Wiki Commons

Er frjálslyndi tóm tugga?

Ýmsir stjórnmálamenn og flokkar nota hugtakið frjálslyndi til að gera grein fyrir hugsjónum sínum. En sumir telja hugtakið margþvælt, eins konar stofustáss fyrir kosningar. En hvað merkir frjálslyndi, hvað þýðir það í raun að vera frjálslyndur – og hver er birtingarmynd þess í nútímanum? Og getur það ógnað virku lýðræði ef við gerum lítið úr hugtakinu í opinberri umræðu – eða gleymum hreinlega að ræða það? Auður Jónsdóttir og Bára Huld Beck leituðu til þriggja sérfræðinga sem hafa innsýn í hugtakið, þeirra Jóns Orms Halldórssonar, Ásgeirs Friðgeirssonar og Eiríks Bergmann.

Þegar við veltum hug­tak­inu frjáls­lyndi fyrir okkur hugs­uðum við fyrst um frelsi en fannst eins og við­skeytið lyndur mild­aði það – frjáls í lund. Kannski að hug­takið fangi frels­is­við­horf með mann­legum und­ir­tóni; frelsi með ábyrgð og sið­ferð­is­við­mið­um. Það krefst hugs­unar að njóta frelsis og við verðum að ræða raun­veru­lega þýð­ingu frjáls­lyndis – ef lýð­ræðið á að virka sem skyldi. Við spurðum tvo stjórn­mála­fræð­inga út í hug­takið og líka þriðja mann­inn sem skil­greinir sig fyrst og fremst frjáls­lynd­an.

Jón Ormur Hall­dórs­son alþjóða­stjórn­mála­fræð­ingur segir að ólík­ustu flokkar í fjöl­mörgum lönd­um, á ólíkum tímum og við marg­breyti­legar aðstæð­ur, hafi kosið að kenna sig við frjáls­lyndi. Það segi lítið annað um hug­takið en að það hafi víða verið talið lík­legt til vin­sælda að segj­ast frjáls­lynd­ur.

Jón Ormur Halldórsson.„Við sjáum þetta líka með hug­tök eins og lýð­ræði og fram­farir sem ein­ræð­is­flokkar og aft­ur­halds­öfl af ýmsu tagi kenna sig gjarnan við. Það sem gerir hug­takið öllu snún­ara í alvar­legri umræðu er að það hefur verið notað í fullri alvöru í stjórn­mála­um­ræðu og eins í fræði­legri grein­ingu um tals­vert ólíkar stefnur og fyr­ir­bæri,“ segir Jón Orm­ur.

Raun­hyggja, þekk­ing og skyn­semi sótti að trú­ar­legum hug­myndum

Sam­kvæmt honum er upp­runa hug­taks­ins best að rekja til Upp­lýs­ing­ar­innar svo­nefndu sem hafði mikil áhrif í Evr­ópu á átj­ándu öld og með óbeinni hætti áfram í sam­tím­an­um. „Al­mennt sner­ist Upp­lýs­ingin um þá skoðun að þekk­ing sem aflað var með vís­inda­legum vinnu­brögðum ætti að leysa af hólmi trú­ar­setn­ingar og hug­myndir um yfir­nátt­úru­leg öfl sem drottn­uðu á mið­öld­um. Í póli­tík gróf þetta undan valdi trú­ar­stofn­ana og guð­legrar helg­unar á kon­ungs­valdi. Um leið veikti þetta vald yfir­stétta sem höfðu drottnað í skjóli hug­mynda um að valda­kerfi ríkja og þjóð­fé­laga væru guð­leg skikk­an. Í sam­fé­lags­málum sótti raun­hyggja, þekk­ing og skyn­semi líka að trú­ar­legum hug­myndum af ýmsu tagi. Almennar nið­ur­stöður af þeim spurn­ing­um, sem þetta allt saman vakti, voru aukin trú á nátt­úru­legan rétt manns­ins til frels­is,“ segir hann.

Í beinu fram­haldi hafi spurn­ingin vaknað hvort allir menn hefðu þá ekki jafnan rétt – sem leiddi til þess að kvikn­uðu nýjar hug­myndir um jafn­rétti. „Þær hug­myndir sem þarna komu fram um frelsi og jafn­rétti eru því nátengdar og urðu grunnur að kenn­ingum um alls kyns frelsi og eins um lýð­ræði sem stjórn­ar­form. Hins vegar ríkir ákveðin spennu­af­staða á milli hug­mynda um frelsi ann­ars vegar og jafn­rétti hins vegar sem enn hefur grund­valla­r­á­hrif á stjórn­mál í sam­tím­an­um.“

Neikvætt frelsi er einfaldlega frelsi frá afskiptum annarra. Jákvætt frelsi snýst hins vegar um möguleika manna til að njóta raunverulegs frekar en bara formlegs frelsis.

Þegar Jón Ormur er spurður út í hversu mikið vægi frjáls­lyndi hafi sem slíkt – og/eða skortur á því – í stjórn­málum nútím­ans, þá svarar hann að hægt sé að nálg­ast þetta með ýmsum hætti og menn líti þetta auð­vitað ólíkum aug­um. „Það má til dæmis horfa á þetta út frá þess­ari spennu sem ég nefndi á milli frelsis og jafn­réttis í frjáls­lyndri hugs­un. Sumir gera grein­ar­mun á jákvæðu og nei­kvæðu frelsi. Þá eiga menn alls ekki við að það nei­kvæða sé vont en hið jákvæða gott. Nei­kvætt frelsi er ein­fald­lega frelsi frá afskiptum ann­arra. Jákvætt frelsi snýst hins vegar um mögu­leika manna til að njóta raun­veru­legs frekar en bara form­legs frels­is. Þeir mögu­leikar geta bein­línis byggst á afskiptum ann­arra frekar en afskipta­leysi,“ segir hann.

Sem dæmi um það nefnir Jón Ormur skerð­ingu á frelsi manna til að nota sína eigin pen­inga með því að taka af þeim fé með skatt­heimtu en nota síðan þá pen­inga til að fjár­magna heil­brigð­is­kerfi og borga fyrir menntun almenn­ings. Með því geti menn greini­lega aukið jafn­rétti og raun­gert mögu­leika venju­legs fólks til að njóta frelsis því frelsi hins ómennt­aða og heilsu­lausa sé kannski ekki mik­ils virði. Svipað megi segja um bann við eit­ur­lyfjum eða öðru af þeim toga. „Frelsi manna er rýrt með slíku banni en þá má spyrja: Hvert er frelsi fíkils­ins? Í raun­inni hefur stjórn­mála­bar­átta á Vest­ur­löndum að veru­legu leyti staðið um spurn­ingar af þessu tagi, það er um eðli frels­is­ins og hlut­verk sam­fé­lags­ins í að tak­marka eða auka frelsi ein­stak­linga, þótt þetta sé sjaldan orðað með þeim hætt­i.“

Fólk á að njóta verndar frá alræði

En hver er helsta birt­ing­ar­mynd frjáls­lyndis í átökum stjórn­mála­afla í Evr­ópu og í Banda­ríkj­un­um, sem og í öðrum heims­álf­um? 

Jón Ormur segir að eitt meg­in­at­riðið varð­andi frjáls­lyndi sé að það leiði til þeirrar nið­ur­stöðu að vald­inu sé dreift sem mest og að fólk eigi að njóta verndar frá alræði ein­hvers konar meiri­hluta sem kunni að mynd­ast í við­kom­andi þjóð­fé­lagi. Það þýði meðal ann­ars að kosn­ingar eigi ekki að vera leikur þar sem sig­ur­veg­ari fái öll völd en þeir sem tapa eng­in. Meiri­hluta­vilji sé því alls ekki öllu ofar í frjáls­lyndu þjóð­fé­lagi.

