Erlendum ríkisborgurum sem búa á Íslandi hefur fjölgað um 89 prósent frá lokum árs 2011. Þá bjuggu hér 20.930 slíkir en í lok mars síðastliðins voru þeir 39.570. Á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018 fjölgaði erlendum ríkisborgurum sem búa á Íslandi um 2.880 talsins.
Landsmönnum fjölgaði um 2.120 sama tímabili og eru nú 350.710. Það þýðir að öll fjölgun á Íslandi, og vel rúmlega það, á fyrstu mánuðum ársins var vegna aðflutnings útlendinga. Þetta kemur fram í nýlegum tölum Hagstofu Íslands sem sýna fjölda landsmanna í lok fyrsta ársfjórðungs 2018.
Í fyrra fluttu 7.888 erlendir ríkisborgarar til landsins umfram þá sem fluttu frá því. Fjöldinn hefur aldrei verið meiri á einu ári í Íslandssögunni. Á fyrsta ársfjórðungi þess árs fjölgaði erlendum ríkisborgurum um 1.090 talsins. Það er um 37 prósent af þeirri aukningu sem varð á fjölda erlendra ríkisborgara á Íslandi á sama tímabili í ár.
Haldi þessi vöxtur áfram má því búast við að árið í ár verði annað metár í fjölgun útlendinga sem setjast að á Íslandi, að minnsta kosti tímabundið og að fjöldi þeirra fari að slaga upp í 50 þúsund í mjög náinni framtíð.
Reykjanesbær og Reykjavík draga vagninn
Frá lokum mars 2017 til loka sama mánaðar í ár fjölgaði erlendum ríkisborgurum í landinu um 8.100 umfram þá sem fluttu burt. Til að setja þá tölu í samhengi þá eru níu af 72 sveitarfélögum landsins með íbúafjölda yfir fimm þúsund. Í Árborg búa til að mynda 8.995 manns og á Akranesi 7.259.
Erlendu íbúarnir setjast fyrst og síðast að í Reykjavík og á Suðurnesjum. Í höfuðborginni hefur þeim fjölgað gríðarlega á örfáum árum. Í lok árs 2011 voru erlendir ríkisborgarar 9.190 innan marka hennar og átta prósent allra íbúa Reykjavíkur. Í lok mars síðastliðins voru þeir 16.420 talsins og hefur því fjölgað um 7.230 á rúmum sem árum. Þeir eru nú 12,9 prósent íbúa höfuðborgarinnar.
Í Reykjanesbæ hefur orðið sprenging á fjölda erlendra ríkisborgara samhliða aukinni þörf á vinnuafli vegna umsvifa í kringum alþjóðaflugvöllinn. Í lok árs 2011 voru 1.220 erlendir ríkisborgarar í sveitarfélaginu og þeir 8,6 prósent íbúa. Í lok mars voru þeir orðnir 3.830 og 21,2 prósent íbúa. Ef Suðurnesin öll eru skoðuð þá hefur erlendum ríkisborgurum sem þar búa fjölgað úr 1.890 í 5.170 á sama tíma og hlutfall þeirra af heildaríbúafjölda farið úr 8,8 prósent í 19,8 prósent.
Erlendir ríkisborgarar eru 11,2 prósent allra íbúa landsins og því er hlutfall þeirra á ofangreindum svæðum töluvert yfir meðaltali. Önnur sveitarfélög draga það meðaltal síðan niður. Á Seltjarnarnesi búa til að mynda 330 erlendir ríkisborgarar (7,1 prósent íbúa) og hefur einungis fjölgað um 130 frá lokum árs 2011. Í Garðabæ búa 640 útlendingar (fjögur prósent íbúa) og þeim hefur fjölgað um 290 frá lokum árs 2011.
Langflestir sem koma eru Pólverjar
Kjarninn greindi frá því í gær að í byrjun árs 1998 hafi 820 einstaklingar sem fæddir voru í Póllandi búið á Íslandi. Í byrjun árs 2017 voru þeir 13.811 og þegar það ár var liðið höfðu 3.191 erlendir ríkisborgarar frá Póllandi bæst við hérlendis og heildarfjöldi þeirra þar með orðinn rúmlega 17 þúsund. Fjöldi þeirra sem annað hvort eru fæddir í Póllandi eða eru pólskir ríkisborgarar en búa á Íslandi hefur því 21faldast á 20 árum.
Á árinu 2017 fluttu alls 4.549 einstaklingar með pólskt ríkisfang en 1.315 slíkir fluttu frá því. Þeim fjölgaði því um 3.234 í fyrra. Samtals bjuggu þar af leiðandi 17.045 einstaklingar á Íslandi um síðustu áramót sem annað hvort fæddust í Póllandi eða eru með pólskt ríkisfang.
Ef allir Pólverjarnir myndu búa saman í einu sveitarfélagi þá væri það á stærð við Reykjanesbæ og fjölmennara en t.d. Garðabær.