Wiki Commons

Er frjálslyndi tóm tugga?

Ýmsir stjórnmálamenn og flokkar nota hugtakið frjálslyndi til að gera grein fyrir hugsjónum sínum. En sumir telja hugtakið margþvælt, eins konar stofustáss fyrir kosningar. En hvað merkir frjálslyndi, hvað þýðir það í raun að vera frjálslyndur – og hver er birtingarmynd þess í nútímanum? Og getur það ógnað virku lýðræði ef við gerum lítið úr hugtakinu í opinberri umræðu – eða gleymum hreinlega að ræða það? Auður Jónsdóttir og Bára Huld Beck leituðu til þriggja sérfræðinga sem hafa innsýn í hugtakið, þeirra Jóns Orms Halldórssonar, Ásgeirs Friðgeirssonar og Eiríks Bergmann.

Þegar við veltum hugtakinu frjálslyndi fyrir okkur hugsuðum við fyrst um frelsi en fannst eins og viðskeytið lyndur mildaði það – frjáls í lund. Kannski að hugtakið fangi frelsisviðhorf með mannlegum undirtóni; frelsi með ábyrgð og siðferðisviðmiðum. Það krefst hugsunar að njóta frelsis og við verðum að ræða raunverulega þýðingu frjálslyndis – ef lýðræðið á að virka sem skyldi. Við spurðum tvo stjórnmálafræðinga út í hugtakið og líka þriðja manninn sem skilgreinir sig fyrst og fremst frjálslyndan.

Jón Ormur Halldórsson alþjóðastjórnmálafræðingur segir að ólíkustu flokkar í fjölmörgum löndum, á ólíkum tímum og við margbreytilegar aðstæður, hafi kosið að kenna sig við frjálslyndi. Það segi lítið annað um hugtakið en að það hafi víða verið talið líklegt til vinsælda að segjast frjálslyndur.

Jón Ormur Halldórsson.„Við sjáum þetta líka með hugtök eins og lýðræði og framfarir sem einræðisflokkar og afturhaldsöfl af ýmsu tagi kenna sig gjarnan við. Það sem gerir hugtakið öllu snúnara í alvarlegri umræðu er að það hefur verið notað í fullri alvöru í stjórnmálaumræðu og eins í fræðilegri greiningu um talsvert ólíkar stefnur og fyrirbæri,“ segir Jón Ormur.

Raunhyggja, þekking og skynsemi sótti að trúarlegum hugmyndum

Samkvæmt honum er uppruna hugtaksins best að rekja til Upplýsingarinnar svonefndu sem hafði mikil áhrif í Evrópu á átjándu öld og með óbeinni hætti áfram í samtímanum. „Almennt snerist Upplýsingin um þá skoðun að þekking sem aflað var með vísindalegum vinnubrögðum ætti að leysa af hólmi trúarsetningar og hugmyndir um yfirnáttúruleg öfl sem drottnuðu á miðöldum. Í pólitík gróf þetta undan valdi trúarstofnana og guðlegrar helgunar á konungsvaldi. Um leið veikti þetta vald yfirstétta sem höfðu drottnað í skjóli hugmynda um að valdakerfi ríkja og þjóðfélaga væru guðleg skikkan. Í samfélagsmálum sótti raunhyggja, þekking og skynsemi líka að trúarlegum hugmyndum af ýmsu tagi. Almennar niðurstöður af þeim spurningum, sem þetta allt saman vakti, voru aukin trú á náttúrulegan rétt mannsins til frelsis,“ segir hann.

Í beinu framhaldi hafi spurningin vaknað hvort allir menn hefðu þá ekki jafnan rétt – sem leiddi til þess að kviknuðu nýjar hugmyndir um jafnrétti. „Þær hugmyndir sem þarna komu fram um frelsi og jafnrétti eru því nátengdar og urðu grunnur að kenningum um alls kyns frelsi og eins um lýðræði sem stjórnarform. Hins vegar ríkir ákveðin spennuafstaða á milli hugmynda um frelsi annars vegar og jafnrétti hins vegar sem enn hefur grundvallaráhrif á stjórnmál í samtímanum.“

Neikvætt frelsi er einfaldlega frelsi frá afskiptum annarra. Jákvætt frelsi snýst hins vegar um möguleika manna til að njóta raunverulegs frekar en bara formlegs frelsis.