Hann bendir á að ein helsta hættan í stjórn­málum sam­tím­ans á Vest­ur­löndum sé að sums staðar hafi mynd­ast stemm­ing gegn þeim vörnum sem frjáls­lyndið myndar gegn ofríki í krafti lýð­hylli. „Nokkuð víða á Vest­ur­löndum og mjög víða utan þeirra hafa fasískar hug­myndir notið auk­innar hylli, hug­myndir um að til sé eitt­hvað sem menn kalla vilja fólks­ins og að engar stofn­anir eigi að varna því að sá vilji fái alltaf ráð­ið. Þeir sem þannig hugsa vilja rífa niður stofn­anir eða þrengja að þeim og auka völd leið­toga. Þeir sem fara fyrir slíkum hreyf­ingum segj­ast venju­lega túlka vilja fólks­ins og vilja vernda rétt og hags­muni fólks­ins gegn útlendum ógn­unum – og einnig gegn inn­lendum elítum sem ekki séu hluti af fólk­inu og stundum ein­hvers konar hand­bendi útlend­inga og óþjóð­legra afla.“

Hann segir að þessum hreyf­ingum sé líka oft sér­lega upp­sigað við fjöl­miðla og segi að þeir þjóni ekki vilja almenn­ings. Í raun­inni sé oft stutt í svona hug­myndir þegar menn verði þreyttir á valda­kerfum og elítu­hópum sem þeir telji að stjórni þjóð­fé­lag­inu. Hug­myndir um beinna lýð­ræði hljómi þá oft vel og séu án efa oft góðar en þær geti líka verið hættu­legar út frá sjón­ar­hóli frjáls­lynd­is. Frjáls­lyndi hafi orðið til í bar­áttu gegn því ein­hver einn æðri sann­leikur sé til og í bar­áttu fyrir jafn­rétti allra manna – hverrar skoð­unar sem þeir kunna að vera.

Í Bandaríkjunum sjáum við til dæmis fólk sem berst fyrir algeru frelsi frá afskiptum ríkisins af efnahagsmálum og vopnaeign en vill hins vegar að ríkið skipti sér af kynlífi fólks og taki leiðsögn frá trúarritum í ýmsum greinum.

Sumir þeirra sem vilja sem allra mest frjáls­lyndi í efna­hags­mál­um, til dæmis fylg­is­menn nýfrjáls­hyggju, eru frekar áhuga­lausir um félags­legt frjáls­lyndi eða jafn­vel mjög ófrjáls­lyndir í þeim efn­um, að sögn Jóns Orms. „Í Banda­ríkj­unum sjáum við til dæmis fólk sem berst fyrir algeru frelsi frá afskiptum rík­is­ins af efna­hags­málum og vopna­eign en vill hins vegar að ríkið skipti sér af kyn­lífi fólks og taki leið­sögn frá trú­ar­ritum í ýmsum grein­um. Um leið eru margir þeirra sem eru frjáls­lynd­astir í þjóð­fé­lags­málum lítið áhuga­fólk um við­skipta­frelsi og finna því jafn­vel margt til for­átt­u,“ segir hann.

Af þeim ástæðum sé svo­lítið erfitt að tala um frjáls­lynd­is­hug­sjón sem eitt fyr­ir­bæri. „Það má hins vegar hugsa sér til mik­illar ein­föld­unar að frjáls­lyndið sé á miðju stjórn­mála en að því sé sótt úr tveimur átt­um. Langt frá vinstri kom sá skiln­ingur marx­ista að ein­stak­ling­ur­inn og þjóð­fé­lagið eigi að renna saman með ein­hverjum hætti. Langt frá hægri kom svo sú skoðun að þjóðin eða fólkið væri miklu æðri fyr­ir­bæri en ein­stak­ling­ar.“

Hart sótt að frjáls­lynd­inu

„Fyrir fáum ára­tugum var mest sótt að frjáls­lynd­inu frá vinstri en í sam­tím­anum er örugg­lega sótt meira að því frá hægri,“ segir Jón. „Senni­lega eru þetta við­brögð við heim­s­væð­ing­unni og þeirri kreppu sem skall yfir Vest­ur­lönd fyrir tíu árum. Þá sýnd­ist mörgum víða um Vest­ur­lönd sem að þjóð­fé­lög þeirra væru mjög ber­skjölduð gegn innri og ytri ógnum þar sem rík­is­valdið var orðið áhrifa­m­inna en það hafði verið og hóp­arnir sem stýrðu þessum þjóð­fé­lögum sýnd­ust líka frekar óþjóð­legir og ólík­legir til að skilja almenn­ing.“

Hann segir að þeir sem hafi klúðrað fjár­mála­kerfi heims­ins hafi ekki verið vinstri menn heldur trú­aðir frjáls­hyggju­menn og þess vegna geti virst skrítið að við­brögðin hafi verið hrun á miðju stjórn­mála og til vinstri. „Margir vildu hins vegar end­ur­heimta full­veldi, sjálf­stæði og styrk rík­is­ins í hverju landi fyrir sig. Það var af dálítið flóknum sögu­legum og póli­tískum ástæðum að þeir sem vildu auka styrk – og sjálf­stæði ríkj­anna – fylktu sér frekar um flokka langt til hægri en flokka til vinstri. Það kann hins vegar að breyt­ast og ég held að það muni gera það sums staðar þótt ég sjái ekki mikið um það rætt,“ botnar Jón Ormur og bætir því við að ójöfn­uð­ur­inn innan sam­fé­laga sé ein­fald­lega orð­inn of mik­ill til að hann fái stað­ist og það muni kalla á hreyf­ingu frá vinstri.

„En varð­andi frjáls­lyndið þá er eng­inn vafi á því að hart er nú sótt að þessu akk­eri, þess­ari miðju og þessu sér­kenni sem frjáls­lyndið er í stjórn­málum Vest­ur­landa. Frjáls­lynt fólk ætti hins vegar að líta svo­lítið oftar um öxl og horfa með ánægju og sjálfs­trausti á þá stór­kost­legu sigra sem frjáls­lyndið og hug­myndir þess um frelsi og jafn­rétti allra manna, kynja og kyn­þátta hafa unnið á ótrú­lega skömmum tíma,“ segir hann að lok­um.

Donald Trump Bandaríkjaforseti er af sumum talinn einn af höfuðandstæðingum frjálslyndis í heiminum í dag.
EPA

Ásgeir Frið­geirs­son, fyrrum kenn­ari, blaða­mað­ur, rit­stjóri og vara­þing­mað­ur, hefur starfað und­an­farin sextán ár sem ráð­gjafi alþjóð­legra fjár­mála­fyr­ir­tækja og fjár­festa í sam­skiptum og við­skipt­um. Hann telur sig ekki vera sér­fræð­ing í stjórn­málum en hann sé hlynntur frjáls­lyndum skoð­un­um. Ásgeir segir að frjáls­lyndi sé í grunn­inn hug­myndin um að mað­ur­inn sé fæddur frjáls. Að ekk­ert í mann­fé­lag­inu rétt­læti eða heim­ili yfir­boð eða vald. „Í sögu­legu ljósi, þegar hug­takið byrj­aði að mótast, sner­ust hug­mynd­irnar fyrst og fremst um mót­spyrnu gegn aðli, kon­ungs­veldi og léns­veldi. Og sum­part jafn­vel trú­ar­stofn­un­um.“

Ásgeir Friðgeirsson. Mynd: AðsendHann telur að í sam­tím­anum snú­ist hug­mynd­irnar um frjáls­lyndi frekar um frelsi undan alþjóð­lega auð­magni og rík­is­valdi. Hann segir að í dag séu léns­herrar horfnir en yfir­vald birt­ist í rík­is­valdi og auð­valdi og að frjáls­lynt fólk vilji losna undan oki þess. „Að þegar þú fæð­ist eigi ríkið þig ekki og á sama hátt að ein­stak­ling­ur­inn sé ekki ofur­seldur hinu gríð­ar­lega valdi sem fylgir auð­vald­in­u.“ Hann segir að í dag hafi kap­ít­al­ism­inn þró­ast á þann hátt að búið sé að normalísera yfir­vald pen­ing­ana.

Frelsi ekki til án ábyrgðar

Ásgeir bendir aftur á móti á að ekki sé hægt að líta fram­hjá tveimur öðrum hug­tökum í þessu sam­hengi: jafn­rétti og umburð­ar­lyndi. „Hug­myndin um að mað­ur­inn sé fæddur frjáls þýðir að allir séu jafn­ir. Og ef þú sam­þykkir það verð­urðu líka að við­ur­kenna umburð­ar­lyndi. Þú verður að umbera að fólk nýti sér frelsið í raun, það frelsi sem í boði er. Þegar við síðan tölum um frelsi og jafn­rétti er stutt í bræðra­lagið en þar birt­ist hug­myndin um félags­lega ábyrgð. Því frelsi er ekki til án ábyrgð­ar. Og ábyrgðin er upp­hafs­stefið í Frjáls­lynda flokknum í Bret­landi sem varð til á nítj­ándu öld,“ útskýrir hann. Það sem kall­ast sós­í­al-lí­ber­al­ismi eða félags­legt frjáls­lyndi er hug­myndin um að frjáls maður eigi að gera sam­fé­lag­inu gagn, að sögn Ásgeirs. Um það snú­ist bræðra­lag­ið.

Hugmyndin um að maðurinn sé fæddur frjáls þýðir að allir séu jafnir. Og ef þú samþykkir það verðurðu líka að viðurkenna umburðarlyndi. Þú verður að umbera að fólk nýti sér frelsið í raun, það frelsi sem í boði er.

„Svo er ann­að, þessi hug­mynda­fræði er and­stæð aðskiln­að­ar­hug­mynd­inni. Sama hvort um er að ræða þjóð, kyn­þætti eða kyn­in,“ segir hann og bætir við að það sé ekki partur af frjáls­lyndi að setja fólk í hópa. „Á þann hátt finnst mér hug­takið alls ekki falla vel að hinni klass­ísku stéttapóli­tík sem gengur út á að stefna einum hópi á móti öðr­um. Þar er hug­mynda­fræðin sú að sam­fé­lag sé sam­sett úr hópum sem tak­ist á um hags­muni og völd. Mér finnst þetta frjáls­lyndi fjarri þeirri sýn á sam­fé­lag­ið,“ segir hann. Frjáls­lyndur maður geti því bæði verið til vinstri og hægri, í þeim skiln­ingi. Því liggi beinna við að tala um frjáls­lyndi versus stjórn­lyndi. Komm­ún­ism­inn sé til dæmis stjórn­lynt fyr­ir­bæri. Fas­ismi líka á sama hátt. And­stæðan sé þá frjáls­lyndi. Hug­mynd­ina um að mað­ur­inn sé frjáls Og axli ábyrgð.

Ásgeir segir að gyð­ingar á vest­ur­löndum hafi á síð­ust tveimur öldum verið miklir tals­menn frjáls­lynd­is. Þeir hafi alltaf upp­lifað sig í and­stöðu við yfir­vald, hvort sem um hafi verið að ræða aðal í þá tíð eða þegar þeir voru hluti af borg­ara­stétt og/eða kyn­þátta­drottn­un. Margir frjáls­lyndir gyð­ingar stilli sér upp í stjórn­málum í dag, til að mynda í Banda­ríkj­un­um, jafnt til vinstri og hægri.

Hann segir að þegar Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hafi á sjötta og sjö­unda ára­tugi síð­ustu aldar verið undir stjórn Ólafs Thors – en faðir hans,T­hor Jen­sen, var af dönskum gyð­inga­ættum – þá hafi til dæmis verið inn­leiddar umbætur í vel­ferð­ar­málum á borð við almanna­trygg­ing­ar. Þá hafi í raun­inni frjáls­lynd öfl haft yfir­hönd­ina í Sjálf­stæð­is­flokknum án þess að það hafi bein­línis verið tek­ist á um það. For­mað­ur­inn hafi verið mjög frjáls­lyndur í við­horf­um.

„Nær okkur í sögu, eða um 1980, var nátt­úr­lega Banda­lag jafn­að­ar­manna sem bar fyrir sig frjáls­lyndi en vildi stað­setja sig utan við eða á miðju vinstri-hægri áss­ins í stjórn­mál­um. Svo vorum við ára­tugnum fyrr með Sam­tök frjáls­lyndra og vinstri manna þannig að menn hafa unnið með hug­takið á báða eða alla kanta. Frjáls­lyndi er ekki bundið í klafa stétta­stjórn­mála eða hags­muna­á­tök hópa“ segir hann.

Boð og bönn ræna tæki­færum til þroska

Ásgeir kveðst hafa hug­leitt þetta nokkuð því hann skil­greini sig núorðið fyrst og fremst sem frjáls­lynd­an. „Svo renni ég mér upp og niður á þessum vinstri-hægri-skala þegar kemur að við­horfum til ólíkra mála. Til dæmis umræð­unni um áfengi í búð­ir. Það er dæmi um eitt­hvað sem ég á mjög erfitt með að skilja af hverju sé bann­að, þó það skipti þannig séð alls ekki miklu máli. En þar birt­ist með skýrum hætti stjórn­lyndi. Að rík­is­vald­ið, fræða­sam­fé­lag, intel­ektúalar eða auð­vald, hvað sem er, reyni að hafa vit fyrir öðr­um.

Í því umhverfi er búið að taka frá ein­stak­lingnum tæki­færið að axla ábyrgð­ina og þroskast sem ein­stak­ling­ur. Pæl­ingar í þessum dúr og and­staðan við for­ræð­is­hyggju gera mig að frjáls­lyndum manni í dag.“

Ef fólk byggir viðhorf sín og hegðun alfarið á reglum missir það tækifærin á að fara í gegnum rök, tilfinningar og sjónarmið en slík upplifun og reynsla er ekkert annað en þroski.

„Það sem mér finnst vera merki­leg­ast í íslenskri póli­tík í dag, þegar við skoðum ásinn stjórn­lynd­i-frjáls­lyndi, eru Pírat­ar. Ég las stefnu­skrá þeirra fyrir kosn­ing­arnar 2013 og þar eru ýmsar hug­myndir af meiði frjáls­lyndis og jafn­vel anar­k­isma sem hefur skotið nokkuð djúpum rótum víða m.a. í tölvu- og hátækni­sam­fé­lag­inu.

Í hina rönd­ina eru líka gríð­ar­lega afskipta­söm við­horf innan Pírata. Mér finn­ast þing­menn­irnir Þór­hildur Sunna Ævars­dóttir og Helgi Hrafn Gunn­ars­son vera gjör­sam­lega á sitt hvorum enda þessa áss. Helgi virð­ist mjög frjáls­lyndur mað­ur. En á sama hátt finnst mér mjög áber­andi hjá Pírötum á borð við Þór­hildi Sunna að vilja setja fólki strangar reglur um hitt og þetta. Úti­lok­un, boð og bönn og ofur­reglur eru mér sjaldn­ast að skapi. Í huga mínum ræna þær okkur sem mann­eskju mögu­leik­anum á að takast á við hlut­ina. Taka frá okkur áskor­anir sem efla okkar sið­ferð­is­þroska og per­sónu­þroska. Ef fólk byggir við­horf sín og hegðun alfarið á reglum missir það tæki­færin á að fara í gegnum rök, til­finn­ingar og sjón­ar­mið en slík upp­lifun og reynsla er ekk­ert annað en þroski.“

Hann segir að því sé honum meinilla við boð og bönn, þó að sjálf­sögðu þurfi að vera til meg­in­reglur og leið­bein­ing­ar. „Þetta hefur litað allt mitt líf og er lífs­kjör­orð mitt. Ég á til dæmis erfitt með að vinna með mjög afskipta­sömum stjórn­end­um. Stjórn­semi vinnur gegn mögu­leikum ein­stak­ling­anna að efl­ast og finna ástæður sínar fyrir því af hverju hlut­irnir virka svona eða hinseg­in.“

Frjáls­lyndi ekki það sama og frjáls­hyggja

Ásgeir bendir á að frjáls­lyndi sé oft ruglað saman við frjáls­hyggj­una – sem sé allt annar hand­legg­ur. Frjáls­hyggja sé afstaða til mark­að­ar. Og gangi út á að lög­mál mark­að­ar­ins eigi að teygja sig yfir sem flesta þætti sam­fé­lags­ins. Að allar athafnir í sam­fé­lag­inu eigi að ráð­ast af ein­földu lög­máli fram­boðs og eft­ir­spurn­ar. Að stjórn­völd og rík­is­vald hafi engin afskipti af því.

Frjáls­hyggj­una megi aftur á móti auð­veld­lega sjá sem anga af frjáls­lyndi en hún snú­ist um ann­að. Hún sé stjórn­mála­stefna sem hafi ­vaxið af anga frjáls­lynd­is; frelsi ein­stak­lings­ins til athafna. En frjáls­hyggjan gangi lengra því hún yfir­færi þessi lög­mál á alla þætti. Og þá skolist ábyrgðin til.

