Bára Huld Beck Ísold Uggadóttir
Bára Huld Beck

Þegar kona er gott stöff

Auður Jónsdóttir rithöfundur settist niður með Ísoldu Uggadóttur kvikmyndaleikstjóra sem hlaut fyrir örfáum dögum áhorfendaverðlaun HBO fyrir kvikmyndina Andið eðlilega. Þær ræddu kaótíska tilveru kvikmyndaleikstjóra, Trump-leiða, fátækt og nauðsyn þess að gera kvikmyndir á íslensku um íslenskan veruleika – svo fátt eitt sé nefnt.

Ísold Ugga­dóttir er gott stöff. Eitt­hvað ekta við hana. Blátt áfram og ein­læg en stöðugt að hugsa og pæla – og skapa.

Fyrsta kvik­mynd hennar í fullri lengd, Andið eðli­lega, náði þeim ævin­týra­lega árangri að hljóta leik­stjórn­ar­verð­launin í flokki alþjóð­legra dramat­ískra kvik­mynda á Sund­ance-há­tíð­inni, hún hlaut jafn­framt gagn­rýnenda­verð­laun FIPRESCI á kvik­mynda­há­tíð­inni í Gauta­borg og stuttu eftir þetta við­tal hreppti hún áhorf­enda­verð­laun HBO á Provincetown kvik­mynda­há­tíð­inni í Banda­ríkj­un­um.

Myndin fangar kvik­una í sam­tím­an­um. Hún segir sögu ein­stæðr­ar, íslenskrar móður og erlendrar konu í leit að alþjóð­legri vernd, þar sem báðar heyja harða lífs­bar­áttu í sam­fé­lagi sem er orðið miklu fjöl­þjóð­legra en það var. Eitt augna­blik mæt­ast þær á flæk­ings­legri lífs­leið en kynnin verða merk­ing­ar­þrung­in. Það hlýtur að telj­ast mik­il­vægt fyrir okkur sem sam­fé­lag að sögur úr nýstár­legum íslenskum sam­tíma fái að verða að bíó­mynd. Slík saga er tákn um nýja tíma en það er Ísold líka sjálf, kvik­mynda­gerð­ar­kona á leið­inni á fund með mógúlum í Hollywood dag­inn eftir við­talið. Fyrir ekki svo löngu síðan hefði verið talið óhugs­andi að íslensk kona stæði í slíkum spor­um.

Að búa til kvik­mynd tekur mörg ár; marg­slungið og flókið ferlið reynir á ólíka eig­in­leika í leik­stjóra sem þarf selja ímynd sína fjár­fest­um, vinna með fram­leið­endum að fjár­mögn­un, huga að ótelj­andi tækni­legum atrið­um, útfæra marg­þætta skipu­lags­vinnu og síð­ast en ekki síst huga að öllu því list­ræna sem til þarf svo myndin verði ómaks­ins virði. En hvernig lífs­ryþmi fylgir slíku starfi?

„Að ein­hverju leyti öfunda ég fólk sem á sér venju­legt líf; mætir í vinn­una, veit hvenær það er búið og hvenær launa­seð­ill­inn ber­st,“ við­ur­kennir Ísold og brosir út í annað þegar hún seg­ist stundum vilja vera ein af þeim því þá væri allt miklu ein­fald­ara. „En ég veit líka að þannig yrði ég ekki í rónni. Ég finn sög­urnar koma til mín og mig langar að segja frá hlut­um. Oft hlutum sem mér finn­ast órétt­látir eða grát­bros­leg­ir. Þannig hefur mér liðið síðan ég var ung­ling­ur.

Vin­konur mínar þekkja vel að það megi varla neitt ger­ast án þess að ég sjái í honum bíósenu. Ég sé allt í bíósenum og hef lengi upp­lifað mig eins og ég sé karakter í bíó­mynd.“

Getur reynst flókið að greina á milli sjálfs­ins og sköp­un­ar­hugs­unar þess?

