Bára Huld Beck Ísold Uggadóttir

Þegar kona er gott stöff

Auður Jónsdóttir rithöfundur settist niður með Ísoldu Uggadóttur kvikmyndaleikstjóra sem hlaut fyrir örfáum dögum áhorfendaverðlaun HBO fyrir kvikmyndina Andið eðlilega. Þær ræddu kaótíska tilveru kvikmyndaleikstjóra, Trump-leiða, fátækt og nauðsyn þess að gera kvikmyndir á íslensku um íslenskan veruleika – svo fátt eitt sé nefnt.

Ísold Uggadóttir er gott stöff. Eitthvað ekta við hana. Blátt áfram og einlæg en stöðugt að hugsa og pæla – og skapa.

Fyrsta kvikmynd hennar í fullri lengd, Andið eðlilega, náði þeim ævintýralega árangri að hljóta leikstjórnarverðlaunin í flokki alþjóðlegra dramatískra kvikmynda á Sundance-hátíðinni, hún hlaut jafnframt gagnrýnendaverðlaun FIPRESCI á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg og stuttu eftir þetta viðtal hreppti hún áhorfendaverðlaun HBO á Provincetown kvikmyndahátíðinni í Bandaríkjunum.

Myndin fangar kvikuna í samtímanum. Hún segir sögu einstæðrar, íslenskrar móður og erlendrar konu í leit að alþjóðlegri vernd, þar sem báðar heyja harða lífsbaráttu í samfélagi sem er orðið miklu fjölþjóðlegra en það var. Eitt augnablik mætast þær á flækingslegri lífsleið en kynnin verða merkingarþrungin. Það hlýtur að teljast mikilvægt fyrir okkur sem samfélag að sögur úr nýstárlegum íslenskum samtíma fái að verða að bíómynd. Slík saga er tákn um nýja tíma en það er Ísold líka sjálf, kvikmyndagerðarkona á leiðinni á fund með mógúlum í Hollywood daginn eftir viðtalið. Fyrir ekki svo löngu síðan hefði verið talið óhugsandi að íslensk kona stæði í slíkum sporum.

Að búa til kvikmynd tekur mörg ár; margslungið og flókið ferlið reynir á ólíka eiginleika í leikstjóra sem þarf selja ímynd sína fjárfestum, vinna með framleiðendum að fjármögnun, huga að óteljandi tæknilegum atriðum, útfæra margþætta skipulagsvinnu og síðast en ekki síst huga að öllu því listræna sem til þarf svo myndin verði ómaksins virði. En hvernig lífsryþmi fylgir slíku starfi?

„Að einhverju leyti öfunda ég fólk sem á sér venjulegt líf; mætir í vinnuna, veit hvenær það er búið og hvenær launaseðillinn berst,“ viðurkennir Ísold og brosir út í annað þegar hún segist stundum vilja vera ein af þeim því þá væri allt miklu einfaldara. „En ég veit líka að þannig yrði ég ekki í rónni. Ég finn sögurnar koma til mín og mig langar að segja frá hlutum. Oft hlutum sem mér finnast óréttlátir eða grátbroslegir. Þannig hefur mér liðið síðan ég var unglingur.

Vinkonur mínar þekkja vel að það megi varla neitt gerast án þess að ég sjái í honum bíósenu. Ég sé allt í bíósenum og hef lengi upplifað mig eins og ég sé karakter í bíómynd.“

Getur reynst flókið að greina á milli sjálfsins og sköpunarhugsunar þess?

„Ég hef upplifað að vera í rifrildi eða persónulegum dramatískum aðstæðum og hugsa á sama tíma: Þetta er frábær bíósena! Þetta rennur svolítið saman. Lífið – og að sjá tragíkómíkina í því. Lífið er jú einhvers konar tragíkómedía! Og allt verður fyndnara á pappír. Þá nær maður að horfa á atburð frá öðrum vinkli en meðan maður lifir hann svo það sem hefur flækst fyrir manni eða verið strembið getur orðið fyndið og skemmtilega fáránlegt.“

Andið eðlilega er raunsæiskvikmynd, bæði innihald og úthugsuð myndrænan, en samt loðir við atburðarásina smá leikur að farsa og þannig er áhorfandinn minntur á ævintýrið í lífinu – eins ofur hrátt og kalt og það getur orðið. Eins og leikstjórinn vilji ekki að það gleymist. Kannski áminning um áðurnefnda tragíkómík?

