Forstjórar hafa hækkað um 398 þúsund – Afgreiðslufólk á kassa um 86 þúsund
Launahæsti starfshópurinn á Íslandi eru forstjórar. Heilarlaun þeirra eru 1.818 þúsund krónur að meðaltali á mánuði. Verðbréfasalar fylgja fast á hæla þeirra. Launahækkun forstjóra frá árinu 2014 í krónum talið er hærri en heildarlaun lægst launuðust hópa landsins.
Heildarlaun forstjóra og aðalframkvæmdastjóra fyrirtækja og stofnana á Íslandi voru að meðaltali 1.818 þúsund krónur á mánuði í fyrra. Þau hafa hækkað um 398 þúsund krónur frá árinu 2014. Sú hækkun er sama krónutala og starfsmenn í umönnun og aðstoð við sérfræðinga í heilbrigðisgreinum og félagsþjónustu fá í heildarlaun á mánuði, og 14 þúsund krónum hærri en mánaðarleg heildarlaun kvenna sem vinna í slíkum störfum. Þetta er meðal þess sem mál lesa út úr nýjum tölum sem Hagstofan birti um laun landsmanna á fimmtudag.
heildarlaun eru öll laun einstaklingsins, þ.e. regluleg heildarlaun auk ýmissa óreglulegra greiðslna s.s. orlofs- og desemberuppbótar, eingreiðslna, ákvæðisgreiðslna og uppgjörs vegna uppmælinga. Heildarlaun allra fullvinnandi launamanna voru að meðaltali 706 þúsund krónur á mánuði í fyrra. Þau hafa hækkað um 25 prósent frá árinu 2014.
Forstjórar hækkuðu um 15 prósent á einu ári
Launahæsti starfshópurinn á Íslandi eru forstjórar og stjórnendur stærri fyrirtækja og stofnana. Þeir voru með, líkt og áður sagði, 1.818 þúsund krónur á mánuði í heildarlaun.
Laun þeirra hafa hækkað um 28 prósent frá árinu 2014. Í fyrra hækkuðu þau um 15 prósent á einu ári. Kjarninn fjallaði ítarlega um miklar launahækkanir forstjóra skráðra félaga og fyrirtækja í opinberri eigu fyrr á þessu ári.
Hlutfallstölur og krónur í veskið
28 prósent launahækkun frá 2014 skilar forstjórum 398 þúsund viðbótarkrónum að meðaltali á mánuð.i
33 prósenta launahækkun frá 2014 skilar verðbréfasölum 387 þúsund viðbótarkrónum að meðaltali á mánuði.
26 prósent launahækkun frá 2014 skilar starfsfólki í barnagæslu 74 þúsund viðbótarkrónum að meðaltali á mánuði.
27 prósent launahækkun frá 2014 skilar afgreiðslufólki í dagvöruverslunum 86 þúsund viðbótarkrónum að meðaltali á mánuði.
25 prósent launahækkun allra hópa frá 2014 skilar öllum fullvinnandi einstaklingum 142 þúsund viðbótarkrónum að meðaltali á mánuði.
Karlar sem gegna slíkum yfirmannsstöðum eru mun hærra launaðir en konur. Heildarlaun þeirra á mánuði í fyrra voru 1.994 þúsund krónur en kvenna 1.426 þúsund krónur á mánuði. Laun karlforstjóra eru því 40 prósent hærri að meðaltali en laun kvenna sem gegna slíkum störfum. Þar munar 568 þúsund krónum á mánuði.
Gefur vel að miðla verðbréfum
Næst launahæsti starfshópurinn á Íslandi virðist vera sá sem sinnir störfum sem tengjast ráðgjöf og sölu verðbréfa. Samkvæmt tölum Hagstofunnar sinna konur ekki því starfi. Karlarnir sem það gera voru þó að meðaltali með 1.564 þúsund krónur í heildarlaun á mánuði á árinu 2017. Laun þeirra hafa hækkað um 33 prósent frá árinu 2014.
Læknar og dómarar hafa það líka fínt, líkt og þeir sem sinna sérfræðistörfum tengdum flugumsjón. Og laun þeirra hafa hækkað skarpt á undanförnum árum.
Fyrir dómarastörf greiddust að meðaltali 1.478 þúsund krónur á mánuði árið 2017. Þau laun hafa hækkað um 31 prósent frá árinu 2014. Sérfræðilæknar voru með 1.469 þúsund krónur á mánuði í fyrra og höfðu hækkað um 30 prósent á þremur árum.
Sérfræðingar við flugumsjón voru með 1.484 þúsund krónur á mánuði í fyrra og höfðu hækkað um heil 46 prósent frá árinu 2014.
Æðstu embættismenn ríkis og sveitastjórna lepja heldur ekki dauðan úr skel. Heildarlaun þeirra á mánuði árið 2017 voru 1.358 þúsund krónur, eða 39 prósent hærri en þau voru árið 2014. Þar munar auðvitað mestu um launahækkanir t.d. stjórnmálamanna sem ákveðnar voru af kjararáði og opinberaðar á kjördag árið 2016.
Umönnun og afgreiðsla borgar illa
Sú starfsstétt sem er með lægstu heildarlaunin eru starfsmenn sem sinna barnagæslu. Þeir voru með 359 þúsund krónur í heildarlaun í fyrra. Árið 2014 voru þau laun 285 þúsund krónur og hafa því hækkað um 26 prósent á tímabilinu. Sú hækkun hefur skilað starfsstéttinni 74 þúsund nýjum krónum í budduna. Til samanburðar hafa laun forstjóra hækkað um 398 þúsund krónum á tímabilinu. Þeir voru með 1.135 þúsund krónum meira í laun á mánuði en starfsmenn við barnagæslu árið 2014 en í fyrra var munurinn orðinn 1.459 þúsund krónur.
Starfsfólk sem sinnir umönnun og aðstoð við sérfræðinga í heilbrigðisgreinum og félagsþjónustu eru með litlu minni laun en barnagæslustéttin, eða 398 þúsund krónur á mánuði í fyrra. Þau laun hafa hækkað um 26 prósent á síðustu þremur árum, eða um 82 þúsund krónur.
Afgreiðslufólk í dagvöruverslunum var með 409 þúsund krónur á mánuði árið 2017, eða 27 prósent meira en það var með árið 2014. Það skilar fólkinu á kassanum 86 fleiri þúsundköllum í heildarlaun á mánuði.