„Ég hef upp­lifað að vera í rifr­ildi eða per­sónu­legum dramat­ískum aðstæðum og hugsa á sama tíma: Þetta er frá­bær bíósena! Þetta rennur svo­lítið sam­an. Lífið – og að sjá tragík­ó­míkina í því. Lífið er jú ein­hvers konar tragík­ó­medía! Og allt verður fyndn­ara á papp­ír. Þá nær maður að horfa á atburð frá öðrum vinkli en meðan maður lifir hann svo það sem hefur flækst fyrir manni eða verið strembið getur orðið fyndið og skemmti­lega fárán­leg­t.“

Andið eðli­lega er raun­sæis­kvik­mynd, bæði inni­hald og úthugsuð mynd­ræn­an, en samt loðir við atburða­rás­ina smá leikur að farsa og þannig er áhorf­and­inn minntur á ævin­týrið í líf­inu – eins ofur hrátt og kalt og það getur orð­ið. Eins og leik­stjór­inn vilji ekki að það gleym­ist. Kannski áminn­ing um áður­nefnda tragík­ó­mík?

Ísold sam­sinnir þessu en segir marga hafa sagt mynd­ina vera mik­inn harm­leik.

„En ég reyni að minna á hitt. Spyr jafn­vel: Finnst þér þessi sena ekki fynd­in? Sjálf hef ég til dæmis oft lent í því að kort­inu mínu sé hafnað og íslenska ein­stæða móð­irin lendir í því en afþakkar að það sé borgað fyrir sig og auð­vitað er það sorg­legt en í þessum aðstæðum leyn­ist samt húmor.“

Hún seg­ist stundum vera hrædd um að verkin verði of væm­in: „Ég geri mér far um að krydda þau með smá svörtum húmor­ískum und­ir­tóni til að koma í veg fyrir að þau verði of melankól­ísk. Háal­var­legar aðstæður geta oft verið fyndn­ar. Stundum held ég mig vera að gera kómískar senur en fólk skynjar þær á annan hátt. Auð­vitað kemst maður ekki hjá því að nota stundum sitt eigið líf í senur og þá getur það gerst að sumum finnst eitt­hvað hræði­legt sem mér finnst í aðra rönd­ina kómískt. Þá er ég aðal­lega að tala um okkur sem mann­eskj­ur, hvernig við eigum það til að flækja eigið líf með stolt­inu sem stundum þvælist fyrir og gerir líf okkar jafn­vel flókn­ara en ella.“

Hvernig fólk skynjar hug­verk á ólíkan hátt er nokkuð sem rit­höf­undur þekkir á sama hátt og við­mæl­and­inn. Lista­verk er í jafn mörgum útgáfum og fólkið sem upp­lifir það. En rit­höf­undur þekkir líka kaó­tíska dag­skip­an­ina sem fylgir því að skipu­leggja til­ver­una eftir verkum í vinnslu svo talið berst aftur að lífs­ryþma leik­stjór­ans.

„Ég held að ég sé alltaf að leita að and­lega pláss­inu mínu til að fá að segja þessar sögur sem mig langar að segja,“ segir Ísold og líkir því við það hvernig sumir þurfi að taka vel til heima hjá sér til að geta unn­ið. Henni finn­ist oft að hún þurfi að hreinsa af do-list­anum sínum til að eiga það inni hjá sér að skrifa.

„Tölvu­póstar, fund­ir, amstur í kringum skipu­lagn­ing­u,“ þylur hún upp og meira til. „Stundum staldra ég við og átta mig á því að ég þyrfti að bera meiri virð­ingu fyrir skrif­un­um. Svo dag­legt amstrið stoppi þær ekki. Eins og staðan er þarf ég að taka alls­konar verk­efni að mér til að hafa efni á að skapa verkin mín. Og þar komum við að stóru áskor­un­inni. Ég get ekki skapað neitt af viti akkúrat milli eitt og fjögur eða átta og tólf. Ég þarf margar vikur í friði frá áreiti – og þá fara hlutir að ger­ast,“ útskýrir hún en bætir við að vissu­lega ger­ist margt í und­ir­með­vit­und­inni sem sé sístarf­andi.

„Maður er vissu­lega að skapa á milli verk­efna og í öllu amstr­inu. Það má ekki van­meta hug­ann sem vinnur miklu meira en maður gefur honum kredit fyr­ir.“

Ég get ekki skapað neitt af viti akkúrat milli eitt og fjögur eða átta og tólf. Ég þarf margar vikur í friði frá áreiti – og þá fara hlutir að gerast.
Ísold Uggadóttir
Bára Huld Beck

Við förum á smá flug að ræða hvernig hug­myndir kvikna og þró­ast í und­ir­með­vit­und­inni, oft við upp­vask eða í sundi.