Ísold samsinnir þessu en segir marga hafa sagt myndina vera mikinn harmleik.

„En ég reyni að minna á hitt. Spyr jafnvel: Finnst þér þessi sena ekki fyndin? Sjálf hef ég til dæmis oft lent í því að kortinu mínu sé hafnað og íslenska einstæða móðirin lendir í því en afþakkar að það sé borgað fyrir sig og auðvitað er það sorglegt en í þessum aðstæðum leynist samt húmor.“

Hún segist stundum vera hrædd um að verkin verði of væmin: „Ég geri mér far um að krydda þau með smá svörtum húmorískum undirtóni til að koma í veg fyrir að þau verði of melankólísk. Háalvarlegar aðstæður geta oft verið fyndnar. Stundum held ég mig vera að gera kómískar senur en fólk skynjar þær á annan hátt. Auðvitað kemst maður ekki hjá því að nota stundum sitt eigið líf í senur og þá getur það gerst að sumum finnst eitthvað hræðilegt sem mér finnst í aðra röndina kómískt. Þá er ég aðallega að tala um okkur sem manneskjur, hvernig við eigum það til að flækja eigið líf með stoltinu sem stundum þvælist fyrir og gerir líf okkar jafnvel flóknara en ella.“

Hvernig fólk skynjar hugverk á ólíkan hátt er nokkuð sem rithöfundur þekkir á sama hátt og viðmælandinn. Listaverk er í jafn mörgum útgáfum og fólkið sem upplifir það. En rithöfundur þekkir líka kaótíska dagskipanina sem fylgir því að skipuleggja tilveruna eftir verkum í vinnslu svo talið berst aftur að lífsryþma leikstjórans.

„Ég held að ég sé alltaf að leita að andlega plássinu mínu til að fá að segja þessar sögur sem mig langar að segja,“ segir Ísold og líkir því við það hvernig sumir þurfi að taka vel til heima hjá sér til að geta unnið. Henni finnist oft að hún þurfi að hreinsa af do-listanum sínum til að eiga það inni hjá sér að skrifa.

„Tölvupóstar, fundir, amstur í kringum skipulagningu,“ þylur hún upp og meira til. „Stundum staldra ég við og átta mig á því að ég þyrfti að bera meiri virðingu fyrir skrifunum. Svo daglegt amstrið stoppi þær ekki. Eins og staðan er þarf ég að taka allskonar verkefni að mér til að hafa efni á að skapa verkin mín. Og þar komum við að stóru áskoruninni. Ég get ekki skapað neitt af viti akkúrat milli eitt og fjögur eða átta og tólf. Ég þarf margar vikur í friði frá áreiti – og þá fara hlutir að gerast,“ útskýrir hún en bætir við að vissulega gerist margt í undirmeðvitundinni sem sé sístarfandi.

„Maður er vissulega að skapa á milli verkefna og í öllu amstrinu. Það má ekki vanmeta hugann sem vinnur miklu meira en maður gefur honum kredit fyrir.“

Ég get ekki skapað neitt af viti akkúrat milli eitt og fjögur eða átta og tólf. Ég þarf margar vikur í friði frá áreiti – og þá fara hlutir að gerast.
Ísold Uggadóttir
Bára Huld Beck

Við förum á smá flug að ræða hvernig hugmyndir kvikna og þróast í undirmeðvitundinni, oft við uppvask eða í sundi.

