starf­andi for­stjóri Fjár­mála­eft­ir­lits­ins og Þor­björn Guð­munds­son, for­maður stjórnar Lands­sam­taka líf­eyr­is­sjóða.Fundurinn fer fram á miðvikudagsmorgun.

Hvatt til þess að horft sé til útlanda

Í janúar var líka birt önnur skýrsla starfshóps sem skoð­aði hlut­verk líf­eyr­is­sjóða í upp­bygg­ingu atvinnu­lífs á Íslandi. Í niðurstöðuhluta hennar var lagt til að sjóð­irnir auki vægi erlendra eigna til lengri tíma, verði skyldugir til að móta sér stefnu um stjórn­ar­hætti sem eig­enda í atvinnu­fyr­ir­tækjum og verði skylt að birta að minnsta kosti árlega skýrslu með upp­lýs­ingum um sam­skipti við félög sem þeir fjár­festa í og hvernig þeir greiði atkvæði á hlut­hafa­fund­um.

Þá var því beint til stjórn­valda að skoða, í sam­ráði við hags­muna­að­ila, að breyta lögum þannig að ein­stak­lingar fái auknar heim­ildir til að ráð­stafa við­bót­ar­líf­eyr­is­sparn­aði sínum til hús­næð­is­sparn­aðar og að sjóðsfélagar geti ráð­stafað 3,5 pró­sent af 15,5 pró­sent lág­marks­ið­gjaldi í sér­eign eða hús­næð­is­sparnað að eigin vali.

Kristján Guy Burgess, alþjóðastjórnmálafræðingur og ráðgjafi, skrifaði ítarlega grein um málið í Vísbendingu í byrjun apríl. Þar benti hann á að sjóðirnir þyrfti að dreifa áhættu og velja fjölbreytta kosti þegar þeir auka við fjárfestingu sína erlendis. „Það er aldrei gott að hafa öll egg í sömu körf­unni, jafn­vel þótt karfan sé stór.“

Kristján Guy sagði einnig að það væri fullkomlega eðlilegt að gera þá kröfu að við allar fjár­fest­ing­ar­á­kvarð­anir skuli sjóð­irnir miða við að hafa sem best áhrif á umhverfi, sam­fé­lag og stjórn­ar­hætti. „Það er hægt að gera án þess að afsláttur sé gef­inn af ávöxt­un, enda sýna sam­an­burð­ar­vísi­tölur að hægt er að fá betri ávöxtun víða með því að velja ESG-fjár­fest­ing­ar­leiðir umfram hefð­bundna sjóði. Vanti sjóð­ina fyr­ir­mynd­ir, má horfa til þess hvernig nor­rænu líf­eyr­is­sjóð­irnir hafa staðið að mál­u­m.“

Áhrif á samkeppni

Áðurnefndur starfshópur sem skoðaði hlutverk lífeyrissjóðanna sagði einnig í niðurstöðu sinni að hann hefði áhyggjur af því að víð­tækt eign­ar­hald líf­eyr­is­sjóða inn­an­lands geti „haft áhrif á sam­keppni og þar af leið­andi á verð og þjón­ustu við neyt­end­ur. Þess vegna er áríð­andi að líf­eyr­is­sjóðir marki stefnu um það hvernig þeir beita sér sem hlut­hafar í fyr­ir­tækjum sem þeir eiga hlut í. Þar sem sjóð­irnir byggja á skyldu­að­ild er eðli­legt að gera ríkar kröfur til þeirra um upp­lýs­inga­skyldu gagn­vart sjóð­fé­lög­un­um, eig­endum sjóð­anna.“

Sjóð­irnir gæti mik­illa hags­muna og séu því virkir hlut­hafar í fyr­ir­tækjum sem þeir fjár­festa í. „Sjóð­irnir eiga að leggja metnað í að inn­leiða leið­bein­ingar um stjórn­ar­hætti fyr­ir­tækja og stuðla að því að stjórn­ar­menn fyr­ir­tækja séu sjálf­stæðir í störfum sínum og hafi engin tengsl við til­tekna hlut­hafa umfram aðra.“

Mikil umsvif innanlands þrýstir upp eignarverði

Hagfræðistofnun komst að þeirri niðurstöðu að miklar fjár­fest­ingar líf­eyr­is­sjóða á inn­lendum mark­aði geti þrýst eigna­verði upp á við. „Af þeirri ástæðu gæti verið ráð­legt að halda fjár­fest­ingum hér á landi í hófi. Rök mæla ekki ein­ungis gegn því að sjóð­irnir setji stóran hluta af eignum sínum undir í einu landi - og því litlu - heldur getur líka verið óvar­legt að hætta stórum hluta eigna á sama stað og tekna er afl­að. Þá eru í skýrsl­unni færð rök fyrir því að sér­lega áhættu­samt sé fyrir líf­eyr­is­sjóð­ina að leggja mikið undir á íslenskum hluta­bréfa­mark­aði. Und­an­far­inn ald­ar­fjórð­ung hefur gengi íslenskra hluta­bréfa sveifl­ast meira en heims­vísi­tala hluta­bréfa í krónum talið.“

Már Guðmundsson er einn framsögumanna á morgunverðarfundinum um stærð lífeyrissjóðakerfisins.
mynd: Birgir Þór Harðarson

Það var því mat stofn­un­ar­innar að hlut­fall erlendra eigna líf­eyr­is­sjóða eigi á næstu 25 árum að hækka úr 22 pró­sent, líkt og þær eru nú, í 42 pró­sent. Þá fjallaði Hag­fræði­stofnun um þær raddir sem hefðu heyrst um að stór­felld eigna­kaup líf­eyr­is­sjóða erlendis geti veikt gengi krón­unn­ar. Nið­ur­staða stofn­un­ar­innar er sú að það geti hugs­an­lega ger­st, en að þau áhrif yrðu senni­lega ekki mik­il.

Hætta í sjóðssöfnun og fara í gegnumstreymi

Einn framsögumannanna á fundinum á miðvikudag, Gylfi Magnússon, hefur kallað eftir breytingum á lífeyrissjóðakerfinu vegna þess að hann telur að það sé orðið allt of stórt. Í Silfrinu í mars síðastliðnum sagði hann að íslensku lífeyrissjóðirnir væru búnir að kaupa „nánast allt sem þeir geta keypt og er vit er í að kaupa.“ Hann sagði einnig að lífeyrissjóðakerfið hefði meiri þörf fyrir því að lána fé en landsmenn hefðu fyrir að taka þau lán sem sjóðirnir bjóða upp á.

Þar kallaði hann eftir því að kerfinu yrði í auknum mæli breytt úr sjóðssöfnunarkerfi í gegnumstreymiskerfi. Það sé einfaldlega ekki hægt að kaupa öll þau innlendu verðbréf  sem stefnir í að keypt verði hér innanlands. „Það er heldur ekki sérstaklega spennandi hugmynd að fara að kaupa fyrir mörg þúsund milljarða króna hlutabréf í útlöndum til þess að halda uppi kerfi sem að hægt væri að gera með talsvert minni sjóðum og raun og veru öruggari lífeyri.“

Gylfi var á svipuðum nótum í grein sem hann birti í Vísbendingu í október 2017. Þar sagði hann að það það blasi við „að óhjá­kvæmi­legt er að skoða betur hvert stefnir í þróun líf­eyr­is­kerfis Íslend­inga og e.t.v. gera á því breyt­ing­ar. Hin mikla hækkun iðgjalda í sjóð­söfn­un­ar­kerf­inu sem samið hefur verið um virð­ist ekki hafa verið hugsuð til enda. Það þarf að gera fyrr eða síð­ar. Jafn­framt virð­ist brýnt að skoða hvort núver­andi kerfi býr nægi­lega vel að þeim elstu, sem eiga almennt lítil rétt­indi í líf­eyr­is­kerf­in­u.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar