Leynd hvílir yfir því hvernig samið var um skaðabótamál sem Glitnir hafði höfðað eða ætlaði sér að höfða. Kröfur í málunum hlupu á milljörðum króna og voru flestar í íslenskum krónum. Ávinningur af málunum, yrði hann nokkur, hefði runnið til íslenska ríkisins.
Kjarninn hefur fengið staðfest að málin hafi verið felld niður, eða samið um þau, án þess að þau skili nokkrum ávinningi.
Neita að upplýsa um niðurstöðuna
Þegar nauðasamningur Glitnis var staðfestur í desember 2015 voru nokkur skaðabótamál sem bankinn hafði annað hvort höfðað eða verið með í vinnslu óleyst. Sum þeirra mála snérust um kröfur sem greiðast áttu út í íslenskum krónum og ávinningur af þeim, ef einhver yrði, átti því að renna til íslenska ríkisins í samræmi við stöðugleikasamninganna.
Glitnir HoldCo, félagið sem stofnað var utan um eftirstandandi eignir Glitnis, hafði því engan fjárhagslegan hag af því að halda málunum til streitu. Raunar gat félagið sparað sér umtalsverðan kostnað við málarekstur með því að fella málin einfaldlega niður.
Ingólfur Hauksson, framkvæmdastjóri Glitnis, staðfestir í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans að málin hafi öll verið gerð upp í dag og því séu engin þeirra óleyst. Hann vildi hins vegar ekki gefa upplýsingar um hvaða mál væri að ræða og með hvaða hætti þau væru gerð upp. Ingólfur vildi heldur ekki upplýsa um hver heildarupphæð skaðabótakrafna sem samið var um að láta niður falla væri né hversu mikið hefði innheimst, ef nokkuð, eftir að samið var um málin.
Kjarninn hefur einnig fengið staðfest að Lindarhvoll, félag sem stofnað til að annast umsýslu og sölu stöðugleikaeigna sem ríkið fékk afhent í kjölfar samkomulags við kröfuhafa föllnu bankanna, hafi verið upplýst um hvernig unnið hefði verið úr skaðabótakröfunum. Þar hafi ekki verið talið raunhæft að félag í eigu ríkisins myndi taka yfir rekstur málanna, og þá áhættu sem þeim gæti fylgt, þrátt fyrir að þær upphæðir sem þau gætu skilað, vegna krafna í íslenskum krónum, ættu að renna til íslenska ríkisins. Því gerði Lindahvoll ekki athugasemdir við að samið yrði um málin.
Milljarðakröfur
Á meðal þeirra mála sem samið var um að fella niður var skaðabótamál upp á 6,5 milljarða króna sem slitastjórnin höfðaði á hendur Lárusi Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, fyrrverandi forstjóra Baugs og fyrrverandi stjórn Glitnis, en í henni sátu Þorsteinn M. Jónsson, þáverandi eigandi Vífilfells, Jón Sigurðsson, sem var forstjóri FL Group, Skarphéðinn Berg Steinarsson, fyrrverandi stjórnarformaður FL Group, Pétur Guðmundarson, lögmaður hjá Logos, Björn Ingi Sveinsson, sem var forstjóri Saxbygg, Haukur Guðjónsson og Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis.
Málið, sem var fellt niður seint í desember 2015, var höfðað vegna 15 milljarða króna láns sem Glitnir veitti Baugi, stærsta eigenda bankans, seint á árinu 2007. Eftir að embætti sérstaks saksóknara ákvað að ákæra ekki í málinu, sem hafði verið til rannsóknar árum saman, var skaðabótamálið fellt niður. Í samkomulaginu um niðurfellinguna samþykktu allir hinna stefndu að greiða sinn málskostnað sjálfir að einum, Þorsteini M. Jónssyni, undanskildum.
Samið um mál sem ekki er lokið
Annað þeirra skaðabótamála sem fellt hefur verið niður, samkvæmt heimildum Kjarnans, er hið svokallaða Aurum-mál. Það mál snýst um sex milljarða króna lánveitingu til félagsins FS38 í júlí 2008. Lánið var veitt til að fjármagna kaup FS38, eignarlaust félag í eigu Pálma Haraldssonar, á 25,7 prósent hlut Fons hf., líka í eigu Pálma, í Aurum Holding Limited. Hluti lánsins, einn milljarður króna, var ráðstafað inn á persónulegan bankareikning Jóns Ásgeirs. Hann nýtti þann milljarð síðan í að borga meðal annars 705 milljóna króna yfirdráttarheimild sína hjá Glitni.
Fjórir menn voru ákærðir í því máli og tveir þeirra, Lárus Welding og Magnús Arnar Arngrímsson, hlutu dóm í héraði í lok árs 2016. Jón Ásgeir Jóhannesson var hins vegar sýknaður í málinu ásamt fjórða manni. Sýknu Jóns Ásgeirs og niðurstöðunni í máli Lárusar og Magnúsar var áfrýjað til Landsréttar, þar sem málið verður tekið fyrir í september næstkomandi.
Þegar ákært var í Aurum-málinu hafði slitastjórn Glitnis þegar höfðað skaðabótamál þar sem Jóni Ásgeiri, Pálma, Lárusi og þremur fyrrverandi starfsmönnum Glitnis var stefnt til greiðslu bóta. Það mál var sett í biðstöðu árið 2012 til að bíða eftir niðurstöðunni úr sakamálinu. Nú liggur hins vegar fyrir að búið sé að fella málið niður áður en hún fæst fram.
Fréttaskýringin birtist einnig í Mannlífi sem kom út í dag.