Alls fækkaði Íslendingum sem skráðir eru í þjóðkirkjuna um 1.069 á fyrstu sex mánuðum ársins 2018. Annar hver landsmaður sem breytti skráningu sinni í trú- eða lífsskoðunarfélagi ákvað að ganga úr þjóðkirkjunni. Þetta kemur fram í tölum frá Þjóðskrá um breytingar á slíkum skráningum.
Um er að ræða breytingar sem eru mjög í takt við það sem átt hefur sér stað hérlendis á undanförnum árum. Í byrjun árs 2009 náði fjöldi þeirra landsmanna sem skráðir eru í þjóðkirkjuna mettölu, en þá voru 253.069 landsmenn í henni. Frá þeim tíma hefur þeim fækkað jafnt og þétt og eru nú 233.146. Það þýðir að fjöldi þeirra sem skráðir eru í þjóðkirkjuna hefur dregist saman um 19.923 frá ársbyrjun 2009. Á því tímabili hefur Íslendingum fjölgað um 33.708, en þjóðkirkjunni hefur mistekist að ná þeim fjölda til sín líka. Samanlagt eru hafa því tæplega 54 þúsund Íslendingar ákveðið að ganga ekki í þjóðkirkjuna á síðastliðnum árum. Alls standa nú um 120 þúsund landsmenn utan þjóðkirkju.
Hlutfallslega hefur þeim sem vilja vera í kirkjunni einnig fækkað mikið. Árið 1998 var 90 prósent þjóðarinnar í henni. Í dag eru 66 prósent þjóðarinnar þar inni, eða tveir af hverjum þremur landsmönnum.
Mikill flótti í fyrra
Mikill flótti var úr þjóðkirkjunni í fyrra, þegar þegnum hennar fækkaði um 3.019 á almanaksárinu. Þorri þess hóps sagði sig úr henni á síðustu þremur mánuðum ársins 2017, eða 2.246 alls.
Það er næstmesti fjöldi sem hefur sagt sig úr kirkjunni á einu ári. Metið var sett á árinu 2010, þegar ásakanir um þöggun þjóðkirkjunnar yfir meintum kynferðisglæpum Ólafs Skúlasonar, fyrrverandi biskups, voru settar fram. Þá fækkaði um 4.242 í þjóðkirkjunni á einu ári.
Líklega má leita skýringa á hinum mikla fjölda úrsagna í fyrra í því að Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands og leiðtogi þjóðkirkjunnar, rataði tvívegis í fréttir á síðustu mánuðum ársins 2017 vegna mála sem þóttu umdeild.
Fyrst sagði hún í samtali við Morgunblaðið að henni þætti ekki siðferðislega rétt að stela gögnum og fara á bak við fólk til að afhjúpa mál og leiða sannleikann í ljós. Þessi ummæli féllu í samhengi við lögbann sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafði samþykkt gagnvart fjölmiðlafyrirtækjunum Stundinni og Reykjavík Media, vegna birtingar þeirra á fréttum sem unnar voru úr gögnum úr gamla Glitni.
Síðara málið sem kom upp var í desember, þegar kjararáð ákvað að hækka laun Agnesar um tugi prósenta. Heildarlaun hennar eftir hækkunina eru 1.553.359 krónur. Hækkunin var auk þess afturvirk til 1. janúar 2017, samkvæmt úrskurðinum. Um áramót fékk því biskup eingreiðslu fyrir síðasta árið en sú upphæð nam 3,3 milljónir króna.
Hækkunin kom í kjölfar bréfs sem biskup sendi kjararáði þar sem ýmis rök voru færð fyrir því að hún ætti að fá launahækkun. Sérstaklega var tilgreint að biskup greiddi nú húsaleigu fyrir afnot af embættisbústað sem henni er skylt að búa í. Í Fréttablaðinu þann 28. desember var greint frá því að leigan fyrir biskupsbústaðinn, sem er 487 fermetra hús í miðborg Reykjavíkur, væri tæplega 90 þúsund krónur á mánuði.
Kostar á fimmta milljarð á ári
Tilveruréttur þjóðkirkjunnar er tryggður í stjórnarskrá landsins. Þar segir að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og að ríkisvaldið eigi bæði að styðja hana og vernda. Auk þess er í gildi hið svokallaða kirkjujarðarsamkomulag frá árinu 1997, sem í felst að þjóðkirkjan afhenti ríkinu um 600 jarðir til eignar en á móti átti ríkið að greiða laun 138 presta og 18 starfsmanna Biskupsstofu.
Í krafti þessa fær þjóðkirkja umtalsverða fjármuni úr ríkissjóði. Þaðan er til að mynda greitt framlag til Biskups Íslands, í Kirkjumálasjóð og Jöfnunarsjóð sókna. Samtals er áætlað að þessi upphæð verði 2.830 milljónir króna í ár. Til viðbótar fær þjóðkirkjan greidd sóknargjöld í samræmi við þann fjölda sem í henni er. Ætla má að sú upphæð verði um 1.750 milljónir króna í ár. Samtals mun rekstur þjóðkirkjunnar því kosta tæplega 4,6 milljarða króna í ár. Þá er ekki meðtalið rúmlega 1,1 milljarðs króna framlag til kirkjugarða.