Hlutfall þeirra Íslendinga sem skráðir eru í þjóðkirkjuna er í fyrsta sinn komið niður fyrir 60 prósent. Í nýjum tölum frá Þjóðskrá kemur fram að 59,4 prósent landsmanna séu nú í kirkjunni, eða 270.190 manns. Um er að ræða alla skráða einstaklinga, óháð búsetu og ríkisfangi. Því eru nær öruggt að hluti þeirra sem skráðir eru í þjóðkirkjuna búi erlendis.
Þjóðskrá segir að alls hafi 2.310 manns gengið úr þjóðkirkjunni frá því í byrjun desember 2017 og fram að síðustu mánaðamótum.
Sú fækkun er mjög í takti við það sem átt hefur sér stað á síðustu misserum. Undir lok síðustu aldar voru til að mynda um 90 prósent landsmanna skráðir í þjóðkirkjuna. Á almanaksárinu 2017 fækkaði til að mynda þegnum þjóðkirkjunnar um 3.019. Þar af sögðu 2.246 sig úr henni á síðustu þremur mánuðum þess árs. að er næstmesti fjöldi sem hefur sagt sig úr kirkjunni á einu ári. Metið var sett á árinu 2010, þegar ásakanir um þöggun þjóðkirkjunnar yfir meintum kynferðisglæpum Ólafs Skúlasonar, fyrrverandi biskups, voru settar fram. Þá fækkaði um 4.242 í þjóðkirkjunni á einu ári.
Ekki eins talning
Hagstofa Íslands birtir einnig tölur um skráningu í trúfélög. Sá munur er þó á tölum hennar annars vegar og Þjóðskrár hins vegar að tölur Hagstofunnar ná einungis yfir einstaklinga sem skráðir eru með búsetu hérlendis, á meðan að tölur Þjóðskrár byggja á skráningu í Þjóðskrá, óháð búsetu og ríkisfangi.
Þess vegna eru t.d. 270.190 manns skráðir í þjóðkirkjuna samkvæmt tölum Þjóðskrár en 234 þúsund manns voru skráðir í hana í byrjun árs samkvæmt Hagstofu Íslands. Þá er það hlutfall skráðra sem eru í þjóðkirkjunni lægra hjá Þjóðskrá en það er hjá Hagstofu Íslands.
Kaþólikkum fjölgar hratt með fjölgun Pólverja
Flestir þeirra sem standa utan ríkiskirkjunnar eru utan trú- og lífsskoðunarfélaga, eða rúmlega 28 þúsund manns. Þeim fjölgaði um 1.974 frá 1. desember 2017. Hlutfallslega fjölgar mest í kaþólska söfnuðinum, eða um 2,8 prósent. Alls bættust 530 manns við hann. Þá aukningu má rekja beint til gríðarlegrar aukningar á fjölda erlendra ríkisborgara sem flytja til Íslands frá löndum þar sem kaþólska kirkjan er sterk, t.d. Póllandi.
Þann 1. janúar 1998 bjuggu 820 einstaklingar sem fæddir voru í Póllandi á Íslandi. Í lok árs 2017 voru þeir orðnir rúmlega 17 þúsund og fjölgaði um 3.234 á því ári einu saman. Það eru fleiri en búa í t.d. Garðabæ. Fjöldi þeirra sem annað hvort eru fæddir í Póllandi eða eru pólskir ríkisborgarar en búa á Íslandi hefur því 21faldast á 20 árum.
Mest fækkun varð á meðal félagsmanna í trúfélaginu Zuism, sem vakti athygli á sínum tíma fyrir að ætla að endurgreiða meðlimum sínum sóknargjöld en síðar urðu miklar deilur um yfirráð í félaginu sem endaði með því að fyrrverandi öldungaráð Zúista hvatti meðlimi eindregið til að skrá sig úr félaginu. Alls fækkaði zúistum um 148 í fyrra, eða um 7,2 prósent, og eru nú 1.900.
Stjórnarskrárbundinn rekstur
Tilveruréttur þjóðkirkjunnar er tryggður í stjórnarskrá landsins. Þar segir að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og að ríkisvaldið eigi bæði að styðja hana og vernda. Auk þess er í gildi hið svokallaða kirkjujarðarsamkomulag frá árinu 1997, sem í felst að þjóðkirkjan afhenti ríkinu um 600 jarðir til eignar en á móti átti ríkið að greiða laun 138 presta og 18 starfsmanna Biskupsstofu.
Í krafti þessa fær þjóðkirkja umtalsverða fjármuni úr ríkissjóði. Þaðan er til að mynda greitt framlag til Biskups Íslands, í Kirkjumálasjóð og Jöfnunarsjóð sókna. Samtals er áætlað að þessi upphæð verði 2.830 milljónir króna í ár. Til viðbótar fær þjóðkirkjan greidd sóknargjöld í samræmi við þann fjölda sem í henni er. Ætla má að sú upphæð verði um 1.750 milljónir króna í ár. Samtals mun rekstur þjóðkirkjunnar því kosta tæplega 4,6 milljarða króna í ár. Þá er ekki meðtalið rúmlega 1,1 milljarðs króna framlag til kirkjugarða.