Þegar Jón Ormur er spurður út í hversu mikið vægi frjálslyndi hafi sem slíkt – og/eða skortur á því – í stjórnmálum nútímans, þá svarar hann að hægt sé að nálgast þetta með ýmsum hætti og menn líti þetta auðvitað ólíkum augum. „Það má til dæmis horfa á þetta út frá þessari spennu sem ég nefndi á milli frelsis og jafnréttis í frjálslyndri hugsun. Sumir gera greinarmun á jákvæðu og neikvæðu frelsi. Þá eiga menn alls ekki við að það neikvæða sé vont en hið jákvæða gott. Neikvætt frelsi er einfaldlega frelsi frá afskiptum annarra. Jákvætt frelsi snýst hins vegar um möguleika manna til að njóta raunverulegs frekar en bara formlegs frelsis. Þeir möguleikar geta beinlínis byggst á afskiptum annarra frekar en afskiptaleysi,“ segir hann.

Sem dæmi um það nefnir Jón Ormur skerðingu á frelsi manna til að nota sína eigin peninga með því að taka af þeim fé með skattheimtu en nota síðan þá peninga til að fjármagna heilbrigðiskerfi og borga fyrir menntun almennings. Með því geti menn greinilega aukið jafnrétti og raungert möguleika venjulegs fólks til að njóta frelsis því frelsi hins ómenntaða og heilsulausa sé kannski ekki mikils virði. Svipað megi segja um bann við eiturlyfjum eða öðru af þeim toga. „Frelsi manna er rýrt með slíku banni en þá má spyrja: Hvert er frelsi fíkilsins? Í rauninni hefur stjórnmálabarátta á Vesturlöndum að verulegu leyti staðið um spurningar af þessu tagi, það er um eðli frelsisins og hlutverk samfélagsins í að takmarka eða auka frelsi einstaklinga, þótt þetta sé sjaldan orðað með þeim hætti.“

Fólk á að njóta verndar frá alræði

En hver er helsta birtingarmynd frjálslyndis í átökum stjórnmálaafla í Evrópu og í Bandaríkjunum, sem og í öðrum heimsálfum? 

Jón Ormur segir að eitt meginatriðið varðandi frjálslyndi sé að það leiði til þeirrar niðurstöðu að valdinu sé dreift sem mest og að fólk eigi að njóta verndar frá alræði einhvers konar meirihluta sem kunni að myndast í viðkomandi þjóðfélagi. Það þýði meðal annars að kosningar eigi ekki að vera leikur þar sem sigurvegari fái öll völd en þeir sem tapa engin. Meirihlutavilji sé því alls ekki öllu ofar í frjálslyndu þjóðfélagi.

Hann bendir á að ein helsta hættan í stjórnmálum samtímans á Vesturlöndum sé að sums staðar hafi myndast stemming gegn þeim vörnum sem frjálslyndið myndar gegn ofríki í krafti lýðhylli. „Nokkuð víða á Vesturlöndum og mjög víða utan þeirra hafa fasískar hugmyndir notið aukinnar hylli, hugmyndir um að til sé eitthvað sem menn kalla vilja fólksins og að engar stofnanir eigi að varna því að sá vilji fái alltaf ráðið. Þeir sem þannig hugsa vilja rífa niður stofnanir eða þrengja að þeim og auka völd leiðtoga. Þeir sem fara fyrir slíkum hreyfingum segjast venjulega túlka vilja fólksins og vilja vernda rétt og hagsmuni fólksins gegn útlendum ógnunum – og einnig gegn innlendum elítum sem ekki séu hluti af fólkinu og stundum einhvers konar handbendi útlendinga og óþjóðlegra afla.“

Hann segir að þessum hreyfingum sé líka oft sérlega uppsigað við fjölmiðla og segi að þeir þjóni ekki vilja almennings. Í rauninni sé oft stutt í svona hugmyndir þegar menn verði þreyttir á valdakerfum og elítuhópum sem þeir telji að stjórni þjóðfélaginu. Hugmyndir um beinna lýðræði hljómi þá oft vel og séu án efa oft góðar en þær geti líka verið hættulegar út frá sjónarhóli frjálslyndis. Frjálslyndi hafi orðið til í baráttu gegn því einhver einn æðri sannleikur sé til og í baráttu fyrir jafnrétti allra manna – hverrar skoðunar sem þeir kunna að vera.

