Kaupþing ehf., félag utan um eftirstandandi eignir hins fallna banka sem bar sama nafn, vill ekki upplýsa um hvort að bónusgreiðslur, sem gátu numið allt að 1,5 milljörðum króna, hafi verið greiddar út til um 20 starfsmanna félagsins.
Greint var frá því fyrir tveimur árum síðan að hópurinn gæti fengið umrædda upphæð til að skipta á milli sín ef hámörkum á virði óseldra eigna Kaupþings myndi nást. Næðust markmiðin átti að greiða út bónusgreiðslurnar eigi síðar en í apríl 2018.
Langstærsta óselda eign Kaupþings á þeim tíma var 87 prósent hlutur félagsins í Arion banka, sem nú hefur verið að stórum hluta seld og það sem eftir stendur gert seljanlegt með skráningu á markað. Umræddar bónusgreiðslur ná einungis til starfsmanna Kaupþings, ekki stjórnarmanna og ráðgjafa sem unnið hafa fyrir félagið. Greiðslur til þeirra koma til viðbótar því sem greiðist til starfsmanna.
Búið að selja meginþorra eigna
Síðan þá hafa átt sér stað töluverð viðskipti með hluti í Arion banka. Í fyrra keyptu fjórir af stærstu eigendum Kaupþings, Taconic Capital, Och-ZiffCapital Management Group, sjóðir í stýringu Attestor Capital og Goldman Sachs, samtals 29,6 prósent hlut í Arion banka af sjálfum sér í fyrra. Tveir þeirra, Attestor og Goldman Sachs, bættu við sig 2,8 prósent hlut 13. febrúar síðastliðinn. Þá keyptu rúmlega 20 sjóðir í stýringu fjögurra af stærstu sjóðsstýringarfyrirtækjum Íslands: Stefnis, Íslandssjóða, Landsbréfa og Júpíter, samtals 2,54 prósent hlut. Samanlagt kaupverð var um 9,5 milljarðar króna.
Sama dag var kaupréttur Kaupþings á 13 prósent hlut ríkisins í Arion banka virkjaður. Sá kaupréttur var formgerður í samningi frá árinu 2009, var fortakslaus og einhliða. Ríkið mátti því ekki hafna tilboðinu án þess að gerast brotlegt við gerða samninga.
Gengið var formlega frá sölu hlutarins 26. febrúar síðastliðinn. Kaupverðið var 23,4 milljarðar króna og ekkert opið né gagnsætt söluferli fór fram. Um eina stærstu eignasölu ríkisins frá upphafi er að ræða.
Ætla ekki að tjá sig frekar um bónusgreiðslur
Í vor var svo haldið útboð á bréfum í Arion banka í aðdraganda þess að bankinn var skráður á markað á Íslandi og í Svíþjóð. Þar seldi Kaupþing sig enn niður í bankanum og á nú tæplega 33 prósent hlut. Því hefur það markmið, að koma þorra óseldra eigna í verð, náðst.
Kjarninn beindi fyrirspurn að nýju til Kaupþings og spurði hvort búið væri að greiða út bónusanna sem til stóð að greiða út fyrir lok aprílmánaðar, og ef svo væri, hver áætluð heildargreiðsla starfsmannanna væri. Í svari sem upplýsingafulltrúi á vegum Kaupþings sendi sagði: Veittar voru ítarlegar upplýsingar á sínum tíma. Kaupþing hyggst ekki tjá sig frekar um málið.