Fyrir ári síð­an, snemma um sum­ar, var Ísold í bíltúr með ömmu sinni í litlu þorpi ekki langt frá Reykja­vík. Í þessu þorpi fékk hún hug­ljóm­un: „Ég var ekki endi­lega að leit­ast eftir því að fá hug­mynd að næsta verk­efni. Hún bara kom allt í einu. Svo eftir þennan sunnu­dags­bíltúr þurfti ég að fara strax og skrifa niður hug­mynd­irnar sem æddu um í hug­an­um. Allt í einu með mik­inn sögu­þráð í höfð­inu eftir þennan bíltúr. Síðan hefur sá efni­viður verið að þró­ast. Þó ekki mjög mark­visst en án þess ég hafi þurft að ýta á eftir ferl­inu. Hug­mynd­irnar pompa upp ef ég er í sundi eða rækt­inni, hvar sem er! Þessar per­sónur eru orðnar til og leita á mig.“

Ísold segir nauð­syn­legt að reyna að fanga alla hugs­an­irn­ar. Grípa þær til að gleyma þeim ekki: „Stundum held ég að ég muni þær en gleymi þeim svo síð­an. Ég var öfl­ugri á yngri árum með litla bók en nú er ég með hljóð­upp­töku­app í sím­anum og nota það dálít­ið. En um leið og ég skipti um umhverfi kvikna fleiri hug­mynd­ir. Það að vera of lengi í sömu rútínu heftir flæð­ið.“

Næsta spurn­ing hljómar und­ar­lega – og samt ekki! Er hún félags­lyndur ein­fari?

„Já, lík­lega,“ sam­sinnir hinn víð­sýni við­mæl­andi. „Maður þarf að vera til í að vera einn með sjálfum sér vikum og mán­uð­um, nán­ast árum, sam­an. Ég er sam­bland af intró­verti og extró­verti og þarf stundum á því að halda að vera ekki innan um fólk. Mér finnst þægi­legt að sitja ein á Þjóð­ar­bók­hlöð­unni og leyfa hug­mynd­unum að flæða. Sér­stak­lega þegar ég veit að ég hef tíma. En það getur verið áskorun þegar ég er með­vituð um að skila­frestur nálgist.“

Hún dregur ekki dul á að pressan geti verið erfið og heft hug­mynd­irn­ar. „Þá þarf maður að flýta sér í gegnum efnið og muna að til­tekin sena sé skrifuð til bráða­birgða. Að ég muni koma aftur að henni og laga hana. Þetta verður aldrei full­kom­ið!“ and­varpar hún og segir síðan það sem skiptir sköpum að muna við skriftir skáld­aðra verka: „Eina leiðin til að kom­ast í gegnum fyrsta draft er að slá af kröfum sín­um. Ann­ars verður þetta fyrsta draft aldrei til.“

Ísold hefur búið í tíu ár í New York þar sem hún mennt­aði sig en hún bjó líka í Banda­ríkj­unum í sex ár sem barn. Því er freist­andi að velta fyrir sér hvort verk hennar væru í sama anda hefði hún ekki mót­ast af þessum tveimur ólíku heim­um.

Hún segir New York vera stað­inn sinn og dregur skýra línu á milli þeirrar borgar og Banda­ríkj­anna sem slíkra.

„Ýmsar af stutt­mynd­unum mínum voru inn­blásnar af því að hafa búið í New York. Ég væri ekki sami lista­mað­ur­inn án þess en samt finnst mér að bæði grunn­kjarn­inn og stíll­inn í verk­unum séu af öðrum toga. Að per­són­urnar segi ekki mikið og hlutir séu ósagðir þykir mjög evr­ópskt í Amer­íku. Það er ekki ætlun mín að reyna að gera evr­ópsk verk, það er bara í eðli mínu að láta fólk ekki tala út í eitt. Sem er fyndið því ég á til að tala mjög mikið en það þýðir samt ekki að ég meini allt sem ég segi, enda eru skoð­anir mínar breyt­ingum háð­ar, eins og íslenska veðrið!“ segir Ísold og hlær en ítrekar síðan að hún vilji skapa óræðar per­sónur og nota það sem sé und­ir­liggj­andi

Eina leiðin til að komast í gegnum fyrsta draft er að slá af kröfum sínum. Annars verður þetta fyrsta draft aldrei til.
Andið eðlilega er þessa dagana sýnd í Bíó Paradís með enskum texta og notalegt að bregða sér í bíó á vætusömu sumarkvöldi og sjá þessa mögnuðu mynd.
Andið eðlilega

Af verk­unum að dæma virð­ist fátækt vera Ísoldu hug­leikin en hvernig skyldi hún upp­lifa fátækt í Banda­ríkj­unum í sam­an­burði við fátækt á Íslandi.

