Söluverð hluta í Arion banka í fyrirhuguðu útboði hans er er umtalsvert undir bókfærðu eigin fé hans. Það er, samkvæmt síðasta birta uppgjöri, 204 milljarðar króna. Miðað við gengið sem verður í útboðinu verður hlutafé í bankanum til sölu á bilinu 0,6 til 0,7 krónur fyrir hverja krónu af eigin fé. Miðað við það er Arion banki metinn á 123 til 143 milljarða króna. Bankinn verður næstverðmætasta félag sem skráð verður á íslenskum hlutabréfamarkaði á eftir Marel, en virði þess er 264 milljarðar króna.
Útboðið á bréfum Arion banka hefst í dag og endanlegt útboðsgengi verður tilkynnt 15. júní. Þann sama dag er áætlað að viðskipti með bréf Arion banka hefjist í kauphöllinni hér á landi og í Stokkhólmi. Til stendur að selja að minnsta kosti 25 prósent hlut.
Tveir erlendir fjárfestingasjóðir, Milton Asset Management Limited og Landsdowne Partners hafa skuldbundið sig til að kaupa hlutabréf í Arion banka fyrir samtals 60,5 milljónir dali,
tæplega 6,4 milljarða króna. Þeir verða svokallaðir hornsteinafjárfestar en þurfa ekki að undirgangast neinar söluhömlur vegna kaupa sinna. Búast má við því að þeir eignist á bilinu 4,4, til 5,2 prósent hlut í bankanum.
Þetta kemur fram í skráningarlýsingu Arion banka sem birt var í dag.
Ýmsir áhættuþættir taldir til
Í henni eru taldir til þeir áhættuþættir sem geti haft áhrif á virði og gengi Arion banka. Af innlendum þáttum eru gengisbreytingar á krónunni efst á blaði. Þar á eftir kemur innlend verðbólga og loks skortur á erlendri fjárfestingu á Íslandi. Þá eru taldir til aðrir þættir eins og hátt skuldahlutfall fyrirtækja og heimila, vantraust almennings á bankakerfið (20 prósent landsmanna treysta því), þess að enn eru fjármálahöft í gildi að hluta og möguleg endurskipulagning fjármálakerfisins.
Þá sé Ísland viðkvæmt fyrir ýmsum ytri þáttum eins og þróun efnahagsmála alþjóðlega og sérstaklega í Evrópu. Þar er sérstaklega minnst á mögulegan óstöðugleika sem gæti skapast á alþjóðlegum fjármálamörkuðum vegna fyrirhugaðrar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Leiði slíkur órói til samdráttar gæti það leitt til þess að eftirspurn eftir helstu útflutningsafurðum Íslands; ferðaþjónustu, sjávarfangi og áli, myndi dragast saman.
Ríkið féll frá forkaupsrétti
Kaupþing, stærsti eigandi Arion banka, á sem stendur 55,57 prósent hlut í bankanum. Auk þess á Arion banki 9,5 prósent í sjálfum sér. Einn núverandi eigenda Arion banka, Attestor Capital, mun einnig selja hluta af eign sinni í útboðinu fái hann ásættanlegt verð fyrir.
Íslenska ríkið ákvað í aðdraganda útboðsins að forkaupsréttur ríkisins muni ekki gilda við skráninguna á markað. Forkaupsrétturinn var tryggður í stöðugleikasamningi við kröfuhafa Arion banka. Samkvæmt honum virkjast réttur ríkisins til að ganga inn í viðskipti með hluti í Arion banka ef verðið í þeim viðskiptum fer niður fyrir 0,8 krónur á hverja krónu af bókfærðu eigin fé Arion banka. Nú er ljóst að verðið í útboðinu verður töluvert undir þeim mörkum.