Fyrir ári síðan, snemma um sumar, var Ísold í bíltúr með ömmu sinni í litlu þorpi ekki langt frá Reykjavík. Í þessu þorpi fékk hún hugljómun: „Ég var ekki endilega að leitast eftir því að fá hugmynd að næsta verkefni. Hún bara kom allt í einu. Svo eftir þennan sunnudagsbíltúr þurfti ég að fara strax og skrifa niður hugmyndirnar sem æddu um í huganum. Allt í einu með mikinn söguþráð í höfðinu eftir þennan bíltúr. Síðan hefur sá efniviður verið að þróast. Þó ekki mjög markvisst en án þess ég hafi þurft að ýta á eftir ferlinu. Hugmyndirnar pompa upp ef ég er í sundi eða ræktinni, hvar sem er! Þessar persónur eru orðnar til og leita á mig.“

Ísold segir nauðsynlegt að reyna að fanga alla hugsanirnar. Grípa þær til að gleyma þeim ekki: „Stundum held ég að ég muni þær en gleymi þeim svo síðan. Ég var öflugri á yngri árum með litla bók en nú er ég með hljóðupptökuapp í símanum og nota það dálítið. En um leið og ég skipti um umhverfi kvikna fleiri hugmyndir. Það að vera of lengi í sömu rútínu heftir flæðið.“

Næsta spurning hljómar undarlega – og samt ekki! Er hún félagslyndur einfari?

„Já, líklega,“ samsinnir hinn víðsýni viðmælandi. „Maður þarf að vera til í að vera einn með sjálfum sér vikum og mánuðum, nánast árum, saman. Ég er sambland af intróverti og extróverti og þarf stundum á því að halda að vera ekki innan um fólk. Mér finnst þægilegt að sitja ein á Þjóðarbókhlöðunni og leyfa hugmyndunum að flæða. Sérstaklega þegar ég veit að ég hef tíma. En það getur verið áskorun þegar ég er meðvituð um að skilafrestur nálgist.“

Hún dregur ekki dul á að pressan geti verið erfið og heft hugmyndirnar. „Þá þarf maður að flýta sér í gegnum efnið og muna að tiltekin sena sé skrifuð til bráðabirgða. Að ég muni koma aftur að henni og laga hana. Þetta verður aldrei fullkomið!“ andvarpar hún og segir síðan það sem skiptir sköpum að muna við skriftir skáldaðra verka: „Eina leiðin til að komast í gegnum fyrsta draft er að slá af kröfum sínum. Annars verður þetta fyrsta draft aldrei til.“

Ísold hefur búið í tíu ár í New York þar sem hún menntaði sig en hún bjó líka í Bandaríkjunum í sex ár sem barn. Því er freistandi að velta fyrir sér hvort verk hennar væru í sama anda hefði hún ekki mótast af þessum tveimur ólíku heimum.

Hún segir New York vera staðinn sinn og dregur skýra línu á milli þeirrar borgar og Bandaríkjanna sem slíkra.

„Ýmsar af stuttmyndunum mínum voru innblásnar af því að hafa búið í New York. Ég væri ekki sami listamaðurinn án þess en samt finnst mér að bæði grunnkjarninn og stíllinn í verkunum séu af öðrum toga. Að persónurnar segi ekki mikið og hlutir séu ósagðir þykir mjög evrópskt í Ameríku. Það er ekki ætlun mín að reyna að gera evrópsk verk, það er bara í eðli mínu að láta fólk ekki tala út í eitt. Sem er fyndið því ég á til að tala mjög mikið en það þýðir samt ekki að ég meini allt sem ég segi, enda eru skoðanir mínar breytingum háðar, eins og íslenska veðrið!“ segir Ísold og hlær en ítrekar síðan að hún vilji skapa óræðar persónur og nota það sem sé undirliggjandi

Eina leiðin til að komast í gegnum fyrsta draft er að slá af kröfum sínum. Annars verður þetta fyrsta draft aldrei til.
Andið eðlilega er þessa dagana sýnd í Bíó Paradís með enskum texta og notalegt að bregða sér í bíó á vætusömu sumarkvöldi og sjá þessa mögnuðu mynd.
Andið eðlilega

Af verkunum að dæma virðist fátækt vera Ísoldu hugleikin en hvernig skyldi hún upplifa fátækt í Bandaríkjunum í samanburði við fátækt á Íslandi.

„Ég myndi frekar vilja vera fátæk á Íslandi en í Bandaríkjunum,“ segir hún strax. „Ég hef upplifað að vera fátækur íslenskur námsmaður en það er öðruvísi fátækt. Hér er gerlegra að eygja leið út úr harkinu. Ef þú ert til dæmis eldri borgari í Bandaríkjunum sem hefur ekki efni á læknisþjónustu og getur ekki tryggt þér húsnæði, þá lendirðu raunverulega á götunni. Ég held að það sé mjög slæmt ástand. Staðan er sú að fólk lætur lífið af því það getur ekki greitt fyrir viðeigandi læknisþjónustu.“

Ísold segist stundum verða hugsi yfir þeirri staðreynd að eftir því sem manneskja eigi minna því hærri vexti borgi hún.

„Úr verður kviksyndi, segir hún. „Þeim mun minna sem þú átt því dýrara verður að eignast eitthvað. Þú færð verri kjör ef þú átt ekki peninga. Ef þú ert vel stæður færðu fjárhagslegan afslátt. Þetta er bilun! Fólki er kerfisbundið haldið niðri. Fólk sem er komið á ákveðinn stað fær hlutina gefins og alls konar fríðindi. Fríðindi eru gefin þeim vel stæðu. Ef þú hefur til dæmis efni á því að ferðast oftar færðu fleiri flugpunkta og um leið fleiri flug. Svo ótrúlega margt meikar ekki sens.“

Hún segir þessa tíu ára dvöl í Bandaríkjunum hafa breytt sér og að hún eigi til að bera staðina saman.

„Mér finnast Bandaríkjamenn hafa látið vaða yfir sig. Stéttarfélögin eru óvirk. Og fæðingarorlof kvenna – hvað er að frétta af því? Ameríkanar hafa leyft kapítalismanum að stjórna lífi sínu. Svo margir hafa miklar áhyggjur af sjúkratryggingu því þú þarft að fá hana gegnum atvinnu þína.

Fólki er svolítið haldið niðri. Ég fann það þegar ég vann sem klippari í nokkur ár að maður varð þræll kapítalismans. Lífið var vinna. Og þá bar maður sig saman við Evrópubúa og hló svolítið að þeim. Allt svo voða kósí þar! En þegar ég komst yfir þann stundarhroka sá ég að Evrópa ber virðingu fyrir mannslífinu. Manneskjunni! En Ameríka ber virðingu fyrir kapítalismanum – og gerir enn.“

Ísold kom þangað út árið 2001 og finnst nú eins og hún hafi ekki vitað neitt um heiminn þá.

„Alveg blaut á bak við eyrun, þessi Íslendingur sem átti eftir að læra allt. Maður kynntist heiminum þarna og breyttist við að kynnast fólki frá öllum heimshornum. Ég var komin í suðupott og tók út mikinn þroska á þessum árum.“

Hún segir að dvölin ytra hafi meðal annars breytt mataræði sínu og opnað fyrir svo margt nýtt í lífinu. „Nú eru liðin sautján ár síðan og Ísland hefur líka breyst á þessum árum. Samfélagið hefur þroskast og Reykjavík er orðin alþjóðlegri borg en þá. Sennilega var stéttskipting hér til staðar en við vorum ekki meðvituð um hana. Nú hafa myndast öðruvísi hópar og bilið á milli þeirra er breiðara. Þessar launatölur sem við heyrum um frá stjórnendum í bönkum eru ekki tölur sem fyrirfundust í veruleika okkar fyrir einhverjum áratugum síðan.“

Þeim mun minna sem þú átt því dýrara verður að eignast eitthvað. Þú færð verri kjör ef þú átt ekki peninga. Ef þú ert vel stæður færðu fjárhagslegan afslátt. Þetta er bilun!
Ísold Uggadóttir
Bára Huld Beck

Í popúlískri orðræðu dagsins má oft heyra raddir stilla fátækum Íslendingum upp gegn fólki í leit að alþjóðlegri vernd – eins og annar hópurinn taki frá hinum. En í kvikmynd Ísoldar eru konur, sem gætu verið táknmyndir fyrir þessa tvo hópa, leiddar saman líkt og til höfuðs slíkum málflutningi.

„Þeir sem hafa séð myndina eru þakklátir fyrir að hún stefni ekki saman þessum ólíku hópum,“ segir Ísold. „Að vera móðir í harkinu er erfitt. Og flóttakonan sem er heimilislaus í heiminum á líka erfitt. Hún á sér hvorki von né samastað í tilverunni. En þessar konur eru ekki í keppni um hvor þeirra hafi það verra. Ég er þakklát fyrir að fólk horfi á myndina og hugsi: Það að hjálpa konu á flótta og það að hjálpa íslenskri móður í neyð útilokar ekki hvort annað. Við þurfum ekki að velja, þetta er ekki keppni.

Fólk hefur skynjað þetta þegar það horfir á myndina. Að þetta eru allt manneskjur. Það á ekki að þurfa að taka ákvörðun um hvorn aðilann við styðjum. Mér finnst út í hött að þykjast bara geta stutt við annan þessara hópa,“ botnar hún ákveðin.

Nú liggur beinast við að spyrja hvernig hún upplifi muninn á popúlískri orðræðu á Íslandi og í Bandaríkjunum.

Hún er fljót að svara: „America First – þessi Ameríka Trumps sem kemur út úr munni hans – er ekki sú Ameríka sem ég þekki. Ameríka sem ég þekki er New York – borg fjölmenningarinnar.

En ég verð að viðurkenna að eftir að hafa hlustað á Trump, dag eftir dag, þarf ég að loka fyrir hann. Ég fæ ekki umborið sýruna hans. Raunar átta ég mig ekki á því hvort America First-stefnan sé að fá byr undir báða vængi hjá almenningi en sannarlega er honum mikið í mun að sanna að sér sé alvara, ef litið er til hinnar ómannúðlegu tilskipunar hans um að aðskilja börn og foreldra á flótta við landamæri Mexíkó.“

Í kvikmynd hennar, Andið eðlilega, eru tvær konur að berjast fyrir tilverurétti sínum. Finnur Ísold sig að einhverju leyti í þeim?

„Já,“ segir hún hugsi, „í íslensku móðurinni, Láru, þó að ég sé ekki einstæð móðir á Reykjanesi í harkinu. En ég þekki vel að geta ekki borgað reikninga eins og svo margir listamenn á Íslandi. Samt vil ég ekki bera það saman við fólk í svona mikilli neyð. En auðvitað er óþægilegt að geta ekki staðið í skilum við allt og alla,“ segir hún með festu og minnist þess að það hafi verið mikið hark að vera námsmaður í New York. „Auðvitað batnar staðan frá ári til árs en ég þekki þetta: að fá synjun á kortið og reyna að halda andliti í ýmsum aðstæðum.“

Hún segir að sér hafi fundist erfitt að skrifa flóttakonuna, þar hafi verið um að ræða framandi aðstæður svo hún hafi farið í mikla rannsóknavinnu og reynt að kynna sér þær.