„Ég myndi frekar vilja vera fátæk á Íslandi en í Banda­ríkj­un­um,“ segir hún strax. „Ég hef upp­lifað að vera fátækur íslenskur náms­maður en það er öðru­vísi fátækt. Hér er ger­legra að eygja leið út úr hark­inu. Ef þú ert til dæmis eldri borg­ari í Banda­ríkj­unum sem hefur ekki efni á lækn­is­þjón­ustu og getur ekki tryggt þér hús­næði, þá lend­irðu raun­veru­lega á göt­unni. Ég held að það sé mjög slæmt ástand. Staðan er sú að fólk lætur lífið af því það getur ekki greitt fyrir við­eig­andi lækn­is­þjón­ust­u.“

Ísold seg­ist stundum verða hugsi yfir þeirri stað­reynd að eftir því sem mann­eskja eigi minna því hærri vexti borgi hún.

„Úr verður kvik­syndi, segir hún. „Þeim mun minna sem þú átt því dýr­ara verður að eign­ast eitt­hvað. Þú færð verri kjör ef þú átt ekki pen­inga. Ef þú ert vel stæður færðu fjár­hags­legan afslátt. Þetta er bil­un! Fólki er kerf­is­bundið haldið niðri. ­Fólk sem er komið á ákveð­inn stað fær hlut­ina gef­ins og alls konar fríð­indi. Fríð­indi eru gefin þeim vel stæðu. Ef þú hefur til dæmis efni á því að ferð­ast oftar færðu fleiri flug­punkta og um leið fleiri flug. Svo ótrú­lega margt meikar ekki sens.“

Hún segir þessa tíu ára dvöl í Banda­ríkj­unum hafa breytt sér og að hún eigi til að bera stað­ina sam­an.

„Mér finn­ast Banda­ríkja­menn hafa látið vaða yfir sig. Stétt­ar­fé­lögin eru óvirk. Og fæð­ing­ar­or­lof kvenna – hvað er að frétta af því? Amer­ík­anar hafa leyft kap­ít­al­ism­anum að stjórna lífi sínu. Svo margir hafa miklar áhyggjur af sjúkra­trygg­ingu því þú þarft að fá hana gegnum atvinnu þína.

Fólki er svo­lítið haldið niðri. Ég fann það þegar ég vann sem klipp­ari í nokkur ár að maður varð þræll kap­ít­al­ism­ans. Lífið var vinna. Og þá bar maður sig saman við Evr­ópu­búa og hló svo­lítið að þeim. Allt svo voða kósí þar! En þegar ég komst yfir þann stund­ar­hroka sá ég að Evr­ópa ber virð­ingu fyrir manns­líf­inu. Mann­eskj­unni! En Amer­íka ber virð­ingu fyrir kap­ít­al­ism­anum – og gerir enn.“

Ísold kom þangað út árið 2001 og finnst nú eins og hún hafi ekki vitað neitt um heim­inn þá.

„Al­veg blaut á bak við eyr­un, þessi Íslend­ingur sem átti eftir að læra allt. Maður kynnt­ist heim­inum þarna og breytt­ist við að kynn­ast fólki frá öllum heims­horn­um. Ég var komin í suðu­pott og tók út mik­inn þroska á þessum árum.“

Hún segir að dvölin ytra hafi meðal ann­ars breytt matar­æði sínu og opnað fyrir svo margt nýtt í líf­inu. „Nú eru liðin sautján ár síðan og Ísland hefur líka breyst á þessum árum. Sam­fé­lagið hefur þroskast og Reykja­vík er orðin alþjóð­legri borg en þá. Senni­lega var stétt­skipt­ing hér til staðar en við vorum ekki með­vituð um hana. Nú hafa mynd­ast öðru­vísi hópar og bilið á milli þeirra er breið­ara. Þessar launa­tölur sem við heyrum um frá stjórn­endum í bönkum eru ekki tölur sem fyr­ir­fund­ust í veru­leika okkar fyrir ein­hverjum ára­tugum síð­an.“

Þeim mun minna sem þú átt því dýrara verður að eignast eitthvað. Þú færð verri kjör ef þú átt ekki peninga. Ef þú ert vel stæður færðu fjárhagslegan afslátt. Þetta er bilun!
Ísold Uggadóttir
Bára Huld Beck

Í popúl­ískri orð­ræðu dags­ins má oft heyra raddir stilla fátækum Íslend­ingum upp gegn fólki í leit að alþjóð­legri vernd – eins og annar hóp­ur­inn taki frá hin­um. En í kvik­mynd Ísoldar eru kon­ur, sem gætu verið tákn­myndir fyrir þessa tvo hópa, leiddar saman líkt og til höf­uðs slíkum mál­flutn­ingi.

„Þeir sem hafa séð mynd­ina eru þakk­látir fyrir að hún stefni ekki saman þessum ólíku hóp­um,“ segir Ísold. „Að vera móðir í hark­inu er erfitt. Og flótta­konan sem er heim­il­is­laus í heim­inum á líka erfitt. Hún á sér hvorki von né sama­stað í til­ver­unni. En þessar konur eru ekki í keppni um hvor þeirra hafi það verra. Ég er þakk­lát fyrir að fólk horfi á mynd­ina og hugsi: Það að hjálpa konu á flótta og það að hjálpa íslenskri móður í neyð úti­lokar ekki hvort ann­að. Við þurfum ekki að velja, þetta er ekki keppni.

Fólk hefur skynjað þetta þegar það horfir á mynd­ina. Að þetta eru allt mann­eskj­ur. Það á ekki að þurfa að taka ákvörðun um hvorn aðil­ann við styðj­um. Mér finnst út í hött að þykj­ast bara geta stutt við annan þess­ara hópa,“ botnar hún ákveð­in.

Nú liggur bein­ast við að spyrja hvernig hún upp­lifi mun­inn á popúl­ískri orð­ræðu á Íslandi og í Banda­ríkj­un­um.

Hún er fljót að svara: „Amer­ica First – þessi Amer­íka Trumps sem kemur út úr munni hans – er ekki sú Amer­íka sem ég þekki. Amer­íka sem ég þekki er New York – borg fjöl­menn­ing­ar­inn­ar.

En ég verð að við­ur­kenna að eftir að hafa hlustað á Trump, dag eftir dag, þarf ég að loka fyrir hann. Ég fæ ekki umborið sýruna hans. Raunar átta ég mig ekki á því hvort Amer­ica Fir­st-­stefnan sé að fá byr undir báða vængi hjá almenn­ingi en sann­ar­lega er honum mikið í mun að sanna að sér sé alvara, ef litið er til hinnar ómann­úð­legu til­skip­unar hans um að aðskilja börn og for­eldra á flótta við landa­mæri Mexík­ó.“

Í kvik­mynd henn­ar, Andið eðli­lega, eru tvær konur að berj­ast fyrir til­veru­rétti sín­um. Finnur Ísold sig að ein­hverju leyti í þeim?

„Já,“ segir hún hugsi, „í íslensku móð­ur­inni, Láru, þó að ég sé ekki ein­stæð móðir á Reykja­nesi í hark­inu. En ég þekki vel að geta ekki borgað reikn­inga eins og svo margir lista­menn á Íslandi. Samt vil ég ekki bera það saman við fólk í svona mik­illi neyð. En auð­vitað er óþægi­legt að geta ekki staðið í skilum við allt og alla,“ segir hún með festu og minn­ist þess að það hafi verið mikið hark að vera náms­maður í New York. „Auð­vitað batnar staðan frá ári til árs en ég þekki þetta: að fá synjun á kortið og reyna að halda and­liti í ýmsum aðstæð­u­m.“

Hún segir að sér hafi fund­ist erfitt að skrifa flótta­kon­una, þar hafi verið um að ræða fram­andi aðstæður svo hún hafi farið í mikla rann­sókna­vinnu og reynt að kynna sér þær.

„En burt­séð frá aðstæðum þá eru þetta bara tvær mann­eskj­ur. Og ég á auð­velt með að setja mig í spor fólks. Fólk leitar alltaf eftir ein­hvers konar virð­ingu, sama hvar það er statt í líf­inu. Flótta­konan er í erf­iðum aðstæðum en hún þráir samt að halda mann­legri reisn. Því forð­ast hún að barma sér upp­hátt við þessa konu sem hún er komin í sam­skipti við. Þegar hún fær til dæmis nið­ur­stöðu í máli sínu ber hún harm­inn í hljóði því hún er ekki til­búin til að opin­bera hann.“

Hún segir kon­urnar eiga það sam­eig­in­legt að bera báðar harm sinn í hljóði og þannig nái þær að tengj­ast í gegnum ákveð­inn atburð. Raunar sé það sam­eig­in­legt stef í fjórum stutt­myndum henn­ar: „Fólk að reyna að halda and­liti við alls konar erf­iðar aðstæð­ur.“

En ég verð að viðurkenna að eftir að hafa hlustað á Trump, dag eftir dag, þarf ég að loka fyrir hann. Ég fæ ekki umborið sýruna hans.

Aðspurð útskýrir Ísold að íslenska móð­irin hafi orðið til í kjöl­far íslenska efna­hags­hruns­ins.

„Þá las ég um fólk sem missti heim­ili sín, sumir end­uðu í bíln­um. Ég var ein af þessum reiðu Íslend­ingum sem fannst þurfa að láta í sér heyra. Ég afréð því að færa til­finn­ingar mínar í stutt­mynda­form og úr varð Útrás Reykja­vík, sem fjallar um konu sem verður fórn­ar­lamb hruns­ins. Reyndar hélt ég að fyrsta myndin mín í fullri lengd yrði í beinu fram­haldi af þeirri mynd og tæki fyrir svipað efni. Þá var ég þegar farin að þróa þessa sögu af móður og barni hennar sem ætti kött og þau komin á ver­gang sem eng­inn ætti að vita af. Móðir sem býr til óvissu­ferð fyrir barnið sitt.“

En síðan fór hún með verkið til Amer­íku á vinnu­stofu hand­rits­höf­unda og þar var henni sagt að verkið væri full evr­ópskt. „Kona þar sagði með löðr­andi amer­ískum hreim: You need more charact­ers in your film!“

„Þessi punktur ferð­að­ist með mér heim til Íslands en ég vissi ekki alveg hvernig ég ætl­aði að leysa þetta. Á sama tíma fannst mér að ég væri stans­laust að lesa hörm­ung­ar­fréttir af flótta­fólki föstu í viðjum kerf­is­ins á Íslandi, örþreyttu á lík­ama og sál eftir eilífa bar­áttu við kerf­ið, sífellt að reyna að kom­ast um borð í skip eða flug­vél, jafn­vel kveikja í sér eða fara í hung­ur­verk­fall. Allt reynt til að kom­ast úr aðstæð­unum sem það var í. Þá sló þetta mig: Þetta er sagan sem ég vil segja! Mig lang­aði að skapa per­sónu sem væri flótta­kona.“

Tók heim­ilda­vinnan á, að kynn­ast sögum þessa fólks?

„Já, svaka­lega,“ segir Ísold og útskýrir að þetta hafi verið rugl­andi á tíma­bili því hver ein­asta mann­eskja hefði búið yfir svo mik­illi sögu. „Ég hefði getað sagt svo margar sögur úr mörgum áttum og um tíma hugs­aði ég með mér að kannski ætti ég frekar að gera heim­ilda­mynd. Efni­við­ur­inn var svo mik­ill og marg­slung­inn að ég vissi að sem höf­undur skáld­aðrar frá­sagnar gæti ég aldrei gert þessu öllu skil. Ég þurfti að fórna ýmis konar efni í þágu kvik­myndastrúkt­úrs­ins því verk má ekki vera ofhlað­ið. En allt þetta gagn­að­ist sem inn­blástur og heim­sókn­irnar á Fit Hostel hjálp­uðu okkur að skapa svipað hús­næði. Ég gat lýst aðstæðum fólks og hafði séð það horfa á fót­bolta eða biðja, já, eða tala í sím­ann – hitt og þetta – en ég gat engan veg­inn fjallað um sögur allra.“

En þessi reynsla hefur gert hana ofur­næma fyrir svona sög­um. „Við að lesa þær líður mér eins og ég sé sífellt að lesa svona sög­ur, segir hún. „En síðan hitti ég fólk úti í bæ sem hefur ekki tekið eftir þeim. Dálítið eins og þegar maður var ung­lingur að reyta arfa, þá sá ég arfa út um allt meðan aðrir sáu hann ekki.“

Talið berst þá að öllum litlu en samt fjöl­breyttu heimunum í hinu fámenna sam­fé­lagi á Íslandi og hversu auð­velt sé að fest­ast í bubblunni sinni, mið­svæð­inu í Reykja­vík, oft kenndu við 101.

„Þannig verður maður hissa við að skreppa í Breið­holtið og sjá þá fjöl­menn­ing­ar­legt sam­fé­lag,“ segir hún. „Þessi sam­fé­lög eiga til að tengj­ast ekki. Hversu oft tengj­ast til dæmis Garð­bæ­ing­arnir fjöl­menn­ing­ar­sam­fé­lag­inu í Breið­holt­i?“

Þetta Ísland er ekki það sama og í mörgum íslenskum myndum þar sem þjóð­arsálin er róm­an­tíseruð.

Hún segir að sig hafi einmitt ekki langað til að búa til póst­korta­út­gáfu með svörtum sandi og foss­um. „Mig lang­aði að leyfa útlend­ingum að sjá að þetta er líka til. Að þeir fengju að sjá lífs­bar­áttu sem er til staðar en lendir ekki oft á for­síðu tíma­rita eða í við­tölum í túrista­bæk­ling­um.“

Við að sýna mynd­ina erlendis upp­lifði hún að áhorf­endur undr­uð­ust að á Íslandi væri til fólk sem byggi við fátækt. „Margir virt­ust halda að hér væri aðeins efri milli­stétt. Ég ímynda mér líka að erf­ið­leik­arnir sem ég fjalla um hér verði djók í löndum eins og Frakk­landi og Þýska­landi í sam­an­burði við aðstæð­urnar þar. En vanda­málin þar gera ekki erf­ið­leika fólks á Íslandi minn­i.“

Ísold segir það skipta sig meira máli en hún vilji við­ur­kenna að skrifa hand­ritin sjálf. Í hand­ritsvinnsl­unni kvikni sann­fær­ingin sem þurfi til að fleyta leik­stjór­anum í gegnum langt ferl­ið. En hvað ætli hún hafi lært af ferl­inu við þessa mynd?

„Svo ótrú­lega margt að ég veit ekki hvar ég á að byrj­a,“ svarar hún sposk og dæs­ir. „Til dæmis er fjár­mögnun miklu flókn­ara hindr­un­ar­hlaup en mig óraði fyr­ir. Og sam­keppnin um stuðn­ing er enn harð­ari en ég þótt­ist vita. Það er langt frá því gefið að stuðn­ing­ur­inn komi þegar þú telur verkið klárt. Því reynir mikið á þol­in­mæði og úthald – og sterka trú manns á að kvik­mynda­tökur verði sann­ar­lega einn dag­inn að veru­leika.“

Hún segir að í þessu ferli hafi hún líka sann­færst um að það ætti vel við hana að leik­stýra. „En það tekur á, bæði and­lega og lík­am­lega. Dag­arnir eru langir og nauð­syn­legt að geta fók­userað hund­rað pró­sent, alltaf, án und­an­tekn­inga – tólf tíma á dag. Maður þarf svo­lítið að vera á tán­um, gefa fyr­ir­mæli, koma skynjun sinni til skila og geta lesið hvort hlut­irnir séu að virka sem skyldi. Ef þeir gera það ekki þarf maður að vera eldsnöggur að finna lausn­ir. Svo mikið er í húfi og kostn­að­ar­samt ef senan virkar ekki eins og hún á að ger­a.“

Og aðeins út í kona þetta og kona hitt ... eins og tíðkast, jú. Nú var Elísa­bet Ron­alds­dóttir í við­tali í DV fyrir stuttu og sagði þar: . „En ekki spyrja mig hvernig það sé að vera kona í kvik­mynda­gerð. Ég barasta hef engan sam­an­burð til að meta það, ég hef alltaf verið kona.“ Getur þú orðið þreytt á þess­ari spurn­ingu? Og finnst þér loða við kvik­mynda­gerð að hún sé ennþá karla­heim­ur?

„Þessi umræða varð loks sýni­leg fyrir nokkrum árum og þá var ég mikið spurð út í þetta,“ segir hún en tekur undir orð Elísa­bet­ar: „Ég hef ekki verið maður og get ekki sagt hvernig sú reynsla er.“

„En á öllum þessum kvik­mynda­sett­um, sem ég hef unnið á, eru konur oft í minni­hluta. Þetta er karla­heim­ur. Við reynum að vinna í að leið­rétta það því við getum tekið þessi völd þegar við gerum okkar eigin mynd­ir. Að passa að ráða nógu margar konur í lyk­il­stöður og þannig var því háttað í Andið eðli­lega. Það breytir auð­vitað stemn­ing­unni á setti að umkringja sig með kyn­systrum sín­um; sýnin á heim­inn verður keim­lík­ari, meira að segja meiri sam­hljómur með hvaða veit­ingar eigi að vera í boði. And­inn verður kven­læg­ari.“

En á öllum þessum kvikmyndasettum, sem ég hef unnið á, eru konur oft í minnihluta. Þetta er karlaheimur.
Ísold Uggadóttir
Bára Huld Beck

Nú er margt að ger­ast í íslenskri kvik­mynda­gerð – en hverju finnst þér vera ábóta­vant?

„Erf­ið­ast fyrir okkur öll er að byrja á nýju verki af því að stuðn­ing­ur­inn á þessu þró­un­ar- og hand­rita­stigi er svo tak­mark­að­ur,“ segir Ísold og aug­sýni­legt að umræðu­efnið kveikir í henni, nýkominni af fundi þar sem rætt hafði verið um þetta.

„Sumum okkar finnst mik­il­vægt að eiga kost á starfs­launum lista­manna á milli verk­efna, á upp­hafs­stigum nýrra verka. Hjá Kvik­mynda­sjóði eru til ýmsir hand­rita­styrkir en ferlið þar er ekki heppi­legt. Þegar ný verk mót­ast eru þau við­kvæm og geta farið ýmsar átt­ir. Þá er svo mik­il­vægt að geta verið í friði í nokkra mán­uði og jafn­vel ár, til að útfæra og vinna, og geta verið með tryggð starfs­laun í þann tíma sem verkið er að mótast, segir hún og bendir á að eins og kerfið sé nú upp­byggt þurfi hand­rits­höf­undar sækja um í hvert skipti sem þeir hygg­ist fara lengra með hug­mynd sína.

Þá fer í hönd bið­tími og óvissa um hvort laun muni raun­veru­lega ber­ast. Þetta heftir list­ræna vinnu höf­undar og við finnum okkur knúin til að hætta skrifum og sækja um hefð­bundna laun­aða vinnu, ósjaldan verk­efni sem hafa ekk­ert með sköpun að gera. Þró­un­ar­ferli kvik­mynda almennt er eitt­hvert mik­il­væg­asta ferlið í und­ir­bún­ingi kvik­mynd­ar, en þar skortir veru­lega stuðn­ing, að mínu mat­i.“

Hvort mynd­irðu vilja búa hér á landi að búa til myndir eða í Banda­ríkj­unum að búa til myndir ef þér gæf­ist kostur á hvoru tveggja?

„Ég myndi vilja búa og búa til myndir hér á landi og finna ein­hvern sem er til í að borga fyrir allt sam­an,“ svarar hún og hlær temmi­lega alvar­leg. „Ég hef ekki sér­stakan áhuga á að gera myndir á ensku. Frekar vil ég gera myndir á mínu eigin tungu­máli því það er mér tamara. Þó að ég hafi búið svona lengi í ensku­mæl­andi landi, bæði sem barn og full­orð­in, þá næ ég sér­stakri teng­ingu í gegnum íslensku. Ef ég myndi skrifa sögu á ensku um barn sem missir sam­band við for­eldra sína þá er þarna ákveð­inn veggur upp á skynj­un­ina og blæ­brigðin að gera. Eins og sagan verði ekki eins sönn, ég geti sagt sann­ari sögu á íslensku. Mér finnst ég vera næm­ari á allt í gegnum íslensk­una.“

Hún seg­ist örugg­lega geta lifað þægi­legra lífi með því að segja já við eitt­hvað af þessum erlendu aðilum sem hafa fal­ast eftir henni, eins og fólkið sem hún sé nú að fara að hitta í Amer­íku í vik­unni. „En mér finnst mér bera hálf­gerð skylda til að segja sögur á íslensku af Íslend­ingum sem ég skil og þekki frekar en að taka til­boði ein­hvers um að segja þær á ensku, þó að það sé betur borg­að. Því þá finnst mér ég ekki endi­lega vera að segja sögur sem skipta mig máli. Sumir vilja að við gerum myndir á ensku því stað­reyndin er sú að þær fá miklu meiri dreif­ingu. En ég spyr: Viljum við ekki segja sögur af Íslend­ingum á íslensku – skrif­aðar af fólki sem þekkir og skilur sam­fé­lag­ið?“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnAuður Jónsdóttir
Meira úr sama flokkiFólk