Þórsmörk ehf., eigandi útgáfufélags Morgunblaðsins, tapaði um 267 milljónum krónum í fyrra samkvæmt því sem má lesa úr ársreikningum eins stærsta eiganda félagsins, Hlyns A ehf. Þar kemur fram að hlutdeild Hlyns A ehf. í tapi Þórsmerkur á árinu 2017 hafi verið 43,9 milljónir króna. Alls á félagið 16,45 prósent hlut í Þórsmörk sem þýðir að heildartap Þórsmerkur var 267 milljónir króna miðað við upplýsingarnar í ársreikningnum.
Hvorki Þórsmörk né Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, hafa skilað ársreikningi fyrir árið 2017, en útgáfufélagið er eina eign Þórsmerkur. Undanfarin ár hafa upplýsingar í ársreikningum félaga sem eiga í Þórsmörk hins vegar sýnt hvert tap Árvakurs er. Fyrir árið 2016 var t.d. tap Hlyns A vegna hlutar félagsins í Þórsmörk í fullu samræmi við það tap sem Árvakur opinberaði þegar ársreikningur þess félags var birtur.
1,8 milljarða tap frá 2009
Árvakur, sem rekur Morgunblaðið, mbl.is, Eddu-útgáfu og útvarpsstöðina K100 tapaði 49,7 milljónum króna á árinu 2016. Því rúmlega fimmfaldaðist tapið á milli ára. Frá því að nýir eigendur tóku við rekstrinum árið 2009 hefur félagið tapað tæplega 1,8 milljörðum króna, að meðtöldu tapinu sem fram kemur í ársreikningi Hlyns A ehf.. Tap hefur verið á rekstri Árvakurs öll árin frá því að eigendaskiptin urðu utan þess að Árvakur skilaði sex milljóna króna hagnaði árið 2013. Mest var tapið á árunum 2009-2011, en eftir það virtist reksturinn vera að ná jafnvægi að nýju á árunum 2012-2014. Tapið hefur hins vegar aukist mikið á síðustu þremur árum og nam tæpum hálfum milljarði króna frá ársbyrjun 2015 til síðustu áramóta. Hluthafar Árvakurs hafa sett inn rúmlega 1,4 milljarða króna hið minnsta í nýtt hlutafé á þeim tíma.
Viðskiptabanki Árvakurs, Íslandsbanki, hefur afskrifað um 4,5 milljarða króna af skuldum félagsins frá árinu 2009. Þorri þeirra afskrifta átti sér stað í aðdraganda þess að félagið var selt nýjum eigendahópi á því ári. Síðari lota afskrifta átti sér svo stað árið 2011 og var upp á einn milljarð króna.
Þrátt fyrir mikinn taprekstur hefur Ávakur verið í sókn og leitað inn á nýjar fjölmiðlalendur. Félagið keypti útvarpsstöðina K100 árið 2016 og hefur fjárfest umtalsvert í uppbyggingu hennar, meðal annars með því að ráða landsþekkta fjölmiðlamenn á borð við Loga Bergmann Eiðsson, Friðriku Geirsdóttur og Rúnar Frey Gíslason til að sinna dagskrárgerð. K100 mælist með 3,8 prósent hlustunarhlutdeild hjá landsmönnum á aldrinum 12-80 ára samkvæmt nýjustu mælingum Gallup. Vinsælustu útvarpsstöðvar landsins, Bylgjan og Rás 2, eru með annars vegar 29,5 prósent hlutdeild og hins vegar 29 prósent.
Sviptingar í eigendahópi
Í apríl í fyrra var tilkynnt að Eyþór Arnalds, nú oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, hefði keypt 26,6 prósent hlut í Árvakri. Um væri að ræða allan hlut Sjávarútvegsrisans Samherja, hlut Síldarvinnslunnar og Vísis hf. Fyrir þann tíma höfðu fyrirtæki tengd sjávarútvegi, beint og óbeint, verið eigendur að um 96 prósent í félaginu. Eyþór hefur sagt að hluturinn sé til sölu ef að kaupandi finnst að honum.
Upplýsingar um eignarhald Þórsmerkur, eiganda Árvakurs, voru uppfærðar á heimasíðu Fjölmiðlanefndar í september 2017 líkt og lög gera ráð fyrir. Þá hafði verið tekið tillit til 200 milljóna króna hlutafjáraukningar sem átt hafði sér stað í fyrra. Í Fréttablaðinu í fyrra var greint frá því að Kaupfélag Skagfirðinga hefði lagt til mest af þeim peningum sem lagðir voru til viðbótar í félagið og við það minnkaði hlutur Ramses II, félags í eigu Eyþórs Arnalds, um nærri tvö prósentustig, og er nú 22,87 prósent. Kaupfélag Skagfirðinga á nú 15,84 prósent í Þórsmörk í gegnum félagið Íslenskar sjávarafurðir.
Félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja eru hins vegar enn með samanlagt stærstan eignarhlut. Ísfélagið á sjálft 13,43 prósent hlut og áðurnefnt félag, Hlynur A, í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélagsins, á 16,45 prósent hlut. Hlynur A mat eignarhlut sinn í Þórsmörk á 177,7 milljónir króna í lok árs 2016 en mat eignarhlutinn á 135 milljónir króna um síðustu áramót. Það þýðir að heildarvirði Þórsmerkur, og þar af leiðandi Árvakurs, hefur farið úr um 1.080 milljónum króna í 820 milljónir króna á einu ári.