Nýr formaður í flokki þýskra jafnaðarmanna heitir Andrea Nahles og er múraradóttir frá 500 manna þorpi skammt frá Nürnberg. Hún verður 49 ára í næsta mánuði og hefur verið virk í pólitík frá unglingsárunum. Hún lærði þýsku og bókmenntir í skóla og sagan segir að hún hafi verið byrjuð á doktorsritgerð þegar flokkurinn kallaði hana til verka. Nú er hún komin á toppinn og við blasir heldur næðingssamur tími. Hún þarf að stjórna landinu í félagi við Angelu Merkel kanslara, en það sem gæti þó reynst snúnara: hún þarf að koma á sáttum innan eigin flokks og hífa hann upp úr þeim öldudal sem hann hefur verið að síga ofan í á undanförnum misserum.
Þjóðverjar hafa velt því fyrir sér hvernig þessum tveimur konum muni ganga að vinna saman, en þetta er í fyrsta sinn sem sú staða er uppi í þýskum stjórnmálum að tveimur stærstu flokkum landsins sé stjórnað af konum. Þrátt fyrir að þær séu á margan hátt ólíkar í háttum og afstöðu til mála eru menn frekar bjartsýnir á að samstarf þeirra gangi vel. Þær eru alls ekki ókunnugar því Andrea Nahles var ráðherra atvinnu- og félagsmála í ríkisstjórninni sem fór frá síðasta haust.
Í nýlegri grein í Der Spiegel eru þær bornar saman og niðurstaðan er sú að þær séu ólíkar. Nahles er ástríðupólitíkus sem á það til að missa sig í ræðustól og tekur stundum ákvarðanir sem gustar af á meðan Merkel er það sem blaðið kallar á ensku „control freak“. Merkel átti oft erfitt með að þola forvera Nahles á formannsstóli, Sigmar Gabriel, þegar hún frétti ekki af ákvörðunum hans fyrr en þær birtust í fjölmiðlum. Nahles gætti þess hins vegar vel meðan hún var ráðherra að sinna tilkynningarskyldunni og láta Merkel alltaf vita ef eitthvað var í bígerð í ráðuneytinu.
[adpsot]Annað sem skilur þær að er að Merkel er dóttir prests í lúterskri kirkju en Nahles ólst upp í kaþólskri trú, hún var kórstúlka og sækir enn messur í heimakirkju sinni. Þetta skiptir kannski ekki miklu máli svona í daglegri pólitík, en merkilegt nokk er til saga af því að þessi trúarlegi mismunur hafi fært þær nær hvor annarri. Þannig var að stuttu eftir að núverandi páfi tók við embætti boðaði hann komu sína til að heimsækja forvera sinn í embætti, en sá var þýskur. Merkel fékk boð um að mæta við athöfn sem páfinn hugðist halda, en henni fannst ekki viðeigandi að hún færi þangað, lútersk manneskjan. Þá leitaði hún til Nahles sem var nýorðinn ráðherra og spurði hvort hún vildi ekki mæta í hennar stað, hvað hún þáði með þökkum.
Stjórn eða ekki stjórn, þar er vafinn
Andrea Nahles hefur gegnt ýmsum störfum í flokknum og var formaður þingflokksins þegar formennskan komst á dagskrá. Hún er semsé enginn nýgræðingur í pólitík og á sér fortíð í vinstriarmi SPD, þótt hún hafi raunar sagt skilið við hann. Það segir sína sögu um hana. Í ráðherratíð sinni innleiddi hún í fyrsta sinn lögskipuð lágmarkslaun í Þýskalandi. Í aðdraganda þess varð hins vegar ágreiningur um hvernig að því skyldi staðið og hversu há þau ættu að vera. Nahles stóð með þeirri málamiðlun sem náðst hafði í ríkisstjórninni og sagði sig úr samtökum vinstrisinnaðra jafnaðarmanna. Hér í landi þykir það afar eðlilegt að fólk skipi sér í fylkingar innan stjórnmálaflokka og haldi sínu fram, hvað sem stjórnarsáttmálinn segir.
Nú er Nahles komin í þá stöðu að þurfa að stilla saman strengi flokksmanna sinna og það gæti reynst þrautin þyngri. Byrjunin lofar ekkert sérlega góðu. Þátttaka flokksins í ríkisstjórn var samþykkt naumlega í allsherjaratkvæðagreiðslu og í formannskjörinu hlaut Nahles tvo þriðju hluta atkvæða í flokksstjórninni. Þriðjungur forystumanna flokksins kaus að sitja hjá eða greiða ungri og lítt þekktri konu frá Flensborg atkvæði. Þetta er enn vandræðalegra í ljósi þess að Martin Schulz fékk öll atkvæðin þegar hann tók við formennskunni í fyrra. Þrátt fyrir fortíð sína í ungliðahreyfingu og vinstriarmi flokksins mátti hún horfa upp á ungliðaforystuna og marga vinstrimenn beita sér af fullkominni hörku gegn endurnýjun ríkisstjórnar undir forystu Merkel.
Þar er komið að kjarna ágreiningsins innan flokksins. Mörgum flokksmönnum þykir stjórnarsamstarfið við kristilega hafa togað flokkinn lengra inn á miðjuna en góðu hófi gegnir. Þeir vildu að flokkurinn hvíldi sig í stjórnarandstöðu og notaði næstu ár til að skerpa á sérstöðu sinni í þýskum stjórnmálum. Þessi ágreiningur nær upp í forystuna, en þingmenn og jafnvel ráðherrar virðast oft leggja sig í líma við að skapa ágreining um stefnu stjórnarinnar. Raunar eru jafnaðarmenn ekki einir um það því kristilegir, einkum þeir sem koma frá Bæjaralandi og teljast til CSU, hafa verið duglegir að toga í hina áttina, færa stjórnina til hægri, helst yfir í faðm hægri popúlista.
Andrea Nahles hefur farið rólega af stað í formannsembættinu og virðist ætla að beita svipaðri aðferð og Merkel er þekkt fyrir: Komi upp ágreiningur er best að bíða með ákvarðanir í lengstu lög, það leiðir oftar en ekki til þess að vandamálin leysi sig sjálf eða þá að andstæðingarnir missi þolinmæðina og geri einhverja vitleysu. Þær eru raunar í ansi ólíkri stöðu því allir vita að þetta verður síðasta kjörtímabil Angelu Merkel. Hún er raunar byrjuð að hrókera í baklandinu og aldrei þessu vant hefur hún safnað í kringum sig yngri konum sem eiga að taka upp merki hennar. Hún hefur ekki verið þekkt fyrir það hingað til að hlaða sérstaklega undir konur í flokki sínum.
Tilvistarvandi verkalýðsflokka
Að baki þessum heimagerðu vandamálum lúra svo hinar stærri ógnanir sem allir jafnaðarmannaflokkar í Evrópu og víðar glíma við. Veröldin er að breytast mjög ört um þessar mundir, hinar klassísku stéttir að riðlast og gömul bandalög að leysast upp. Hluti af þessum ógnunum felst í tækniþróuninni. Menn sjá fram á að tölvutækni og sjálfvirkni muni fækka þeim verulega sem sinna hefðbundinni launavinnu og framleiðslu. Þjónustan verður hlutverk æ fleiri í samfélaginu sem blasir við. Við það lenda stéttarfélög í standandi vandræðum og þar með einn helsti burðarás jafnaðarmannaflokkanna.
Ég leit inn í flokkshöll SPD hér í Berlín en hún ber nafn hins goðumlíka leiðtoga Willy Brandts. Þar var svo sem ekki mikið að gerast því þennan dag var haldinn flokksstjórnarfundur í Wiesbaden til að kjósa Andreu Nahles. En það sem vakti athygli mína í þessari heimsókn var ljósmyndasýning sem þar var í gangi. Þar héngu á veggjum ljósmyndir sem langflestar voru teknar á sjötta og sjöunda áratugnum og sýndu verkamenn í átökum vegna atvinnuleysis og bágra kjara í námum og iðnfyrirtækjum Ruhr-héraðsins. Þar var að hefjast þróun sem nú sér fyrir endann á: Kola- og járnnámurnar sem á sínum tíma lögðu grunninn að hinu þýska iðnveldi voru að tæmast og eigendur þeirra beittu ýmsum fantabrögðum til þess að lengja líftíma þeirra. Nú eru þessar námur að heita má allar aflagðar, kol eru ekki vinsæl framleiðsluvara á tímum vindmyllunnar og hefðbundin iðnframleiðsla hefur að stórum hluta flust til fátækari ríkja þar sem umhverfisvernd er slakari en hér í Þýskalandi.
Mér fannst þessi fortíðarþrá sem birtist í myndunum á sýningunni í Húsi Willy Brandts nokkuð sterk áminning um það að heimurinn hefur breyst frá velmegunarárum jafnaðarmannaflokkanna. Spurningin er sú hvort flokkunum lánast að laga stefnu sína og starfshætti að hinni stafrænu nútíð og framtíð sem óumflýjanlega verður hlutskipti þeirra að bregðast við á næstu árum – sé það ekki þegar orðið of seint.