„Ég held að til dæmis að félags­legt frjáls­lyndi, líkt og í Bret­landi og víð­ar, hafi átt mik­inn þátt í upp­bygg­ingu á vel­ferð­ar­kerf­inu. Á Norð­ur­löndum birt­ist glöggt þessi hug­mynd um félags­lega ábyrgð hins frjáls­lynda manns. Vel­ferðin í hávegum höfð og engar kenni­setn­ingar um hvort ríki eða einka­fram­tak henti betur til að fram­kvæma eða veita þjón­ustu. Í frjáls­hyggj­unni, á hinn bóg­inn, er vel­ferð­ar­kerfið skil­greint sem afskipti rík­is­valds­ins af lög­málum um fram­boð og eft­ir­spurn og þykir þess vegna ekki heppi­leg­t,“ segir hann.

Ásgeir telur því frelsi og umburð­ar­lyndi vera órjúf­an­legan þátt frjáls­lyndis en því miður hafi umburð­ar­lyndið horfið í skugg­ann í stjórn­málum dags­ins í dag þó svo alltaf heyr­ist ákall um frelsi. Hástig and­stöð­unnar við umburð­ar­lyndi sé hreinn aðskiln­aður hópa, eins og hafi verið í Þýska­landi á fjórða og fimmta ára­tug síð­ustu ald­ar, í Suð­ur­ríkjum Banda­ríkj­anna lengi framan af þeirri öld og í Suð­ur­-Afr­íku á sjö­unda til tíunda ára­tugn­um.

Tog­streita milli íhalds­afla og frjáls­lyndra

Í sögu­legu til­liti hafa frjáls­lyndir oft verið í mik­illi and­stöðu við íhalds­öfl og íhalds­öfl finn­ast alls staðar á vinstri-hægri ás stjórn­mála. „En á meðal hægri manna þykir ekki slæmt að vera íhalds­sam­ur. Menn eru hæg­fara og vilja litlu breyta. Íhalds­stefna finnur sér yfir­leitt skjól og stað hjá þeim hópum sem hafa völdin og sjá því ekki til­efni til breyt­inga. Íhaldið vill hafa sitt frelsi til athafna og við­ur­kennir því hug­mynd­ina um frelsi en það er hæg­fara og skynjar ekki hina knýj­andi þörf. Hinir frjáls­lyndu skynja hins vegar óbreytt ástand oft sem ok og yfir­vald, sem viðjar vana, og vilja brjót­ast undan því.

Þetta eru hin eilífu átök, eins og í atvinnu­líf­inu eða land­bún­að­inum þar sem íhalds­við­horf eru mjög ráð­andi. Þar er ekki vilji til að breyta því menn ótt­ast afleið­ingar þess að hreyfa um of við hlut­un­um. Eins í verslun og þjón­ustu þar sem gamlir sér­hags­munir ráða ríkj­um. En þessu er ólíkt farið í nýjum greinum eins og hug­bún­að­ar­geir­an­um. Síð­ustu árin höfum við upp­lifað að nýir auð­kýf­ingar koma úr nýjum greinum sem standa utan girð­inga íhalds­afl­anna. Eins og Bill Gates og allir þessir inter­net-­mó­gúl­ar. Þeir eru stað­settir fyrir utan girð­ingar hefð­bund­inna hags­muna. Eins var ný tækni sem óx utan hefð­bund­inna hags­muna t.d. land­eig­anda, hreyfi­afl breyt­inga á síð­ustu öld. Í atvinnu­líf­inu leita hin frjáls­lyndu öfl undan okinu og út fyrir ramma gam­alla og staðn­aðra hags­muna. Það er dýnamíkin sem hefur knúið áfram þróun í atvinnu­líf­i.“

Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, var lýðræðislega kjörinn en hann þykir hægri-öfgamaður sem fótum treður mannréttindi og það sem talist gæti með frjálslyndum áherlsum.
EPA

Eiríkur Berg­mann, pró­fessor í stjórn­mála­fræði við Háskól­ann á Bif­röst, til­tekur að til ein­föld­unar megi segja að til séu tvær teg­undir af lýð­ræði, ann­ars vegar hreint meiri­hlutaræði og hins vegar frjáls­lynt lýð­ræði.