Í Bandaríkjunum sjáum við til dæmis fólk sem berst fyrir algeru frelsi frá afskiptum ríkisins af efnahagsmálum og vopnaeign en vill hins vegar að ríkið skipti sér af kynlífi fólks og taki leiðsögn frá trúarritum í ýmsum greinum.

Sumir þeirra sem vilja sem allra mest frjálslyndi í efnahagsmálum, til dæmis fylgismenn nýfrjálshyggju, eru frekar áhugalausir um félagslegt frjálslyndi eða jafnvel mjög ófrjálslyndir í þeim efnum, að sögn Jóns Orms. „Í Bandaríkjunum sjáum við til dæmis fólk sem berst fyrir algeru frelsi frá afskiptum ríkisins af efnahagsmálum og vopnaeign en vill hins vegar að ríkið skipti sér af kynlífi fólks og taki leiðsögn frá trúarritum í ýmsum greinum. Um leið eru margir þeirra sem eru frjálslyndastir í þjóðfélagsmálum lítið áhugafólk um viðskiptafrelsi og finna því jafnvel margt til foráttu,“ segir hann.

Af þeim ástæðum sé svolítið erfitt að tala um frjálslyndishugsjón sem eitt fyrirbæri. „Það má hins vegar hugsa sér til mikillar einföldunar að frjálslyndið sé á miðju stjórnmála en að því sé sótt úr tveimur áttum. Langt frá vinstri kom sá skilningur marxista að einstaklingurinn og þjóðfélagið eigi að renna saman með einhverjum hætti. Langt frá hægri kom svo sú skoðun að þjóðin eða fólkið væri miklu æðri fyrirbæri en einstaklingar.“

Hart sótt að frjálslyndinu

„Fyrir fáum áratugum var mest sótt að frjálslyndinu frá vinstri en í samtímanum er örugglega sótt meira að því frá hægri,“ segir Jón. „Sennilega eru þetta viðbrögð við heimsvæðingunni og þeirri kreppu sem skall yfir Vesturlönd fyrir tíu árum. Þá sýndist mörgum víða um Vesturlönd sem að þjóðfélög þeirra væru mjög berskjölduð gegn innri og ytri ógnum þar sem ríkisvaldið var orðið áhrifaminna en það hafði verið og hóparnir sem stýrðu þessum þjóðfélögum sýndust líka frekar óþjóðlegir og ólíklegir til að skilja almenning.“

Hann segir að þeir sem hafi klúðrað fjármálakerfi heimsins hafi ekki verið vinstri menn heldur trúaðir frjálshyggjumenn og þess vegna geti virst skrítið að viðbrögðin hafi verið hrun á miðju stjórnmála og til vinstri. „Margir vildu hins vegar endurheimta fullveldi, sjálfstæði og styrk ríkisins í hverju landi fyrir sig. Það var af dálítið flóknum sögulegum og pólitískum ástæðum að þeir sem vildu auka styrk – og sjálfstæði ríkjanna – fylktu sér frekar um flokka langt til hægri en flokka til vinstri. Það kann hins vegar að breytast og ég held að það muni gera það sums staðar þótt ég sjái ekki mikið um það rætt,“ botnar Jón Ormur og bætir því við að ójöfnuðurinn innan samfélaga sé einfaldlega orðinn of mikill til að hann fái staðist og það muni kalla á hreyfingu frá vinstri.

„En varðandi frjálslyndið þá er enginn vafi á því að hart er nú sótt að þessu akkeri, þessari miðju og þessu sérkenni sem frjálslyndið er í stjórnmálum Vesturlanda. Frjálslynt fólk ætti hins vegar að líta svolítið oftar um öxl og horfa með ánægju og sjálfstrausti á þá stórkostlegu sigra sem frjálslyndið og hugmyndir þess um frelsi og jafnrétti allra manna, kynja og kynþátta hafa unnið á ótrúlega skömmum tíma,“ segir hann að lokum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti er af sumum talinn einn af höfuðandstæðingum frjálslyndis í heiminum í dag.
EPA