„En burtséð frá aðstæðum þá eru þetta bara tvær manneskjur. Og ég á auðvelt með að setja mig í spor fólks. Fólk leitar alltaf eftir einhvers konar virðingu, sama hvar það er statt í lífinu. Flóttakonan er í erfiðum aðstæðum en hún þráir samt að halda mannlegri reisn. Því forðast hún að barma sér upphátt við þessa konu sem hún er komin í samskipti við. Þegar hún fær til dæmis niðurstöðu í máli sínu ber hún harminn í hljóði því hún er ekki tilbúin til að opinbera hann.“

Hún segir konurnar eiga það sameiginlegt að bera báðar harm sinn í hljóði og þannig nái þær að tengjast í gegnum ákveðinn atburð. Raunar sé það sameiginlegt stef í fjórum stuttmyndum hennar: „Fólk að reyna að halda andliti við alls konar erfiðar aðstæður.“

En ég verð að viðurkenna að eftir að hafa hlustað á Trump, dag eftir dag, þarf ég að loka fyrir hann. Ég fæ ekki umborið sýruna hans.

Aðspurð útskýrir Ísold að íslenska móðirin hafi orðið til í kjölfar íslenska efnahagshrunsins.

„Þá las ég um fólk sem missti heimili sín, sumir enduðu í bílnum. Ég var ein af þessum reiðu Íslendingum sem fannst þurfa að láta í sér heyra. Ég afréð því að færa tilfinningar mínar í stuttmyndaform og úr varð Útrás Reykjavík, sem fjallar um konu sem verður fórnarlamb hrunsins. Reyndar hélt ég að fyrsta myndin mín í fullri lengd yrði í beinu framhaldi af þeirri mynd og tæki fyrir svipað efni. Þá var ég þegar farin að þróa þessa sögu af móður og barni hennar sem ætti kött og þau komin á vergang sem enginn ætti að vita af. Móðir sem býr til óvissuferð fyrir barnið sitt.“

En síðan fór hún með verkið til Ameríku á vinnustofu handritshöfunda og þar var henni sagt að verkið væri full evrópskt. „Kona þar sagði með löðrandi amerískum hreim: You need more characters in your film!“

„Þessi punktur ferðaðist með mér heim til Íslands en ég vissi ekki alveg hvernig ég ætlaði að leysa þetta. Á sama tíma fannst mér að ég væri stanslaust að lesa hörmungarfréttir af flóttafólki föstu í viðjum kerfisins á Íslandi, örþreyttu á líkama og sál eftir eilífa baráttu við kerfið, sífellt að reyna að komast um borð í skip eða flugvél, jafnvel kveikja í sér eða fara í hungurverkfall. Allt reynt til að komast úr aðstæðunum sem það var í. Þá sló þetta mig: Þetta er sagan sem ég vil segja! Mig langaði að skapa persónu sem væri flóttakona.“

Tók heimildavinnan á, að kynnast sögum þessa fólks?

„Já, svakalega,“ segir Ísold og útskýrir að þetta hafi verið ruglandi á tímabili því hver einasta manneskja hefði búið yfir svo mikilli sögu. „Ég hefði getað sagt svo margar sögur úr mörgum áttum og um tíma hugsaði ég með mér að kannski ætti ég frekar að gera heimildamynd. Efniviðurinn var svo mikill og margslunginn að ég vissi að sem höfundur skáldaðrar frásagnar gæti ég aldrei gert þessu öllu skil. Ég þurfti að fórna ýmis konar efni í þágu kvikmyndastrúktúrsins því verk má ekki vera ofhlaðið. En allt þetta gagnaðist sem innblástur og heimsóknirnar á Fit Hostel hjálpuðu okkur að skapa svipað húsnæði. Ég gat lýst aðstæðum fólks og hafði séð það horfa á fótbolta eða biðja, já, eða tala í símann – hitt og þetta – en ég gat engan veginn fjallað um sögur allra.“

En þessi reynsla hefur gert hana ofurnæma fyrir svona sögum. „Við að lesa þær líður mér eins og ég sé sífellt að lesa svona sögur, segir hún. „En síðan hitti ég fólk úti í bæ sem hefur ekki tekið eftir þeim. Dálítið eins og þegar maður var unglingur að reyta arfa, þá sá ég arfa út um allt meðan aðrir sáu hann ekki.“

Talið berst þá að öllum litlu en samt fjölbreyttu heimunum í hinu fámenna samfélagi á Íslandi og hversu auðvelt sé að festast í bubblunni sinni, miðsvæðinu í Reykjavík, oft kenndu við 101.

