Karl Marx átti merkisafmæli um síðustu helgi. Hann hefði orðið 200 ára, hefði hann lifað. Þjóðverjar hafa afskaplega gaman af að fagna afmælum og þeir hafa haldið upp á afmæli gamla fræðimannsins sem þeir hröktu í útlegð hálfþrítugan af því skrif hans fóru fyrir brjóstið á Prússakeisara. Í fæðingarbæ hans, vínbænum Trier við ána Mósel rétt við landamæri Lúxemborgar, var afmælinu sérstaklega fagnað enda fulltrúi kínverskra stjórnvalda mættur til að afhenda bæjarbúum styttu af þessum frægasta syni bæjarins. Engin smásmíði sú stytta, hálfur sjötti metri á hæð.
Það er við hæfi því Karl Marx var stórmenni og arfur hans mikill og margbreytilegur. Hvar sem menn standa í pólitík viðurkenna flestir að hann sá í gegnum kapítalismann af skarpskyggni sem fáum er gefin. Ágreiningurinn liggur helst í því hversu miklu af vonsku kommúnismans menn vilja rekja til hans persónulega.
Hluti þessa arfs er tilvist SPD, flokks þýskra jafnaðarmanna sem nú deilir stjórnartaumunum hér í Berlín með kristilegum demókrötum. SPD rekur sögu sína aftur til ársins 1863 þegar Marx var í útlegð og gat þess vegna ekki verið með. En hann var með í andanum og skrifaðist á við flokkinn frá Lundúnum. Þegar hann lést var Bismarck búinn að banna flokkinn, rétt eins og Hitler gerði síðar.
Ég veit hins vegar ekki nema Marx snúi sér reglulega í gröf sinni yfir flokknum eins og staða hans er núna.
Forystuafl á brauðfótum
Sozialdemochratische Partei Deutschlands eins og flokkurinn heitir fullu nafni á þýsku er elsti flokkur landsins og hefur lengst af þeirri sögu verið stærstur eða næststærstur flokka hér í landi. Allt frá því goðsögnin Willy Brandt varð kanslari árið 1969 hefur flokkurinn skipst á við kristilega demókrata um að skipa í það embætti. Fylgi hans hefur lengst af verið á bilinu 30-40%. Hann hefur löngum verið forystuafl jafnaðarmanna á Evrópu- og heimsvísu og notið virðingar sem slíkur.
En nú er öldin önnur. Í kosningunum síðasta haust var fylgið dottið niður í 20,5% og í skoðanakönnunum að undanförnu hefur það mælst á bilinu 17-19%. Þessi þrautaganga hefur staðið um nokkurra ára bil en fyrir réttu ári virtist henni vera lokið. Snemma árs í fyrra kusu jafnaðarmenn sér nýjan leiðtoga, Martin Schulz. Hann var kosinn með öllum greiddum atkvæðum á flokksstjórnarfundi og hafði varla tyllt sér í formannsstólinn þegar fylgið fór að aukast í könnunum.
Það má með réttu kalla Schulz sveiflukóng, þó ekki í alveg sama skilningi og Geirmund Valtýsson. Kúrvan í skoðanakönnunum stefndi í að fara upp fyrir fylgi Kristilegra demókrata þegar leið á vorið. En þá hófst niðursveiflan og í kosningunum í lok september fékk flokkurinn aðeins um fimmtung atkvæða sem er lélegasta útkoma hans í sögunni. Schulz fór þá í fýlu og lýsti því yfir með afdráttarlausum hætti að hann ætlaði aldrei framar að taka þátt í stjórnarmyndun með Angelu Merkel, hvað þá að þiggja af henni ráðherraembætti.
Eftir að Frank-Walter Steinmeier forseti Þýskalands og flokksbróðir Schulz þrýsti á hann lét hann sig þó hafa það að ganga til viðræðna við Merkel um stjórnarmyndun og náðu þau saman um nýja stórsameiningu, GroKo. Og það sem meira var, Schulz ætlaði ekki að láta sér nægja að vera varaskeifa kanslarans eins og hans hlutverk hefur verið heldur taka að sér embætti utanríkisráðherra. Svo ákveðinn var hann í þessu að hann lét embætti flokksformanns af hendi og tilnefndi Andreu Nahles sem arftaka sinn. Við þetta hélt hann í tvo sólarhringa, þá var reiði flokksmanna hans orðin svo mikil að hann varð að gefa eftir utanríkisráðuneytið. Honum hafði láðst að ræða þetta við starfandi utanríkisráðherra, Sigmar Gabriel, hvað þá aðra flokksfélaga. Nú er hann því bara óbreyttur þingmaður með engin völd og þverrandi áhrif. Þó eru uppi raddir um að hann gæti verið á leið aftur á Evrópuþingið sem kosið verður til á næsta ári en þar á hann reyndar fortíð sem þingforseti.