Ásgeir Friðgeirsson, fyrrum kennari, blaðamaður, ritstjóri og varaþingmaður, hefur starfað undanfarin sextán ár sem ráðgjafi alþjóðlegra fjármálafyrirtækja og fjárfesta í samskiptum og viðskiptum. Hann telur sig ekki vera sérfræðing í stjórnmálum en hann sé hlynntur frjálslyndum skoðunum. Ásgeir segir að frjálslyndi sé í grunninn hugmyndin um að maðurinn sé fæddur frjáls. Að ekkert í mannfélaginu réttlæti eða heimili yfirboð eða vald. „Í sögulegu ljósi, þegar hugtakið byrjaði að mótast, snerust hugmyndirnar fyrst og fremst um mótspyrnu gegn aðli, konungsveldi og lénsveldi. Og sumpart jafnvel trúarstofnunum.“

Ásgeir Friðgeirsson. Mynd: AðsendHann telur að í samtímanum snúist hugmyndirnar um frjálslyndi frekar um frelsi undan alþjóðlega auðmagni og ríkisvaldi. Hann segir að í dag séu lénsherrar horfnir en yfirvald birtist í ríkisvaldi og auðvaldi og að frjálslynt fólk vilji losna undan oki þess. „Að þegar þú fæðist eigi ríkið þig ekki og á sama hátt að einstaklingurinn sé ekki ofurseldur hinu gríðarlega valdi sem fylgir auðvaldinu.“ Hann segir að í dag hafi kapítalisminn þróast á þann hátt að búið sé að normalísera yfirvald peningana.

Frelsi ekki til án ábyrgðar

Ásgeir bendir aftur á móti á að ekki sé hægt að líta framhjá tveimur öðrum hugtökum í þessu samhengi: jafnrétti og umburðarlyndi. „Hugmyndin um að maðurinn sé fæddur frjáls þýðir að allir séu jafnir. Og ef þú samþykkir það verðurðu líka að viðurkenna umburðarlyndi. Þú verður að umbera að fólk nýti sér frelsið í raun, það frelsi sem í boði er. Þegar við síðan tölum um frelsi og jafnrétti er stutt í bræðralagið en þar birtist hugmyndin um félagslega ábyrgð. Því frelsi er ekki til án ábyrgðar. Og ábyrgðin er upphafsstefið í Frjálslynda flokknum í Bretlandi sem varð til á nítjándu öld,“ útskýrir hann. Það sem kallast sósíal-líberalismi eða félagslegt frjálslyndi er hugmyndin um að frjáls maður eigi að gera samfélaginu gagn, að sögn Ásgeirs. Um það snúist bræðralagið.

Hugmyndin um að maðurinn sé fæddur frjáls þýðir að allir séu jafnir. Og ef þú samþykkir það verðurðu líka að viðurkenna umburðarlyndi. Þú verður að umbera að fólk nýti sér frelsið í raun, það frelsi sem í boði er.

„Svo er annað, þessi hugmyndafræði er andstæð aðskilnaðarhugmyndinni. Sama hvort um er að ræða þjóð, kynþætti eða kynin,“ segir hann og bætir við að það sé ekki partur af frjálslyndi að setja fólk í hópa. „Á þann hátt finnst mér hugtakið alls ekki falla vel að hinni klassísku stéttapólitík sem gengur út á að stefna einum hópi á móti öðrum. Þar er hugmyndafræðin sú að samfélag sé samsett úr hópum sem takist á um hagsmuni og völd. Mér finnst þetta frjálslyndi fjarri þeirri sýn á samfélagið,“ segir hann. Frjálslyndur maður geti því bæði verið til vinstri og hægri, í þeim skilningi. Því liggi beinna við að tala um frjálslyndi versus stjórnlyndi. Kommúnisminn sé til dæmis stjórnlynt fyrirbæri. Fasismi líka á sama hátt. Andstæðan sé þá frjálslyndi. Hugmyndina um að maðurinn sé frjáls Og axli ábyrgð.

