Bára Huld Beck

Í fréttum í Berlín er þetta helst ... Gamalgróin dagblaðamenning Berlínarbúa

Kannski má segja að margir Berlínarbúar næri sig daglega með dagblöðum eins og Íslendingar taka lýsi á morgnana. Í lestunum má sjá fólk lesa dagblöð og standa með þau undir arminum þegar troðningurinn er sem mestur. Rithöfundur og blaðamaður ráfuðu um stræti Berlínar, um lestarstöðvar og kaffihús og önduðu að sér ilminum af nýprentuðum dagblöðum. Þær kynntu sér nautnalega dagblaðaneyslu Berlínabúa.

Á lestarstöðvunum er stemmari að fá sér kaffi í pappamáli og velja úr nýprentuðum blöðum sem ilma ekki síður en nýbakað bakkelsið sem oft er einnig til sölu. Lykt af tyggjói, nýbökuðum smjördeigshornum, kaffi og dagblöðum er ánetjandi lykt á lestarstöðvum borgarinnar.

Dagblöðin tilheyra morgunstemningunni. Á kaffihúsum hanga blöðin oft á fallegum viðarprikum, stór og umfangsmikil og óhrædd við að vera full af smáletruðu lesefni á kostnað mynda, þau sem flokkast ekki undir götupressuna. Fólk gefur sér tíma til að lesa burðargreinar með morgunkaffinu, já, eða í hádeginu, og á kvöldin má oft sjá gesti á kaffihúsum og börum drekka í sig fréttaskýringar með bjór eða léttvíni.

Greinahöfundar dást að þýskum karlmönnum í fallegum skóm að lesa þungavigtagreinar í dagblöðum á stærð við meðalglugga og brjóta þau saman æfðum höndum til að auðvelda sér lesturinn. Og ekki eru konurnar síðri! Kannski er maður ekki almennilegur Berlínarbúi fyrr en maður hefur tileinkað sér að brjóta saman stórt dagblað eftir kúnstarinnar reglum.

Bára Huld Beck

Á útikaffihúsunum rangla heimilislausir blaðasalar á milli borða og selja sérstakt blað sem þeir gefa út og jafnast á í gæðum við flest blöð hérlendis. Kannski eins konar Grapevine heimilislausra. Kúl blað!

Heimilislaus kona selur Strassenfeger, blað sem heimilislausir gefa út í Berlín.
Bára Huld Beck

Blaðasalarnir í blaðasjoppunum eiga sér sína fastakúnna og vara þá við að kaupa eintakið af Der Spiegel ef nýtt tölublað er væntanlegt daginn eftir. Meira að segja börnin eru sum fastagestir í blaðasjoppunum því úrvalið af blöðum og tímaritum handa börnum er með eindæmum. Í barnarekkanum má finna blöð og tímarit sem minna á gömlu Æskuna, barna-Spiegel, vísindarit handa börnum, teiknimyndasögur, tímarit um heiminn og allt sem nöfnum tjáir að nefna; þau venjast því fljótt að verða neytendur blaða og tímarita.

Hið fjölmenna þýskumælandi svæði hefur úr mörgum dúndurgóðum blöðum að velja á hverjum degi. Margir eiga sér sitt uppáhaldsblað, blað sem þeim þykir vænna um en önnur. Þýskir blaðamenn eru óhræddir við að skrifa ýtarlegar fréttaskýringar með löngum textum – sem einhver hefði haldið að væru dottnar úr tísku á tímum smelludólga og áunnins athyglisbrests. Þjóðverjar búast við gagnrýninni, faglegri og teprulausri blaðamennsku.

Gríðarlegt útvar er af tímaritum í blaðabásum.
Bára Huld Beck
Blaðastandar eins og þessu eru nánast á hverju götuhorni.
Bára Huld Beck

Einhver tímann heyrði annar greinahöfundur að þjóðaríþrótt Þjóðverja væri að hugsa og þessi fjölmiðlamenning höfuðborgarbúa er að einhverju leyti vitnisburður um þessa nautn þeirra að hugsa. Hve margir þeirra njóta þess að næra sig með fréttaskýringum.

Athygli vekur líka að á flestum blaðastöndum eru þó nokkur dagblöð á tyrknesku og hjá sérstökum blaðasölum má kaupa blöð á ensku. Flest þessi blöð eru með sína netmiðla en þrátt fyrir það er þessi menning ennþá sýnileg vegfarendum um hverfi borgarinnar.

Tyrkneskt dagblað á lestarstöð.
Bára Huld Beck

Greinarhöfundar tylltu sér á kaffihúsi í Kreuzberg og kíktu á blöðin í troðfullum blaðarekkanum. Athygli vakti kunnuglegt stef varðandi leikskólamál en erfitt er að manna leikskóla í Berlín. Afleiðingarnar eru þær að fjölskyldur lenda í vandræðum og hefur borið á því að konur hafi þurft að hætta að vinna til að hugsa um börnin. Samhliða hefur félagslegum vandamálum í skólum fjölgað; ofbeldi og einelti hefur farið vaxandi og öryggi kennara og nemenda hefur minnkað.

Í öðrum fréttum var það helst að lögreglan í Berlín var nervus með sérstakan viðbúnað fyrir 1. maí en óeirðir eru nánast hefð þennan dag í Berlín. Viðbúnaðurinn var m.a. vegna spennu út af frelsishreyfingu Kúrda, öfga-vinstrisinnum, mögulegum hryðjuverkum og fleiru. Ýmsu sem þarf ekki að huga að á þessum degi í Reykjavík þar sem helsta vandamálið er löng röð við pylsulúgur. Alþjóðamál renna saman við daglegt líf í borg fjölmenningar og flókinna stjórnmála.

Maður les uppáhaldsdagblaðið sitt, Berliner Zeitung. Að lesa blaðið dag hvern er hans helsta náðarstund.
Bára Huld Beck

En alþjóðamálum eru gerð áberandi góð skil í þeim blöðum sem eru ekki sérstök Berlínarblöð og greinarhöfundar glugguðu í. Á forsíðu Der Spiegel má sá andlit Donalds Trumps sem brennandi eldhnött með fyrirsögninni: Hver bjargar vestrinu? Merkel húmir hrædd við hlið Macron sem blikkar lesandann búralegur með slökkvitæki í fanginu.

Þarna var af ýmsu öðru að taka. Þarna voru endalausar greinar um alþjóðamál og greinar um sekt Vesturlandabúa varðandi vinnuþrælkun og arðrán í fátækri löndum heimsins – nú sem fyrr eru Þjóðverjar meðvitaðir um sektina. Jafnframt fréttu greinarhöfundar að lífvörður Osama bin Laden væri kominn á sósíalinn í Berlín og vakti sérstaka athygli grein um bolabít á sérstakri vökudeild þar sem hann fylgdist með hvolpunum sínum í hitakassa.

Kona les tímarit á kaffihúsi í Berlín.
Bára Huld Beck
Blaðamenning í Berlín - Samsett mynd.
Bára Huld Beck

Lesa má helstu blöðin á netinu:

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar