Afdrifaríkur dómur

Þrettán sinnum, á þrettán mánuðum, hefur danska lögreglan komið í heimsókn í útlendingafangelsið í Ellebæk og spurt hvort íraskur fangi sé tilbúinn að fara aftur til Írak.

Politi
Auglýsing

Þrettán sinn­um, á  þrettán mán­uð­um, hefur danska lög­reglan komið í heim­sókn í útlend­inga­fang­elsið í Ellebæk á Norður – Sjá­landi. Erindið hefur í öll skiptin verið hið sama: að spyrja hæl­is­leit­anda, íraskan Kúr­da, hvort hann væri ekki til­bú­inn til að fara aftur heim til Íraks. Svar manns­ins hefur ætíð verið hið sama: nei.

Mað­ur­inn, sem ekki má nafn­greina, flýði frá Írak og komst til Dan­merk­ur, við kom­una þangað sótti hann um hæli. Meðan mál hans var til afgreiðslu hjá yfir­völdum bjó hann í sér­stökum flótta­manna­búð­um, Sand­holm­búð­unum á Norður – Sjá­landi. Nokkrum mán­uðum eftir kom­una til Dan­merkur var umsókn manns­ins um hæli synj­að. Þegar sú nið­ur­staða lá fyrir var hann vistaður í fang­els­inu í Ellebæk og strax eftir kom­una þangað ræddi lög­regla við mann­inn og sagði honum að ekki væri um annað að ræða en að hann færi aftur til Írak. Þeirri upp­á­stungu lög­regl­unnar hafn­aði mað­ur­inn á þeirri for­sendu að hann ótt­að­ist um líf sitt ef hann sneri aftur til Íraks, lands­ins sem hann flýði frá. Með þetta svar fór lög­reglan á brott en kom aftur mán­uði síðar og bar upp sömu spurn­ingu, og fékk sama svar­ið. Á þessu gekk í 13 mán­uði, á nákvæm­lega sama mán­að­ar­degi hverju sinni kom lög­reglan, ræddi við mann­inn og fékk ávallt sama svar­ið: mað­ur­inn neit­aði upp­á­stungu um flutn­ing til Íraks. Írak eins og mörg önnur lönd taka ekki við fólki sem flúið hefur landið nema það sam­þykki sjálft heim­flutn­ing­inn.

Lög­reglan fer að lög­um   

Hvernig stendur á því að lög­reglan kemur mánuð eftir mánuð og ber alltaf upp þessa sömu spurn­ingu, sem alltaf er svarað á sama veg, kynni nú ein­hver að spyrja. Stenst þetta lög? Svarið við þess­ari spurn­ingu er: já, þetta stenst lög. Lög­reglan hef­ur, síðan árið 2003, haft heim­ild til að beita svo­kall­aðri hvetj­andi fang­els­is­vist (með munn­legum þrýst­ingi í heim­sókn­um) í því skyni að fá hæl­is­leit­endur til að fall­ast á flutn­ing til heima­lands­ins. Þessum lögum var um margra ára skeið ekki beitt en árið 2015 breytti rík­is­stjórnin  þeim og lagði jafn­framt áherslu á að reynt yrði í auknum mæli að beita lög­un­um. Hæl­is­leit­endum í sömu stöðu og íraski Kúr­dinn hafði fjölgað mikið í Dan­mörku og ollu yfir­völdum áhyggj­um. Kostn­að­ur­inn var einnig veru­leg­ur, á sól­ar­hring um það bil 1.500 krónur (ca. 25 þús. ísl.) á hvern ein­stak­ling. Eitt mik­il­vægt atriði vant­aði hins­veg­ar, og vantar enn, í áður­nefnd lög. Tímamörk. Hversu lengi lög­reglan geti haldið hæl­is­leit­anda, sem neitar heim­flutn­ingi, í fang­elsi.

Auglýsing

Lög­maður kærir

Lög­maður íraska Kúr­dans kærði fang­els­is­úr­skurð­inn og eftir að Lands­réttur hafði úrskurðað að ekk­ert væri athuga­vert við hina löngu fanga­vist og heim­sóknir lög­regl­unn­ar, fékkst leyfi til að áfrýja mál­inu til Hæsta­réttar Dan­merk­ur. Dómur Hæsta­réttar féll fyrir nokkrum dögum og þar var dómi Lands­réttar snúið við og fyr­ir­skipað að íraski Kúr­dinn skyldi þegar í stað lát­inn laus úr fang­els­inu. Í dóms­nið­ur­stöðu Hæsta­réttar segir að fang­elsun af þessu tagi skuli að jafn­aði ekki vara lengur en sex mán­uði, nema sér­stakar ástæður komi til, þá geti hún varað í tólf mán­uði til við­bót­ar, sem­sagt sam­tals átján mán­uði. Þessum sér­stöku ástæðum væri ekki til að dreifa í til­viki íraska Kúr­dans og þess vegna skyldi honum sleppt úr fang­els­inu, án taf­ar. Mað­ur­inn er þó ekki frjáls ferða sinna, nema að tak­mörk­uðu leyti, því honum er gert skylt að búa í Sand­holm flótta­manna­búð­unum á Sjá­landi. Hvert framhaldið verður er á þess­ari stundu óljóst.

Sand­holm búð­irnar eru ætl­aðar til tíma­bund­innar dvalar en margir þeirra sem þar búa hafa verið þar árum sam­an. Að jafn­aði dvelja um fimm hund­ruð manns, fjöl­skyldur og ein­stak­ling­ar, í Sand­holm.

Dóms­nið­ur­staðan mik­il­væg

Lög­reglan hefur ekki tjáð sig um nið­ur­stöðu Hæsta­rétt­ar, það hafa danskir ráð­herrar ekki heldur gert. Lög­maður íraska Kúr­dans hefur hins­vegar sagt að dóms­nið­ur­staðan sé mjög mik­il­væg og hafi for­dæm­is­gildi í mörgum sam­bæri­legum mál­um. Þarna sé skýrt kveðið á um að lög­reglan geti ekki haldið fólki í fang­elsi mán­uðum og árum saman í þeim til­gangi að ,,mýkja það“ einsog lög­mað­ur­inn komst að orði. Lög­menn nokk­urra ann­arra hæl­is­leit­enda sem sitja í Ellebæk útlend­inga­fang­els­inu hafa þegar farið fram á að skjól­stæð­ingar þeirra verði þegar í stað fluttir í Sand­holm búð­irn­ar. Lög­reglan hefur ekki viljað upp­lýsa um fjölda þeirra sem eru í sömu stöðu og áður­nefndur íraskur Kúrdi en danskir fjöl­miðlar telja þá vera á sjötta hund­rað, þar af um helm­ingur frá Íran.

Yfir­völd ráð­þrota

Eins og staðan er standa dönsk yfir­völd ráð­þrota. Til­raunir þeirra til að senda hæl­is­leit­end­ur, sem synjað hefur verið um land­vist, heim bera lít­inn árang­ur. Margoft hefur verið farið með hæl­is­leit­endur í sendi­ráð við­kom­andi lands í Kaup­manna­höfn í því skyni að fá við­kom­andi til að sam­þykkja heim­flutn­ing. En hæl­is­leit­end­ur, sem flúið hafa heima­land­ið, gefa lítið fyrir lof­orð sendi­ráðs­manna og neita heim­flutn­ingi.  In­ger Støjberg, ráð­herra inn­flytj­enda­mála í dönsku rík­is­stjórn­inni er mjög ósátt við að ,,sitja uppi með þetta fólk“ einsog hún orðar það en þrátt fyrir til­lögur hennar og ann­arra, ger­ist ekk­ert. Hæl­is­leit­end­ur, telja sig fanga aðstæðn­anna, þeirra eina von er að fá land­vist­ar­leyfi, sem dönsk yfir­völd vilja ekki veita. Og þar við sit­ur.Meira úr sama flokkiFréttaskýringar