Meira en 2 milljónir ferðamanna sóttu Ísland heim á síðasta ári og höfðu þá aldrei verið svo margir. Flestir ferðamenn koma til landsins á sumrin sem er mikilvægasti tíminn fyrir greinina sem hefur verið lykillinn í viðsnúningi í efnahagslífi þjóðarinnar frá hruni. Blikur eru á lofti í starfsumhverfi greinarinnar, það hægist á fjölgun ferðamanna og efnahagsumhverfið gerir henni erfiðara fyrir. Kjarninn tók saman tíu staðreyndir um íslenska ferðaþjónustu.
1.
Árið 2017 komu 2,2 milljónir ferðamanna til landsins. Langflestir koma í gegnum Keflavíkurflugvöll eða 98,7 prósent. Um 22 þúsund komu með Norrænu um Seyðisfjörð eða 1 prósent af heild og um sjö þúsund með flugi um Reykjavíkur-, Akureyrar- eða Egilsstaðaflugvöll eða um 0,3 prósent af heild.
2.
Á tímabilinu 2012-2016 útskýrði vöxtur í ferðþjónustu að meðaltali tæplega 50 prósent af hagvexti þessara ára. Á árinu 2012 var hægt að rekja um 55 prósent af hagvexti ársins til atvinnugreina í ferðaþjónustu. Lengi vel var vægi ferðaþjónustu í landsframleiðslu 3-4 prósent en frá árinu 2010 hefur vægi hennar hækkað úr 3,5 prósent af vergri landsframleiðslu í tæplega 9 prósent.
3.
Heildarneysla ferðamanna á innlendri ferðaþjónustu, og þar er allt undir, gisting, ferðir, veitingar, samgöngur og svo framvegis, var á árinu 2017 um 551 milljarður króna samkvæmt útreikningi Samtaka ferðaþjónustunnar. Um 70 prósent þessarar neyslu af vegna erlendra ferðamanna. Samkvæmt tölum Hagstofunnar hækkaði neysla erlendra ferðamanna á innlendri ferðaþjónustu um 12 prósent í fyrra frá því árinu áður.
4.
Á árunum 2016 og 2017 áætla Samtök ferðaþjónustunnar að fjárfesting í ferðaþjónustu hafi verið á milli 90-100 milljarðar kr. hvort ár um sig, í hótel- og gistiheimilum, bílum, flugrekstri, flugvöllum og öðrum flutningstækjum. Gert er ráð fyrir að fjárfesting í hótelbyggingum verði hægari á þessu ári en haldi þó áfram að vera mikil og er það ekki síst vegna framkvæmda við Marriott hótelið við Hörpu í Reykjavík, þar sem verið er að byggja 250 herbergi. Hlutfall útlána bankanna til ferðaþjónustu hefur verið í kringum 15 prósent af heildarútlánum viðskiptabankanna síðustu tvö árin til atvinnufyrirtækja. Það er svipað og útlán til sjávarútvegsins.
5.
Hagstofan áætlar að um 13 til 14 prósent af heildarfjölda starfandi einstaklinga á íslenskum vinnumarkaði starfi í ferðaþjónustu eða um 25 til 26 þúsund manns. Samkvæmt vinnumarkaðskönnun stofnunarinnar frá árinu 2012 var það um 10 prósent af heildarfjölda starfandi, eða um 17.500 manns.
6.
Í fyrra var Ísland í 25. sæti af 135 löndum yfir samkeppnishæfustu ferðamannalönd heims samkvæmt Alþjóðaefnahagsráðinu. Á árinu 2015 var það í 18. sæti. Styrkur Íslands á þennan mælikvarða er góður þegar kemur að friði og öryggi en það er náttúra landsins sem er sérstaðan á alþjóðlegum markaði.
7.
Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs nam fjöldi erlendra ferðamanna 481 þúsund borið saman við 452 þúsund á sama tímabili í fyrra. Aukningin nemur 6,3 prósentum milli ára. Fara þarf aftur fyrir upphaf uppsveiflunnar í ferðaþjónustu til að finna minni vöxt, en á þriðja ársfjórðungi 2010 fækkaði ferðamönnum um 1,3 prósent borið saman við sama fjórðung árið áður.
8.
Um 84 prósent Íslendinga ferðuðust innanlands á árinu 2017 samkvæmt könnun Ferðamálastofu. Suðurland og Norðurland voru þeir landshlutar sem flestir heimsóttu og þar var einnig um helmingur allra gistinátta. Íslenskir ferðalangar greiddu fyrir tæpan helming gistinótta sinna en annars gistu flestir í sumarhúsi í einkaeign eða hjá vinum og ættingjum. Sundlaugar og söfn voru líkt og verið hefur sú afþreying sem algengast var að fólk greiddi fyrir en um þriðjungur greiddi ekki fyrir afþreyingu á ferðalagi sínu.
9.
Aldrei fóru fleiri Íslendingar til útlanda en tæp 80 prósent svarenda Ferðamálastofu ferðuðust utan á síðasta ári. Bretlandseyjar voru vinsælasti áfangastaðurinn en Spánn (þ.m.t. Kanaríeyjar) og Portúgal komu þar á eftir. Um níu svarendur af hverjum tíu áforma ferðalög á yfirstandandi ári og eru ferðaáform fjölbreytt sem fyrr. Um helmingur nefndi sumarbústaðaferð og borgarferð erlendis, litlu færri heimsókn til vina og ættingja og 37 prósent stefna á sólarlandaferð.
10.
Ferðamenn sem sóttu Ísland heim síðasta sumar voru óánægðari með ferðina þá miðað við sumarið á undan. Ferðamannapúls Gallup, sem mælir heildaránægju og heildarupplifun ferðamanna á heimsókn þeirra til Íslands, lækkaði marktækt á milli sumra. Ferðamannapúlsinn var 2,5 stigum lægri fyrir sumarið 2017 heldur en sumarið 2016.