Ásgeir segir að gyðingar á vesturlöndum hafi á síðust tveimur öldum verið miklir talsmenn frjálslyndis. Þeir hafi alltaf upplifað sig í andstöðu við yfirvald, hvort sem um hafi verið að ræða aðal í þá tíð eða þegar þeir voru hluti af borgarastétt og/eða kynþáttadrottnun. Margir frjálslyndir gyðingar stilli sér upp í stjórnmálum í dag, til að mynda í Bandaríkjunum, jafnt til vinstri og hægri.

Hann segir að þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafi á sjötta og sjöunda áratugi síðustu aldar verið undir stjórn Ólafs Thors – en faðir hans,Thor Jensen, var af dönskum gyðingaættum – þá hafi til dæmis verið innleiddar umbætur í velferðarmálum á borð við almannatryggingar. Þá hafi í rauninni frjálslynd öfl haft yfirhöndina í Sjálfstæðisflokknum án þess að það hafi beinlínis verið tekist á um það. Formaðurinn hafi verið mjög frjálslyndur í viðhorfum.

„Nær okkur í sögu, eða um 1980, var náttúrlega Bandalag jafnaðarmanna sem bar fyrir sig frjálslyndi en vildi staðsetja sig utan við eða á miðju vinstri-hægri ássins í stjórnmálum. Svo vorum við áratugnum fyrr með Samtök frjálslyndra og vinstri manna þannig að menn hafa unnið með hugtakið á báða eða alla kanta. Frjálslyndi er ekki bundið í klafa stéttastjórnmála eða hagsmunaátök hópa“ segir hann.

Boð og bönn ræna tækifærum til þroska

Ásgeir kveðst hafa hugleitt þetta nokkuð því hann skilgreini sig núorðið fyrst og fremst sem frjálslyndan. „Svo renni ég mér upp og niður á þessum vinstri-hægri-skala þegar kemur að viðhorfum til ólíkra mála. Til dæmis umræðunni um áfengi í búðir. Það er dæmi um eitthvað sem ég á mjög erfitt með að skilja af hverju sé bannað, þó það skipti þannig séð alls ekki miklu máli. En þar birtist með skýrum hætti stjórnlyndi. Að ríkisvaldið, fræðasamfélag, intelektúalar eða auðvald, hvað sem er, reyni að hafa vit fyrir öðrum.

Í því umhverfi er búið að taka frá einstaklingnum tækifærið að axla ábyrgðina og þroskast sem einstaklingur. Pælingar í þessum dúr og andstaðan við forræðishyggju gera mig að frjálslyndum manni í dag.“

Ef fólk byggir viðhorf sín og hegðun alfarið á reglum missir það tækifærin á að fara í gegnum rök, tilfinningar og sjónarmið en slík upplifun og reynsla er ekkert annað en þroski.

„Það sem mér finnst vera merkilegast í íslenskri pólitík í dag, þegar við skoðum ásinn stjórnlyndi-frjálslyndi, eru Píratar. Ég las stefnuskrá þeirra fyrir kosningarnar 2013 og þar eru ýmsar hugmyndir af meiði frjálslyndis og jafnvel anarkisma sem hefur skotið nokkuð djúpum rótum víða m.a. í tölvu- og hátæknisamfélaginu.

Í hina röndina eru líka gríðarlega afskiptasöm viðhorf innan Pírata. Mér finnast þingmennirnir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson vera gjörsamlega á sitt hvorum enda þessa áss. Helgi virðist mjög frjálslyndur maður. En á sama hátt finnst mér mjög áberandi hjá Pírötum á borð við Þórhildi Sunna að vilja setja fólki strangar reglur um hitt og þetta. Útilokun, boð og bönn og ofurreglur eru mér sjaldnast að skapi. Í huga mínum ræna þær okkur sem manneskju möguleikanum á að takast á við hlutina. Taka frá okkur áskoranir sem efla okkar siðferðisþroska og persónuþroska. Ef fólk byggir viðhorf sín og hegðun alfarið á reglum missir það tækifærin á að fara í gegnum rök, tilfinningar og sjónarmið en slík upplifun og reynsla er ekkert annað en þroski.“

Hann segir að því sé honum meinilla við boð og bönn, þó að sjálfsögðu þurfi að vera til meginreglur og leiðbeiningar. „Þetta hefur litað allt mitt líf og er lífskjörorð mitt. Ég á til dæmis erfitt með að vinna með mjög afskiptasömum stjórnendum. Stjórnsemi vinnur gegn möguleikum einstaklinganna að eflast og finna ástæður sínar fyrir því af hverju hlutirnir virka svona eða hinsegin.“

Frjálslyndi ekki það sama og frjálshyggja

Ásgeir bendir á að frjálslyndi sé oft ruglað saman við frjálshyggjuna – sem sé allt annar handleggur. Frjálshyggja sé afstaða til markaðar. Og gangi út á að lögmál markaðarins eigi að teygja sig yfir sem flesta þætti samfélagsins. Að allar athafnir í samfélaginu eigi að ráðast af einföldu lögmáli framboðs og eftirspurnar. Að stjórnvöld og ríkisvald hafi engin afskipti af því.

Frjálshyggjuna megi aftur á móti auðveldlega sjá sem anga af frjálslyndi en hún snúist um annað. Hún sé stjórnmálastefna sem hafi vaxið af anga frjálslyndis; frelsi einstaklingsins til athafna. En frjálshyggjan gangi lengra því hún yfirfæri þessi lögmál á alla þætti. Og þá skolist ábyrgðin til.

„Ég held að til dæmis að félagslegt frjálslyndi, líkt og í Bretlandi og víðar, hafi átt mikinn þátt í uppbyggingu á velferðarkerfinu. Á Norðurlöndum birtist glöggt þessi hugmynd um félagslega ábyrgð hins frjálslynda manns. Velferðin í hávegum höfð og engar kennisetningar um hvort ríki eða einkaframtak henti betur til að framkvæma eða veita þjónustu. Í frjálshyggjunni, á hinn bóginn, er velferðarkerfið skilgreint sem afskipti ríkisvaldsins af lögmálum um framboð og eftirspurn og þykir þess vegna ekki heppilegt,“ segir hann.

Ásgeir telur því frelsi og umburðarlyndi vera órjúfanlegan þátt frjálslyndis en því miður hafi umburðarlyndið horfið í skuggann í stjórnmálum dagsins í dag þó svo alltaf heyrist ákall um frelsi. Hástig andstöðunnar við umburðarlyndi sé hreinn aðskilnaður hópa, eins og hafi verið í Þýskalandi á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar, í Suðurríkjum Bandaríkjanna lengi framan af þeirri öld og í Suður-Afríku á sjöunda til tíunda áratugnum.

Togstreita milli íhaldsafla og frjálslyndra

Í sögulegu tilliti hafa frjálslyndir oft verið í mikilli andstöðu við íhaldsöfl og íhaldsöfl finnast alls staðar á vinstri-hægri ás stjórnmála. „En á meðal hægri manna þykir ekki slæmt að vera íhaldssamur. Menn eru hægfara og vilja litlu breyta. Íhaldsstefna finnur sér yfirleitt skjól og stað hjá þeim hópum sem hafa völdin og sjá því ekki tilefni til breytinga. Íhaldið vill hafa sitt frelsi til athafna og viðurkennir því hugmyndina um frelsi en það er hægfara og skynjar ekki hina knýjandi þörf. Hinir frjálslyndu skynja hins vegar óbreytt ástand oft sem ok og yfirvald, sem viðjar vana, og vilja brjótast undan því.

Þetta eru hin eilífu átök, eins og í atvinnulífinu eða landbúnaðinum þar sem íhaldsviðhorf eru mjög ráðandi. Þar er ekki vilji til að breyta því menn óttast afleiðingar þess að hreyfa um of við hlutunum. Eins í verslun og þjónustu þar sem gamlir sérhagsmunir ráða ríkjum. En þessu er ólíkt farið í nýjum greinum eins og hugbúnaðargeiranum. Síðustu árin höfum við upplifað að nýir auðkýfingar koma úr nýjum greinum sem standa utan girðinga íhaldsaflanna. Eins og Bill Gates og allir þessir internet-mógúlar. Þeir eru staðsettir fyrir utan girðingar hefðbundinna hagsmuna. Eins var ný tækni sem óx utan hefðbundinna hagsmuna t.d. landeiganda, hreyfiafl breytinga á síðustu öld. Í atvinnulífinu leita hin frjálslyndu öfl undan okinu og út fyrir ramma gamalla og staðnaðra hagsmuna. Það er dýnamíkin sem hefur knúið áfram þróun í atvinnulífi.“

Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, var lýðræðislega kjörinn en hann þykir hægri-öfgamaður sem fótum treður mannréttindi og það sem talist gæti með frjálslyndum áherlsum.
EPA

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, tiltekur að til einföldunar megi segja að til séu tvær tegundir af lýðræði, annars vegar hreint meirihlutaræði og hins vegar frjálslynt lýðræði.

