Úr einkasafni.

Okkur ber að varðveita víðernin

Auður Jónsdóttir rithöfundur heimsótti Maríu Guðmundsdóttur, fyrrum ofurfyrirsætu og tískuljósmyndara, í Árneshreppi og fékk sér maltsopa og kleinu með henni meðan þær ræddu um víðernin og verndun hinnar ósnortnu náttúru.

Einu sinni vang­aði María Guð­munds­dóttir við John F. Kenn­edy og nú vangar hún við mig. Á Strönd­um. Við drukkum létt­vín úr belju í nótt þangað til sólin kom upp og fugl­arnir og lömbin vökn­uðu.

Hún var í upp­námi vegna áforma um Hval­ár­virkjun á Ófeigs­fjarð­ar­heiði. En þó tígu­leg í fasi þegar hún sagði hug sinn, lág­mælt og djúp­rödd­uð, nán­ast dáleið­andi. Mig lang­aði að fanga augna­blikið svo ég spurði hvort ég mætti hitta hana dag­inn eftir og setja hug­leið­ingar hennar á blað.

María kom fyrst norður í maí 1943, rúm­lega árs­göm­ul, og var þá ætt­leidd af hjónum í Djúpa­vík. Um tví­tugt hélt hún til útlanda að stunda fyr­ir­sætu­störf, fyrst í París og síðan í New York þar sem hún varð fræg ofur­fyr­ir­sæta, oftar en einu sinni á for­síðu Vogue og plaköt með myndum af henni héngu um alla borg, svo fátt eitt sé nefnt. Árið 1974 varð hún fyrir hrika­legri árás og hætti þá að starfa sem módel en hasl­aði sér völl sem tísku­ljós­mynd­ari. En hún hefur einnig myndað íslenska nátt­úru, gefið út bækur og fram­leitt heim­ild­ar­mynd sem ger­ist hér í Árnes­hreppi og fjallar um lífið og til­ver­una vet­ur, sum­ar, vor og haust.

Myndin heitir Ferðin heim og hingað hefur leið Maríu oftar en ekki leg­ið, alltaf aftur heim úr öllum sínum ferð­um. Við fáum okkur malt og kleinu meðan vind­ur­inn hvín í Árnes­hreppi og mann­lífið ólgar eins og sjór­inn.

Undir Finnbogastaðafjalli - Mynd: María Guðmundsdóttir„Ég kem í þennan heim pínu­lítið á ská, rót­laus. En var svo heppin að ég eign­að­ist for­eldra sem reynd­ust mér afskap­lega góð­ir, mikil ást og skiln­ing­ur. Fyrstu teng­ingar mínar við lífið urðu hér, í þessum hreppi. Þar mynd­uð­ust ræt­ur. Þær uxu eins og tré, fæturnir runnu saman við jörð­ina og sköp­uðu rót.

Nátt­úran hefur annað tungu­mál en hún er algjör­lega lif­andi eins og mann­eskj­urn­ar, þó að hún sé ekki alltaf á þeyt­ing­i,“ segir Mar­ía, þar sem hún situr með Finn­boga­staða­fjall í bak­sýn, og útskýrir að ræt­urnar hafi orðið til þegar for­eldrar hennar tóku á móti henni og gáfu ást­ríka umhyggju og stuðn­ing í gegnum líf sitt.

„En ég held ég hafi tengst jafnt nátt­úr­unni og fólk­inu. Svona rót­laus eins og þegar maður fer til læknis sem spyr: Er krabba­mein í þinni fjöl­skyldu – og ég veit ekk­ert um það.“

Börnin klór­uðu silungnum

María segir að þau hafi verið fjögur krakk­arnir á sama aldri í Djúpa­vík og minn­ist þess þegar þau voru að prakk­ar­ast og gera hluti sem þau máttu ekki eins og að stel­ast í verk­smiðj­una sem pabbi hennar byggði og stendur enn.

„Ég eyddi miklum tíma ein­sömul úti í nátt­úr­unni og auð­vitað lékum við krakk­arnir okkur líka alltaf í nátt­úr­unni. Nátt­úran var okkur allt.

Við veiddum sil­unga með hönd­un­um; það voru svo­kall­aðar inni­leg­ur, þá var skorið op í árbakk­ann og fyllt með gras­torfu. Þegar við fórum á þessar sér­stöku veiðar lögð­umst við á mag­ann og vörn­uðum þannig ljós­inu frá því að falla niður í gatið þegar búið var að fjar­lægja torf­una, síðan stungum við hend­inni niður og þreif­uðum eftir sil­ungi og þegar fing­urnir fundu fyrir honum byrj­uðum við að klóra honum á bak­inu. Þetta gerðum við yfir­leitt á tímum þegar var aðfall niður í fjöru en besti veiði­tím­inn var í háflóði. Sil­ung­ur­inn lék við hend­urnar á okk­ur, sneri sér og fannst gott að láta klóra sér þangað til maður komst undir tálkn­in, þá herti maður að og dró hann upp,“ rifjar María upp með sposku brosi.

Trúin á nátt­úr­una

Fólkið sem bjó í Djúpa­vík og þar í nágrenn­inu trúði flest á stokka og steina, huldu­fólk og fjörulalla og svipi – að sögn Mar­íu.

„Þar sem mér var sagt að huldu­fólk byggi fannst mér ég finna fyrir því og ég virti til­vist þess án þess að sjá það. Vissir staðir voru huldu­fólks­byggðir eins og þegar maður reið frá Djúpa­vík inn á Reyð­ar­fjörð, fram­hjá Kvía­klettum inn á sand­inn. Ég fór alltaf geyst fram­hjá kletta­borg­inni, sér­stak­lega þegar farið var að dimma. En ég þekkti konu sem að sór og sárt við lagði að hún hefði heyrt tón­leika koma frá klett­unum og heyrt kirkju­söng.

Allt var nátt­úru­teng­t,“ segir hún hugsi.

„Við krakk­arnir fórum alltaf á reka­við með þess­ari konu, tíndum reka­við og settum í hrúgur og svo komu karl­menn með traktor og sóttu hann í eldi­við. Það var svo gaman að fara með þess­ari konu því hún var upp­full af svona sög­um.

Mörg svið og margir heimar búa í nátt­úr­unni og ekki allir sem að við sjá­um. En nátt­úran hérna hefur fylgt mér alla tíð. Ég finn þessa ró og hef leitað í hana, það er mín hug­leiðsla. Í hug­anum fer ég hingað norður í Árnes­hrepp, finn mér stað þar sem er fal­legt útsýni og sæki frið og öryggi hing­að.“

María Guðmundsdóttir situr fyrir á sínum yngri árum.
Úr einkasafni.

Særum landið

„Við erum að særa landið með virkj­ana­á­form­um,“ segir Mar­ía, þagnar og and­varpar svo að allt sé orðið svo ýkt!

„Það þarf að eyði­leggja svo mikið til þess að fá þessa raf­orku sem við njótum síðan ekki. Og þó að við myndum njóta hennar væri það engu að síður harm­leikur að ráð­ast svona að nátt­úr­unni. Þetta er eins og með dýr­in, þau tala bara annað tungu­mál en þau eru lif­andi. Og þótt að steinn sé steinn og gras sé gras, þá er þetta allt lif­andi.

Og mér finnst að þegar verið er að virkja ár og fossa sé það eins og að skera á æðarnar í manns­lík­am­an­um. Þetta er líf­æð. Og það endar með því að hún lamast, jörð­in. Við drepum hana, smátt og smátt. Og ég á bágt með að trúa því hvað fólk er til­finn­inga­laust gagn­vart nátt­úr­unni. Að það sé bara hægt að gera allt þetta! Ég man þegar byrjað var að reisa Kára­hnjúka­virkjun og maður horfði á spreng­ing­arnar tæta upp gljúfr­in. Ég skamm­að­ist mín. Þetta er eins og níð á dýr­um. Og allt þetta fyrir ... hvað?“ spyr hún ögn mædd, samt þessi heill­andi ró yfir henni.

„Hugsa sér að átta­tíu pró­sent af allri raf­orku fari í stór­iðju!“ Hún leggur hönd undir kinn og seg­ist ekki vita hvað kosti hér mega­vöttin en til dæmis vin­kona hennar hér borgi um 100 þús­und krónur á mán­uði fyrir raf­magn; heim­ilið um fjöru­tíu þús­und og með fjár­hús­unum fari það upp í 100 þús­und. „­Síðan fela orku­fyr­ir­tækin sig á bak við það að hingað sé svo langt að leiða raf­magn­ið, þess vegna sé það svo dýrt.“

Það þarf að eyðileggja svo mikið til þess að fá þessa raforku sem við njótum síðan ekki. Og þó að við myndum njóta hennar væri það engu að síður harmleikur að ráðast svona að náttúrunni.
Reykjaneshyrnan.
María Guðmundsdóttir.

