Einu sinni vangaði María Guðmundsdóttir við John F. Kennedy og nú vangar hún við mig. Á Ströndum. Við drukkum léttvín úr belju í nótt þangað til sólin kom upp og fuglarnir og lömbin vöknuðu.
Hún var í uppnámi vegna áforma um Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði. En þó tíguleg í fasi þegar hún sagði hug sinn, lágmælt og djúprödduð, nánast dáleiðandi. Mig langaði að fanga augnablikið svo ég spurði hvort ég mætti hitta hana daginn eftir og setja hugleiðingar hennar á blað.
María kom fyrst norður í maí 1943, rúmlega ársgömul, og var þá ættleidd af hjónum í Djúpavík. Um tvítugt hélt hún til útlanda að stunda fyrirsætustörf, fyrst í París og síðan í New York þar sem hún varð fræg ofurfyrirsæta, oftar en einu sinni á forsíðu Vogue og plaköt með myndum af henni héngu um alla borg, svo fátt eitt sé nefnt. Árið 1974 varð hún fyrir hrikalegri árás og hætti þá að starfa sem módel en haslaði sér völl sem tískuljósmyndari. En hún hefur einnig myndað íslenska náttúru, gefið út bækur og framleitt heimildarmynd sem gerist hér í Árneshreppi og fjallar um lífið og tilveruna vetur, sumar, vor og haust.
Myndin heitir Ferðin heim og hingað hefur leið Maríu oftar en ekki legið, alltaf aftur heim úr öllum sínum ferðum. Við fáum okkur malt og kleinu meðan vindurinn hvín í Árneshreppi og mannlífið ólgar eins og sjórinn.
„Ég kem í þennan heim pínulítið á ská, rótlaus. En var svo heppin að ég eignaðist foreldra sem reyndust mér afskaplega góðir, mikil ást og skilningur. Fyrstu tengingar mínar við lífið urðu hér, í þessum hreppi. Þar mynduðust rætur. Þær uxu eins og tré, fæturnir runnu saman við jörðina og sköpuðu rót.
Náttúran hefur annað tungumál en hún er algjörlega lifandi eins og manneskjurnar, þó að hún sé ekki alltaf á þeytingi,“ segir María, þar sem hún situr með Finnbogastaðafjall í baksýn, og útskýrir að ræturnar hafi orðið til þegar foreldrar hennar tóku á móti henni og gáfu ástríka umhyggju og stuðning í gegnum líf sitt.
„En ég held ég hafi tengst jafnt náttúrunni og fólkinu. Svona rótlaus eins og þegar maður fer til læknis sem spyr: Er krabbamein í þinni fjölskyldu – og ég veit ekkert um það.“
Börnin klóruðu silungnum
María segir að þau hafi verið fjögur krakkarnir á sama aldri í Djúpavík og minnist þess þegar þau voru að prakkarast og gera hluti sem þau máttu ekki eins og að stelast í verksmiðjuna sem pabbi hennar byggði og stendur enn.
„Ég eyddi miklum tíma einsömul úti í náttúrunni og auðvitað lékum við krakkarnir okkur líka alltaf í náttúrunni. Náttúran var okkur allt.
Við veiddum silunga með höndunum; það voru svokallaðar innilegur, þá var skorið op í árbakkann og fyllt með grastorfu. Þegar við fórum á þessar sérstöku veiðar lögðumst við á magann og vörnuðum þannig ljósinu frá því að falla niður í gatið þegar búið var að fjarlægja torfuna, síðan stungum við hendinni niður og þreifuðum eftir silungi og þegar fingurnir fundu fyrir honum byrjuðum við að klóra honum á bakinu. Þetta gerðum við yfirleitt á tímum þegar var aðfall niður í fjöru en besti veiðitíminn var í háflóði. Silungurinn lék við hendurnar á okkur, sneri sér og fannst gott að láta klóra sér þangað til maður komst undir tálknin, þá herti maður að og dró hann upp,“ rifjar María upp með sposku brosi.
Trúin á náttúruna
Fólkið sem bjó í Djúpavík og þar í nágrenninu trúði flest á stokka og steina, huldufólk og fjörulalla og svipi – að sögn Maríu.
„Þar sem mér var sagt að huldufólk byggi fannst mér ég finna fyrir því og ég virti tilvist þess án þess að sjá það. Vissir staðir voru huldufólksbyggðir eins og þegar maður reið frá Djúpavík inn á Reyðarfjörð, framhjá Kvíaklettum inn á sandinn. Ég fór alltaf geyst framhjá klettaborginni, sérstaklega þegar farið var að dimma. En ég þekkti konu sem að sór og sárt við lagði að hún hefði heyrt tónleika koma frá klettunum og heyrt kirkjusöng.
Allt var náttúrutengt,“ segir hún hugsi.
„Við krakkarnir fórum alltaf á rekavið með þessari konu, tíndum rekavið og settum í hrúgur og svo komu karlmenn með traktor og sóttu hann í eldivið. Það var svo gaman að fara með þessari konu því hún var uppfull af svona sögum.
Mörg svið og margir heimar búa í náttúrunni og ekki allir sem að við sjáum. En náttúran hérna hefur fylgt mér alla tíð. Ég finn þessa ró og hef leitað í hana, það er mín hugleiðsla. Í huganum fer ég hingað norður í Árneshrepp, finn mér stað þar sem er fallegt útsýni og sæki frið og öryggi hingað.“
Særum landið
„Við erum að særa landið með virkjanaáformum,“ segir María, þagnar og andvarpar svo að allt sé orðið svo ýkt!
„Það þarf að eyðileggja svo mikið til þess að fá þessa raforku sem við njótum síðan ekki. Og þó að við myndum njóta hennar væri það engu að síður harmleikur að ráðast svona að náttúrunni. Þetta er eins og með dýrin, þau tala bara annað tungumál en þau eru lifandi. Og þótt að steinn sé steinn og gras sé gras, þá er þetta allt lifandi.
Og mér finnst að þegar verið er að virkja ár og fossa sé það eins og að skera á æðarnar í mannslíkamanum. Þetta er lífæð. Og það endar með því að hún lamast, jörðin. Við drepum hana, smátt og smátt. Og ég á bágt með að trúa því hvað fólk er tilfinningalaust gagnvart náttúrunni. Að það sé bara hægt að gera allt þetta! Ég man þegar byrjað var að reisa Kárahnjúkavirkjun og maður horfði á sprengingarnar tæta upp gljúfrin. Ég skammaðist mín. Þetta er eins og níð á dýrum. Og allt þetta fyrir ... hvað?“ spyr hún ögn mædd, samt þessi heillandi ró yfir henni.
„Hugsa sér að áttatíu prósent af allri raforku fari í stóriðju!“ Hún leggur hönd undir kinn og segist ekki vita hvað kosti hér megavöttin en til dæmis vinkona hennar hér borgi um 100 þúsund krónur á mánuði fyrir rafmagn; heimilið um fjörutíu þúsund og með fjárhúsunum fari það upp í 100 þúsund. „Síðan fela orkufyrirtækin sig á bak við það að hingað sé svo langt að leiða rafmagnið, þess vegna sé það svo dýrt.“
Það þarf að eyðileggja svo mikið til þess að fá þessa raforku sem við njótum síðan ekki. Og þó að við myndum njóta hennar væri það engu að síður harmleikur að ráðast svona að náttúrunni.
Hreppsnefndin afþakkaði mat
Maríu er augsýnilega mikið niðri fyrir þegar hún segir: „Mér finnst glatað að Sigurði Gísla Pálmasyni hafi verið hafnað þegar hann bauðst til þess að láta gera mat á svæðinu og bera saman kosti virkjana og þjóðgarðs svo fólk hefði forsendur til að velja. Því var hafnað, því góða boði. Hann gerði engar kröfur um eitt né annað. Hann vildi einungis greiða fyrir matið svo fólk hefði kost á þessu vali. Nei, takk – sagði hreppsnefndin. Ég skil ekki af hverju það má ekki skoða aðrar leiðir. Þetta var tilraun svo fólk gæti velt fyrir sér fleiri en einum möguleika.“
Henni verður litið út um gluggann eins og hún vilji nikka til fjallsins áður en hún segist hafa lesið grein nýverið um hversu miklu þjóðgarðurinn á Snæfellsnesi skili til fólksins og hversu mikið sitji eftir af peningum sem fari til sveitafélagsins. „Það er ótrúlega falleg og hagkvæm leið,“ botnar hún.
Gamalt fólk og náttúran
Helsta ósk Maríu er að fólk gangi betur um náttúruna.
„Henni er tekið sem svo sjálfsögðum hlut, maður sér bara svöðin sem ferðaþjónustan skilur eftir sig á vissum stöðum. Allt verður að aur. Fólk fer illa með en það ætti ekki að koma á óvart. Ef maður ber til dæmis saman umgengni á náttúrunni og umgengni við eldra fólk, þá er því bara hent til hliðar þó að það hafi gefið okkur lífið og passað upp á okkur. Það er einhver snertiflötur á þessu tvennu, hvernig við hendum gamla fólkinu til hliðar og náttúrunni líka. Við verndum hvorugt. Við vöðum yfir náttúruna eins og enginn sé morgundagurinn. Það er meira en skammsýni.“
Okkur trúað fyrir víðernunum
„Það er orðið svo lítið um víðerni í veröldinni. Okkur ber að varðveita þau,“ segir hún sinni mildu, djúpu röddu.
„Við verðum að horfa svo á að okkur hafi verið trúað fyrir þeim. Víðernin eru gersemar. Við eigum að láta þau í friði. Þessi yfirgangur manneskjunnar er stundum alveg óskiljanlega kaldur og miskunnarlaus. Ég bjó svo lengi í New York og það tók mig alltaf þrjá daga að losa hávaðann úr höfðinu á mér þegar ég kom hingað heim.“
Við verðum að horfa svo á að okkur hafi verið trúað fyrir þeim. Víðernin eru gersemar. Við eigum að láta þau í friði.
Hún segir að í stuttum stopppum hér áður fyrr, á leið til Evrópu eða Bandaríkjanna, hafi hún nánast undantekningalaust farið norður í Árneshrepp, út í náttúruna.
„Það var svo mikill hávaði í hausnum á mér en það róaði mig niður og gerði eðlilega.
Mér finnst yndislegt að vera komin aftur og vera hér. Ég tel það algjör forréttindi. Upp að vissu marki er þessi tími, ég er á áttræðisaldri, einn yndislegasti tíminn sem ég hef lifað – ef maður heldur heilsu. Maður slakar á og er ekki með áhyggjur. Maður bara er. Og bara að náttúran fái líka að vera. Það er ósk mín eins og svo fjölda margra annarra.“