Eiríkur Bergmann. Mynd: Bára Huld BeckFrjálslyndið gangi í því samhengi út á að vernda einstaklinginn fyrir afstöðu meirihlutans. „Til þess að svo megi vera eru byggðir inn í lýðræðiskerfið þeir frjálslyndu þættir sem gera okkur öllum kleyft að lifa með okkar eigin kenjar án afskipta heildarinnar. Þannig vegur frjálslyndið upp á móti meirihlutaviljanum. Þess vegna höfum við frjálsa fjölmiðlun, akademískt frelsi í háskólum, réttinn til að mótmæla, tjáningarfrelsi, verkfallsrétt, mannréttindi og borgaraleg réttindi – til þess að verja einstaklinga frá lýðræðislegum vilja meirihlutans. Og því er samtakamáttur líka hluti af hinu frjálslynda lýðræði.“

„Þetta er kerfið sem við búum við,“ segir hann og bendir á að óþægilegt geti reynst að búa við hreinan eða of öflugan meirihlutavilja, þá verði alltaf einhverjir undir og því sé mikilvægt að vernda einstaklinga og skoðanir þeirra. Það verði að verja minnihlutann fyrir ofríki meirihlutans.

Um leið og menn fara að tala um að frjálslyndi hafi ekki merkingu ættum við að óttast grundvöll íslensks þjóðfélags.

Eiríkur segir menn á borð við þá Victor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, og Vladímír Pútín Rússlandsforseta séu dæmi um sterka leiðtoga sem kosnir hafi verið í embætti – það sama hafi raunar átt við um Adolf Hitler en það sé önnur Ella. Hann bendir á að enginn þessara manna geti talist verndari einstaklinga eða frjálslyndis. Þannig séu kosningar einskis virði ef þær séu ekki bæði frjálsar og frjálslyndar – eins og nú skorti til að mynda á með í Rússlandi. Hann segir að jafnvel í Evrópu og í Bandaríkjunum steðji nú ákveðin hætta af hinum frjálslynda þætti lýðræðiskerfisins.

„Frjálsræði hefur haft jákvæðan blæ yfir sér – margir hafa sagst vera frjálslyndir en eru það ekki,“ segir Eiríkur og bendir á að til að mynda hafi Frjálslyndi flokkurinn ekki alltaf staðið undir nafni á meðan aðrir flokkar hafi viljað standa vörð um hugtakið og vera á öndverðum meiði við meirihlutaviljann. Enn aðrir misskilji hugtakið – viljandi eða óviljandi – að mati Eiríks. „Um leið og menn fara að tala um að frjálslyndi hafi ekki merkingu ættum við að óttast grundvöll íslensks þjóðfélags,“ segir hann.

Popúlismi eyðir út blæbrigðum í samfélaginu

Popúlismi gengur út á að skipta hópi fólks í tvennt og þá verður til þjóð og einhvers konar andþjóð – eða þeir sem fylgja ekki meirihlutanum. Popúlismi, eða lýðhyggja eins og hugtakið hefur verið þýtt, er í eðli sínu neikvætt hugtak, samkvæmt Eiríki, sem skipti samfélaginu í tvennt – í þjóð og andþjóð. Það eyði út öllum blæbrigðum í samfélaginu, þrengt sé að frjálslyndinu með öðrum orðum. Hann segir popúlista misnota aðstæður og hafi til að mynda siglt inn í þá eyðu sem vinstri hreyfingin hafði skilið eftir, í kjölfar þess að hún hafi fjarlægst grundvöll sinn, sjálfa alþýðubaráttuna.

„Hvítflibbar hafi tekið yfir verkalýðsbaráttuna og að miklum hluta snúið sér að öðrum verkefnum en skilið alþýðuna eftir forystulausa. Þannig myndast aðstæður sem gera popúlistum kleift að stíga inn og ala á ótta sínum.“

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar