Bankahrunið og eftirmálar þess eru einn arðbærasti atvinnuvegur á Íslandi í dag. Á meðal þeirra 40 einstaklinga sem greiddu hæstu skattanna á Íslandi í fyrra voru átta einstaklingar sem vinna fyrir félög utan um eftirstandandi eignir hinna föllnu Glitnis, Landsbanka Íslands og Kaupþings.
Þeir sem eru með hæstu mánaðarlegu tekjurnar að meðaltali voru með 56 milljónir króna í laun á hverjum mánuði í fyrra. Það þýðir að mánaðarlaun þeirra voru 187föld lágmarkslaun, sem eru 300 þúsund krónur á Íslandi í dag.
Allir föllnu bankarnir luku nauðasamningum í lok árs 2015 og breyttust þá í eignarhaldsfélög utan um eftirstandandi eignir þeirra. Hlutverk starfsmannanna er því fyrst og síðast að selja eignir. Og í kjölfarið leggja félögin niður.
Allar upplýsingar hér að neðan eru unnar upp úr tekjublöðum Frjálsrar verslunar og DV.
Glitnir
Í stjórn Glitnis HoldCo sitja þrír menn, þeir Tom Gröndahl og Steen Parsholt, sem báðir voru með 56 milljónir króna í mánaðarlaun í fyrra, og Michael Wheeler, sem er skráður með um 5,2 milljónir króna á mánuði. Gröndahl og Parsholt voru samkvæmt þessu með 672 milljónir króna í árstekjur hvor.
Wheeler er hins vegar skráður sem einn þeirra sem greiddu hæstu skattanna á Íslandi í fyrra. Þar situr hann í áttunda sæti eftir að hafa greitt 259,1 milljón króna í skatta í fyrra vegna tekna sem hann hafði á Íslandi. Augljóst er því að Wheeler hafði meira upp úr krafsinu á síðasta ári en þær tekjur sem hann er skráður með í Tekjublaði Frjálsrar Verslunar.
Framkvæmdastjóri Glitnis Holdco er Ingólfur Hauksson. Hann er heldur ekki á flæðiskeri staddur með 19,2 milljónir króna á mánuði. Ragnar Björgvinsson, yfirlögfræðingur Glitnis HoldCo, er á svipuðum slóðum með 16,1 milljón króna á mánuði. Snorri Arnar Viðarsson, forstöðumaður eignastýrtingar GlitnisHoldCo, var með 16,8 milljónir krónur á mánuði.
LBI
Hjá LBI ehf., gamla Landsbankanum, sitja þrír menn í stjórn. Þeir eru Richard Katz stjórnarformaður, sem var með 32,7 milljónir króna á mánuði í fyrra, Kolbeinn Árnason, sem var með 6,7 milljónir króna á mánuði, og Christian Digemose, en launakjör hans eru til umfjöllunar í tekjublöðunum. Framkvæmdastjóri LBI er Ársæll Hafsteinsson, sem var með 17,9 milljónir króna á mánuði. Ársæll hefur unnið sleitulaust fyrir gamla Landsbankann frá því að hann var skipaður í skilanefnd bankans. Þann 30 júlí 2009 óskaði Fjármálaeftirlitið, sem bar ábyrgð á skilanefndinni og skipaði í hana, eftir því að Ársæll léti að störfum fyrir fyrr skilanefndina þar sem „verkefnum sem krefðust sérfræðiþekkingar“ hans væri lokið. Skilanefndin réð þá Ársæl sem ráðgjafa og gerði hann síðar að framkvæmdastjóra.
Hjá LBI starfar líka Jakob Bjarnason. Hann var með 6,4 milljónir króna á mánuði í fyrra.
Kaupþing
Þriðja félagið sem er starfandi og var stofnað utan um eftirstandandi eignir fallins banka er Kaupþing ehf., sem í dag er að mestu upptekið við að selja stóran hlut í Arion banka. Í stjórn Kaupþings eru Allan Jeffrey Carr, Paul Copley, Óttar Pálsson, Benedikt Gíslason og Piergiorgio Lo Greco. Copley er einnig framkvæmdastjóri Kaupþing.
Þrír, hinir íslensku, eru nefndir í tekjublöðunum. Einn þeirra er Benedikt Gíslason, sem starfaði um tíma sem aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, og var síðar efnahagsráðgjafi hans. Þá var Benedikt einn þeirra sérfræðinga sem var skipaður í framkvæmdahóp við losun fjármagnshafta á árinu 2014. Vinnu þess hóps lauk með því að samkomulag var gert við kröfuhafa föllnu bankanna um að mæta stöðugleikaskilyrðum. Nokkrum mánuðum eftir að vinnu Benedikts fyrir framkvæmdahópinn lauk var hann ráðinn í ráðgjafastarf hjá Kaupþingi og settist í stjórn bankans. Benedikt er skráður með 3,2 milljónir króna í mánaðarlaun samkvæmt tekjublaði DV.
Óttar Pálsson, lögmaður hjá Logos, situr einnig í stjórn Kaupþings. Hann er skráður með tæplega 3,8 milljónir króna í laun á mánuði en draga má þá ályktun að þau laun séu bæði fyrir lögmannsstörf og störf hans fyrir Kaupþing.
Tveir starfsmenn Kaupþings voru með það há laun á árinu 2017 að þau komast á blað hjá Frjálsri verslun. Þau eru Arnaldur Jón Gunnarsson og Anna Sigríður Arnardóttir, sem bæði eru lögfræðingar hjá félaginu.