Aðstoðarmenn þingflokka og þingmanna verða sautján við lok þessa kjörtímabils, það er einn til aðstoðar fyrir hverja þrjá þingmenn, sem ekki eru ráðherrar eða gegna stöðu forseta Alþingis. Þetta kemur fram í svörum skrifstofustjóra Alþingis við fyrirspurn Kjarnans um stöðuna á eflingu Alþingis.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna kemur fram að styrkja eigi löggjafar-, fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk Alþingis á kjörtímabilinu með auknum stuðningi við nefndarstarf og þingflokka.
Í fjárlagafrumvarpi fyrir þetta ár var bætt við þremur stöðum sem auglýstar verða á næstunni, stöður þjóðhagfræðings, lögfræðings með sérþekkingu á eftirlitsstörfum og lögfræðings sem á að efla lagaskrifstofu þingsins, en sú styður við æðstu stjórn þingsins, nefndir og einstaka þingmenn sem vinna að gerð þingmála.
Ekki sama leið farin og fyrir hrun
Þá er í bígerð að auka enn fremur aðstoð við þingflokka og þingmenn. Í svari Helga Bernódussonar við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að ekki verði farin sama leið og fyrir hrun. Þá hafi verið sjö stöðugildi til aðstoðar við þingmenn af landsbyggðinni. Þannig sé aðstoðin hugsuð fyrir þingflokkana en ekki einstaka þingmenn.
Í þessari auknu aðstoð felst að framlag til þingflokka vegna rekstrar þeirra sjálfra og kaupa á sérfræðiþjónustu verður hækkað um 20 milljónir um það bil, úr rétt tæpum 52 milljónum í um 72 milljónir og segir Helgi að áætlunin sé reyndar þegar farin af stað. „Endamarkið sem næst á næsta ári er að fjárveitingar til þessa liðar verði komnar í það sama að raungildi og þær voru áður en niðurskurður á þeim hófst árið 2009.“ Fjárhæðin mun svo taka viðbótarhækkun um 35 milljónir króna á næsta ári. Hækkunin frá 2017 verður þá orðin 55 milljónir og fjárhæðin komin úr 52 milljónum í 107 milljónir.
Gjörbreytir afkomu þingflokkanna
Reiknað er með að sex til átta stöður bætist við á næsta vetri en áætlunin gerir ráð fyrir að á næstu árum verði aðstoðarmenn sem nemur þriðjungi af tölu þingmanna sem ekki eru ráðherrar, það er samtals 17 stöðugildi.
Unnið er nú að því að undirbúa reglur og skipuleggja hvernig þessari aðstoð verður hagað, en ljóst er að taka verður bæði tillit til hvers þingflokks og svo stærðar hans, og þar með sinna öllum þingmönnum. Ráðherrar hafa þegar aðstoðarmenn, sumir fleiri en einn, en líka formenn flokka sem eiga ekki aðild að ríkisstjórn.
„Auðvitað gjörbreytir þetta afkomu þingflokkanna og möguleikum þeirra til starfsmannahalds og kaupa á sérfræðiþjónustu. Ef þetta er ekki liður í að efla Alþingi að þessu leyti þá er ég á villigötum,“ segir Helgi.
Tvímælalaust jákvæð þróun
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir í samtali við Kjarnann að hingað til hafi aðstoðarmenn eða ritarar þingflokka verið starfsmenn þingsins sem flokkarnir hafi sótt um að fá.
Nú sé verið að breyta þessu á þann veg að flokkarnir geta ráðið þessa aðstoðarmenn sjálfir. Nokkrir flokkar hafa þegar ráðið ritara með þessum hætti og að sögn Björns Levís hefur flokkur Pírata verið einn af þeim. Þau hafi fengið að ráða starfsmann fyrr en áætlað var, þótt tæknilega séð sé hann starfsmaður þingsins vegna þess að enn er ekki formlega búið að breyta fyrirkomulaginu. Hann segir að ritarinn, sem starfaði fyrir flokkinn áður, hafi farið í fæðingarorlof og óþægilegt hefði verið að fá nýjan starfsmann á vegum þingsins í aðeins nokkra mánuði.
Björn Leví telur þetta tvímælalaust vera jákvæða þróun og segir hann að svona eigi fyrirkomulagið einmitt að vera. Að þingflokkar eigi að geta ráðið aðstoðarmenn sína sjálfir. „Eins og allir vita er dagskráin algjör handahlaup,“ segir hann og bætir því við að oft gangi mikið á á þinginu. Hann veltir því líka fyrir sér hvort þetta sé nóg til að létta undir með störfum þingsins og segir að það verði einfaldlega að koma í ljós.
Framlög til stjórnmálaflokkanna hækkuð um 127%
Stjórnmálaflokkarnir sjálfir fengu einnig töluverða innspýtingu við lok síðasta árs, þegar tillaga sex af átta flokkum sem sæti eiga á Alþingi um að hækka framlög ríkissjóðs til þeirra um 127 prósent, í 648 milljónir króna árlega var samþykkt.
Tveir flokkar skrifuðu ekki undir tillöguna, Píratar og Flokkur fólksins. Ríkisstjórnarflokkarnir þrír fá samtals 347,5 milljónir króna úr ríkissjóði og framlög til þeirra hækka um 195 milljónir króna. Stjórnarandstöðuflokkarnir fá 300,5 milljónir króna, sem er 137 milljónum króna meira en þeir hefðu fengið ef framlögin hefðu ekki verið hækkuð.