Hvernig getur Ísland unnið Argentínu?
Ég hef verið forhertur stuðningsmaður Argentínu á HM alla tíð. Þar til nú. Okkar menn mæta Argentínu 16. júní, eins og þjóðin veit öll og bíður eftir í ofvæni. Hvernig er hægt að vinna þessa sögufrægu fótboltaþjóð?
Sófasérfræðingurinn sem ég er, þegar kemur að fótbolta, hef fylgst með sigrum og töpum Argentínu í gegnum tíðina og séð liðið þjást oftar enn einu sinni og oftar en tvisvar. Sérstaklega hafa Þjóðverjar verið liðinu erfiðir undanfarnar keppnir, og slegið þá út í þremur keppnum í röð, 2006 í átta liða úrslitum, 2010 í átta liða úrslitum og 2014 í úrslitum.
Argentína hefur ekki orðið heimsmeistari frá því árið 1986 í Mexíkó.
Þá var Diego Armando Maradona potturinn og pannan í stórkostlegu liði, sem var í senn sókndjarft og fullt af ástríðu.
Aðeins sjö leikmenn í leikmannahópi Argentínu á þeim tíma spiluðu í Evrópu, en aðrir spiluðu flestir í Suður-Ameríku. Þarna tókst að finna hina fullkomnu blöndu; lið sem varðist af ákveðni með samstöðuna að vopni, og nýtti snilligáfu Maradona í sóknarleiknum.
Argentína hefur ekki náð að búa til jafn sterkt landslið síðan, þrátt fyrir ógnarsterka leikmannahópa í svo til öllum keppnum. Í tvígang hefur liðið tapað úrslitaleik á HM fyrir Þýskalandi á þessu 32 ára tímabili, árið 1990 og síðan 2014.
Alltaf gamaldags tía
Eitt einkennir alltaf lið Argentínu. Það er alltaf spilað með „tíu“, sóknarleikstjórnanda af gamla skólanum, sem lætur hlutina rúlla og stjórnar ferðinni. Oftast tekur tían aukaspyrnur og horn. Þetta kann að hljóma undarlegt fyrir einhverjum, en svona gerir Argentína þetta. Sá sem er með númerið 10 á bakinu er sá sérstaki í liðinu. Tían hefur stöðu eins og listamaður; hefur frelsi til að gera hlutina eftir eigin höfði og það vita aðrir leikmenn í liðinu.
Undanfarin 40 ár hefur þetta verið svona. Árið 1978 var Mario Kempes tían, Diego Maradona var það í fjórum keppnum í röð (1982, 1986, 1990 og 1994, fram að falli á lyfjaprófi), Ariel Ortega í tveimur keppnum (1998 og 2002), Juan Roman Riquelme einu sinni (2006) og undanfarnar tvær keppnir er það Lionel Messi sem hefur verið með tíuna á bakinu, og verið í aðalhlutverki (2010 og 2014).
Á undanförnum tveimur árum hefur Messi verið nánast hin fullkomna tía í liði Argentínu, en það vantar upp á ástríðu og frumkvæði annarra leikmanna. Eitthvað sem stundum hefur verið nefnt stórstjörnuvandamál Argentínu.
Margir leikmanna liðsins ná einfaldlega ekki að fóta sig í því hlutaverki, að vera liðsmenn í kringum Messi.
Í hópi Argentínu hefur líka oft verið mikil innri barátta, bæði leikmanna og þjálfara. Undanfarin ár hefur þessi staða oft leitt til deilna innan hópsins, þar sem þjálfarinn hefur átt í stökustu vandræðum með að stilla saman strengi og fá leikmenn til að vinna saman. Þetta bitnar á liðinu, eðlilega. En argentíska liðið hefur líka verið óheppið. Það hefur spilað ágætlega í þremur úrslitaleikjum en tapað þeim öllum. Tveimur í Suður-Ameríku bikarnum, og síðan á HM.
Árið 2010, þegar Argentína átti stórkostlega leikmenn í öllum stöðum, var Maradona við stjórnvölinn. Hann ákvað að skilja tvo af bestu liðsmönnum sem Argentína átti á þeim tíma, Javier Zanetti og Estaban Cambiasso, sem þá voru nýbúnir að verða þrefaldir meistarar með ógnarsterku liði José Mourinho hjá Inter, eftir heima. Einhverjar innri deilur voru ástæðan. Þetta bitnaði á liðinu, það sást langar leiðir. Einnig má nefna dæmi um Icardi, fyrirliða Inter og einn helsta markaskorara Evrópu, en hann er ekki í hópi Argentínu.
Jorge Sampaoli, núverandi landsliðsþjálfari Argentínu, hefur átt erfitt með að finna rétta blöndu leikmanna, og hefur viðurkennt það sjálfur.
Argentína hefur átt í vandræðum með ýmislegt á undanförnum árum, en líklega þó ekkert meira en framherjastöðuna. Higuain (Juventus), Aguero (Man. City) og Dybala (Juventus) - stórstjörnur í liðum sínum - hafa ekki náð að sýna sitt besta með Argentínu. Sérstaklega hefur Higuain verið klaufskur í stórum leikjum, þar á meðal í úrslitaleiknum gegn Þjóðverjum 2014 þegar hann brenndi af tveimur dauðafærum.
Geta dottið í varnarstuð
Þrátt fyrir að mikið sé talað um sóknarher Argentínu þá má ekki gleyma sögunni.
Argentína hefur nefnilega oft komið á óvart í úrslitakeppni HM með góðum varnarleik, og sóknarleik sem byggir á „tíunni“. Þetta átti til dæmis við um árið 2014 þar sem andstæðingar Argentínu lögðu allt sitt kapp á að loka á Lionel Messi - eðlilega - og því reyndi á að liðsfélagar hans héldu góðu leikskipulagi og gerðu ekki mistök.
Í úrslitaskeppninni - það er eftir riðlakeppnina - var liðið varfærið í flestum leikjum og hélt hreinu í venjulegum leiktíma gegn öllum andstæðingum. Það er töluvert afrek. Þetta var svipað árið 1990, þegar liðið fór í alla leið í úrslit, með frekar þunglamanlegt lið sem byggðist á sterkri vörn og síðan auðvitað tíunni, Maradona sjálfum.
Argentína hefur oft átt varnarmenn sem eru „stemmningsmenn“ á góðum degi. Mascherano er til dæmis þannig maður. Hann hefur oft bjargað Argentínu og gefur alltaf allt sem hann á í landsleikjum. Ontamendi, varnarmaður Manchester City, er einnig varnarmaður í heimsklassa.
Í fótbolta er allt hægt og Argentína hefur oft lent í vandræðum gegn litlum þjóðum. Til dæmis rétt marði liðið Íran, 1-0, með sigurmarki í uppbótartíma, árið 2014.
Ísland þarf að sýna vopnið sitt: samstöðuna
Í leiknum gegn Íran sótti Argentína án afláts, án þess að skapa sér mörg færi. Íran spilaði kunnuglegan leik fyrir mörgum, sem hafa fylgst með Messi hjá Barcelona. Litlu liðin - sem stundum hafa unnið Barcelona, gleymum því ekki - reyna oft að búa til þéttan varnarmúr og minnka þannig plássið sem Messi fær til að athafna sig. Þegar það er vitað fyrirfram, að það er tían sem á að láta hlutina gerast, þá er þetta hin rökrétta leið til að halda Argentínu í skefjum.
Ítrekað hefur Argentína lent í vandræðum gegn liðum sem eru þétt fyrir varnarlega, og freista þess síðan að sækja hratt þegar færi gefst.
Það er hins vegar einfaldara að segja þetta og skrifa, heldur en að framkvæma. Lið sem hafa mætt Messi hjá Barcelona og Argentínu hafa æft varnarleikinn dögum saman, en svo þegar á hólminn er komið þá gengur ekki að halda honum í skefjum.
Stuttgart og Maradona, Ísland og Messi
Ásgeir Sigurvinsson var meðal allra bestu miðjumanna Evrópu þegar hann lék með Stuttgart. Árið 1989 stilltu fjölmiðlar tveimur úrslitaleikjum Napoli og Stuttgart, í UEFA Cup, upp sem einvígi hans og Maradona. Það segir sitt um hversu frábær leikmaður Ásgeir var.
Í viðtali við Fréttablaðið árið 2011 rifjaði Ásgeir upp hvernig það hefði verið, að spila á móti Maradona. Í viðtalinu sagði hann meðal annars þetta: „Það er þannig með svona snillinga eins og Maradona, og Messi nú á dögum, að það þýðir ekkert að ætla sér að stöðva leikmennina með því að dekka þá stíft. Þeir ráða alltaf við það að fá leikmenn í sig á fullri ferð og nærast raunar svolítið á því. Í minningunni reyndum við að spila okkar leik og hugsa sem minnst um að einn besti leikmaður sögunnar væri inn á. Það gekk að mörgu leyti vel. En það var kannski lýsandi að það gekk ekki betur en svo að við töpuðum að lokum, ekki síst vegna úrslitasendinga frá Maradona, þó að hann hafi ekki skorað sjálfur.“
Ísland þarf að mæta Messi eins og Stuttgart gerði gegn Maradona, þó það hafi ekki gengið fullkomlega upp. Liðið okkar - þetta stórkostlega landslið sem við eigum - þarf að standa saman sem einn maður, og það má enginn „svindla“ í varnarvinnunni, ef við eigum að geta unnið. Það er vel hægt, enda hefur okkar helsti styrkur verið samstaða og mikil vinna sem allir leikmenn hafa lagt á sig í leikjum. Ísland hefur áður mætt stórstjörnum og staðið sig vel. Cristiano Ronaldo skoraði ekki þegar við gerðum jafntefli við Evrópumeistara Portúgal. Sigurinn gegn Króatíu kemur einnig upp í hugann, og auðvitað Englandsleikurinn. Honum gleymir enginn. Þar vantaði ekki stór nöfn með mikla hæfileika, eins og Harry Kane.
En það er þetta aðalsmerki okkar, sem gæti einmitt verið það sem Argentína óttast mest og er viðkvæmast fyrir. Samstaða, sjálfstraust og ákveðni í föstum leikatriðum.
Það mun vafalítið mæða mikið á miðjumönnum okkar, því Messi er hættulegastur með Argentínu þegar hann nær að finna sér stöðu milli varnarinnar og miðjunnar hjá andstæðingnum. Öll mörkin þrjú hjá Argentínu í leiknum fræga gegna Ekvador - þar sem Messi skaut Argentínu á HM með ótrúlegri þrennu - komu eftir það að hann fékk snögga sendingu frá miðjunni og nokkrum sekúndum síðar var boltinn í netinu. Þetta gerist hratt og plássið þarf ekki að vera mikið. Það má nefna fjölmörg dæmi um svipaða hluti.
Til dæmis þegar Messi skoraði gegn Man. Utd. í úrslitum Meistaradeildarinnar árið 2011, með skoti fyrir utan teig. Þá sváfu leikmenn Man. Utd. á verðinum í tvær til þrjár sekúndur, þar sem Messi kom sér fyrir milli varnar og miðju, og það var nóg.
Það má einfaldlega ekki líta af honum og helsta leiðin til stoppa hann, er að takmarka sendingarnar til hans. Þar mun reyna á að framherjar okkar - eða framherji, eftir því hvernig Heimir ákveður að leggja leik okkar manna upp - séu duglegir í að loka sendingaleiðum ásamt miðjumönnunum.
Sampaoli var frægur fyrir að ná að verjast Messi vel þegar hann var landsliðsþjálfari Chile, meðal annars með frumlegri 2-3-3-2 uppstillingu, en því var velt upp í umfjöllun Sports Illustrated á dögunum, að hann væri vís með að koma með hana inn í leik Argentínu á HM.
Hjá Chile var það fyrst og fremst gríðarlegur dugnaður miðjumanna og framherja í varnarleiknum, sem skóp sigur gegn Argentínu (sem kom þó ekki fyrr en í vítakeppni) og lágmarkaði skaðann af snilld Messi.
Af hverju ekki að fara í vopnabúrið hjá landsliðsþjálfara Argentínu til að leggja Argentínu af velli?
Messi er samt ekki sá eini…
Argentína hefur búið við þann veikleika lengi að það skortir frumkvæði í leikjum liðsins, frá öðrum en Messi. Ef aðrir leikmenn fara að taka af skarið, skora mörk og ógna verulega, þá er liðið einfaldlega orðið miklu hættulegra. Vonandi fer Argentína ekki að taka upp á því núna, að stórbæta leik liðsins, frá því sem verið hefur undanfarin tvö ár, en það er ekki hægt að útiloka að það gerist.
Árangur Argentínu á HM er þrátt fyrir allt, einn sá besti af öllum þjóðum. Liðið er alltaf með frábæran mannskap, og heldur tryggð við tíuana, sem mörgum finnst skemmtilegt (ég er þar á meðal). En Ísland á möguleika gegn liðinu, eins og það hefur leikið undanfarin ár. Það brotnar undan samstilltum liðum, og treystir um of á Messi. Hann er þrátt fyrir allt mannlegur og getur átt sína slæmu daga. Vonum að leikurinn gegn Íslandi verði einn af þeim.