Á undanförnum tæpu tíu árum, frá hruni fjármálakerfisins, setningu neyðarlaga og fjármagnshafta, á haust og vetrarmánuðum 2008, hafa miklar breytingar átt sér stað í hagkerfinu og hefur staða ríkissjóðs kúvenst að mörgu leyti.
Eitt af því sem hefur breyst mikið sterkari efnahagur dótturfélaga í eigu ríkisins. Almenningur á nú mikil verðmæti í hlutafé í fyrirtækjum sem hafa styrkst stöðu sína verulega.
Stærsta fyrirtækið sé horft til eiginfjárstöðu er Landsbankinn, sem ríkið á ríflega 98 prósent hlut í. Um mitt þetta ár nam eigið fé bankans 232,1 milljarði króna.
Íslandsbanki er með eigið fé upp á rúmlega 180 milljarða króna en ríkið á bankann að fullu.
Bankarnir hafa frá þeir voru stofnaðir, á grunni innlendra eigna hinna föllnu banka, Landsbanka Íslands og Glitnis, greitt meira en 160 milljarða í arð til ríkisins. Á árunum 2013 til 2018 greiddi Landsbankinn 131,7 milljarða króna í arð til eigenda.
Verðmætasta hlutafjáreign íslenska ríkisins er vafalítið Landsvirkjun, sem ríkið á að öllu leyti. Eiginfjárstaða þess hefur styrkst verulega á undanförnum árum en fyrirtækið hefur einblínt á niðurgreiðslu skulda og styrkingu á efnahag fyrirtækisins, meðal annars með hagfelldum breytingum á orkusölusamingum.
Mallar gull inn í framtíðina
En hver ætli sé réttur verðmiði á Landsvirkjun? Það er erfitt að segja, en orkufyrirtæki eru í alþjóðlegu samhengi oft með háa margfaldara á virði rekstrarins, ekki síst vegna þess að þau búa við stöðugleika og mikið framtíðarvirði.
Landsvirkjun virðist nú á góðri leið með að komast í stöðu - sé horft einn til tvo áratugi fram í tímann - til að greiða íslenska ríkinu jafnvel tugi milljarða á ári í arð.
Stjórnvöld hafa stefnt að uppsetningu þjóðarsjóðs sem tæki við þessu arði af orkuauðlindunum en þeirri vinnu hefur ekki lokið formlega ennþá.
Um mitt þetta ár nam eigið fé þess rúmlega tveimur milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur 220 milljörðum króna.
Mikil verðmæti í flugrekstrinum
Þá hefur efnahagur Isavia, sem rekur flugvelli landsins, þar á meðal Keflavíkurflugvöll, einnig styrkst verulega á undanförnum árum, samhliða vextinum í ferðaþjónustu. Ríkið á félagið að fullu.
Sé litið til eiginfjárstöðu þess, með tilliti til óráðstafaðs eiginfjár, þá nemur það yfir 30 milljörðum króna.
Samanlagt virði þessara eigna í fyrirtækjunum fjórum, Landsbankanum, Íslandsbanka, Landsvirkjun og Isavia, nemur yfir 1000 milljörðum króna, sé miðað við að bankarnir hafi verðmiða upp á 1x eigið fé, Landsvirkjun 3x eigið fé og Isavia 1x eigið fé.
Þetta er svipuð upphæð og nemur heildarvirði allra félaga sem skráð eru á aðallista Kauphallar Íslands.
Þetta er hins vegar leikur að tölum, frekar en raunverulegt verð, en þetta gefur vísbendingu um þau miklu verðmæti sem byggst hafa upp í ríkisfyrirtækjunum á undanförnum áratug.