„Þannig verður maður hissa við að skreppa í Breiðholtið og sjá þá fjölmenningarlegt samfélag,“ segir hún. „Þessi samfélög eiga til að tengjast ekki. Hversu oft tengjast til dæmis Garðbæingarnir fjölmenningarsamfélaginu í Breiðholti?“

Þetta Ísland er ekki það sama og í mörgum íslenskum myndum þar sem þjóðarsálin er rómantíseruð.

Hún segir að sig hafi einmitt ekki langað til að búa til póstkortaútgáfu með svörtum sandi og fossum. „Mig langaði að leyfa útlendingum að sjá að þetta er líka til. Að þeir fengju að sjá lífsbaráttu sem er til staðar en lendir ekki oft á forsíðu tímarita eða í viðtölum í túristabæklingum.“

Við að sýna myndina erlendis upplifði hún að áhorfendur undruðust að á Íslandi væri til fólk sem byggi við fátækt. „Margir virtust halda að hér væri aðeins efri millistétt. Ég ímynda mér líka að erfiðleikarnir sem ég fjalla um hér verði djók í löndum eins og Frakklandi og Þýskalandi í samanburði við aðstæðurnar þar. En vandamálin þar gera ekki erfiðleika fólks á Íslandi minni.“

Ísold segir það skipta sig meira máli en hún vilji viðurkenna að skrifa handritin sjálf. Í handritsvinnslunni kvikni sannfæringin sem þurfi til að fleyta leikstjóranum í gegnum langt ferlið. En hvað ætli hún hafi lært af ferlinu við þessa mynd?

„Svo ótrúlega margt að ég veit ekki hvar ég á að byrja,“ svarar hún sposk og dæsir. „Til dæmis er fjármögnun miklu flóknara hindrunarhlaup en mig óraði fyrir. Og samkeppnin um stuðning er enn harðari en ég þóttist vita. Það er langt frá því gefið að stuðningurinn komi þegar þú telur verkið klárt. Því reynir mikið á þolinmæði og úthald – og sterka trú manns á að kvikmyndatökur verði sannarlega einn daginn að veruleika.“

Hún segir að í þessu ferli hafi hún líka sannfærst um að það ætti vel við hana að leikstýra. „En það tekur á, bæði andlega og líkamlega. Dagarnir eru langir og nauðsynlegt að geta fókuserað hundrað prósent, alltaf, án undantekninga – tólf tíma á dag. Maður þarf svolítið að vera á tánum, gefa fyrirmæli, koma skynjun sinni til skila og geta lesið hvort hlutirnir séu að virka sem skyldi. Ef þeir gera það ekki þarf maður að vera eldsnöggur að finna lausnir. Svo mikið er í húfi og kostnaðarsamt ef senan virkar ekki eins og hún á að gera.“

Og aðeins út í kona þetta og kona hitt ... eins og tíðkast, jú. Nú var Elísabet Ronaldsdóttir í viðtali í DV fyrir stuttu og sagði þar: . „En ekki spyrja mig hvernig það sé að vera kona í kvikmyndagerð. Ég barasta hef engan samanburð til að meta það, ég hef alltaf verið kona.“ Getur þú orðið þreytt á þessari spurningu? Og finnst þér loða við kvikmyndagerð að hún sé ennþá karlaheimur?

„Þessi umræða varð loks sýnileg fyrir nokkrum árum og þá var ég mikið spurð út í þetta,“ segir hún en tekur undir orð Elísabetar: „Ég hef ekki verið maður og get ekki sagt hvernig sú reynsla er.“

„En á öllum þessum kvikmyndasettum, sem ég hef unnið á, eru konur oft í minnihluta. Þetta er karlaheimur. Við reynum að vinna í að leiðrétta það því við getum tekið þessi völd þegar við gerum okkar eigin myndir. Að passa að ráða nógu margar konur í lykilstöður og þannig var því háttað í Andið eðlilega. Það breytir auðvitað stemningunni á setti að umkringja sig með kynsystrum sínum; sýnin á heiminn verður keimlíkari, meira að segja meiri samhljómur með hvaða veitingar eigi að vera í boði. Andinn verður kvenlægari.“

En á öllum þessum kvikmyndasettum, sem ég hef unnið á, eru konur oft í minnihluta. Þetta er karlaheimur.
Ísold Uggadóttir
Bára Huld Beck

Nú er margt að gerast í íslenskri kvikmyndagerð – en hverju finnst þér vera ábótavant?

„Erfiðast fyrir okkur öll er að byrja á nýju verki af því að stuðningurinn á þessu þróunar- og handritastigi er svo takmarkaður,“ segir Ísold og augsýnilegt að umræðuefnið kveikir í henni, nýkominni af fundi þar sem rætt hafði verið um þetta.

„Sumum okkar finnst mikilvægt að eiga kost á starfslaunum listamanna á milli verkefna, á upphafsstigum nýrra verka. Hjá Kvikmyndasjóði eru til ýmsir handritastyrkir en ferlið þar er ekki heppilegt. Þegar ný verk mótast eru þau viðkvæm og geta farið ýmsar áttir. Þá er svo mikilvægt að geta verið í friði í nokkra mánuði og jafnvel ár, til að útfæra og vinna, og geta verið með tryggð starfslaun í þann tíma sem verkið er að mótast, segir hún og bendir á að eins og kerfið sé nú uppbyggt þurfi handritshöfundar sækja um í hvert skipti sem þeir hyggist fara lengra með hugmynd sína.

Þá fer í hönd biðtími og óvissa um hvort laun muni raunverulega berast. Þetta heftir listræna vinnu höfundar og við finnum okkur knúin til að hætta skrifum og sækja um hefðbundna launaða vinnu, ósjaldan verkefni sem hafa ekkert með sköpun að gera. Þróunarferli kvikmynda almennt er eitthvert mikilvægasta ferlið í undirbúningi kvikmyndar, en þar skortir verulega stuðning, að mínu mati.“

Hvort myndirðu vilja búa hér á landi að búa til myndir eða í Bandaríkjunum að búa til myndir ef þér gæfist kostur á hvoru tveggja?

„Ég myndi vilja búa og búa til myndir hér á landi og finna einhvern sem er til í að borga fyrir allt saman,“ svarar hún og hlær temmilega alvarleg. „Ég hef ekki sérstakan áhuga á að gera myndir á ensku. Frekar vil ég gera myndir á mínu eigin tungumáli því það er mér tamara. Þó að ég hafi búið svona lengi í enskumælandi landi, bæði sem barn og fullorðin, þá næ ég sérstakri tengingu í gegnum íslensku. Ef ég myndi skrifa sögu á ensku um barn sem missir samband við foreldra sína þá er þarna ákveðinn veggur upp á skynjunina og blæbrigðin að gera. Eins og sagan verði ekki eins sönn, ég geti sagt sannari sögu á íslensku. Mér finnst ég vera næmari á allt í gegnum íslenskuna.“

Hún segist örugglega geta lifað þægilegra lífi með því að segja já við eitthvað af þessum erlendu aðilum sem hafa falast eftir henni, eins og fólkið sem hún sé nú að fara að hitta í Ameríku í vikunni. „En mér finnst mér bera hálfgerð skylda til að segja sögur á íslensku af Íslendingum sem ég skil og þekki frekar en að taka tilboði einhvers um að segja þær á ensku, þó að það sé betur borgað. Því þá finnst mér ég ekki endilega vera að segja sögur sem skipta mig máli. Sumir vilja að við gerum myndir á ensku því staðreyndin er sú að þær fá miklu meiri dreifingu. En ég spyr: Viljum við ekki segja sögur af Íslendingum á íslensku – skrifaðar af fólki sem þekkir og skilur samfélagið?“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnAuður Jónsdóttir
Meira úr sama flokkiFólk