Hrepps­nefndin afþakk­aði mat

Maríu er aug­sýni­lega mikið niðri fyrir þegar hún seg­ir: „Mér finnst glatað að Sig­urði Gísla Pálma­syni hafi verið hafnað þegar hann bauðst til þess að láta gera mat á svæð­inu og bera saman kosti virkj­ana og þjóð­garðs svo fólk hefði for­sendur til að velja. Því var hafn­að, því góða boði. Hann gerði engar kröfur um eitt né ann­að. Hann vildi ein­ungis greiða fyrir matið svo fólk hefði kost á þessu vali. Nei, takk – sagði hrepps­nefnd­in. Ég skil ekki af hverju það má ekki skoða aðrar leið­ir. Þetta var til­raun svo fólk gæti velt fyrir sér fleiri en einum mögu­leika.“

Henni verður litið út um glugg­ann eins og hún vilji nikka til fjalls­ins áður en hún seg­ist hafa lesið grein nýverið um hversu miklu þjóð­garð­ur­inn á Snæ­fells­nesi skili til fólks­ins og hversu mikið sitji eftir af pen­ingum sem fari til sveita­fé­lags­ins. „Það er ótrú­lega fal­leg og hag­kvæm leið,“ botnar hún.

Gam­alt fólk og nátt­úran

Helsta ósk Maríu er að fólk gangi betur um nátt­úr­una.

„Henni er tekið sem svo sjálf­sögðum hlut, maður sér bara svöðin sem ferða­þjón­ustan skilur eftir sig á vissum stöð­um. Allt verður að aur. Fólk fer illa með en það ætti ekki að koma á óvart. Ef maður ber til dæmis saman umgengni á nátt­úr­unni og umgengni við eldra fólk, þá er því bara hent til hliðar þó að það hafi gefið okkur lífið og passað upp á okk­ur. Það er ein­hver snerti­flötur á þessu tvennu, hvernig við hendum gamla fólk­inu til hliðar og nátt­úr­unni líka. Við verndum hvor­ugt. Við vöðum yfir nátt­úr­una eins og eng­inn sé morg­un­dag­ur­inn. Það er meira en skamm­sýn­i.“

Okkur trúað fyrir víð­ern­unum

„Það er orðið svo lítið um víð­erni í ver­öld­inni. Okkur ber að varð­veita þau,“ segir hún sinni mildu, djúpu röddu.

„Við verðum að horfa svo á að okkur hafi verið trúað fyrir þeim. Víð­ernin eru ger­sem­ar. Við eigum að láta þau í friði. Þessi yfir­gangur mann­eskj­unnar er stundum alveg óskilj­an­lega kaldur og mis­kunn­ar­laus. Ég bjó svo lengi í New York og það tók mig alltaf þrjá daga að losa hávað­ann úr höfð­inu á mér þegar ég kom hingað heim.“

Við verðum að horfa svo á að okkur hafi verið trúað fyrir þeim. Víðernin eru gersemar. Við eigum að láta þau í friði.

Hún segir að í stuttum stopppum hér áður fyrr, á leið til Evr­ópu eða Banda­ríkj­anna, hafi hún nán­ast und­an­tekn­inga­laust farið norður í Árnes­hrepp, út í nátt­úr­una.

„Það var svo mik­ill hávaði í hausnum á mér en það róaði mig niður og gerði eðli­lega.

Mér finnst ynd­is­legt að vera komin aftur og vera hér. Ég tel það algjör for­rétt­indi. Upp að vissu marki er þessi tími, ég er á átt­ræð­is­aldri, einn ynd­is­leg­asti tím­inn sem ég hef lifað – ef maður heldur heilsu. Maður slakar á og er ekki með áhyggj­ur. Maður bara er. Og bara að nátt­úran fái líka að vera. Það er ósk mín eins og svo fjölda margra ann­arra.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnAuður Jónsdóttir
Meira úr sama flokkiFólk