Eiríkur Bergmann. Mynd: Bára Huld BeckFrjáls­lyndið gangi í því sam­hengi út á að vernda ein­stak­ling­inn fyrir afstöðu meiri­hlut­ans. „Til þess að svo megi vera eru byggðir inn í lýð­ræð­is­kerfið þeir frjáls­lyndu þættir sem gera okkur öllum kleyft að lifa með okkar eigin kenjar án afskipta heild­ar­inn­ar. Þannig vegur frjáls­lyndið upp á móti meiri­hluta­vilj­an­um. Þess vegna höfum við frjálsa fjöl­miðl­un, akademískt frelsi í háskól­um, rétt­inn til að mót­mæla, tján­ing­ar­frelsi, verk­falls­rétt, mann­rétt­indi og borg­ara­leg rétt­indi – til þess að verja ein­stak­linga frá lýð­ræð­is­legum vilja meiri­hlut­ans. Og því er sam­taka­máttur líka hluti af hinu frjáls­lynda lýð­ræð­i.“

„Þetta er kerfið sem við búum við,“ segir hann og bendir á að óþægi­legt geti reynst að búa við hreinan eða of öfl­ugan meiri­hluta­vilja, þá verði alltaf ein­hverjir undir og því sé mik­il­vægt að vernda ein­stak­linga og skoð­anir þeirra. Það verði að verja minni­hlut­ann fyrir ofríki meiri­hlut­ans.

Um leið og menn fara að tala um að frjálslyndi hafi ekki merkingu ættum við að óttast grundvöll íslensks þjóðfélags.

Eiríkur segir menn á borð við þá Victor Orbán, for­sæt­is­ráð­herra Ung­verja­lands, og Vladímír Pútín Rúss­lands­for­seta séu dæmi um sterka leið­toga sem kosnir hafi verið í emb­ætti – það sama hafi raunar átt við um Adolf Hitler en það sé önnur Ella. Hann bendir á að eng­inn þess­ara manna geti talist vernd­ari ein­stak­linga eða frjáls­lynd­is. Þannig séu kosn­ingar einskis virði ef þær séu ekki bæði frjálsar og frjáls­lyndar – eins og nú skorti til að mynda á með í Rúss­landi. Hann segir að jafn­vel í Evr­ópu og í Banda­ríkj­unum steðji nú ákveðin hætta af hinum frjáls­lynda þætti lýð­ræð­is­kerf­is­ins.

„Frjáls­ræði hefur haft jákvæðan blæ yfir sér – margir hafa sagst vera frjáls­lyndir en eru það ekki,“ segir Eiríkur og bendir á að til að mynda hafi Frjáls­lyndi flokk­ur­inn ekki alltaf staðið undir nafni á meðan aðrir flokkar hafi viljað standa vörð um hug­takið og vera á önd­verðum meiði við meiri­hluta­vilj­ann. Enn aðrir mis­skilji hug­takið – vilj­andi eða óvilj­andi – að mati Eiríks. „Um leið og menn fara að tala um að frjáls­lyndi hafi ekki merk­ingu ættum við að ótt­ast grund­völl íslensks þjóð­fé­lags,“ segir hann.

Popúl­ismi eyðir út blæ­brigðum í sam­fé­lag­inu

Popúl­ismi gengur út á að skipta hópi fólks í tvennt og þá verður til þjóð og ein­hvers konar and­þjóð – eða þeir sem fylgja ekki meiri­hlut­an­um. Popúl­ismi, eða lýð­hyggja eins og hug­takið hefur verið þýtt, er í eðli sínu nei­kvætt hug­tak, sam­kvæmt Eiríki, sem skipti sam­fé­lag­inu í tvennt – í þjóð og and­þjóð. Það eyði út öllum blæ­brigðum í sam­fé­lag­inu, þrengt sé að frjáls­lynd­inu með öðrum orð­um. Hann segir popúlista mis­nota aðstæður og hafi til að mynda siglt inn í þá eyðu sem vinstri hreyf­ingin hafði skilið eft­ir, í kjöl­far þess að hún hafi fjar­lægst grund­völl sinn, sjálfa alþýðu­bar­átt­una.

„Hvít­flibbar hafi tekið yfir verka­lýðs­bar­átt­una og að miklum hluta snúið sér að öðrum verk­efnum en skilið alþýð­una eftir for­ystu­lausa. Þannig mynd­ast aðstæður sem gera popúlistum kleift að stíga inn og ala á ótta sín­um.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar