1. Leigjendum fjölgar
Leigjendur á Íslandi eru nú um 50 þúsund talsins og hefur fjölgað um tíu þúsund á sjö árum. Líklegt er að þeim muni enn fjölga á næstu árum. Á árinu 2017 fjölgaði landsmönnum til að mynda um tíu þúsund en 1.768 nýjar íbúðir bættust við á landinu öllu. Því er eftirspurn eftir húsnæði mun meiri en framboðið.
2. Óhagstætt að leigja
92 prósent þeirra sem tóku þátt í könnun Íbúðalánasjóðs telja að það sé óhagstætt að vera á leigumarkaði. Það er nánast sama hlutfall leigjenda sem var á þeirri skoðun vorið 2017. Samt töldu 80 prósent aðspurðra að þeir yrðu þar áfram á leigumarkaði eftir sex mánuði.
3. Minna húsnæðisöryggi
Leigjendur búa við minna öryggi en húsnæðiseigendur. Alls segjast 94 prósent þeirra sem eiga húsnæði að þeir búi við húsnæðisöryggi. Á meðal leigjenda er það hlutfall 57 prósent, eða mun lægra. Þeim fer þó fjölgandi leigjendunum sem telja sig búa við öryggi. Í apríl 2017 töldu 45 prósent þeirra sig búa við slíkt.
4. Tekjulágir á leigumarkaði
Tekjulægri hópar eru mun líklegri til að vera á leigumarkaði en tekjuhærri hópar. Þannig eru 26 prósent þeirra sem eru með mánaðartekjur sem eru milli 200-399 þúsund krónur á leigumarkaði, en einungis 11 prósent þeirra sem eru með mánaðatekjur á bilinu 600-799 þúsund. Meirihluti þeirra sem eru á leigumarkaði telja sig annað hvort ná saman endum með naumindum, nota sparifé til að framfleyta sér eða safna skuldum vegna framfærslu.
5. Leiguverð hækkað umfram laun
Hinn mikli skortur sem verið hefur á íbúðarhúsnæði á Íslandi á undanförnum árum hefur leitt af sér miklar hækkanir á fasteignaverði. Frá árinu 2011 hefur það hækkað um 92 prósent. Leiguverð hefur hækkað aðeins minna, eða um 82 prósent. Á sama tíma hafa laun hækkað um 66 prósent. Það þýðir að fyrir leigjendur sem hafa fengið meðaltalshækkun launa hefur það hlutfall launa þeirra sem fer í húsnæðiskostnað hækkað verulega á umræddu tímabili. Mest hefur skilið á milli á allra síðustu misserum, eða frá miðju ári 2016.
6. Lítið framboð
Árið 2011 töldu 18 prósent leigjenda að framboð af íbúðarhúsnæði til leigu væri mikið en 55 prósent töldu það lítið. Í ár telja einungis sjö prósent að mikið framboð sé á leiguíbúðum en 80 prósent telja framboðið vera lítið. Í millitíðinni hefur leigjendum fjölgað um tíu þúsund.
7. Verri staða en á Norðurlöndunum
Staða leigjenda virðist að mörgu leyti vera verri hérlendis en á hinum Norðurlöndunum. Í lok árs 2016 var leiga til að mynda 50 prósent ráðstöfunartekna hjá lágtekjuhópum á Íslandi. Hvergi á hinum Norðurlöndunum greiða lágtekjuhópar jafn hátt hlutfall af þeim peningum sem standa eftir þegar skattar og gjöld hafa verið greiddir. Noregur er þó ekki langt undan. Þessi breyting er tiltölulega nýleg. Á árunum 2008 og 2009 greiddu íslenskir leigjendur með lágar tekjur 39 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í leigu sem þá var lægsta hlutfallið á Norðurlöndunum. Samhliða framboðsvanda og innkomu hagnaðardrifinna leigufélaga á markaðinn hefur þetta hlutfall hækkað.
8. Helmingi færri félagslegar íbúðir
Félagslegum íbúðum hefur fækkað um helming frá árinu 1998, þegar félagslega húsnæðiskerfið var lagt niður. Þá voru félagslegar íbúðir á landinu alls 11.044 talsins. Í lok árs 2016 voru félagslegar íbúðir á Íslandi rúmlega helmingi færri en þær voru þegar kerfið var afnumið, eða 5.065 talsins. Til viðbótar reka Félagsbústaðir, Búseti, Félagsstofnun stúdenta, Byggingafélag Námsmanna og Öryrkjabandalag Íslands samtals nokkur þúsund íbúðir.
9. Langir biðlistar
Afleiðingin er sú að um 1.600 manns eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði hjá sveitarfélögum landsins. Langflestir eru á biðlista hjá höfuðborginni Reykjavík, sem rekur langumfangsmestu velferðarþjónustuna og á meira af félagslegu húsnæði en öll önnur sveitarfélög landsins til samans.
10. Heimilislausum fjölgar
Samhliða ofangreindri þróun á húsnæðismarkaði hefur óstaðsettum í Reykjavík, þeim sem eru ekki með skráð lögheimili eða býr á götunni, fjölgaði um 74 prósent á frá byrjun árs 2014 og fram að síðustu áramótum. Þeir eru nú 661 talsins og hafa aldrei verið fleiri. Í fyrra fjölgaði þeim um 23,7 prósent alls.
Fréttaskýringin birtist fyrst í Mannlífi sem kom út 11. maí.