Mikil hreyfing á eignarhaldi
Töluverð viðskipti hafa átt sér stað með hluti í Arion banka frá því að stöðugleikasamningarnir voru undirritaðir í lok árs 2015. Í fyrra keyptu fjórir af stærstu eigendum Kaupþings, Taconic Capital, Och-ZiffCapital Management Group, sjóðir í stýringu Attestor Capital og Goldman Sachs, samtals 29,6 prósent hlut í Arion banka af sjálfum sér í fyrra. Tveir þeirra, Attestor og Goldman Sachs, bættu við sig 2,8 prósent hlut 13. febrúar síðastliðinn. Þá keyptu rúmlega 20 sjóðir í stýringu fjögurra af stærstu sjóðsstýringarfyrirtækjum Íslands: Stefnis, Íslandssjóða, Landsbréfa og Júpíter, samtals 2,54 prósent hlut. Samanlagt kaupverð var um 9,5 milljarðar króna.
Sama dag var kaupréttur Kaupþings á 13 prósent hlut ríkisins í Arion banka virkjaður. Sá kaupréttur var formgerður í samningi frá árinu 2009, var fortakslaus og einhliða. Ríkið mátti því ekki hafna tilboðinu án þess að gerast brotlegt við gerða samninga.
Gengið var formlega frá sölu hlutarins 26. febrúar síðastliðinn. Kaupverðið var 23,4 milljarðar króna og ekkert opið né gagnsætt söluferli fór fram. Um eina stærstu eignasölu ríkisins frá upphafi er að ræða.
Í dag er eignarhald Arion banka því þannig að Kaupþing á 55,57 prósent hlut, Attestor Capital á 12,44 prósent, Taconic Capital á 9,99 prósent, Och-Ziff Capital á 6,58 prósent og Goldman Sachs á 3,37 prósent. Arion banki á auk þess 9,5 prósent hlut í sjálfum sér.
Lélegt uppgjör í upphafi árs en háleit markmið
Síðasta uppgjör Arion banka þótti ekki mjög gott. Hagnaður samstæðu bankans á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018 nam 1,9 milljörðum króna samanborið við 3,4 milljarða króna á sama tímabili 2017. Arðsemi eigin fjár var aðeins 3,6 prósent samanborið við 6,3 prósent fyrir sama tímabil árið 2017, en þetta telst lágt í alþjóðlegum samanburði.
Í skráningarlýsingunni segir að Arion banki meti sem svo að rekstur hans hafi þróast með jákvæðum hætti frá því í lok mars 2018. „Hreinar vaxtatekjur jukust í apríl, að hluta til vegna aukinnar verðbólgu, sem hefur jákvæð áhrif á vaxtamun bankans þar sem hann á meiri verðtryggðar eignir en skuldir. Hreinar vaxtatekjur jukust einnig vegna endurgreiðslu á skuldabréfi á fyrsta ársfjórðungi 2018 sem bar tiltölulega háa vexti, sem dró úr vaxtakostnaði. Lánasafn bankans hefur stækkað í samræmi við vöxtinn á fyrsta ársfjórðungi með áframhaldandi vexti í húsnæðislánum, lánum til lítilla og meðalstórra félaga og útlánum til fyrirtækja. Tryggingastarfsemi bankans hefur batnað eftir erfiðan fyrsta ársfjórðung. Kostnaðargrunnur hefur fylgt sambærilegri þróun og fyrstu þremur mánuðum ársins 2018 og virðisrýrnun útlána hefur verið að mestu óbreytt frá lokum fyrsta ársfjórðungs. Verkefnastaða á útlánasviðum og í fyrirtækjaráðgjöf eru í góðum farvegi.“
Í tilkynningu sem birt var um miðjan maí, þar sem útboðið var boðað, sagði að markmið Arion banka sé að vera með arðsemi eigin fjár sem sé yfir tíu prósent. Til að ná því er líklegt að breyta þurfi fjármögnun bankans mjög með því að greiða út eigin fé og sækja víkjandi lán (sett markmið er að minnka eiginfjárhlutfall úr 23,6 prósent í 17 prósent), minnka rekstrarkostnað umtalsvert (kostnaðarhlutfall er nú 70,8 prósent en sett markmið er að ná því undir 50 prósent) t.d. með því að fækka starfsfólki og ná hóflegum vexti í útlánum sem sé í takti við vöxt í þjóðarframleiðslu á Íslandi í nánustu framtíð.