Nú styttist í að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggi fram sitt fyrsta alvöru fjárlagafrumvarp sem er að fullu mótað af áherslum hennar. Í fyrra var það lagt 14. september og þáverandi ríkisstjórn náði að sitja í rétt rúman sólarhring eftir þann gjörning þar til að hún sprakk vegna uppreist æru-málsins og boðað var til kosninga. Þær fóru fram 28. október 2017.
Miklar sviptingar hafa orðið á fylgi stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi frá því að þær fóru fram. Nú mælast stjórnarandstöðuflokkarnir, samkvæmt nýjustu könnun Gallup, með mun meira fylgi en stjórnarflokkarnir og frjálslyndir miðjuflokkar bæta mestu fylgi við sig. Þrír slíkir hafa aukið fylgi sitt 11,9 prósentustig á tæpum tíu mánuðum, eða um 40 prósent.
Á sama tíma hefur fylgi hinna fimm flokkanna sem sitja á þingi dalað, þó mismunandi mikið. Mesta fylgið hafa Vinstri græn misst, en þriðjungur þess hefur horfið frá því í fyrrahaust.
Andstaðan gæti myndað stjórn en ríkisstjórnin ekki
Stjórnarandstaðan mælist nú með 53,9 prósent fylgi en stjórnarflokkarnir með 44,5 prósent. Um 1,6 prósent myndu kjósa aðra flokka en þá sem eiga sæti á þingi í dag.
Það er mikill viðsnúningur frá því sem var í síðustu kosningum, þegar stjórnarflokkarnir fengu 52,9 prósent fylgi og 35 þingmenn en stjórnarandstaðan 28. Ef kosið yrði í dag myndi stjórnarandstaðan líkast til fá 34-35 þingmenn en stjórnarflokkarnir þrír 28-29, sem myndi ekki duga til að mynda meirihlutastjórn.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur væri því kolfallin ef kosið yrði í dag. Auk þess nýtur hún nú stuðnings undir helmings þjóðarinnar, en 49,7 prósent landsmanna sögðust styðja hana í síðustu könnun Gallup.
Þrír andstöðuflokkar styrkja sig mikið...
Þeir stjórnarandstöðuflokkar sem hafa styrkt stöðu sína mest samkvæmt mælingum eru Píratar, sem myndu bæta við sig 4,7 prósentustigum og fá 13,9 prósent, og Samfylkingin, sem myndi bæta við sig 4,6 prósentustigum og fá 16,7 prósent. Píratar myndu fara úr því að vera þriðji minnsti flokkurinn á þingi í að vera þriðji stærsti og Samfylkingin yrði sá næst stærsti. Hafa verður þó þann fyrirvara að báðir þessir flokkar, og sérstaklega Píratar, hafa haft tilhneigingu til, í kosningum undanfarinna ára, að fá minna upp úr kjörkössunum en þeir mælast með í könnunum. Samfylkingin fékk til að mynda þremur prósentustigum minna í kosningunum í október 2017 en flokkurinn hafði mælst með í könnun sem var birt daginn áður.
Þriðji flokkurinn á þingi sem er með frjálslyndar og alþjóðlegar áherslur, Viðreisn, hefur líka bætt við sig og mælist nú með 8,7 prósent fylgi. Það er tveimur prósentustigum meira en flokkurinn fékk í kosningunum í fyrravor. Frjálslyndu miðjuflokkarnir þrír eru því með 39,3 prósent fylgi í dag samkvæmt nýjustu mælingum, eða 11,3 prósentustigum meira en þeir fengu upp úr kjörkössunum í október 2017.
...En tveir tapa fylgi
Aðrir stjórnarandstöðuflokkar, Flokkur fólksins og Miðflokkurinn, hafa tapað fylgi frá því í kosningunum. Báðir eru þjóðernislegir flokkar með óskýra stefnuskrá sem hverfist að miklu leyti um skoðanir leiðtoga þeirra og risastór kosningaloforð.
Miðflokkurinn, sem var stofnaður skömmu fyrir síðustu kosningar og náði besta árangri sem nokkur flokkur hefur náð í fyrstu framboðstilraun til Alþingis, myndi fara úr 10,9 prósent fylgi í 8,6 prósent. Flokkur fólksins myndi tapa 0,9 prósentustigum og fá sex prósent ef kosið yrði í dag. Þessir tveir flokkar yrðu minnstir af þeim átta sem eiga sæti á þingi.
Tveir stjórnarflokkar standa næstum í stað...
Þá standa eftir stjórnarflokkarnir þrír. Hlutskipti þeirra það sem af er kjörtímabili hefur verið nokkuð ólíkt. Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur nánast staðið í stað. Hann myndi fá 24,6 prósent atkvæða ef kosið yrði nú í stað þeirra 25,3 prósenta sem hann fékk fyrir tæpum tíu mánuðum síðan. Sú breyting er vel innan skekkjumarka og flokkurinn yrði áfram sem áður stærsti flokkur landsins. Núverandi fylgi myndi þó þýða næst verstu niðurstöðu kosninga í sögu flokksins.
Framsóknarflokkurinn myndi tapa 1,5 prósentustigi af fylgi sínu og fá 9,2 prósent. Það yrði langversta niðurstaða hans nokkru sinni og lágmarksmetið frá því í fyrra því líkast til bætt. Þessir tveir flokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafa þó oftar en ekki náð að fá meira fylgi í kosningum en kannanir hafa bent til. Þarna er enda um tvo elstu flokka landsins að ræða sem hafa oftast nær stjórnað landinu, saman eða í sitthvoru lagi. Flokksmenn þeirra kunna því betur en flestir aðrir að ná árangri í kosningum.
...En Vinstri græn tapa þriðjungi fylgis
Vinstri græn eru sá flokkur sem tapað hefur mestu fylgi frá kosningum, en rúmlega þriðjungur þess hefur þurrkast út frá því í október í fyrra. Flokkurinn fékk 16,9 prósent fylgi í kosningunum 2017 sem þýddi að hann var næst stærsti flokkur landsins og gat farið fram á forsætisráðuneytið í ríkisstjórninni sem á endanum var mynduð.
Ef kosið yrði í dag myndu Vinstri græn fá 10,7 prósent fylgi, sem er lægsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með frá því í árslok 2015, og þar af leiðandi fjórði stærsti flokkur landsins.