Þrotinn að kröftum og vinalaus
Þessi svanasöngur Schulz sem formaður SPD vakti furðu margra utan flokks sem innan og um hann var skrifuð bók sem kom út um miðjan mars. Sá sem ritaði er blaðamaður á Der Spiegel, Markus Feldenkirchen, sem fylgdi Schulz eins og skugginn allt til enda. Hann lýsir því hvernig Schulz var kjörinn formaður undir því vígorði að brúa bilið sem hafði myndast milli forystunnar og hins almenna flokksfélaga og hvernig hann endaði með því í raun að taka sér alræðisvald, hann vildi bæði ráða og reka, hvað svo sem samþykktir og hefðir flokksins sögðu til um.
Feldenkirchen lýsir síðasta ferðalaginu sem Schulz fór sem formaður, í flugvél frá Köln til Berlínar daginn áður en hann sagði af sér sem formaður. Hann var útkeyrður þrátt fyrir að hafa tekið sér frí í tvo daga til að fara á karnival í heimabæ sínum, Aachen. – Guð hvað ég er þreyttur. Ég efast um að ég nái því að hressast, ég þarf örugglega hálft ár til þess að ná upp kraftinum aftur, sagði hann. Formannsárið hefði byrjað vel en svo fór allt á verri veg og það endaði með vinslitum við Sigmar Gabriel en þeir höfðu lengi verið nánir félagar. Schulz líkti þessum síðustu mánuðum við það sem gerist í sjónvarpsþáttunum House of Cards þar sem fjallað er um grimmd og niðurlægingu sem helsta einkenni stjórnmálanna.
Hver er sérstaða SPD?
Þótt Schulz hafi hörfað ofan af toppnum blása enn naprir vindar um flokkinn ef marka má fréttir fjölmiðla. Í helgarútgáfu Berlínarblaðsins Tagesspiegel má lesa forsíðufrétt um að enn séu átök um menn og sér í lagi málefni í SPD. Þar er tekist á um ýmis mál en þó einkum þau sem ráðherrar flokksins bera ábyrgð á og þeir eru sjálfir virkir í deilunum.
Sem dæmi má nefna að stefna nýs utanríkisráðherra SPD, Heiko Maas, gagnvart Rússum er harðari en sú sem forveri hans, áðurnefndur Sigmar, fylgdi. Gegn þessu stefna margir flokksmenn Ostpolitik Willy Brandts sem vildi vera í senn fylginn sér og sveigjanlegur í viðræðum við Rússa. Þá gerðist það í vikunni að Olaf Scholz fjármálaráðherra flokksins – sá fyrsti sem SPD hefur fengið – lagði fram fyrsta fjárlagafrumvarp sitt í vikunni og þar fannst mörgum vanta talsvert upp á fjárfestingar- eða eyðslugleðina. Róttæklingablaðið Taz kallaði frumvarpið Rautt núll sem er tilvísun í svart núll kristilegra demókrata sem hafa þá meginstefnu að auka aldrei skuldir ríkisins.
Þessar deilur má eflaust skoða í ljósi þess að stór hluti flokksmanna er á því að flokkurinn hefði helst ekki átt að taka sæti í fleiri Merkelstjórnum, þær hafi dregið úr honum tennurnar og nú þurfi jafnaðarmenn að skerpa línurnar, draga fram þá róttækni sem liggur í rótunum og sögunni.
Meðan allt þetta gekk á kaus flokkurinn sér nýjan formann í apríl. Í fyrsta sinn í rúmlega hálfrar annarrar aldar langri sögu SPD treysta flokksmenn konu til þess að gegna forystu jafnaðarmanna. En hvernig skyldi Andreu Nahles ganga að skerpa flokkslínurnar með fram því að halda vinskapinn við Angelu Merkel? Í það verður spáð í næsta pistli sem birtist á sunnudag.